18.10.1971
Sameinað þing: 3. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2100 í B-deild Alþingistíðinda. (2448)

Stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Hæstv. forsrh. hefur nú gert grein fyrir stjórnarmyndun sinni á s. l. sumri, þann 14. júlí, og meginatriðum úr stjórnarsáttmálanum. Af þessu tilefni vil ég leyfa mér að gera grein fyrir nokkrum grundvallaratriðum í stefnu og viðhorfum Sjálfstfl. Af þeim hlýtur að sjálfsögðu öðru fremur að mótast afstaða þingflokks sjálfstæðismanna til núv. hæstv. ríkisstj.

Þegar Sjálfstfl. var stofnaður fyrir rúmum 42 árum, í maímánuði 1929, við samruna Íhaldsflokksins og Frjálslynda flokksins, var grundvallarstefna flokksins mörkuð í tveimur mjög einföldum, en skýrum yfirlýsingum:

1. Að vinna að því og undirbúa það, að Ísland taki að fullu og öllu sín mál í sínar eigin hendur og gæði landsins til afnota fyrir landsmenn eina, jafnskjótt og 25 ára samningstímabil sambandslaganna er á enda.

2. Að vinna í innanlandsmálum að víðsýnni og þjóðlegri umbótastefnu á grundvelli einstaklingsfrelsis og atvinnufrelsis með hagsmuni allra stétta fyrir augum.

Hér er ekki á ferðinni löng stjórnmálayfirlýsing eða sáttmáli, en það er ekkert loðið í því, sem hér er sagt, og öll þjóðin skildi vel, við hvað var átt. Það er ekki tilviljun, að þessar tvær grundvallaryfirlýsingar hafa verið, eru og verða grunntónninn í stefnu og starfi Sjálfstfl.

Fyrra atriðið er að vísu til framkvæmda komið við stofnun lýðveldisins á Þingvöllum 17. júní 1944. Á enga er hallað, þótt sagt sé, að aðrir hafa ekki tekið forustumönnum Sjálfstfl. fram í því að berjast fyrir og leggja með farsælum hætti hornsteininn að hinu íslenzka lýðveldi árið 1944. Sjálfstæðismönnum var líka fullljóst, að sjálfstæðisbaráttunni var ekki lokið með endurreisn lýðveldisins. Engir aðrir hafa átt ríkari þátt í því að móta utanríkismálastefnu þjóðarinnar á fyrstu árum lýðveldisins en forustumenn Sjálfstfl. og leggja grundvöllinn að farsælu samstarfi með vestrænum lýðræðisþjóðum og bræðraþjóðum á Norðurlöndum á alþjóðavettvangi, í senn til þess að treysta öryggi landsins og framtíð og taka þátt í varnarsamstarfi lýðræðisþjóða gegn ofbeldi og ofríki, eftir því sem okkar litla þjóð hefur verið þess megnug. Það er til lítils sóma fyrir hæstv. forsrh. að tala um aftaníossahátt í forstöðu og undirbyggingu utanríkismálastefnu íslenzku þjóðarinnar. Ég vil segja það, að ef hæstv. utanrrh. nú tekur fram þeim mönnum, sem lögðu grundvöllinn að utanríkisstefnu okkar á þeim tímum, sem síðan hefur verið fylgt, þá er vel.

Bjarni Benediktsson gerði grein fyrir því í ritlingi, sem Samband ungra sjálfstæðismanna gaf út 1970 og nefnist „Þættir úr 40 ára stjórnmálasögu“, að ein af höfuðástæðum fyrir stofnun Sjálfstfl. 1929 hafi verið vaxandi ótti margra um, að þáv. ríkisstj. Framsfl. stefndi með stuðningi Alþfl. að takmörkunum á einstaklingsfrelsi og athafnafrelsi í skjóli harðnandi stéttabaráttu. 2. gr. í stofnyfirlýsingu Sjálfstfl. ber að skoða í þessu ljósi, en seinni tíma saga hefur kennt okkur, að eigi var ástæðulaust að leggja áherzlu á að efla í þessu þjóðfélagi einstaklingsfrelsi og atvinnufrelsi með hagsmuni allra stétta fyrir augum. Vinstri stjórn tók hér við völdum 1934 undir forsæti Framsfl. Voru þá mjög aukin ríkisafskipti á ýmsa vegu og sjaldan lét hún standa á sér hin ríka tilhneiging stjórnvalda þess tíma til að vega að einstaklingsfrelsinu og athafnafrelsinu, ef því var að skipta. Vinstri stjórn var aftur mynduð á Íslandi á miðju ári 1956 eftir alþingiskosningar þá og eftir að gerð hafði verið tilraun með kosningabandalagi, svokölluðu Hræðslubandalagi, til þess að ná meiri hluta á Alþ. með minni hluta kjósenda. Því var lýst yfir af forustumönnum þess stjórnarsamstarfs, að aðalatriðið væri að setja Sjálfstfl. hjá í þjóðfélaginu, að útiloka áhrif hans, að hann og hans sjónarmið skyldu utan garðs í íslenzku stjórnmálalífi. Þessi áform lánuðust ekki. Spyrja mætti, hvers vegna þau hafa ekki lánazt. Að mínum dómi misheppnuðust þau fyrst og fremst vegna þess, að sjálfstæðisstefnan er of rótgróin í lundarfari Íslendinga til þess, að hún verði sett utangarðs.

Sjálfstfl. efldist jafnt og þétt á meðan hann var einn í stjórnarandstöðu á þessu vinstristjórnartímabili. Þegar bæjarstjórnarkosningar fóru fram í ársbyrjun 1958 í öllum kaupstöðum landsins, sem þá voru jafnframt sérstök kjördæmi, hlaut stuðningslið þáv. vinstri stjórnar aðeins 42.3% atkv., en Sjálfstfl. einn 53.77% atkv. Þessi vinstri stjórn flosnaði upp eftir tveggja og hálfs árs stjórnartímabil og var orðstír hennar vægast sagt mjög vafasamur, eins og oft hefur veríð vikið að hér í þingsölunum og utan þeirra. Íslenzka þjóðin hafði hlotið mikilsverðan lærdóm af tveggja og hálfs árs stjórnarferli vinstri stjórnar á Íslandi. Ýmsir höfðu áður haldið, að í vinstra samstarfi væri eitthvert lausnarorð fólgið. Nú vissu þeir betur. Ríkisstj. hafði reynzt þess algerlega vanmegnug að efna fyrirheit sín um efnahagslega uppbyggingu í landinu og hún hafði svikið eitt helzta kosninga- og samningamál sitt að láta varnarlið Bandaríkjamanna á vegum Norður-Atlantshafsbandalagsins hverfa úr landi. Það er e. t. v. kaldhæðni örlaganna, að þá gerði þessi vinstri stjórn bezt, þegar hún sveik mest.

Nú er orðið langt um liðið síðan dagar þessarar vinstri stjórnar voru taldir. Hins vegar er það óumdeilt, að á því tímabili, sem síðan er liðið, hefur íslenzka þjóðin lifað eitt hið mesta framfaraskeið í allri sinni sögu, jafnt vinnandi stéttir í þjóðfélaginu sem aðrar, sem ég skal koma svolítið að síðar. Þó er það svo, að bæði skiptust á skin og skúrir á þessu tímabili í aflabrögðum, árferði og viðskiptakjörum þjóðarinnar, eins og kunnugt er. Á þessu framfaraskeiði íslenzku þjóðarinnar og efnahagslegrar velgengni eru það öðru fremur grundvallarsjónarmið sjálfstæðisstefnunnar, sem mótað hafa stjórnarathafnir og löggjöf. Þau hafa verið samræmd félagshyggju og áætlunargerð án ágreinings við Alþfl., en um stjórnarsamstarf þessara tveggja flokka var að ræða allt tímabilið. Hver eru þessi grundvallarsjónarmið sjálfstæðisstefnunnar, sem í ríkum mæli mótuðu stjórnmálaþróun eða þjóðfélagsþróun undanfarinna ára? Ég get svarað þessari spurningu með örfáum orðum.

