12.05.1972
Sameinað þing: 68. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2129 í B-deild Alþingistíðinda. (2454)

Almennar stjórnmálaumræður

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Málefnasamningur núverandi stjórnarflokka er að sjálfsögðu miðaður við kjörtímabilið. Enginn getur því ætlazt til þess, að á fyrsta starfsári stjórnarinnar sé allt það komið til framkvæmda, sem þar er ráðgert. En sé farið yfir málefnasamninginn lið fyrir lið og borið saman við það, sem gert hefur verið, þá sýnir það sig, að það er býsna margt, sem þegar er komið til framkvæmda. Þetta hygg ég, að allir þeir verði að játa, sem heldur vilja hafa það, sem sannara reynist.

Hér er eigi tími til ítarlegrar úttektar, en á nokkur atriði ætla ég að drepa. Að landhelgismálinu hefur verið unnið í samræmi við málefnasamninginn. Um það og þess framvindu ræði ég ekki. Fyrir því mun utanrrh. gera nánari grein. Fyrirheit málefnasamningsins í kjaramálum eru flest komin til framkvæmda að mestu eða öllu leyti. Kjarasamningar hafa þannig verið gerðir í samræmi við markaða stefnu stjórnarflokkanna, þ. e. víðtækir kjarasamningar hafa verið gerðir til tveggja ára, þar sem kauphækkanir eiga sér stað í áföngum auk sérstakra hækkana þegar í stað til þeirra lægst launuðu. Þannig mun verða náð því marki, sem sett var um kaupmáttaraukningu á næstu tveimur árum. Sjómannakjörin voru bætt. Tryggðar hafa verið fullar vísitöluuppbætur á laun og leiðrétt sú skerðing, sem áður var, þannig að kaupmáttur launa á ekki að raskast vegna þeirra verðhækkana, sem óhjákvæmilegar hafa reynzt og reyndar voru fyrirsjáanlegar, en frestað var á verðstöðvunartímabilinu, svo og að nokkru vegna kauphækkana, sem hlaut að gæta að nokkru í verðlagi. 40 stunda vinnuvika og fjögurra vikna orlof hefur verið lögfest. Frv. um framleiðsluráð landbúnaðarins hefur verið lagt fyrir Alþ. og er það í samræmi við þá meginstefnu, sem mótuð er í málefnasamningnum. Nefnd hefur verið skipuð til að semja lagafrv. um réttindamál opinberra starfsmanna og skal þar á því byggt, að þeir fái frjálsan samningsrétt um kjör sín, svo sem fyrirheit var gefið um í stefnuskrá stjórnarinnar.

Þau fyrirheit, sem gefin voru í atvinnumálakafla málefnasamningsins eru mörg hver þegar komin til framkvæmda, en undirbúningur að öðrum hafinn. Þar má t. d. nefna það, að Framkvæmdastofnun ríkisins hefur verið sett á fót, svo sem mælt er í málefnasamningi. Framkvæmdastofnun á að hafa á hendi frumkvæði í atvinnumálum og heildarstjórn fjárfestingarmála, samkv. því, sem nánar er fyrir mælt í lögum. Hún skal gera áætlanir til lengri tíma um þróun þjóðarbúsins og framkvæmdaáætlanir til skemmri tíma. Auk þess fer hún með forsjá þeirra sjóða, sem henni eru fengnir til umráða. Að sjálfsögðu er byggt á starfi þeirra stofnana, sem fyrir voru og Framkvæmdastofnun tók við. Starfstími Framkvæmdastofnunarinnar er enn þá svo skammur, að af henni er ekki fengin full reynsla, en ég fyrir mitt leyti bind miklar vonir við starfsemi hennar og tel sérstaklega mikilvægt, að hún örvi og ýti undir framtak í atvinnumálum og styðji að öflun atvinnutækja víðs vegar um landið.

