31.01.1972
Efri deild: 41. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2077 í B-deild Alþingistíðinda. (2409)

151. mál, lífeyrissjóður sjómanna

Flm. (Karl Steinar Guðnason):

Herra forseti. Frv. það, sem hér um ræðir á þskj. 288, fjallar um breytingar á lögum um lífeyrissjóð sjómanna, sérsamþykkt frá árinu 1970.

Í 1. gr. frv. segir, að í stað 1. og 2. mgr. 15. gr. laganna komi nýjar málsgr., svo hljóðandi:

„Nú andast sjóðfélagi, sem naut elli- og örorkulífeyris úr sjóðnum eða greitt hafði iðgjald til hans a. m. k. 6 mánuði á undanfarandi 12 mánuðum, og lætur eftir sig maka, og á hann þá rétt á lífeyri úr sjóðnum, enda hafi hann verið orðinn 35 ára að aldri við fráfall sjóðfélagans og hjónabandið staðið a. m. k. 5 ár.

Láti sjóðfélagi eftir sig ekkju og barn innan 18 ára aldurs, sem hann hefur átt með eftirlifandi eiginkonu sinni, skal þó makalífeyrir veittur án tillits til hjúskapartíma og aldurs sjóðfélaga og ekkju hans. Kjörbarn þeirra veitir sama rétt.“

2. gr. fjallar einungis um breytingu aldursákvæða til samræmingar lögum um almannatryggingar.

Árið 1958 voru sett lög um lífeyrissjóð togarasjómanna, en tildrög sjóðsins voru þau, að ríkjandi valdhafar komu til liðs við sjómannasamtökin, er til stóð að segja upp kjarasamningum. Var fallizt á það tilboð þáv. ríkisstj. að koma því til leiðar, að lög um sjóðinn yrðu samþykkt á Alþingi, ef horfið yrði frá því að segja upp gildandi kjarasamningum. Setning þessara laga markaði að ýmsu leyti tímamót í réttindamálum sjómanna, hér var um að ræða réttlætismál gagnvart sjómönnum sjálfum og fjölskyldum þeirra, en er lögin voru sett, höfðu fjölmargir aðilar betur settir í þjóðfélaginu, stéttir, sem unnu létt störf og höfðu stuttan vinnutíma, fengið tryggð lífeyrisréttindi. Það væri í rauninni hróplegt misræmi, að þeir, sem ynnu áhættusömustu störfin, sjómenn, sem vinna lengstan vinnutíma og slitna fyrr og verða því að hverfa frá störfum á undan öðrum, yrðu að afloknu ævistarfi að hverfa í land án nokkurs öryggis um lífsframfæri eftir að heilsa og starfsorka hefði bilað við afkastamestu, erfiðustu og lífshættulegustu störfin, sem unnin eru í þjóðfélaginu. Færi svo, að þeir féllu í valinn við þessi störf, voru réttindamál sjómanna ekki betur komin en það, að fjölskyldur þeirra höfðu engan rétt á lífeyri sér til framfærslu, þótt ýmsar stéttir aðrar hefðu þá þegar tryggt sér hvers konar lífeyri. Því var það vonum seinna, að lög um lífeyri togarasjómanna voru sett, og það var ekki fyrr en árið 1970, að sjóðurinn var stækkaður og sjómenn, sem voru á bátum yfir 12 smálestir, fengu aðild að honum. Sú ákvörðun var ekki runnin undan rifjum valdhafanna, heldur var hún eitt af samningsatriðum sjómannasamtakanna við vinnuveitendur. Þá var um svipað leyti stofnað til lífeyrissjóða verkafólks, sem síðan hafa vaxið mjög og verða áður en langt um líður einn helzti þáttur í sparifjármyndun landsmanna, a. m. k. ef það kerfi verður áfram við lýði að safna upp sjóðum með því að greiða sjóðfélögum lágar bætur. Störf sjómanna eru þjóðinni það þýðingarmikil, að þjóðfélagið getur ekki staðizt, ef ekki er vel að þeim búið. Sjómennskan er og verður um ófyrirsjáanlega framtíð ein helzta undirstaðan undir þjóðarbúskap landsmanna, en þessi atvinnuvegur gerir miklar kröfur til starfsmanna sinna, kröfur um, að þeir afsali sér að miklu leyti heimilislífi og samvistum við fjölskyldur sínar, kröfur um, að þeir séu nánast gestir á heimilum sínum, og bitnar það að sjálfsögðu á sjómönnunum sjálfum, konum þeirra og börnum. Þeir, sem í landi eru, njóta hins vegar eldanna, þeir vinna styttri vinnudag, búa við skilyrði fjölbreyttrar menningar og félagsstarfsemi, sem þeir, er sjóinn stunda, fara að mestu á mis við. Allt þetta veldur því í raun, að sjómenn ætti að launa betur en aðrar starfsstéttir, þeir og fjölskyldur þeirra ættu að njóta meira félagslegs öryggis en tíðkast um aðrar starfsstéttir.