Jón Þorláksson, fyrsti formaður Sjálfstfl., sagði í ræðu á fundi Heimdallar, Félags ungra sjálfstæðismanna, í Reykjavík fyrir 42 árum:

„Sá, sem vill leita eftir efnalegri velgengni fyrir sjálfan sig, verður að gera það með því fyrst og fremst að leitast við að fullnægja sem bezt þörfum annarra.“

Þetta höfum við sjálfstæðismenn talið vera grundvallarlögmál allrar heilbrigðrar efnahagsstarfsemi, sem byggð eru á atvinnufrelsi og frjálsum viðskiptum. Á landsfundi Sjálfstfl., sem haldinn var í lok aprílmánaðar í vor, var m. a. þessu lýst yfir: Stefna Sjálfstfl. er grundvölluð á þeirri lýðræðishugsjón, að einstaklingar og samtök þeirra hafi svigrúm til orða og athafna, svo að frjáls hugsun og persónulegt framtak fái notið sín til heilla fyrir hvern einstakan þjóðfélagsborgara og heildina í senn. Sjálfstfl. leggur einn íslenzkra stjórnmálaflokka megináherzlu á gildi einstaklingsins. Markmið sjálfstæðisstefnunnar er að efla og varðveita frjálsræði sérhvers borgara til orðs og æðis. — Enn fremur lýsti landsfundurinn því yfir, að Sjálfstfl. mundi því aðeins taka þátt í stjórnarmyndun að kosningum afstöðnum, að unnt yrði að halda áfram á braut aukins frjálsræðis og dreifingar valdsins í þjóðfélaginu til þegnanna. Sjálfstfl. hefur samlagað einstaklingshyggju gildi félagslegrar samhjálpar. Allar meiri háttar breytingar í félagsmálalöggjöf okkar, sérstaklega þær, sem lúta að tryggingamálum, almannatryggingum og heilbrigðismálum, hafa átt sér stað, þegar Sjálfstfl. var aðili að stjórnarsamstarfi og þá jafnframt fyrir frumkvæði hans, þegar svo bar undir. Sjálfstfl. átti frumkvæði að gerð byggðaáætlana hér á landi eða áætlana um byggðaþróun, svo sem Vestfjarðaáætlun, Norðurlandsáætlun og samgönguáætlun Austfjarða. Síðar sigla fleiri í kjölfarið, en við höfum ætíð gert okkur grein fyrir því, að tengja verður dreifbýli og þéttbýli traustum samfélagsböndum og þannig þróast þjóðfélagið bezt, eins og hagkvæmust þróun grundvallast að sínu leiti á gagnkvæmum skilningi stéttanna, aðila vinnumarkaðarins, launþega og vinnuveitenda.

Sjálfstfl. heldur fast við það sjónarmið, að bæta þurfi kjör láglaunastéttanna í þjóðfélaginu og hefur ótrauður barizt fyrir því, að launastéttunum beri á hverjum tíma réttlátur arður af afrakstri þjóðarbúsins, og það er staðreynd, sem ekki verður hrakin. Á hinum miklu uppgangstímum undanfarinna ára hefur afrakstri af þjóðfélagsbúinu að þessu leyti verið skipt í réttum hlutföllum milli stéttanna. Og eftir því sem betur hefur blásið, því meiri hefur hlutur launastéttanna verið. Þetta er staðreynd, sem ekki verður hrakin, en það hefur stundum staðið á þeim mönnum, sem nú þykjast vilja bæta kjör láglaunastéttanna, og þeir verið nokkuð tregir í bandi í þeim efnum, og er vel hægt að ræða það mál nánar, þegar tilefni gefst til, eins og mun verða á þessu þingi, þegar þau málefni koma frekar til umr. En það er staðreynd, að þegar við höfum öðru fremur lagt áherzlu á það að bæta kjör láglaunastéttanna, þá hafa alltaf einhverjir aðrir verið á ferðinni, sem hafa sagt sem svo: Nú eru láglaunastéttirnar búnar að fá sinn hlut, nú ætlum við að heimta okkar hlut, og þannig hefur þetta haldið áfram stig af stigi. Þegar láglaunastéttirnar hafa verið búnar að berjast fyrir sínu, koma aðrar stéttir og heimta til sín ríflegan skerf úr þjóðarbúinu, þannig að láglaunastéttirnar hafa hlutfallslega ekki náð þeim arði, sem þær börðust fyrir hörðum höndum. Ég óska hæstv. forsrh. til hamingju, ef honum tekst að breyta til í þessu efni. Það hefur sannarlega verið ætlun okkar sjálfstæðismanna að gera það og við höfum stutt að því, eftir því sem við höfum haft aðstöðu til.

Sá stjórnarflokkanna, sem tapaði verulega fylgi í kosningunum í sumar, Framsfl., hefur nú stjórnarforustuna. Fyrrv. formaður flokksins, Eysteinn Jónsson, missti tíunda hvert atkv. í sínu kjördæmi á Austurlandi. Sjálfur hæstv. forsrh. missti þm. í kjördæmi sínu, og morgunstjarna flokksins, Steingrímur Hermannsson, ritari flokksins, tapaði upp undir 8% atkv. í sínu kjördæmi. Kommúnistar hafa verið leiddir til valda með mestum áhrifum í ríkisstj. landsins á veigamest mál svo sem atvinnumálin öll utan landbúnaðarmála, peningamálin með yfirstjórn bankamála og yfirstjórn viðskiptamála í landinu og eins út á við. Mörgum finnst annarra hlutur æðimiklu minni.

Nú höfum við heyrt boðskap hæstv. forsrh., og vil ég í framhaldi af því, sem ég nú hef sagt, snúa mér nokkuð að honum. Um stjórnarsáttmála hæstv. ríkisstj. langar mig fyrst til þess að fara nokkrum og almennum orðum.

Rétt eftir kosningarnar gaf Alþb. út sérstakt blað, Alþýðubandalagið, þar sem m. a. voru rædd úrslit kosninganna, en á 4. síðu var talið upp í 19 liðum það, sem laut fyrirsögninni „Þetta þarf vinstri stjórn að gera“. Á miðri síðu var tveggja dálka mynd og fögur af fossi í fallvötnum okkar Íslendinga. Eflaust hefur hann átt að minna á stórhug í virkjunarmálum. Myndin var af Ófærufossi, hvort sem það hefur nú verið tilviljun eða kaldhæðni, sem réð. Hitt er athyglisvert, að það gefur vart að líta líkari plögg en stjórnarsáttmála hæstv. ríkisstj. og þessa stjórnmálayfirlýsingu Alþb. um það, hvað vinstri stjórn þurfi að gera. Það er augljóst mál, að það er sama höndin, sem stýrir pennanum. Það er sama formið á báðum plöggunum. Í öllum aðalatriðum er það sami hugur eða sama efni, sem á bak við býr.

Stjórnarsáttmáli núv. hæstv. ríkisstj, er að því leyti mjög sérkennilegur miðað við fyrri stjórnarsáttmála, að hann líkist meira fundarsamþykkt, óskalista eða stjórnmálayfirlýsingu frá ráðstefnu eða einhverju því um líku, eins og við reyndar heyrðum á lestri hæstv. forsrh. hér áðan. Þar af leiðandi er lítil ástæða til þess að ræða hann í einstökum atriðum nú, heldur láta reynsluna skera úr um framkvæmd málanna, enda verður það að segjast, að samningsatriðin eru í langflestum tilfellum svo óljós eða almenn, að ekkert verður sagt um það í raun og veru, hvað í þeim felst fyrr en ríkisstj. leggur fram frv. á Alþ. til staðfestingar á þeim áformum sínum, sem stjórnarsáttmálinn víkur að. Gagnrýni okkar sjálfstæðismanna mun að þessu leyti biða þess tíma, er væntanleg stjfrv. sjá dagsins ljós.

