18.10.1971
Sameinað þing: 3. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2115 í B-deild Alþingistíðinda. (2449)

Stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Íslenzka þjóðin hefur búið við núverandi flokkaskipun lítt breytta í rúmlega fjóra áratugi. Í hverjum kosningum á fætur öðrum hafa fjórir eða fimm aðalflokkar keppzt um hylli þjóðarinnar, án þess að nokkur þeirra hlyti hreinan meiri hluta. Þingræði hefur því aðeins reynzt starfhæft stjórnkerfi, að flokkarnir hafa myndað hverja samsteypustjórn á fætur annarri.

Þegar tveir eða fleiri stjórnmálaflokkar sameinast um ríkisstj., hlýtur stefna þeirrar stjórnar að verða málamiðlun milli flokkanna. Sú málamiðlun gerist óhjákvæmilega að tjaldabaki, og hætta er á, að þjóðin missi sjónar af eiginlegri stefnu hvers stjórnmálaflokks, ekki sízt ef samsteypustjórn verður langlíf. Alþfl. hefur átt sæti í ríkisstj. samfleytt í hálfan annan áratug frá sumrinu 1956 til s. l. sumars. Fyrst var svonefnd vinstri stjórn Hermanns Jónassonar, síðan minnihlutastjórn Emils Jónssonar og loks um meira en áratugs skeið þrjú rn. undir forustu Sjálfstfl. Öll þessi ár hefur Alþfl. haldið fram stefnu sinni eftir beztu getu og reynt að gæta hags umbjóðenda sinna, launþega og neytenda, þegar stjórnarstefna hefur verið mörkuð. Mörgum umbótum hefur flokkurinn á þennan hátt komið til leiðar eða átt hlut að þeim, en oft hafa þó erfiðleikar dægurmála og aðstæður í efnahagslífi ráðið því, hvað gert var, og ýtt pólitískum draumum til hliðar. Þrátt fyrir þetta er það trúa mín, að er fram líða stundir, muni hinar margvíslegu umbætur síðustu ára lifa löngu eftir að hagsveiflur efnahagslífsins og stundarerfiðleikar eru gleymdir. Alþfl. hefur um langt árabil ekki verið dæmdur eftir stefnu sinni ómengaðri, heldur eftir málamiðlun í stjórnarsamstarfi við annan og stærri flokk.

Nú hefur eftir eðlilegum reglum þingræðis skipazt svo málum, að aðrir fara með stjórn, en Alþfl. er í fyrsta sinn í 15 ár í stjórnarandstöðu. Flokkurinn stendur nú einn og mun boða stefnu sína óháður öllum öðrum í framtíðinni. Þessi breytta aðstaða gerir það að verkum, að Alþfl. telur það nú höfuðverkefni sitt að endurhæfa að ýmsu leyti stefnu sína í dægurmálum í anda grundvallarstefnu jafnaðarmanna. Þessi staðreynd mun móta afstöðu flokksins til ríkisstj., og það verður hlutverk flokksins að gæta hagsmuna launþega, svo og allra þeirra, sem standa höllum fæti í þjóðfélaginu. Flokkurinn mun leitast við að veita núverandi stjórnarflokkum aðhald í þessum efnum, ekki síður en þeir oft og tíðum vægðarlaust gagnrýndu Alþfl., er hann sat í stjórn undanfarin ár og varð stundum að standa að óvinsælum, en óhjákvæmilegum ráðstöfunum, þegar á móti blés.