Eins og ég minntist á hér áðan, var setning laga um lífeyrissjóð togarasjómanna og síðar lífeyrissjóð sjómanna þáttur í kjarabaráttunni. Lögin voru stórt skref í átt til félagslegs öryggis, en þrátt fyrir tilvist sjóðsins hefur sjómennska ekki verið eftirsóknarverð atvinnugrein, því hafa valdið rýr kjör á öðrum sviðum.

Undanfarin ár hefur verið mjög erfitt að manna bátana, svo að í mörgum tilvikum hafa margar skipshafnir verið á hverjum bát eina og sömu vertíðina. Menn hafa fremur kosið öryggi og þægindi landvistar en vosbúð, vöku og erfiði sjómennskunnar. Lífsafkoma þjóðarinnar er öll háð sjávaraflanum og störfum sjómanna á fiskiskipaflotanum. Afkastageta sjómanna er að sjálfsögðu misjöfn, en því vanari sem mannskapurinn er, því hæfari er hann, fljótari og kunnáttan til verka meiri. Það er því hagsmunamál allra, að sem mest festa verði í mannahaldi skipanna. Slík festa kemur ekki, nema afkoma sé tryggð, það verði ljóst, að til einhvers er að vinna.

Í lögum um lífeyrissjóð sjómanna eru margir gallar, margt er úrelt miðað við þá öru þróun, sem átt hefur sér stað síðustu árin hjá hinum ýmsu lífeyrissjóðum. Það er t. d. nokkur hópur sjómanna, sem ekki á aðild að sjóðnum, eða allir þeir, sem eru á bátum undir 12 smálestum. Það eru einnig úrelt ákvæði í núverandi lögum varðandi útreikning á bótum til sjóðfélaga. Hjá hinum almennu lífeyrissjóðum verkalýðsfélaganna er notað stigakerfi, sem er meira í samræmi eða takt við óðaverðbólguna, sem brennir alla lífeyrissjóði upp. Það er ekki nokkur vafi á því, að höfuðvandamál lífeyrissjóða er vanmáttur þeirra til að tryggja verðgildi lífeyrisgreiðslna. Þeir sjóðir, sem veita slíka verðtryggingu, hafa yfirleitt hlutaðeigandi vinnuveitendur, svo sem ríki og bæjarfélög, að bakhjarli. En vissulega væri tímabært að verðtryggja alla lífeyrissjóði í landinu. Lífeyrissjóður sjómanna er traustur fjárhagslega, traustari en flestir aðrir lífeyrissjóðir. Stafar það að mörgu leyti af því, að biðtími þeirra, er greiðslna ættu að njóta, er óeðlilega langur. Þá er nauðsynlegt og réttlátt að breyta bótaupphæðum til samræmis við ríkjandi kauplag á hverjum tíma.

Í ákvæði 2. mgr. 3. gr. laga um lífeyrissjóð sjómanna er heimild fyrir bátasjómenn í einstökum byggðarlögum eða landshlutum til undanþágu frá þátttöku í sjóðnum. Þessi undanþáguákvæði hafa valdið því, að sums staðar hafa sjómenn tekið þann kostinn að gerast þátttakendur í hinum almennu lífeyrissjóðum verkalýðsfélaga. T. d. varð sú raunin á Vestfjörðum, en Vestfirðingar mynduðu einn heildarsjóð, lífeyrissjóð Vestfjarða. Hins vegar tóku sjómenn í byggðarlögunum á Suðurnesjum og víðar þann kostinn að gerast þátttakendur í lífeyrissjóði sjómanna. Þessi ákvörðun var einkum tekin með það í huga, að vanmegnugir lífeyrissjóðir einstakra landshluta eða byggðarlaga stæðu illa að vígi, ef heil skipshöfn færist. Þá var og hald manna, að lífeyrissjóður sjómanna gæfi ekki síðri réttindi eða tryggingar en aðrir sjóðir. Einnig var það þáttur í þessari ákvörðun, að lífeyrissjóður sjómanna hefur á undanförnum árum átt ríkan þátt í því að aðstoða sjómenn fjárhagslega með lánum. En þegar frá leið var ljóst, að í mörgu var löggjöfin um lífeyrissjóð sjómanna úrelt eða ekki eins hagstæð og æskilegt væri. Nú er svo komið, að hin ýmsu sjómannafélög um landið hafa ákveðið, hvernig þau haga lífeyrismálum sínum, þ. e. hvort þau mynda sérsjóð eða taka þátt í aðalsjóðnum. Því er mjög tímabært að endurskoða hin ýmsu ákvæði lífeyrissjóðs sjómanna.