Í einstökum atvinnugreinum hafa þegar verið gerð mikil átök í þá stefnu, sem boðuð var. Ber þar hæst eflingu fiskiskipaflotans og þá einkanlega með kaupum hinna mörgu skuttogara. Er eigi að efa, að útgerð þeirra á eftir að verða lyftistöng í atvinnulífi margra staða, sem sumir hverjir hafa til þessa staðið höllum fæti. Ráðstafanir hafa verið gerðar til eflingar innlendra skipasmíða og er framtíðartakmarkið þar það, að Íslendingar smíði að miklu leyti skip sín sjálfir og geti annazt viðhald fiskiskipa og kaupskipa, en vitaskuld hlýtur það að taka sinn tíma að koma málum í það horf.

Þá má og nefna það, að verið er að setja löggjöf um sölustofnun niðursuðuiðnaðarins og um lagmetisiðju ríkisins á Siglufirði. Er með þeirri löggjöf stefnt að stóreflingu þess iðnaðar og umbótum á sölu og markaðsskilyrðum. Munu flestir játa, að þar sé um mikilvæg verkefni að ræða. Nefnd hefur verið skipuð til að gera heildaráætlun um alhliða landgræðslu og skipulega nýtingu landsgæða. Er ekki vafi á, að landgræðslumálum verður að sinna í stórauknum mæli á næstunni. Aðrir ræðumenn munu síðar í þessum umr. víkja að ýmsum framkvæmdum á sviði landbúnaðarins.

Í samgöngumálum má nefna hringveg um landið, þ. e. tengt verður saman vegakerfi umhverfis landið. Í raforkumálum er mótuð ákveðin stefna, unnið að undirbúningi stórvirkjana og kannaðir í því sambandi möguleikar á stóriðju.

Á sviði félagsmála má nefna, að ríkisstj. hefur beitt sér fyrir lagasetningu um stórhækkun elli- og örorkubóta, tryggingu lágmarkslauna lífeyrisþega og gert ýmsar aðrar endurbætur á tryggingalöggjöfinni.

Ríkisstj. hefur nú lagt fram frv. til l. um afnám vísitölubindingar á húsnæðislánum. Samkv. málefnasamningnum skyldi endurskoða tekjuöflunarleiðir hins opinbera með það fyrir augum, að skattabyrðinni verði dreift réttlátlegar en áður. Jafnframt skyldi að því stefnt, að persónuskattar eins og til almannatrygginganna verði felldir niður, en teknanna aflað með öðrum hætti. Þetta hefur nú verið gert, m. a. með hinum nýju skatta- og tekjustofnalögum. Jafnframt hefur verið ákveðið, að endurskoðun þeirra laga verði haldið áfram, og verður auðvitað við þá endurskoðun tekið tillit til þeirrar reynslu, sem fæst af hinum nýju skattalögum. Það er mikið búið að pexa um það, hvort skattar verði hærri eða lægri eftir hinum nýju lögum eða hinum eldri. Ég skal ekki fara út í það hér. Það er skammt að bíða reynslunnar, og þá getur hver og einn prófað þetta á sjálfum sér, en auðvitað má þá ekki bera saman við skatta s. l. árs, heldur verður að bera saman við það, hverjir þeir hefðu orðið í ár eftir gamla kerfinu. En annars vil ég undirstrika það, að núv. stjórn hefur aldrei heitið lækkun á sköttum í heildina.

Nú hefur verið gert stærra átak en áður til að jafna menntunaraðstöðu ungmenna. Til skóla- og menningarmála er varið meira fé en nokkru sinni fyrr. Í þeim málum eru á döfinni ýmsar breytingar og nýjungar, sem ég hirði ekki um að rekja hér. Í dómsmálum og löggæzlu er unnið að ýmsum endurbótum. Verður margt í þeim málum tekið til gagngerðrar endurskoðunar á næstunni, ef það verður mitt hlutskipti að fara með þau málefni.