S. l. vor var því lýst yfir af hálfu Alþfl., að hann teldi rökrétta afleiðingu alþingiskosninganna, að Framsfl., Alþb. og SF mynduðu ríkisstj. Þetta gerðist og skömmu síðar, og það er enn skoðun Alþfl., að þessir flokkar eigi að fá tækifæri til að stjórna landinu, fá eðlilegt tækifæri til þess að reyna stefnu sína í framkvæmd. Hæstv. ríkisstj. kom til valda í miklu góðæri. Þess eru engin dæmi í stjórnmálasögu Íslendinga, að ný ríkisstj. hafi tekið við svo góðum fjárhag ríkissjóðs sem verið hefur nú í sumar. Hitt hefur verið algengara, að ríkisstjórnir hafa mátt byrja á að gera ráðstafanir til að rétta við efnahag landsins, og þær hafa þá gert óþægilegar aðgerðir í trausti þess, að kenna mætti fráfarandi stjórn um allan vandann. Slíku er ekki til að dreifa að þessu sinni.

Enda þótt fjárhagshorfur hafi verið góðar fyrir kosningar á s. l. vori, treystu fyrrv. stjórnarflokkar ekki svo á batnandi hag ríkissjóðs, að þeir teldu þá rétt að gera ýmsar þær ráðstafanir, sem núv. ríkisstj. hefur gert í sumar. Reynslan hefur sýnt, að þeir hefðu gjarnan mátt vera djarfari en þeir voru. En um það þýðir ekki að fást. Og þetta breytir ekki þeirri staðreynd, að Alþfl. fagnar hverju því skrefi, sem bætir hag þeirra, sem njóta almannatrygginga, svo og sjómanna og annarra launþega.

Þegar fyrrv. ríkisstj. hafði til athugunar frv. um endurskoðun tryggingalaganna, var fyrst í stað gert ráð fyrir tryggingabótum, sem næmu 300 millj. kr. Þingflokkur Alþfl. neitaði að fallast á frv. nema bæturnar hækkuðu í 500 millj. í stað 300. Ríkisstj. fékkst til þess að ganga inn á þessa verulegu hækkun, en treysti sér ekki til að láta hana koma til framkvæmda 1. ágúst, eins og margir hefðu þá viljað. Í þessu sambandi er rétt að minnast þess, að fyrir alþingiskosningar á s. l. vori réðust núv. stjórnarflokkar sérstaklega á Alþfl. fyrir þessa 500 millj. kr. hækkun á bótum almannatrygginganna og töluðu um smánarbætur í því sambandi. Nú eru þessir menn komnir til valda í einu mesta góðæri sögunnar og hafa lagt fyrir Alþ. fyrstu fjárlög sín. En viti menn. Smánarbæturnar eiga ekki að hækka. Hin nýja ríkisstj. hefur ekki sett sér, enn a. m. k., hærra mark í tryggingamálum en að framkvæma þau lög, sem síðasta ríkisstj. gekkst fyrir, að sett væru. Þeir kölluðu það smánarbætur, þegar við Alþfl.-menn knúðum fram og fengum með fylgi síðustu ríkisstj. 500 millj. kr. hækkun tryggingabóta. Nú hafa þeir meiri hl. á Alþ., nú fara þeir með ríkisstj., en þeir virðast ekki treysta sér til þess að gera betur.

Þetta kann að vera vísbending um sitthvað fleira. Stjórnarflokkarnir munu komast að raun um, ef þeir reyndustu í hópi þeirra hafa gleymt því í langri stjórnarandstöðu, að þeir bera nú ábyrgð á þjóðarbúinu í heild og það er eitt að lofa og annað að efna loforðin. Málefnasamningur stjórnarflokkanna, sem hæstv. forsrh. hefur gert grein fyrir, er alllangt og ítarlegt plagg. Kennir þar margra grasa og er heitið ýmsum breytingum á íslenzku þjóðfélagi, sem ég hygg, að fáir munu andmæla, ef stjórninni tekst að hrinda þeim í framkvæmd. Í heild minnir samningurinn þó á pólitískan óskalista, en mikið skortir á, að þar sé gerð fullnægjandi grein fyrir ýmsum undirstöðuatriðum, svo sem fjárhagshlið mála, og er því ekki ljóst, hvernig stjórnarflokkarnir hyggjast framkvæma hin ýmsu. stefnumál sín.

