17.05.1972
Efri deild: 85. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2082 í B-deild Alþingistíðinda. (2429)

286. mál, ferðamál

Frsm. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Fyrir skömmu var afgreitt hér á Alþ. frv. til staðfestingar á brbl., sem fyrrv. samgrh. hafði gefið út á s. l. vori og voru þess efnis, að Ferðamálasjóði væri heimilt að taka allt að 48 millj. kr. að láni í staðinn fyrir, að 1 lögum var kveðið svo á, að sjóðurinn mætti taka að láni 40 millj. kr.

Svo illa tókst til af hálfu fjhn. Ed., að bréf, sem borizt hafði til n. frá samgrn., komst ekki í hendur nm. fyrr en eftir að þessi afgreiðsla átti sér stað vegna mistaka, og fjhn. var því ekki kunnugt um það, að þörf var á því að hækka þá lánsheimild, sem hér um ræðir, ekki aðeins í 48 millj. kr., eins og gert var á s. l. ári, heldur um 25 millj. kr. í viðbót, eða í 73 millj. kr. Þar sem frv., sem hér um ræðir, er nú orðið að lögum fyrir nokkrum dögum, verður því ekki frekar haggað, og því hefur verið valin sú leið að flytja hér nýtt mál um sama efni, sem er þó til breyt. á lögum um ferðamál nr. 4 frá 14. febr. 1969.

Það skal að vísu tekið fram, að breytingin, sem gerð var hér í þinginu fyrir nokkrum dögum, hefur enn ekki hlotið formlega staðfestingu og enn þá síður verið birt í Stjórnartíðindum. En það haggar að sjálfsögðu ekki rétti Alþ. til að breyta þessum lögum nú öðru sinni, og þess vegna er þetta frv. hér flutt og þarf ekki að taka það fram, að það er flutt í samráði og reyndar að beiðni samgrh. og í samráði við fjmrh.

Ég vildi aðeins segja að lokum, að frv. er raunverulega ekki um nýja lántökuheimild til viðbótar við þá lántökuheimild, sem fyrir er í framkvæmdaáætluninni, heldur má segja, að flutningur frv. og samþykkt þess er óhjákvæmilegt til þess, að sú lánveiting, sem í framkvæmdaáætluninni er, geti orðið að veruleika.