17.05.1972
Neðri deild: 82. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2082 í B-deild Alþingistíðinda. (2422)

151. mál, lífeyrissjóður sjómanna

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Ég vil láta í ljós þakklæti til hv. n. fyrir það að hafa afgreitt þetta mál fljótt og vel, eftir að það kom hingað til d. Hér er um að ræða mál, sem fjallar um leiðréttingu á ýmsum atriðum, sem komið hafa í ljós við framkvæmd á lögum varðandi lífeyrissjóði sjómanna. Hitt get ég tekið undir með hv. síðasta ræðumanni, að bæði í þessu máli og í mörgum öðrum þarf Alþ. að taka miklu meira tillit til þeirra, sem róa á smæstu bátunum, á trillunum, og að ýmsu leyti eru settir hjá við löggjöf varðandi ýmiss konar réttindi og ýmiss konar aðstöðu, sem við sköpum í þessu landi. Við megum ekki hugsa eingöngu um stærri bátana, og við megum ekki vera blind fyrir því, hversu mikils virði aflinn af allra smæstu bátunum er og hversu mikið atvinnuatriði þetta er og hvaða þýðingu slíkir róðrar hafa fyrir þá, sem stunda þá.