17.05.1972
Efri deild: 87. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2076 í B-deild Alþingistíðinda. (2400)

25. mál, siglingalög

Frsm. (Bjarni Guðbjörnsson):

Herra forseti. Sjútvn. hefur rætt frv. það, sem hér liggur fyrir, á fundi sínum nú í dag. Frv. er flutt af þeim hv. 4. þm. Vesturl., Friðjóni Þórðarsyni, og hv. 10. þm. Reykv., Pétri Sigurðssyni. Þetta frv. hefur áður verið flutt á nokkrum þingum, en ekki orðið útrætt. Við gerð síðustu sjómannasamninga munu sjómenn hafa lagt áherzlu á, að sú breyting á siglingalögum, sem hér er ráðgerð, næði fram að ganga, og af hálfu ríkisstj. hafa verið gefin fyrirheit um að stuðla að framgangi málsins. Er þess því að vænta, að þar sem hæstv. sjútvn. hefur orðið sammála um að mæla með samþykkt frv., nái það fram að ganga nú.

Meginrök þessa máls eru þau að dómi flm. frv. og ýmissa annarra, að sjómenn, sem verða fyrir slysum við störf sín, njóti ekki nægjanlegrar réttarverndar samkv. gildandi skaðabótareglum, en efni frv. er, eins og áður segir, að ganga til móts við óskir sjómanna og samtaka þeirra, þannig að slasist sjómaður, öðlist hinn slasaði bótarétt án tillits til þess, með hvaða hætti tjónið hafi að höndum borið, nema hinn slasaði hafi með framkomu sinni sýnt vítavert gáleysi, sem leitt hafi til slyssins, og hann þannig meðvaldur þess eða meðábyrgur.

Nokkur kostnaður mun vafalítið hljótast af þessu og leggjast á útgerðarmenn í þessu sambandi, og m. a. þess vegna hefur sjútvn. orðið sammála um að leggja til eina breytingu við þetta frv., þannig að 2. gr. frv. orðist eins og segir í nál.: Lög þessi öðlast gildi 1. okt. 1972. Í upphaflega frv. var gert ráð fyrir, að frv. öðlaðist þegar gildi, en rétt þótti að veita nokkurn umþóttunartíma. Sjútvn. mælir samhljóða með samþykkt frv. með þeirri breytingu, sem ég hef lýst.