Margt af því, sem ríkisstj. hefur tekið sér fyrir hendur, er í samræmi við hugsjón og stefnu Alþfl. Og flokkurinn mun að sjálfsögðu styðja þau mál, er til framkvæmda þeirra kemur. En það, sem hefur vakið hvað mesta athygli í stjórnarsáttmálanum, er, að ríkisstj. lofar að beita sér fyrir 20% aukningu á kaupmætti láglaunafólks, en lofar þar að auki kjarabótum eins og 40 stunda vinnuviku, fjögurra vikna orlofi og ýmsu fleira. Það mun vafalaust verða þjóðinni allri mikið fagnaðarefni, ef unnt reynist að standa við þessi áform. Sá áróður, sem haldið hefur verið uppi með miklum krafti, að fyrrv. stjórnarflokkar hafi vísvitandi viljað, að Ísland yrði láglaunasvæði, er bæði ósvífinn og ósannur. Ekkert hefur verið eða er Alþfl. meira áhugamál en raunhæfar kjarabætur fyrir allar stéttir, en alveg sérstaklega þær, sem hafa búið við lægst laun. Alþfl. hefur jöfnum höndum reynt að stuðla að bættum kjörum með hærra kaupgjaldi og félagslegum umbótum, en margt hefur valdið því, að oft hefur verðbólgan gert að litlu það, sem áunnizt hefur, og getur svo farið enn. A. m. k. virðist hæstv. forsrh. óttast það, svo greinilega tók hann fram, að hann lofaði ekki stöðvun verðbólgunnar. Alþfl. hefur því ekki talið rétt að gefa mikil fyrirheit, eins og núv. ríkisstj. gerir, en hefur lagt meiri áherzlu á efndirnar, sem flokkurinn veit af langri reynslu, að oft geta verið erfiðleikum bundnar.

Ekki verður sagt, að stefnuyfirlýsing ríkisstj. í kjaramálum launþega hafi haft hagstæð áhrif á þá samninga, sem nú standa yfir milli verkalýðshreyfingar og atvinnurekenda. Vegna hinna fögru fyrirheita hafa atvinnurekendur getað snúið sér beint l sín. Enn hefur orðið fátt um svör af hálfu stjórnarinnar, og atvinnurekendur hafa því komizt hjá því hingað til að lofa svo mikið sem einum eyri eða gera nokkra tilslökun gagnvart óskum verkalýðsfélaganna. Þannig hafa vikurnar liðið, án þess að nokkur árangur yrði af löngum samningafundum. Gerast launþegar nú óþolinmóðir og böndin hljóta að berast að ríkisstj. Hvernig ætlar hún að leysa samningamálið? Hún hefur blandað sér inn í það með loforðum sínum í stjórnarsáttmálanum, svo að hjá því verður ekki komizt, að hún beri þunga vandans. Hvenær má búast við því, að gengið verði til þess að leysa þetta mál?

Hæstv. fjmrh. hefur að vanda lagt fram fjárlagafrv., hið fyrsta af hendi hinnar nýju ríkisstj. AS vísu hefur stjórnin enn aðeins setið skamman tíma, en forustumenn hennar á fjármálasviði hafa undanfarin ár fylgzt nákvæmlega með gerð fjárlaga og eru þar öllum hnútum kunnugir. Fjárlagafrv. hefði því átt að bera einhver merki um verulega stefnubreytingu, ef slíks væri að vænta af ríkisstj. hálfu.