Í utanríkismálum hefur verið tekin upp önnur stefna og breyttir starfshættir frá því, sem áður tíðkaðist. Um þau mál mun utanrrh. fjalla og sleppi ég því að ræða þau frekar. Til ýmiss konar verklegra framkvæmda eru fjárveitingar mun hærri en áður. Ég get hér ekki tímans vegna farið nánar út í að bera saman málefnasamning og framkvæmdir. En sá stutti útdráttur, sem ég hef hér gert, sannar það svo glöggt, að ekki verður um deilt, að fyrirheitum stjórnarsáttmálans hefur verið fylgt fast eftir. Ég veit, að þetta finnur fólkið í landinu. Og hvað sem um þessa stjórn verður sagt, held ég, að allir sanngjarnir menn hljóti að játa, að hún hefur ekki setið auðum höndum. Sumum finnst jafnvel nóg um dugnað hennar. Hvað sem um það er, þá er hitt víst, að enn er mikið ógert, enn eru ýmis þau verkefni óleyst, sem vikið er að í stefnuskrá stjórnarinnar. Auk þess sem ný viðfangsefni berja daglega að dyrum. Það varðar því miklu, að stjórnin fái starfsfrið út kjörtímabilið og geti þá lagt mál sín öll og verk undir þjóðardóm.

Þegar frá er skilið verkfall á farskipum, má heita, að alger vinnufriður hafi ríkt hér á landi á valdatíma núv. stjórnar. Vel má segja, að það sé hennar mesta gæfa. Kjarasamningarnir, sem náðust í desember s. l., eru að mínum dómi einn mikilvægasti atburður, sem átt hefur sér stað á stjórnartímabilinu. Þá var samið til lengri tíma en áður og um kjarabætur í áföngum. Ég álít slíkt mjög mikilsvert fyrir atvinnureksturinn, sem veitir honum lengri tíma en áður, þar sem hann veit, með hverju hann má reikna. Ég held, að atvinnurekendur ættu að meta það mikils, og ekki sízt, þegar slíkur árangur náðist án verkfalls. Almennar kjarabætur launþega voru og verulegar, þegar á allt samningstímabilíð er litið, auk þess sem hinir lægst launuðu fengu hlut sinn nokkuð réttan þegar í stað. Ég er þeirrar skoðunar, að ekki hafi mátt tefla á tæpara vað um greiðslugetu atvinnuveganna, og ég held, eins og ég hef áður sagt, að óhjákvæmilegt sé að umsaminna kauphækkana gæti að einhverju leyti í verðlagi. Síðari kjarasamningar hafa svo verið sniðnir eftir desembersamningnum. Þó að þessir kjarasamningar séu í stórum dráttum í samræmi við boðaða stefnu stjórnarinnar, dettur mér ekki í hug að eigna henni sérstaklega heiðurinn af þeim. Þar ber auðvitað fyrst að þakka aðilum vinnumarkaðarins, en einnig vil ég fyrir mitt leyti alveg sérstaklega þakka þeim sáttasemjurum, sem að samningunum unnu.

Þeir eru til, sem hafa allt á hornum sér og halda því fram, að horfurnar séu allt annað en glæsilegar, að fram undan séu, að manni skilst, eins konar ragnarök og auðvitað sé það stjórnin, sem sé að fara með allt til fjandans. Þessi svartnættissefasýki, ef á sannfæringu er byggð, er mér óskiljanleg. Sannleikurinn er sá, að íslenzka þjóðin hefur aldrei búið við betri lífskjör en einmitt nú. Menn búa við almenna velmegun, atvinna er næg, vinnufriður ríkir, atvinnurekstur er í fullum gangi og hefur víða staðið með blóma sem betur fer. Framleiðsluaukning er á flestum sviðum, verðlag á útflutningsafurðum yfirleitt ágætt, árferði er gott og ytri aðstæður eru yfirleitt hagstæðar. Framfarir blasa hvarvetna við og framkvæmdir eru meiri en nokkru sinni fyrr. Sannleikurinn er líka sá, að sjaldan hefur ríkt meiri bjartsýni í íslenzku þjóðlífi en einmitt nú. Framfara- og framkvæmdaviljinn hefur aldrei verið sterkari en einmitt nú. Það er eins og allir, jafnt einstaklingar sem hið opinbera, vilji ráðast í framkvæmdir. Eftirspurn eftir atvinnutækjum, stórum og smáum, er óvenjulega mikil, og eru togarakaupin gleggsta dæmið um það. Hvarvetna blasir við gróska en ekki stöðnun. Þetta sjá allir, nema þá helzt málgögn stjórnarandstöðunnar, en þess verður ekki vart í reyndinni, að úrtölur þeirra og hrakspár dragi úr mönnum kjark eða dragi úr mönnum hinn almenna sóknarhug. Það er svo sannarlega enginn undanlátstónn í Íslendingum um þessar mundir. Það er enginn uppgjafarsvipur á Íslendingum í dag. Auðvitað eru til menn, sem alltaf eru óánægðir, vanþakka allt og alltaf kvarta. Það eru ekki þeir menn, sem setja svip sinn á íslenzkt þjóðfélag í dag. Það er gott að vera Íslendingur í dag, það er gaman að vera Íslendingur í dag og þá ekki sízt fyrir unga fólkið með þá aðstöðu og þá möguleika, sem nú eru fyrir hendi. Engin kynslóð hefur áður haft slík tækifæri á Íslandi eins og unga kynslóðin í dag.