Hæstv. forsrh. vék að landhelgismálinu, en það er í sérflokki mála hjá íslenzku þjóðinni nú sem fyrr. Hæstv. forsrh. tvíendurtók það, held ég, að landhelgismálið hefði verið meira kynnt á þremur mánuðum núv. ríkisstj. heldur en á öllu viðreisnartímabilinu. Og svo fór hann að tíunda kynningarnar. Jú, hæstv. utanrrh. hafði haldið ræðu á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Ég veit nú ekki, hve margar ræður fyrrv. utanrrh. hélt á fundum Sameinuðu þjóðanna, sennilega árlega, eitthvað um það bil, þar sem ævinlega var lögð áherzla á landhelgismálið og í æ ríkari mæli, eftir því sem leið á tímabilið. Svo segir hæstv. forsrh., að hingað hafi komið í heimsókn nokkrir Afríkumenn, fulltrúar sambands Afríkuríkja, og ríkisstj. kynnti þeim landhelgismálið. Þeir komu hér til þess að tala við ríkisstj. um sín málefni og allt afrekið er svo að láta ekki undir höfuð leggjast að tala svolítið við þá um okkar eigin málefni. Mér finnst nú, að stærilætið mætti vera svolítið minna.

Árið 1969 voru sett hér lög um rétt Íslendinga til landgrunnsins, þar sem við helguðum okkur allt landgrunnið, en þess utan hafa bæði embættismenn ríkisstj. og ráðh. óteljandi sinnum á erlendum vettvangi, hjá Sameinuðu þjóðunum, í Evrópuráðinu, í Norðurlandaráði, einmitt lagt áherzlu á hið veigamikla mál, landhelgismálið, og rétt okkar Íslendinga til landgrunnsins. Ég tel óþarft að vera í raun og veru með meting út af þessu. En þegar maður ætlar að miklast af einhverjum málflutningi, þá mætti nefna a. m. k. eitthvað meiri háttar atriði heldur en þau, sem ég hef vikið að hér áðan, jafnvel þó að ræða hæstv. utanrrh., eins og forsrh. komst að orði, hafi verið skelegg um landhelgismálið á þingi Sameinuðu þjóðanna. Ég skal ekkert um það segja. En hitt vil ég þó segja, að ég held, að hún hafi ekkert verið skeleggari en ræður fyrirrennara hans á þeim vettvangi, þó að ekkert sé nema gott um hana að segja. En ég vil ekki láta undir höfuð leggjast að átelja, að núv. stjórnarflokkar gerðu allt, sem þeir máttu, til þess að villa mönnum sýn í þessu lífshagsmunamáli þjóðarinnar, bera Sjálfstfl. og Alþfl. sökum um viljaskort til útfærslu íslenzku landhelginnar og jafnvel um fyrirhugaða sviksemi í málinu fyrir kosningar í vor. Kann að vera, að þessi óhróður, sem stjórnarliðinu er til háborinnar skammar, hafi villt einstöku mönnum sýn í kosningunum í vor. Stjórnarandstöðuflokkarnir gengu strax heils hugar til samstarfs við stjórnarliðið varðandi landhelgismálið, þegar eftir því var óskað, og hafa formenn stjórnarandstöðuflokkanna, Sjálfstfl. og Alþfl., eins og kunnugt er, tekið sæti sem fulltrúar í landhelgisnefnd allra þingflokkanna, en varaformenn flokkanna eru varamenn þeirra. Stjórnarandstaðan hefur þegar góðu áorkað um framvindu mála á þessum mikilvæga vettvangi. Eins og kunnugt er, hafði ríkisstj. uppi ráðagerðir um það að segja upp í óðagoti fyrir 1. sept. s. l. samningum við Breta og Vestur-Þjóðverja, sem leiddu landhelgisdeiluna frá 1958–1961 til lykta á mjög farsælan hátt. Þetta átti að gerast nokkrum dögum eftir að hæstv. utanrrh. kom úr viðræðuför sinni við brezka og þýzka ráðh. og ráðamenn og hafði sjálfur stungið upp á því, að viðræðum yrði haldið áfram. En framhald viðræðna hafði að sjálfsögðu engan tilgang, ef ekki var gert ráð fyrir því, að hugsanlegt væri, að sjónarmið yrðu að einhverju leyti samræmd til friðsamlegrar úrlausnar. Af þessum ástæðum hefði orðsending um uppsögn samninganna við þessar þjóðir nokkrum dögum eftir heimkomu utanrrh. verið æði ósmekkleg, þótt ekki sé meira sagt. En meira máli skiptir hitt, sem við sjálfstæðismenn lögðum megináherzlu á og rituðum forsrh. bréf um þann 13. ágúst s. l., að við teldum, að hér væri um svo veigamikið mál að tefla, samningagerð við önnur ríki, sem Alþ. á sínum tíma hefði ákveðið, hvernig gera skyldi, að þingræðislega væri allt annað óhæfa en að leggja annaðhvort breytingar eða uppsögn slíkrar samningsgerðar fyrir Alþingi sjálft. Á þessi sjónarmið féllst hæstv. ríkisstj., og fagna ég því.

Ég lagði til í landhelgisnefndinni í ágústmánuði, að Ísland ætti frumkvæði að því að flytja till. á næsta fundi undirbúningsnefndar að hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna 1973 um sérstæðan rétt strandríkis til fiskveiðilandhelgi á landgrunni þess, þegar líkar aðstæður eru og hér á Íslandi, að þjóð byggi afkomu sína eða efnahagslega þróun á fiskveiðum og nauðsyn ber til að takmarka veiðar til verndar fiskistofnum. Verði leitað samvinnu við aðrar þjóðir um slíkan tillöguflutning. Þessi till. mín hefur nú verið afgreidd í landhelgisnefndinni með stuðningi allra aðila, og í samræmi við það mun hæstv. ríkisstj. láta vinna að slíkri tillögugerð og öflun fylgis við hana, en fyrir okkur Íslendinga er að sjálfsögðu mikilvægt að láta ekkert tækifæri ónotað til þess að vekja athygli á hinum sérstæða rétti okkar til landgrunnsins alls og þá rétti annarra strandríkja um leið, ef líkt stendur á hjá þeim og hér á Íslandi.

Hér hefur nú í dag verið lögð fram till. hæstv. ríkisstj. eða stjórnarflokka í landhelgismálinu. Það er sama till. til þál. og þeir lögðu fyrir þingið í vor og þá var afgreidd með rökst. dagskrá, þar sem Alþ. hafði þegar afgreitt málið með annarri till. Það voru að vísu viss atriði í till. stjórnarandstæðinga þá eða þessari till., sem nú er flutt af ríkisstj. hálfu, sem ekki fólust í till. þeirri, sem Alþ. samþykkti í vor. En að ýmsu leyti gekk sú till., sem samþ. var og er enn í gildi, verulega lengra og fól t. d. í sér ákvæði um friðunarráðstafanir, sem ekki var að vikið í till. þeirri, sem nú er flutt og flutt var af hálfu stjórnarandstæðinga á s. l. þingi. Ég harma þennan tillöguflutning vegna þess í fyrsta lagi, að með honum hefur ekki verið gerð minnsta tilraun til þess að ná samstöðu við stjórnarandstöðuna um eina og sameiginlega till. í þessu mikla máli, enda þótt óskað hafi verið eftir samvinnu og samráði við okkur og við höfum fúslega látið það í té. Slík vinnubrögð lýsa miklum mistökum hæstv. ríkisstj. Úr þessu má að vísu bæta við meðferð málsins. Samkv. þingsköpum verður þessari till. ríkisstj., landhelgismálinu, vísað til utanrmn. Utanrmn. mun þá einnig fá til meðferðar brtt., sem við þessa till. kunna að verða fluttar. Meðal þm. Sjálfstfl. er til íhugunar tillöguflutningur, sem snertir þetta mál en slíkar till. frá þm. bæri að sjálfsögðu að skoða í utanrmn, samhliða till. hæstv. ríkisstj.