Hæstv. forsrh. kvað upp þunga dóma um stjórn menntamála í tíð fyrrv. ríkisstj., enda þótt það sé allri þjóðinni ljóst, að aldrei í sögu hennar hafi verið stigin eins stór skref í þeim málum, hvort sem litið er á uppbyggingu löggjafar, þar sem hver einasti þáttur í menntakerfi þjóðarinnar hefur verið endurskoðaður á 10 ára tímabili, eða á uppbyggingu skólanna. Hver einasti maður hefur séð þessar framfarir. Ef ástandið í mennta- og kennslumálum væri svo slæmt sem hæstv. forsrh. virðist telja það, hvers vegna má þá ekki sjá þess nein merki í fjárlagafrv., að það eigi að gera snöggar og stórar ráðstafanir til að bæta úr því ástandi? Annaðhvort er, að hæstv. forsrh. trúir ekki því, sem hann segir í þessum efnum, og veit, að hann fer með rangt mál, eða þá fjármálastjórnina er þegar farið að bresta, ef hún getur ekki fylgt eftir svo stórorðum fullyrðingum oddvita ríkisstj. á Alþ. með gerðum í fjárlagafrv.

Það er margur vandi enn óleystur og mikið verk óunnið, áður en hallalaus fjárlög verða afgreidd, ef það tekst. Hvergi sést heildarmynd þjóðarbúsins betur en á fjárl., en þar virðist ekki vera um nýjar leiðir að ræða, nema síður sé.

Stefna ríkisstj. í utanríkismálum hefur vakið hvað mesta athygli og deilur innanlands og utan. Þar ber hæst tvö stórmál, útfærslu landhelginnar og varnarmálin. Landhelgismálið komst á dagskrá fyrir 3–4 árum, er stórveldin hófu baráttu fyrir því, að 12 mílur yrðu staðfestar sem þjóðaréttur. Málefni hafsbotnsins og mengun sjávar komust á dagskrá hjá Sameinuðu þjóðunum og fram kom hugmynd um nýja alþjóðaráðstefnu um öll þessi mál 1973. Þessi þróun mála var að því leyti hættuleg fyrir Íslendinga, að lögfesting 12 mílna fiskveiðimarka er alls óviðunandi fyrir okkur og andstæð þeirri stefnu, sem þjóðin markaði sér með landgrunnslögunum fyrir aldarfjórðungi.

Þegar þessi tíðindi gerðust, brá fyrrv. ríkisstj. þegar við og hóf margvíslegar ráðstafanir til að vinna á móti þessum áformum stórveldanna, bæði með því að kynna viðhorf okkar Íslendinga og vinna beinlínis á móti samningsuppköstum, sem þegar var búið að gera. Ég skal ekki rekja það frekar hér, en vil benda mönnum á, að þótt starf í höndum manns eins og Emils Jónssonar hafi oft verið unnið í meiri kyrrþey heldur en yngri menn temja sér, skulu menn ekki vanmeta það, sem þá var unnið í þessu máli, enda hefur verið hægt á því að byggja síðan.

Fyrrv. ríkisstj. kallaði fulltrúa þingflokkanna í nefnd til að reyna að samræma skoðanir og móta stefnu í málinu, sem allir flokkar gætu staðið að. Þetta tókst því miður ekki, og fyrir kosningar urðu um landhelgismálið miklir flokkadrættir. Greindi menn að vísu ekki á um meginstefnu, heldur öllu frekar um starfsaðferðir og tímasetningu, en þó ber vissulega að harma, að þetta mál skyldi verða mesta áróðursmál og átakamál kosninganna. Þær deilur styrktu málstað Íslendinga ekki.

Núv. ríkisstj. fór að dæmi hinnar fyrri og kom á fót landhelgisnefnd með fulltrúum allra flokka til þess að fjalla um framkvæmd málsins. Hefur samstarf í þeirri nefnd verið að ýmsu leyti gott og gagnlegt, og hefur þar náðst samkomulag um ýmis framkvæmdaratriði. Er ástæða til að láta í ljós ánægju yfir því, að hæstv. utanrrh. hefur haldið á málinu af meiri ábyrgð og gætni en ætla mátti eftir viðhorfum a. m. k. sumra stjórnarsinna. Það styrkir málstað Íslendinga til muna, að ráðh. skyldi bjóða frekari viðræður við þær þjóðir, sem telja sig eiga mestra hagsmuna að gæta, hvort sem þær viðræður koma til að bera árangur eða ekki.