Vitaskuld dettur mér ekki í hug að halda því fram, að velmegunin sé eingöngu að þakka nýrri stjórnarstefnu. Árferði og ytri aðstæður ráða þar mestu, en hinu held ég fram, að hin nýja stjórnarstefna hafi vakið bjartsýni, aukið mönnum áræði, örvað framtak og leyst ný öfl úr læðingi. Auðvitað getur enginn með neinni vissu spáð um framtíðina. Þar geta óviðráðanlegar ástæður ráðið svo miklu. Í okkar þjóðarbúskap geta snöggar fjárhagssveiflur reynzt örlagaríkar. Að sjálfsögðu er aldrei hægt að útiloka, að óhagstæðar hagsveiflur beri að höndum, en ég held, að eins og nú horfir, sé engin sérstök ástæða til svartsýni. Ég held þvert á móti, að sterkar líkur séu fyrir áframhaldandi framfarasókn og batnandi lífskjörum. Útfærsla landhelginnar, hin nýju og stóru skip og vaxandi úrvinnsluiðnaður murtu bæta aðstöðu okkar og skapa nýja möguleika á efnahagssviðinu. Aukin orkuvinnsla og ný stóriðja í því sambandi mun styrkja grundvöll atvinnulífsins, en það er mín bjargföst skoðun, að traustir atvinnuvegir og blómlegt atvinnulíf sé það, sem framar öllu öðru ber að leggja áherzlu á. Það er sú undirstaða, sem allt annað verður að byggjast á í þessu landi. Að sjálfsögðu ber að fylgjast vel með í þeim efnum, en eins og ég sagði, þá er það eins og nú horfir, þá finnst mér sízt af öllu ástæða til bölsýni. — En það er engu líkara en að sumir menn hafi um þessar mundir að kjörorði hið gamla íhaldsspakmæli, við illu má búast, því gott skaðar ekki.

Þeir eru til, sem telja, að fyrirhugaðar framkvæmdir séu of miklar og innflutningur ofbjóði gjaldeyrisgetunni. Slíka menn verður að spyrja, úr hvaða framkvæmdum þeir vilji draga og hvernig þeir vilji hefta innflutning. Það er mín skoðun, að í þessum efnum sé nú farið á fremsta hlunn, en án þess þó, að um verulega ógætni sé að ræða. En þar verður að vera á verði og gera viðeigandi ráðstafanir, ef reynslan sýnir, að til vandræða horfir. Að mínum dómi gæti verið skynsamlegt að reka þjóðarbúið og ríkisbúskapinn þannig, að leggja nokkuð til hliðar í góðæri. Að slíkum búskaparháttum þarf að stefna.