Ég hef á opinberum vettvangi hreyft till. í þessu máli, sem ég taldi, að gæti verið vænleg til samkomulags allra aðila. Í þeirri till. felst, að Alþ. lýsi yfir, að allt landgrunnið sé landhelgi okkar Íslendinga, fiskveiðilandhelgin, að landið og landgrunnið sé eitt, ekki síður varðandi fiskveiðar í hafinu yfir landgrunninu en nýtingu auðæfa í landgrunnsbotninum sjálfum. Jafnframt sé því lýst yfir, að fyrst í stað sé fiskiskipum erlendra ríkja heimilt að veiða upp að 50 mílna mörkum, þar til við Íslendingar sjálfir ákveðum annað eftir að hafa nánar rannsakað og mælt landgrunnið og ákvarðað endanlega landhelgislínu landgrunnsins. Í þessu fælist, að við ættum ekki síðar, að nokkrum árum liðnum, að þurfa að hefja nýja baráttu fyrir útfærslu frá 50 mílum, en tökum málið allt í einum áfanga, sem engum þarf að koma á óvart og sízt Bretum og Þjóðverjum, sem við tilkynntum með samkomulaginu frá 1961, að við mundum halda áfram að afla viðurkenningar á rétti okkar til landgrunnsins alls, sem við teldum okkur eiga skýlausan rétt til. Það er auðveldara fyrir okkur Íslendinga að vinna almenningsálitið í heiminum á okkar band á grundvelli baráttu okkar fyrir landgrunnssjónarmiðinu en einhverri tiltekinni mílulengd, hvort sem það eru 50 mílur eða annað frá grunnlínum. Aðalatriðið er nú, að Alþ. auðnist að standa saman um endanlega afgreiðslu þessa máls og umfram allt verður það að vera ljóst viðsemjendum okkar, Bretum og Þjóðverjum og öllum öðrum þjóðum, að við Íslendingar hvikum ekki frá útfærslu landhelginnar. Það er lífshagsmunamál þjóðarinnar, og það er einnig hagsmunamál allra, að fiskistofnar á miðunum við Ísland verði ekki eyðilagðir vegna ofveiði. Sú hætta er yfirvofandi, þegar litið er til þeirrar uppbyggingar á fiskveiðiflota annarra þjóða og allrar þeirrar nýju tækni, sem þeirri uppbyggingu er samfara. Ég vil nú leyfa mér að minna á samþykkt Alþ. á s. l. vori um réttindi Íslendinga á hafinu umhverfis Ísland. En þar segir m. a.:

„Alþingi ályktar að kjósa fimm manna nefnd, einn frá hverjum þingflokki (það var gert til þess að undirstrika samstöðuna í málinu að hafa ekki hlutfallskosningu), til að semja frv. til laga um rétt Íslendinga til landgrunnsins og hagnýtingar auðæfa þess. Skal frv. lagt fyrir næsta Alþ. og m. a. fela í sér eftirfarandi atriði:

1. Skilgreiningu á landgrunni Íslands miðað við sem næst 400 metra jafndýpislínu, möguleg hagnýtingarmörk eða 50 mílur eða meira frá grunnlínum umhverfis landið, eftir því sem frekari rannsóknir segja til um. að hagstæðast þyki.

2. Ákvæði um óskertan rétt Íslendinga til fiskveiða á hafinu yfir landgrunninu eins og rétturinn til hafsbotnsins hefur þegar verið tryggður með lögum frá 24. marz 1969 um yfirráðarétt Íslands yfir landgrunninu umhverfis landið.

3. Ákvæði um ráðstafanir, er séu nægjanlega víðtækar til þess að tryggja eftirlit af Íslands hálfu og varnir gegn því, að hafið kringum Ísland geti orðið fyrir skaðlegum mengunaráhrifum úrgangsefna frá skipum eða af öðrum ástæðum.“

Þessi fimm manna nefnd hélt sinn fyrsta fund síðla sumars, — sennilega í ágústlok, ég man það nú ekki fyrir víst, — þar sem hæstv. sjútvrh. var kosinn formaður nefndarinnar. Það má nú ekki dragast lengur, að nefndin taki til við samningu þess frv., sem henni var falið að semja, og Alþ. fái það til meðferðar og afgreiðslu, áður en það lýkur störfum. Það hefur áður verið talið rétt af hv. stjórnarflokkum, að Alþ. sjálft ákvæði fiskveiðilandhelgina með lögum, en það væri ekki aðeins reglugerðarákvæði, hver hún skyldi vera. Nú liggur einnig mikið við, að allir alþm. sýni einn vilja í þessu lífshagsmunamáli Íslendinga.

Í fyrrgreindri ályktun Alþ. fól það einnig ríkisstj. að undirbúa nú þegar friðunaraðgerðir fyrir öllum veiðum til verndar ungfiski á landgrunnssvæðinu utan 12 mílna markanna, þar sem viðurkennt er, að um uppeldisstöðvar ungfisks er að ræða. Þetta mál þolir enga bið. Þetta gæti ríkisstj. þegar hafa hafizt handa um, eins og Alþ. fól henni, ef röggsemi hennar væri jafnmikil eins og sumir hafa viljað vera láta.

Langalvarlegast er gáleysi hæstv. forsrh. í utanríkis- og öryggismálum þjóðarinnar samkv. því, sem sjálfur stjórnarsáttmálinn segir til um. Þótt hæstv. ríkisstj. lýsi yfir, að hún telji, að vinna beri að því að draga úr viðsjám í heiminum og stuðla að sáttum og friði með auknum kynnum milli þjóða og almennri afvopnun, og telji, að friði milli þjóða verði bezt borgið án hernaðarbandalaga, þá skiptir auðvitað sáralitlu máli, hvað hún segir um þetta. Við Íslendingar ráðum ekki hernaðarkapphlaupinu í heiminum og ekki þeim voða, sem af því stafar. Því ræður ekki heldur þessi ágæta ríkisstj., enda þótt hún hafi taugar út til alþjóðastjórnmála, þar sem kommúnisminn er innan búðar hjá stjórninni. Hvað segir hæstv. ríkisstj. í stjórnarsáttmálanum um stefnuna í utanríkis- og öryggismálum landsins? Orðrétt segir á þessa leið í stjórnarsamningnum:

„Varnarsamningurinn við Bandaríkin skal tekinn til endurskoðunar eða uppsagnar í því skyni, að varnarliðið hverfi frá Íslandi í áföngum. Skal að því stefnt, að brottför liðsins eigi sér stað á kjörtímabilinu.“

Hvað felst nú í þessari loðmollu? Hæstv. forsrh. vildi halda því fram, að það væri mistúlkun hjá stjórnarandstæðingum eða blöðum þeirra, að það gætti töluverðs misræmis í því, sem sagt væri í stjórnarsamningnum og hvernig ráðh. túlkuðu hann. Þetta er mikill misskilningur, sem bæði er hægt að sannfæra hæstv. forsrh. og aðra um með nánari tilvitnun í það, hvað þessir menn hafa sagt í eitt eða annað skiptið. En hvað felst í þessu stjórnarsáttmálaákvæði? Fyrst sagði hæstv. utanrrh., að það felist í þessu að sjálfsögðu, að herinn verði farinn á kjörtímabilinu. Ég held, að það hafi verið daginn eftir stjórnarmyndun. Síðan segir hann, eftir að vera búinn að hugsa sig betur um, að það eigi nú að tala við Bandaríkin. Og svo þegar þau viðtöl hafi átt sér stað og ef það komi í ljós, að það kunni að vera varhugavert að láta varnarliðið hverfa úr landi, þá verði það endurskoðað. Það er hægt að vitna til þessara ummæla lið fyrir lið og staf fyrir staf orðrétt. Ég hirði ekki um það. Þetta er alkunna. Enn fremur er það haft eftir hæstv. utanrrh. í frásögn Tímans af fundi með ungum framsóknarmönnum, að hann hafi efnt til endurskoðunar á varnarsamningnum, en þessi endurskoðun eða athugun miðist fyrst og fremst við að gera sér grein fyrir, hvaða efnahagslega afleiðingu það hafi í för með sér, að varnarliðið sé látið hverfa eða fari af landinu. Efnahagslegu áhrifin eiga að vera öllum kunn og rannsókn þar af leiðandi óþörf, enda er það algert aukaatriði í þessu máli. Sæmd og öryggi er það, sem situr í fyrirrúmi. Mér leiðist að þurfa að draga hæstv. utanrrh. inn í þennan hringlandahátt, en hjá því verðúr því miður ekki komizt.

Hæstv. forsrh. sagði, að fyrrv. stjórnarandstöðuflokkum hefði verið haldið utan við allar upplýsingar um varnarmálin. Þeim getur þó ekki verið haldið utan við þær upplýsingar, sem sagt er frá á opinberum vettvangi, bæði af hæstv. utanrrh. hér á þingi um efnahagslegu áhrifin af dvöl varnarliðsins hér á landi og því, sem birt er um það á almennum blaðamannafundum lið fyrir lið eftir upplýsingum frá sjálfum foringja varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli, eins og oft hefur verið gert. Af þessum ástæðum þarf ekki að taka marga mánuði í könnun á hinni efnahagslegu hlið málsins, þrátt fyrir að hæstv. núv. stjórnarliðar hafi verið áður fyrir utan stjórnarsamstarf. Við sjálfstæðismenn höfum ætíð fylgt þeirri stefnu frá því, að varnarsamningur var gerður 1951, að við vildum ekki hafa hér varnarlið lengur en nauðsyn krefur vegna öryggis landsins og öryggis þeirra lýðræðisþjóða í hinum vestræna heimi, sem við erum í samfélagi við. Við höfum margendurtekið þessa stefnu. Okkar stefna stendur algerlega óbreytt frá því 1951, á árunum þar á eftir og 1956, þegar vinstri stjórn þá ætlaði að reka varnarliðið, og eins í dag. Það er alltaf sama festan og öryggið í utanríkismálunum í viðhorfi okkar til öryggis landsins og varnar þeirra þjóða, sem mynda Atlantshafsbandalagið með okkur og voru þess umkomnar að stöðva framrás kommúnismans í Evrópu, að stöðva það, að Sovétríkin innlimuðu land eftir land og kúguðu önnur lönd til fylgis við sig sem leppríki hvert á fætur öðru. Og ekki nóg með það, heldur hafa Sovétríkin síðar haldið kúguninni áfram austan tjaldsins á hinn svívirðilegasta hátt, bæði í Ungverjalandi 1956 og í Tékkóslóvakíu 1968.

Við höfum ekkert á móti því, að varnarsamningurinn sé endurskoðaður eða endurmetin þörfin á vörnum hér á landi og með hverjum hætti þeim bezt yrði fyrir komið. Þetta hafa sjálfstæðismenn gert og Alþfl.-menn í fyrrv. ríkisstj. og kvatt til sérfræðinga, eins og kunnugt er, til þess að láta í ljós álit sitt í þessum málum. Það er hægt að endurskoða þessi mál frá almennu sjónarmiði og það er líka hægt að endurskoða þau á grundvelli varnarsamningsins frá 1951. En í því fælist að óska eftir áliti Atlantshafsbandalagsins eða ráðsins á þörfum fyrir varnir á Íslandi. Var nú ekki Framsfl., sem tók að sér stjórnarforustuna, nægjanlegt að gera grein fyrir því, að hann vildi athuga og endurskoða þessi mál og síðan taka ákvarðanir, eftir að hann hefði athugað og endurskoðað málin? Það er furðulegt einkenni á þessari hæstv. ríkisstj. að þurfa alltaf að taka ákvarðanir, áður en hún skoðar málin, og hefja athugun síðar. Slíkt kann ekki góðri lukku að stýra. Ég skal ekki fara fleiri orðum um það, hvort þessi hæstv. ríkisstj. lætur varnarliðið fara, hvort hún meinar bara já, já og nei, nei eða já eða nei. Því verður hún sjálf að gera þjóðinni grein fyrir. Ég minni á það, að 1956 fyrir myndun vinstri stjórnar stóðu flokkar að því hér á Alþ. 28. marz að lýsa því yfir, að nú væri svo breytt ástand í heiminum, að það væri óhætt að láta varnarliðið fara. Síðan var ríkisstj. mynduð með þeirri stjórnaryfirlýsingu, að varnarliðið skyldi hverfa. Fimm og hálfum mánuði eftir að þessi stjórn komst á laggirnar samdi hún á ný við Bandaríkin um það, að varnarlið skyldi vera áfram hér á landi, því að hún taldi þá á ný breytt viðhorf. Ég minni á þennan furðulega hringlandahátt vegna þess, að nú er í æ ríkara mæli lögð áherzla á það, sérstaklega af hálfu framsóknarmanna til þess að verja óverjandi framkomu sína í varnarmálum þjóðarinnar, að við höfum lýst því yfir og gert það að skilyrði við inngöngu í NATO, að hér skyldi ekki vera her á friðartímum. Þetta er rétt, og um þetta vorum við sammála. En hv. alþm. mættu gera sér grein fyrir og þjóðin í heild, að það, sem menn meintu með hugtakinu „á friðartímum“, er allt annað en hugsanlegt er, að falizt geti í slíku hugtaki í dag. Við, sem stóðum að því að óska þess, að hér væri ekki varnarlið á friðartímum, höfðum í huga, að friðartímar mundu myndast í Evrópu fyrst og fremst svipað því og gerðist eftir heimsstyrjöldina fyrri 1918 og þar til heimsstyrjöldin brauzt aftur út 1939. Á þessu hvíla fyrri yfirlýsingar um, að hér skuli ekki vera varnarlið á friðartímum. En friðartímahugtak er annað í dag og því óraunsætt að byggja grundvallarstefnu ríkisins í öryggis- og varnarmálum á slíku hugtaki. Hér kemur svo margt fleira til, eins og alkunna er, vegna gerbreyttrar heimsmyndar, tækni og vígbúnaðar á síðari áratugum. Ég vil, að hæstv. ríkisstj. fari að hugsa alvarlega í þessum málum. Ég hef því styrkt áform hæstv. utanrrh. til viðræðna við Bandaríkin og önnur ríki Atlantshafsbandalagsins, er miða að því að ganga úr skugga um, hvar við erum staddir og hvers er að vænta. Ég harma það, að ríkisstj. skyldi verða svo hrapallega á í messunni, að láta kommúnista ráða yfirlýsingum sínum í utanríkis- og varnarmálum. Það hlaut að vera nægjanlegt fyrir framsóknarmenn að lýsa því yfir, að þeir vildu endurskoða afstöðu okkar í varnarmálum og hvaða þörf við hefðum fyrir varnarlið og með hvaða hætti vörnum skyldi fyrir komið. Í því hefðum við sjálfstæðismenn fylgt framsóknarmönnum. Slíkt var eðlilegt viðhorf lýðræðisflokkanna í landinu. En þetta nægði ekki kommúnistunum í ríkisstj. Nei, hæstv. forsrh. varð að ganga undir það jarðarmen að lýsa því yfir fyrir fram, að brottför varnarliðsins á Íslandi skyldi eiga sér stað á kjörtímabilinu. Þetta er hans mesta yfirsjón, sem hæstv. forsrh. mun áreiðanlega lengi sjá eftir. Það var glaðzt í Moskvu, þegar ríkisstj. birti sáttmála sinn. Fréttir báru þess órækt vitni. Það var einnig glaðzt á þessum slóðum 1956, þegar vinstri stjórnin þá var mynduð með þeim ásetningi að láta varnarlið Bandaríkjanna á vegum Atlantshafsbandalagsins hverfa frá Íslandi. Ég minnist þess, að þáv. utanrrh. Sovétríkjanna, Molotoff, lét hafa það eftir sér við sænska blaðamenn, að Sovétmenn hefðu algerlega vitað, að hverju stefndi í sambandi við yfirlýsingu ríkisstj. á Íslandi þá að reka varnarliðið, vegna þess, eins og hann sagði, að þeir ættu svo marga vini á Íslandi.

Herra forseti. Nú er enn eftir sá þátturinn, sem ég tel langalvarlegastan í yfirlýsingu stjórnarsáttmálans varðandi utanríkis- og öryggismál landsins. Hann er sá, að við völdum taki ríkisstj. á Íslandi, sem lýsi því yfir, að það sé ekki samkomulag innan þessarar ríkisstj. um það að bindast samtökum eða vera bundin samtökum með öðrum vestrænum lýðræðisþjóðum til varnar ofbeldinu. Það heitir þannig orðrétt í stjórnarsáttmálanum: Ágreiningur er á milli stjórnarflokkanna um afstöðuna til aðildar Íslands að Atlantshafsbandalaginu. — Þessi yfirlýsing er sú aumasta, sem nokkur ríkisstj. á Íslandi gat gefið eins og á stendur í heiminum í dag. Hæstv. forsrh. sagði nokkur athyglisverð orð í þessu sambandi. Hann sagði, að þeir svöruðu því alltaf til stjórnarherrarnir í dag, þegar þeir væru spurðir, að þeir ætluðu að vera í NATO að óbreyttum aðstæðum, — að óbreyttum aðstæðum. Ég hef minnt á, að 28. marz 1956 töldu vinstri flokkar hér á landi, að nú væru breytt viðhorf, breyttar aðstæður, óhætt að láta varnarliðið fara. Í nóvembermánuði sama ár voru aftur breyttar aðstæður. Þá þurfti að endursemja það, að varnarliðið skyldi vera. Hvenær verða þær breyttu aðstæður, að þessi ríkisstj. lýsi yfir, að hún sé horfin úr NATO, horfin úr vestrænu lýðræðislegu samstarfi? Það er þetta, sem þjóðin óttast. Það er þess vegna sem ég segi, að þessi yfirlýsing ríkisstj. að lýsa því yfir frammi fyrir öllum heiminum, að það sé ekki samstaða um að vera heils hugar í samstarfi vestrænna lýðræðisþjóða, er sú versta, sem íslenzk ríkisstj. gat gefið í dag.

Það er rétt, að kommúnistar hafa áður verið í ríkisstjórn á Íslandi og það með sjálfstæðismönnum í nýsköpunarstjórninni 1944–1946, en þeim voru þá sett þau takmörk, að um utanríkismálin hefðu þeir ekkert að segja, og þegar þeir gerðu kröfur til þess, þá var því stjórnarsamstarfi lokið. Nú hefur Framsfl. beygt sig undir okið. Það er búið að lýsa því yfir fyrir heiminum, sem okkur Íslendingum er til skammar, og áhrif slíkrar yfirlýsingar stjórnarsáttmálans veit enginn, hversu víðtæk eru eða verða. Við sjálfstæðismenn munum gera allt, sem í okkar valdi stendur, til þess að stýra ríkisstj. af villu síns vegar. Við vitum, að það verður ekki hlustað á okkur af kommúnistum í ríkisstj., en við treystum því, að bæði hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh. leggi hlustirnar við þeim aðvörunum, sem við komum á framfæri.

Loks var svo þessi hæstv. ríkisstj. í stjórnarsáttmálanum að tala um nýtt fjárfestingarkerfi hér á landi, framkvæmdastofnun, fjárfestingarstofnun o. s. frv. Ríkisstj. einsetur sér, eins og segir í stjórnarsáttmálanum, að efla undirstöðuatvinnuvegina undir forustu ríkisvaldsins. Ríkisstofnun á að hafa á hendi heildarstjórn fjárfestingarmála og frumkvæði í atvinnumálum. Það vantar ekki, að vasklega sé til orða tekið. Það er ævinlega sama sagan, þegar vinstri stjórn kemur til valda: meiri ríkisafskipti, nýtt leyfakerfi, úthlutunarkerfi til þess að úthluta gæðum lífsins til einstaklinganna af opinberum pólitíkusum. Einstaklingarnir eiga ekki sjálfir að kunna að finna fótum sínum forráð. Ég get ekki rætt um þessa nýju stofnun, sem sennilega á eftir að verða allgild áður en lýkur, ef þessi stjórn situr einhvern tíma að völdum, fyrr en við sjáum stjfrv. um hana. Það er því útrætt um hana að öðru leyti en því, að hérna er um að ræða algerlega ástæðulaust opinbert kerfi til þess að auka ríkisafskipti af athöfnum einstaklinganna, sem við sjálfstæðismenn munum af öllum kröftum berjast gegn.

Það var svolítið broslegt, þegar hæstv. forsrh. var að tala um ýmislegt, sem hefði breytzt síðan núv. ríkisstj. tók við völdum. Hann talaði m. a. um það, hvað ríkisstj. hefði verið að bæta aðstöðu íslenzkra skipasmíða. Það væri nú gott að fá einhverjar frekari greinargerðir um það, að hve miklu leyti hæstv. ríkisstj. hefur bætt aðstöðu íslenzka skipasmíðaiðnaðarins síðan hún tök við völdum hér. Hann sagði líka með allþungum áherzlum, að engin ríkisstj. á Íslandi hefði tekið upp á arma sina hringveg um landið. Þetta er ekki nein smáræðis ríkisstjórn. Samþykkt er á síðasta þingi till. frá einum þm. sjálfstæðismanna um að afla fjár til þess að byggja þennan hringveg um landið, og það var enginn ágreiningur um þennan blessaðan hringveg. Sumum finnst hins vegar, að það liggi meira á öðru. En nú á þetta bara að vera ein aðalskrautfjöður hæstv. ríkisstjórnar. Hann segir, að rafvæðingunni um sveitirnar eigi að ljúka á þremur árum. Það lá fyrir í iðnrn. áður en núverandi hæstv. ríkisstj. tók við áætlun um að ljúka rafvæðingunni á fjórum árum og í hana hafði verið lagt mikið verk í allan vetur. Það var gerð grein fyrir, hvernig og í hvaða röð hverjum bæ er ætlað að koma inn í rafvæðingarkerfið. Það kostaði sérfræðinga og starfsmenn rn. heilan vetur að binda endahnútinn á þetta með sérfræðingum úr Orkustofnun og frá Rafmagnsveitum ríkisins o. s. frv. Ríkisstj. stytti þetta náttúrlega á einum degi í þrjú ár, án þess að mér sé kunnugt um, að hún hafi nokkuð litið á þessa áætlun eða gagnrýnt hana. Og ég hef heyrt sagt, að sumir í stjórnarliðinu séu nú í efa um, að við getum staðið við áætlun fyrrv. stjórnar, og ef okkur dugi fjögur ár, þá megum við þakka fyrir. En það er auðvitað hægt að segja þrjú ár, án þess að hafa nokkuð gert sér grein fyrir, hvernig er að því stefnt að ljúka þessu mikilvæga verki, eins og áður var gert, á fjórum árum.

Því miður er allt of margt af því, sem lýst hefur verið yfir af hæstv. ríkisstj., sýndarmennska og yfirlæti. Það skiptir auðvitað engu máli, hvort launþegar fá vísitölustig einum mánuði fyrr eða síðar, eins og átti að gera samkvæmt síðustu lögum, þegar frestað hafði verið greiðslu tveggja vísitölustiga til 1. sept., en hæstv. ríkisstj. var svo röggsöm að láta það koma til framkvæmda strax 1. ágúst. Það er svo sem ekkert afrek heldur, þó að hún hafi flýtt hér um nokkra mánuði greiðslum í tryggingamálunum eins og gert var, en það var ánægjulegt, að ríkisstj. gat gert það. E. t. v. hefði þessu verið flýtt, þegar þing kom saman, ég skal ekkert um það segja, en það hlaut auðvitað að byggjast á þeim efnahag, sem var í þjóðfélaginu, og þeirri aðstöðu, sem hún tók við. En þarna er náttúrlega ekki um neinn eðlismun á afstöðu til málsins að ræða.

Samkvæmt yfirlýsingum sínum hverfur ríkisstj. algerlega frá stóriðjustefnu fyrrv. ríkisstj., en fyrrv. ríkisstj. stuðlaði að því, að stóriðja hélt hér innreið sína á Íslandi í tengslum við stórvirkjanir í fallvötnum landsins, og renndi þar sem víðar stoðum undir atvinnulíf landsmanna, gerði það öruggara og traustara, því að svipull er sjávarafli, eins og reynsla okkar kennir okkur ótvírætt. Geysilegt hagræði höfum við þegar í dag haft af þeirri öru iðnþróun, sem leiddi af Búrfellsvirkjun í stórum stíl og álbræðslunni og einmitt á þeim tíma, sem áföllin urðu mest í þjóðfélaginu. Það munu um 3000 mannár hafa farið í það að vinna við þessi fyrirtæki, Búrfellsvirkjun, álbræðsluna og höfnina í Straumsvík, sem samsvarar því, að 1000 manns hafi að meðaltali á þriggja ára tímabili unnið við þessi fyrirtæki, þegar atvinnuleysi var að öðru leyti að halda innreið sína. Þá eru ótalin þau miklu áhrif á almenna iðnþróun í landinu, sem slík fyrirtæki hafa, og skal ég ekki tefja tímann með því nú að ræða það.

Hæstv. ríkisstj. miðar í virkjunarmálunum við innanlandsmarkaðinn, húsahitunina, eins og þar stendur. Ég vil með engu móti gera lítið úr húsahitun með rafmagni. Ég hef á sínum tíma beðið sérfræðinga að rannsaka möguleikana til húsahitunar á Íslandi með rafmagni. Það verður gert. Sjálfur flutti ég till. um það til breytingar á landsvirkjunarlögum á s. l. þingi, að það skyldi verða eitt af verkefnum landsvirkjunarstjórnar að kanna á hverjum tíma, að hve miklu leyti væri hægt að hagnýta rafmagn til húsahitunar. Hins vegar er það ljóst, að húsahitun með rafmagni er ekki nokkur þáttur í stóriðju á Íslandi, engan veginn og getur aldrei orðið það. Hún getur aldrei byggt upp þann stórmarkað fyrir raforku, sem nauðsynlegur er, ef almenningur á Íslandi á virkilega með stórvirkjunum að geta átt þess kost að fá ódýrt og hagkvæmt rafmagn.

Ég minnist þess ekki að hafa talað við neitt erlent stóriðjufyrirtæki á síðari árum, sem ekki hefur talið það eðlilegt og sjálfsagt, að við værum sjálfir aðilar í stóriðjufyrirtækjunum, annaðhvort að minni hluta eða meiri hluta eða þá þannig, að við á vissu tímabili eignuðumst meiri hluta eða öll fyrirtækin. Alger undantekning er álbræðslan hér í Straumsvík, en þar tel ég, að við höfum hitt á hið rétta form að koma ekki nálægt þeim rekstri, þar sem hann er aðeins einn liður í langri keðjuframleiðslu. Þetta hef ég margoft bent á. Við erum ekki neinir aðilar að námum, báxítnámum. Við erum ekki neinir aðilar að úrvinnslu báxitsins né súráls. Við erum ekki neinir aðilar að markaðinum úti í hinum stóra heimi, þegar búið er að vinna hráálið, og því skyldum við þá vera aðilar aðeins að vinnslu hráálsins með allri þeirri áhættu, sem því er samfara? Ég tel, að það hafi verið okkar lán að ganga frá samningum við svissneska álfyrirtækið eins og við gerðum. Þeir hafa alla áhættuna, við höfum hagnaðinn af framleiðslugjaldinu, þ. e. sköttunum, sem þeir verða að borga fyrir hvert tonn, sem framleitt er. Við höfum hagnaðinn af raforkunni, að selja hana í erlendum gjaldeyri og þeir verða að borga hana, hvort sem þeir nota hana eða ekki, og við höfum hagnaðinn af þeim vinnulaunum, sem þeir borga í erlendum gjaldeyri. Við högnumst á öllum þeim hliðarráðstöfunum, sem gera þarf í sambandi við svona stóriðjufyrirtæki, í málmiðnaði, byggingariðnaði og á öðrum sviðum, í skipaflutningum til þess að flytja farm fram og aftur o. s. frv. Allt er þetta okkur til góðs, en þeir bera áhættuna. Hitt er svo alveg rétt, að í öðrum tilfellum höfum við ætíð talað um hlutdeild okkar Íslendinga og meirihlutahlutdeild eins og í Kísiliðjunni t. d. Það er ekkert nýtt. Nú hefur verið sagt frá því í blöðum, að hæstv. iðnrh. hafi kvatt menn til ráðuneytis við sig í stóriðjumálum. Er eitthvert afturhvarf frá afturhvarfinu í vændum? Um það fáum við sjálfsagt nánari upplýsingar síðar.

Lítið er hægt að finna í stjórnarsáttmálanum um efnahagslega stefnu. Það er að vísu óskalisti um lækkaða vexti, hækkuð lán og lengingu lánstíma. Þetta er nú fallegt. Lækkaðir vextir, hækkuð lán og lenging lánstíma. En hvernig þetta samrýmist og framkvæmist, það kann að vera annað mál og bíður síns tíma. Á hinn bóginn er stefnt að einu marki, auknum ríkisafskiptum og það fer ekki á milli mála. Svo langt er gengið, að ríkisvaldið ætlar sér að skammta launþegasamtökunum það, sem handhafar þess, ríkisvaldsins, telja launþegunum hæfa. Einhvern tíma hefðu áform slíkrar ríkisforsjár þótt tíðindi, en síðan ríkisstj. tók við völdum, þá hafa þeir einn af öðrum, handbendi kommúnista í launþegasamtökunum, sagt já og amen. Þessi ágæta ríkisstj. skal skammta okkur. Áður vildu þeir fá að semja um þetta sjálfir, hafa samningafrelsi. Alkunna er, að núverandi ríkisstj. settist í bú góðs efnahags. Vitna ég í því sambandi í úttekt þjóðarbúsins, sem fráfarandi ríkisstj. gerði grein fyrir á miðju ári, enda er það nú öllum ljóst, að ríkisstj. hefur útdeilt fé í ríkum mæli án þess enn að hafa þurft að hafa nokkrar áhyggjur af að afla þess.

Ég hirði nú ekki að elta ólar við einstaka liði á óskalista kommúnistanna í stjórnarsáttmálanum, því að hann er, eins og ég sagði áður, í raun og veru „kópía“ af þeirra kröfum. Menn hljóta hins vegar að gera sér grein fyrir því án nokkurra tvímæla, þegar hafður er í huga fyrsti hluti ræðu minnar, að grundvallarsjónarmið Sjálfstfl. samrýmast engan veginn þeim sjónarmiðum, sem þessi ríkisstj. hefur samið um að reyna að koma í framkvæmd, hvorki inn á við né út á við. Út á við er farið glæfralega að. Það er ósk mín, að það megi lagfæra og leiðrétta, og ég býð fram allan stuðning Sjálfstfl. að því marki. Inn á við er stefnt að auknum ríkisafskiptum með einhverju fjárfestingarbákni, sem á að setja á laggirnar.

Af því, sem ég hef sagt, er ljóst, að við sjálfstæðismenn erum í mjög eindreginni andstöðu við núv. hæstv. ríkisstj. og sér í lagi vegna þeirra miklu áhrifa, sem kommúnistum hafa verið falin í ríkisstj. Við erum reiðubúnir til samstarfs og samráðs í landhelgismálinu og höfum tjáð það og sýnt það í verki. Við erum reiðubúnir til samráðs við hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh. í varnar- og utanríkismálum, en ekki við kommúnistana. Það verða menn um leið að vita.