Eins og sakir standa virðist aðeins eitt efnislegt atriði geta valdið teljandi ágreiningi í landhelgismálinu, en það eru sjálf útfærslumörkin. Ríkisstj. heldur fast við 50 mílur, en Alþfl. hefur ítrekað þá afstöðu sína, að ekki megi skilja eftir utan landhelgi þýðingarmiklar sneiðar af landgrunninu, sérstaklega úti fyrir vestanverðu landinu, og beri því að færa út allt að 400 metra dýptarlínu, sem er nærri brún landgrunnsins. Síðan verður að breyta landgrunnslögunum, eins og Alþ. hefur raunar þegar samþ. að gera, og þar er nauðsynlegt að halda opnum leiðum til þess að fjalla síðar um hliðar landgrunnsins og athuga framtíð þeirra. Alþfl. vill mikið á sig leggja til þess að varðveita þjóðareiningu í landhelgismálinu og vill hafa náið samstarf við aðra flokka til að öll meðferð þess verði sem heilsteyptust. Flokkurinn mun leitast við að gera ekki framkvæmdaratriði eða minni háttar mál óþarflega að deiluefni, en mun halda sér eingöngu við það, sem hann telur meginatriði. Flokkurinn áskilur sér því allan rétt varðandi landgrunnslínuna, sem ég hef þegar nefnt.

Íslenzka þjóðin gerir sér vonandi ljóst, að landhelgismálið er erfiðasta verkefni í samskiptum við umheiminn, sem hún hefur tekið sér fyrir hendur. Diplómatísk kurteisi og vinsamlegar móttökur sendimanna okkar erlendis mega ekki villa okkur sýn. Andstaða gegn þeirri útfærslu, sem við áformum, er hörð og alvarleg.

Okkur hefur þegar verið hótað ýmsum gagnráðstöfunum, sem gætu valdið okkur miklu tjóni. Þess vegna má einskis láta ófreistað til þess að finna leiðir, er draga kynnu úr þessum gagnráðstöfunum, og er mikið til þess vinnandi. Landhelgismálið verður veigamesta verkefni þessa þings. Alþfl. mun styðja hverja þá viðleitni, sem eykur líkur á farsælum lyktum málsins þannig að við Íslendingar fáum þá útfærslu, sem við teljum okkur lífsnauðsyn og með sem minnstri andstöðu annarra þjóða.

Í varnarmálum hefur ríkisstj. lýst yfir, að hún muni beita sér fyrir því, að varnarliðið fari úr landinu í áföngum á næstu fjórum árum. Þessi yfirlýsing kemur Íslendingum varla á óvart, þar sem stjórnarflokkarnir hafa allir um nokkurra ára skeið fylgt þeirri stefnu, að varnarliðið skuli hverfa á brott, enda þótt Framsfl. hafi hingað til tekið upp aðra stefnu í þessum efnum, þegar hann hefur setzt í ríkisstj. Utanrrh. hefur einnig í þessu máli sýnt nokkra varúð og fer sér hvergi óðslega. Hann hefur tilkynnt, að viðræður við Bandaríkjamenn hefjist ekki fyrr en snemma á næsta ári, en málið verði athugað vandlega fyrir þann tíma. Sú framkoma að taka fyrst ákvörðun í slíku máli, en hefja síðan athugun þess, vekur varla traust innanlands eða utan. Yfirleitt er talið skynsamlegra að láta athugun fara fram fyrst, en taka síðan ákvörðun um stefnu á grundvelli athugunarinnar. Ekki hefur verið frá því skýrt, hverjir annist athugun varnarmálanna og hvernig hún fer fram. Væri þó vissulega ástæða til að veita þjóðinni nokkrar upplýsingar um meðferð málsins.