Það er nokkuð gagnrýnt, að ríkisstj. hafi ekki nægilega föst tök á verðlagsþróuninni og verðbólgu gæti nú meira en góðu hófi gegnir. Af þessu tilefni er rétt að taka það fram, að núv. ríkisstj. hefur aldrei heitið því að stöðva verðbólgu. Það er að mínum dómi ómögulegt við þær aðstæður, sem nú eru í íslenzku þjóðfélagi. Það er ekki hægt, a. m. k. ekki til frambúðar, að setja þar neinn enda algjörlega fastan. Hitt segir í okkar málefnasamningi, að ríkisstj. muni leitast við að tryggja, að hækkun verðlags hér á landi verði ekki meiri en í helztu nágranna- og viðskiptalöndum. Ég viðurkenni hreinskilnislega, að ríkisstj. hefur ekki enn náð þeim tökum á þessum málum sem skyldi og hún hefði viljað. Þá er líka rétt að hafa í huga, að starfstíminn er ekki orðinn langur og við mörg verkefni hefur þurft að fást. Ríkisstj. þarf og mun einbeita sér að þessum verkefnum á næstunni. Þá varðar miklu, að hún njóti fulls stuðnings og skilnings frá almenningi. Mér virðist satt að segja, að í reyndinni skorti nokkuð á um skilning á nauðsyn þess, að verðbólgu sé haldið í skefjum. Kröfurnar um hækkanir á öllum sviðum eru yfirgengilegar og þar hafa þeir ekki verið neinir eftirbátar, sem mest gagnrýna hækkanir og hæst tala um hættu af verðbólguþróun. Gegn hvers konar verðhækkunum verður að standa, svo sem kostur er og beita ströngu verðlagseftirliti. Hins vegar þýðir ekkert annað en að horfast í augu við það, að nokkrar hækkanir á verðlagi og ýmiss konar gjaldskrám hafa verið og munu verða óhjákvæmilegar. Það verður mönnum að vera ljóst, og er ekki komið aftan að neinum í því efni. En í þessu sambandi vil ég minna á, að glíma við verðbólguna hefur orðið fleirum erfið en núv. ríkisstj. Fyrrv. ríkisstj. lofaði að stöðva verðbólguna. Henni entust ekki 12 ár til að standa við það fyrirheit. Þvert á móti þurfti hún á valdaferli sínum að grípa fjórum sinnum til gengisfellingar. Það situr því allra sízt á stuðningsmönnum viðreisnarstjórnarinnar sálugu að tala digurbarkalega um verðbólguþróun og dýrtíð. Það hljómar eins og spott og spé um þá sjálfa. En hverjar eru þær verðhækkanir, sem núv. stjórn hefur leyft, sem stjórnarandstæðingar telja að synja hefði átt um? Það væri fróðlegt að heyra í þessum umr. og það af þeirra munni.

En ég ætla annars ekki hér að fara að skattyrðast við stjórnarandstöðuna, hún sparar sjálfsagt ekki stóryrðin, ef að vanda lætur. Hún sér ekkert nema myrkur um miðjan dag. Ég dreg í efa, að menn taki skraf hennar alvarlega, enda mun sannfæringarkraftinn skorta, en það er nú einu sinni svo, að stjórnarandstaðan hefur og á að hafa fullt frjálsræði um það, hvernig hún hagar sínum málflutningi og gegnir sínu hlutverki. Það ætlast auðvitað enginn til þess, að dómar hennar um ríkisstj. séu hlutlausir.

Eitt af því, sem ég hef tekið eftir, að stjórnarandstæðingar hafa verið að skírskota til, eru ummæli mín þess efnis, að við stjórnarmyndunina hefðum við haft ýmsar skýrslur sérfræðinga um ástand og horfur í efnahagsmálum og að við hefðum dregið af þeim þær ályktanir, að afkoman væri þannig og afkomuhorfur slíkar, að gerlegt væri að gera þær ráðstafanir, sem við gerðum og ráðgerðum. Inn í þessi ummæli er það lagt, að ég hafi viðurkennt, að viðskilnaður fyrri ríkisstj. hefði verið góður. Þetta er að sjálfsögðu útúrsnúningur. Í ummælum mínum liggur ekkert um viðskilnað fyrri ríkisstj., enda gátu skýrslurnar ekki sagt nema takmarkað um það, og kom margt í þeim efnum fyrst á daginn, eftir að við höfðum tekið við og fórum að starfa, t. d. ýmsir skuldahalar á sjóðum og framkvæmdafé. Um það skal ég ekki frekar ræða hér. Ég geri ráð fyrir því, að aðrir ræðumenn víki að því og að viðskilnaði viðreisnarstjórnarinnar. Ég skal svo ekki vera að eyða orðum að stjórnarandstöðunni. Maður tekur hana svona eins og hún er.

En við þá menn, sem vilja meta núv. ríkisstj., starf hennar og stefnu af fullri sanngirni, vil ég segja þetta: Það verður að hafa í huga, að núv. ríkisstj. er samsteypustjórn þriggja flokka, sem um margt eru ólíkir og hafa mismunandi viðhorf til ýmissa málefna. Málefnasamningurinn er því í ýmsum greinum byggður á málamiðlun, og um tiltekið atriði er það beinlínis tekið fram, að um það sé ágreiningur. Yfir þetta er engin fjöður dregin. Auðvitað hlýtur starf stjórnarinnar einnig stundum að byggjast á málamiðlun. Það getur enginn samstarfsflokkurinn búizt við því að fá öll sín sjónarmið að fullu og öllu tekin til greina. Það verða allir góðviljaðir menn að skilja, og í þeim anda verðum við stuðningsmenn stjórnarinnar á Alþ. að starfa. Annað er óvinafagnaður.

Ég hef sagt það annars staðar áður og segi það enn, að með myndun núv. ríkisstj. og samstarfi þeirra flokka, sem að henni standa, urðu þáttaskil í íslenzkri pólitík. Þeirra þáttaskila var þörf og það af mörgum ástæðum. Það hafa þegar átt sér stað verulegar stefnubreytingar á ýmsum sviðum þjóðfélagsins og í fjölmörgum framkvæmdum. Þær stefnubreytingar tel ég, að séu og verði til góðs fyrir hinn almenna þjóðfélagsborgara, ef svo má segja, en sjálfsagt síður fyrir hina, sem hafa eða haft hafa einhverja forréttindaaðstöðu. Ég held, að þeirra stefnubreytinga muni þó í reyndinni gæta þeim mun meir, því lengur sem stjórnin starfar. Mörgum stefnumálum hennar er þannig háttað, að þeim verður ekki komið í framkvæmd á einum degi. Framkvæmd þeirra hlýtur að taka sinn tíma, en menn munu smám saman verða breytinganna varir. Ég nefni t. d. það markmið stjórnarinnar, að stefna skuli að skipulegum áætlunarvinnubrögðum. Flestir munu í orði játa nauðsyn slíkra starfshátta. Með þeim má koma í veg fyrir margvísleg mistök og verðmætasóun, t. d. við stofnun og uppbyggingu nýrra atvinnufyrirtækja. Slík mistök geta t. d. átt rót sína að rekja til vanþekkingar eða skorts á yfirsýn. Menn verða að skilja og beygja sig fyrir þeirri staðreynd, að það er ekki hægt að gera allt í einu. Það verður að raða verkefnum og láta þau ganga fyrir, sem nauðsynlegust eru og koma þjóðarheildinni að mestu gagni. Það þarf að vera skipulag á uppbyggingu og framkvæmdum í stað þess handahófs, sem hér á landi hefur lengst af ríkt í þeim málum. Í Framkvæmdastofnuninni er vissulega þegar kominn vísir að slíkum áætlunarvinnubrögðum. Eðlilega skortir þó enn mikið á, að þau mál séu komin í það horf, sem verða þarf. Á þau efni verður að leggja ríka áherzlu á næstunni. Þar er mikið verk óunnið enn, eins og skiljanlegt er, þegar tekið er tillit til þess, hve starfstími er stuttur.

Landhelgismálið er um þessar mundir langsamlega stærsta mál íslenzku þjóðarinnar. Það er hennar lífshagsmunamál og á farsælli úrlausn þess veltur framtíðargengi hennar öllu öðru framar. Það ber að setja öllum málum ofar. Í því máli stendur öll þjóðin einhuga um þá stefnu, sem mörkuð hefur verið, og að baki ríkisstj. Þá einingu má ekki með neinu móti rjúfa, því að hún mun að lokum færa okkur fullnaðarsigur. Allar deilur um málið hér innanlands á því að leggja til hliðar. Hitt væri blekking að loka augunum fyrir því, að enn er langt í land. Um það mál ætla ég annars ekki að ræða. Það gerir utanrrh. En ég vil aðeins að lokum segja það, að ef núv. ríkisstj. ber gæfu til að hafa forustu um að koma því máli heilu í höfn, þá er það mín trú, að það eitt muni endast henni til góðs vitnisburðar á dómsdegi. Þökk sé þeim, sem hlýddu. — Góða nótt.