Við munum svo að öðru leyti marka afstöðu okkar til einstakra mála, sem stjórnin flytur, eftir því sem efni standa til.

Í lok ræðu sinnar vék hæstv. forsrh. að því, hve mikið hefði breytzt í þjóðfélaginu í dag. Ég veit nú ekki, hvort menn hafa almennt orðið varir við þessar óskaplegu breytingar. En hann sagði m. a., að þessi ríkisstj. væri ríkisstj. hins vinnandi fólks, launafólks og framleiðenda. Hvaða fólk er ekki vinnandi fólk í þessu landi í þessum skilningi? Og hvað meinar ríkisstj. með þessu slagorði, sem kommúnistar oftast hafa flaggað með, en nú er tekið upp á varir hæstv. forsrh., að verða stjórn hins vinnandi fólks í landinu, launafólks og framleiðenda? Ríkisstj. vill vinna að kjarabótum í landinu. Það hlýtur að vera markmið hverrar ríkisstj., sem hér situr í landi, og ég sagði áðan, að einmitt á þeim miklu uppgangstímum, sem við hefðum haft, hefur almenningur í þessu landi notið fullkomlega þess bata, sem orðið hefur í þjóðarbúskapnum, enda eru lífskjör almennings í þessu landi með allt öðrum hætti en þegar fráfarandi ríkisstj. tók við. Þau eru sambærileg við það bezta, sem við þekkjum í hinum vestræna heimi, og stökkbreytingarnar eru meiri en svo, að þær dyljist nokkrum, til hins betra. Kaupmáttur launanna hefur vaxið í samræmi við vaxandi þjóðarframleiðslu og þjóðartekjur á hverjum tíma.

Hæstv. forsrh. segir, að ríkisstj. hafi lýst því yfir, að hún ætli ekki að grípa til gengisfellingar nú, hún ætli ekki að grípa til gengisfellingar, eins og hann orðar það, ekki nú í sambandi við þau viðfangsefni, sem um er að ræða í dag. Nei, þakka skyldi, að hún grípi nú ekki til gengisfellingar í dag með alla sjóði fulla og vaxandi gjaldeyrissjóði dag frá degi. En hvaða ríkisstj. gripur til gengisfellingar gengisfellingarinnar vegna? Engin ríkisstj. Og ríkisstj. sjálfstæðismanna og Alþfl. greip ekki til gengisfellingar til þess að skaða fólkið í þessu landi, heldur til þess að leggja grundvöllinn að bættum efnahag sjávarútvegsins í landinu, sem er undirstöðuatvinnuvegur í öllu efnahagslífi okkar, og þar með til þess að verða launþegum, verkalýð og öllum almenningi til hagsbóta, enda. reyndist það, þegar á reyndi, farsæl ráðstöfun.

Hæstv. forsrh. segir, að það hafi verið styrjaldarástand milli ríkisstj. fyrrv. og launþegasamtakanna. Ég kannast nú bara ekki við þetta og verður litið til hæstv. forseta Alþýðusambandsins, að það hafi verið nokkurt styrjaldarástand á milli stjórnar ASÍ og okkar í ríkisstj. Ég veit ekki betur en júnísamkomulagið, sem Bjarni Benediktsson beitti sér fyrir ásamt fleiri góðum mönnum í ríkisstj., Emil Jónssyni öðrum fremur, hafi einmitt verið talið ein af merkari sáttagerðum, sem hér hafa verið gerðar milli ríkisstj. og fulltrúa vinnumarkaðarins, aðila vinnumarkaðarins. Og hvað gerði fyrrv. hæstv. ríkisstj., þegar atvinnuleysið hélt innreið sina? Setti á laggir atvinnumálanefndir, atvinnumálanefnd ríkisins, atvinnumálanefndir í öllum kjördæmum landsins í samráði við fulltrúa aðila vinnumarkaðarins, verkalýðsstéttirnar, Alþýðusambandið og vinnuveitendur með farsælum og góðum árangri, sem áreiðanlega leiddi til þess, að atvinnuleysi var hér fyrr úr sögunni en ella hefði verið. Nei, það var síður en svo, að það væri neitt styrjaldarástand á milli ríkisstj. og launþegasamtakanna, og ég get fullvissað hæstv. forsrh, um það, að ef samkomulagið milli hans og launþegasamtakanna verður aldrei verra en á milli okkar í fyrrv. ríkisstj., þá þarf hann engu að kvíða.

Jú, það er rétt, sú breyting er, að menn horfa með kvíða fram á skipulagðan áætlunarbúskap, sem svo hefur verið kallaður. Menn horfa með kvíða fram til þess. Við eigum eftir að sjá þetta blessaða frv. um fjárfestingarstofnunina. En það átti ekki að skammta neitt. Það hefur aldrei komið til greina, sagði hæstv. forsrh., að stefna að hafta- og skömmtunarkerfi. Það á aðeins að raða framkvæmdum. Það má kalla þetta ýmsum nöfnum. Það má vera með orðaleik í þessu sambandi. En ef á að raða þessu á undan öðru og hinu á undan hinu o. s. frv., mundi þá ekki vera anzi stutt í það, að það kæmi að því að skammta öðrum, já, við skulum segja fyrsta sætið, næsta manni annað sætið og þriðja manni þriðja sætið? Þetta gera menn, þegar menn hafa ekki trú á því, að frjálsræðið í þjóðfélaginu ráði bezt við þetta sjálft og einstaklingarnir viti sjálfir bezt, hvernig þeir eiga að fara að með þeim takmörkunum, sem einstaklingsfrelsinu að sjálfsögðu hljóta á hverjum tíma að vera settar. En hæstv. forsrh. sagði líka athyglisvert orð. Það á að setja á laggirnar skipulag, sem þjóni sem bezt markmiðum ríkisstj. Það er einmitt það skipulag og við stjórn þessa skipulags eiga svo einhverjir pólitíkusar að hafa völdin, náttúrlega ríkisstj. í toppinum, og það á að þjóna sem bezt markmiðum ríkisstj. Þetta eru ær og kýr sósíalismans og ær og kýr vinstri stjórnar, sem þegar hefur setzt við völd hér á Íslandi. En þessu hafa bara Íslendingar fengið nokkuð — ja, ég vildi segja nóg af, og ég efast um, að vinsældir ríkisstj. að þessu leyti verði nú svo miklar eða vaxandi eins og hæstv. forsrh. vildi gera sér vonir um.

Það er gott að vera sjálfumglaður, og hæstv. forsrh. segir: Enginn getur betur en ég. — Hann segist vera fullviss um það, að engin ríkisstj. gæti betur gert á Íslandi heldur en þessi hæstv. ríkisstj. hans. Það getur nú verið, að sumir hugsi svona einhvern tíma, en ég held, að færri séu nú að lýsa svona yfir. En það er ekki það, sem öllu máli skiptir.

Herra forseti. Ég vil ekki ljúka máli mínu með öðrum hætti en þeim að óska hæstv. forsrh. til hamingju með þann mikla heiður, sem honum hefur fallið í skaut. Það hefur áður komið fyrir, að menn fá mikinn hróður af litlum afrekum, eins og Davíð Stefánsson segir í einu ljóði sínu:

„Orðstír hlaut af illum sigri

Ólafur kóngur digri.“

Sannast að segja galt Framsfl. geysilegt afhroð í þeim kosningum, sem fram fóru á s. l. sumri, eins og áður er að vikið. Má vera, að það hafi orkað nokkuð á um það, að þessum mönnum hafi þótt mikils um vert miklu að fórna til þess að komast í ráðherrastóla. Við sjálfstæðismenn vitum, að áhrif okkar verða ekki útilokuð, enda þótt tilgangurinn sé að setja okkur utangarðs. Við eigum sterkari ítök í hugum fólksins en svo. Á því byggjum við stjórnarandstöðu okkar í þeim mæli, sem ég hef lýst henni. Hún á að vera ábyrg, en hörð, hún á að vera málefnaleg og hún á að vera sanngjörn.