Andstaða gegn setu erlends hers í landinu hefur jafnan verið allsterk hér á Íslandi og á hún sér nokkurn hljómgrunn í huga langflestra landsmanna. Þessi skoðun er fyrst og fremst byggð á tilfinningum og sterkri þjóðerniskennd. Hins vegar er öryggi íslenzka lýðveldisins í nútímaheimi vandasamt mál, sem ekki er unnt að leysa eingöngu á grundvelli tilfinninga. Þar verður einnig að koma til raunhæft mat á heimsmálum hverju sinni, landfræðilegri stöðu Íslands, þróun hermála og öðrum slíkum atriðum. Þeir menn, sem mótað hafa og stutt þá stefnu, sem fylgt hefur verið í varnarmálum, hafa byggt á slíku mati þrátt fyrir tilfinningar sínar.

Því verður ekki neitað, að undanfarin ár hafa gerzt allmiklar breytingar á því svæði, sem Ísland er hluti af. Hafið ræður örlögum okkar, og þar er nú byrjað vígbúnaðarkapphlaup með stórfelldum smíðum herskipa, fyrst og fremst af hálfu Sovétríkjanna, en nú einnig af hálfu annarra. Frændur okkar, Norðmenn, hafa af þessari þróun alvarlegar áhyggjur og það ættum við Íslendingar einnig að hafa. Við getum ekki stungið hausnum í sandinn og látið eins og við vitum ekki af því, sem er að gerast umhverfis okkur eða það komi okkur ekki við. Við stöndum á þessu taflborði miðju, hvort sem okkur líkar það betur eða verr.

Íslendingar verða að láta raunhæft mat á aðstæðum ráða stefnu sinni í varnarmálum. Við þyrftum að hafa meira samráð um þessi mál við nágranna okkar, sem eiga við sams konar vanda að glíma. Væri ekki athugandi fyrir Ísland að bjóða ríkjunum við Norðurhaf, þ. e. við Grænlandshaf, Íslandshaf og Noregshaf, til sérstakrar ráðstefnu til þess að fjalla um öryggismál á þessu svæði, sem er nánar tiltekið hafið milli Grænlands, Íslands, Færeyja og Noregs? Slík ráðstefna haldin án þátttöku stórveldanna gæti reynzt vera gagnleg.

Fyrrv. utanrrh., Emil Jónsson, hafði ákveðið veigamiklar breytingar á skipan mála á Keflavíkurflugvelli, lengingu flugbrauta, sem eru nauðsynlegar fyrir Loftleiðir, og algeran aðskilnað varnarliðsins og hinnar íslenzku flugstöðvar. Þessar framkvæmdir eru nú í óvissu vegna þeirrar tvísýnu, sem er um framvindu þessa máls í höndum ríkisstj. Alþfl. telur ekki óeðlilegt, að varnarsamningurinn verði endurskoðaður, því að margt getur verið orðið úrelt í honum eftir 20 ár. En ákvörðun um breytingar á skipan varnarmálanna telur flokkurinn ekki rétt að taka fyrr en fullkomin athugun, samráð við nágranna og endurskoðun samningsins hafa átt sér stað.

Alþfl. er andstæður ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar. Engu að síður telur flokkurinn, að þessi ríkisstj. eigi að fá tækifæri til að reyna stefnu sína og glíma um sinn við vandamál þjóðarinnar, svo að séð verði og sannreynt, hvernig hún framkvæmir fyrirheit sin. Alþfl. mun leitast við að haga stjórnarandstöðu sinni á málefnalegan hátt. Flokkurinn mun styðja þau mál, sem honum þykir til bóta, en beita sér harðlega gegn hinum, sem hann er ósammála. Alþfl. mun í stjórnarandstöðu ekki síður en í stjórn starfa í anda jafnaðarstefnunnar og leitast við að auka og styrkja frelsi, jafnrétti og bræðralag í þjóðfélagi okkar. Flokkurinn mun vinna að einingu allra sannra jafnaðarmanna á Íslandi til þess að í framtíðinni verði áhrif stefnu, þeirra á þróun íslenzks þjóðfélags enn meiri og betri en hingað til.