Ég ætla að minnast á enn eitt ákvæði laganna, sem gjarnan mætti breyta, en það er ákvæði um aldursmark ellilífeyrisþega. Samkv. gildandi lögum er aldursmarkið 65 ár, en mikið réttlætismál er það, að þetta aldursmark verði fært niður, a. m. k. niður í 55–60 ár. Fyrra ákvæðið hefur sjálfsagt verið lögfest með hliðsjón af lífeyrissjóði opinberra starfsmanna, en er ekki eðlilegra að hafa aldursmarkið hjá sjómönnum lægra með hliðsjón af því, hve störf sjómanna eru erfiðari og hættulegri en störf opinberra starfsmanna? Hverjum dettur í hug, að sjómaður, sem vinnur oftast mestan hluta sólarhringsins, slitni ekki fyrr en skrifstofumenn, sem vinna hægari störf og hafa mun styttri vinnutíma? Og skyldi aðstaða sjómannsins, eftir að aldursmarki er náð, til að afla sér léttrar vinnu ekki vera verri en þeirra, er í landi vinna?

Þá kem ég að því atriði, sem ég og hv. 1. landsk. þm. gerum till. um, en það eru bætur til ekkna og barna. Samkv. upplýsingum Tryggingastofnunar ríkisins njóta aðeins sjö ekkjur sjómanna makalífeyris úr lífeyrissjóði sjómanna. Eru það að sjálfsögðu allt ekkjur þeirra manna, er voru í sjóðnum, áður en hann var stækkaður. Geta menn gert sér í hugarlund, hve margar ekkjur hafa farið á mis við þessi sjálfsögðu réttindi, þegar það er haft í huga, að sjóðurinn er nú 14 ára gamall, og jafnframt hve margir kvæntir sjómenn hafa látizt á þessum tíma. Það er ekki nokkur vafi á því, að þessu valda ákvæði laganna um 10 ára biðskyldu. Er hér um að ræða hróplegt misræmi, þegar tekið er tillit til þess, að hefðu þeir sjómenn, sem að undanförnu hafa farizt, verið í hinum almennu lífeyrissjóðum verkafólks, þá hefðu ekkjur þeirra í langflestum tilfellum fengið bætur.

Við stofnun hinna almennu lífeyrissjóða verkafólks var tekin upp sú regla, að hafi sjóðfélagi greitt í sjóðinn í 6 mánuði af undanförnum 12 mánuðum, þá fær viðkomandi ekkja makabætur. Ég hef getið um hin ýmsu atriði, sem þörf er á að breyta í gildandi lögum um lífeyrissjóð sjómanna. Þörf er á, að heildarendurskoðun laganna dragist ekki lengur og unnt verði að móta þau á svipaðan hátt og nú tíðkast hjá öðrum lífeyrissjóðum. Við teljum það svo brýnt hagsmunamál, að frv. okkar verði samþ., því að að okkar dómi er þetta sú grein gildandi laga, sem sízt má bíða að lagfæra. Vertíð stendur nú yfir og fram undan eru verstu vetrarveðrin. Því miður er það undantekningarlaust, að á hverri vertíð verður skiptapi.

Ég vil að síðustu hvetja hv. alþm. til þess að hraða afgreiðslu þessa frv., svo að hjá því verði komizt, að sjómannsekkjurnar beri skarðari hlut frá borði en þekkist hjá öðrum stéttum.

Herra forseti. Ég leyfi mér að leggja til. að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn.