12.05.1972
Sameinað þing: 68. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2139 í B-deild Alþingistíðinda. (2456)

Almennar stjórnmálaumræður

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson):

Herra forseti. Hlustendur góðir. Hvarflað gæti að mönnum, sem fylgzt hafa með þinghaldi í vetur, að forustusveit stjórnarandstöðunnar sé svipað á sig komin og þeir andar framliðinna, sem töluverðar sögur fara af í ritum spíritista og þar eru sagðir í stökustu vandræðum að átta sig á flutningnum af einu tilverustigi á annað. Þótt þessar óhamingjusömu sálir séu komnar til andaheima, halda þær sig enn vera á jarðríki og hegða sér í samræmi við það. Þetta heitir víst á máli spíritista að vera jarðbundinn og kvað einkum eiga sér stað við sviplegan aldurtila. Ástæðan til, að forusta stjórnarandstöðunnar á Alþ. minnir furðu oft á þessa villuráfandi anda, er, að hún hefur að mestu leyti látið undir höfuð leggjast að rækja það hlutverk stjórnarandstöðu að móta og leggja af sinni hálfu fyrir þing og þjóð yfirvegaða stefnu í þeim málum, þar sem ágreiningur um grundvallaratriði er milli hennar og stjórnarliðsins.

Skýrasta dæmið þessu til sönnunar er afgreiðsla skattamála hér á þinginu í vetur. Veruleg hækkun tryggingabóta ásamt niðurfellingu nefskatta til trygginganna gerði breytingu á skattheimtu ríkisins og tekjustofnum sveitarfélaga óhjákvæmilega. Talsmenn Sjálfstfl. í umr. um þau mál fundu till. ríkisstj. flest til foráttu, þótt þeir viðurkenndu í öðru orðinu, að endurskoðun skattheimtunnar væri aðkallandi. En ekki örlaði á, að þeir mótuðu af sinni hálfu raunhæfa stefnu, sem gerði fært að standa straum af auknum tryggingabótum og tilfærslu gjaldaliða frá sveitarfélögum til ríkissjóðs, sem allir voru sammála um, að ætti að eiga sér stað.

Menn heyrðu ávæning af þessum málflutningi í orðum hv. 1. þm. Reykv., Jóhanns Hafstein, hér áðan. Þegar hann kvaðst setja fram stefnu Sjálfstfl. í skattamálum, reyndist hún ekkert annað en almennt orðagjálfur um mátulega skatta. En aldrei var skýrt frá, hvorki í ræðunni núna fyrir klukkutíma né í umr. í vetur, í tölum, sem hentar verða reiður á, hvað fólgið sé í orðunum mátulegir skattar.

Ekki er ólíklegt, að vandkvæðin á að gegna eðlilegu hlutverki stjórnarandstöðu eigi sér svipaða skýringu og gefin er í andafræðum á hérvillu sálnanna jarðbundnu, sem sé að færsla milli tilverustiga hafi gerzt svo óvænt, að hlutaðeigendur eigi erfitt með að gera sér grein fyrir umskiptunum. Það er nefnilega mála sannast, að úrslit alþingiskosninganna í fyrrasumar, sem skópu ríkjandi styrkleikahlutföll á Alþ., eiga sér ekki fordæmi í þingsögunni síðustu áratugi. Við íslenzkt flokkakerfi eru samsteypustjórnir næstum óhjákvæmileg regla. Einu undantekningar frá henni eru minnihlutastjórnir eða utanþingsstjórn. Nú gerðist það í kosningunum í fyrsta skipti í áratugi, að samsteypustjórnin, sem fyrir var, missti hreinlega meiri hlutann, hún kolféll. Og ekki nóg með það. Stærsti stjórnmálaflokkur landsins, Sjálfstfl., hlaut eftir rúmlega áratugs óslitna stjórnarforustu lægri hundraðshluta atkvæða en í nokkrum kosningum öðrum undanfarin 40 ár. Þetta voru þó smámunir hjá útreiðinni, sem hinn stjórnarflokkurinn varð fyrir. Eftir rúmlega hálfrar aldar starf náði Alþfl. aðeins einum og hálfum hundraðshluta framar en SF, nýr flokkur, sem nú háði kosningabaráttu til Alþ. í fyrsta skipti og var svo varbúinn til bardagans, að hann bauð ekki einu sinni fram í öllum kjördæmum.

Alþingiskosningarnar síðustu sæta því miklum tíðindum í íslenzkum stjórnmálum, og ekki fyrir þá sök eina, að af þeim hlutust stjórnarskipti með öðrum hætti en Íslendingar hafa átt að venjast. Hausavíxl hrein og bein urðu á stjórnarflokkum og stjórnarandstöðu. Enn meira máli skiptir, að flokkakerfið, sem ríkt hefur frá fjórða tug aldarinnar, er rofið. Framtíðin ein sker úr, hvað við tekur, en þá verður illa á málum haldið af þeirra hálfu, sem vilja, að endurnýjun eigi sér stað, ef flokkakerfið skreppur í sitt fyrra far.

Það er því óskhyggja og ekkert annað, þegar talsmenn Sjálfstfl. hugga sig við, að fráfarandi stjórn hafi fyrst og fremst fallið fyrir nýjungagirni nokkurs hluta kjósenda, sem verið hafi orðnir þreyttir á þrásetu hennar þrjú kjörtímabil í röð. Væri þetta rétt skýring, hefði O-listanum orðið meira ágengt en raun ber vitni.

Sigurvegarinn í kosningunum var tvímælalaust SF. Samtökin sönnuðu eftirminnilega mál sitt í kosningabaráttunni, að ef kjósendur veittu þeim brautargengi til þingsetu, væri fráfarandi stjórn þar með fallin. Og fall hennar varð enn meira en þorri manna í flokkunum, sem að henni sóttu, hafði gert ráð fyrir. Í kosningunum snerist þingstyrkur fráfarandi stjórnar og stjórnarandstöðu hreinlega við, svo andstöðuflokkarnir höfðu að kosningum loknum nákvæmlega sama meiri hluta á þingi og stjórnarflokkarnir áður.

Ekki var því að heilsa, að flokkarnir þrír, sem standa að núv. ríkisstj., gengju til kosninga með sameiginlega eða samræmda stefnuskrá. Því fór svo fjarri, að eldri flokkarnir tveir gerðu hvað þeir gátu til að koma nýgræðingnum SF fyrir kattarnef, með því að halda því að kjósendum, að framboð hans væru öll með tölu vonlaus og atkvæðum, sem hann hlyti, því á glæ kastað. En þótt engin fyrirheit um samstöðu að kosningum loknum lægju fyrir, leiddu viðræður í ljós, að flokkarnir þrír gátu komið sér saman um stjórnarstefnu. Í kosningunum höfðu kjósendur lýst vantrausti á fráfarandi stjórn. Eftir réttum þingræðisreglum bar því stjórnarandstöðuflokkunum frá fyrra þingi að taka saman höndum um stjórnarmyndun, úr því að ekki bar á milli um meginstefnumál.

Fyrstu vikurnar og mánuðina eftir að stjórnin, sem nú situr, tók til starfa, höfðu nýbakaðir stjórnarandstæðingar mjög í flimtingum, að fyrstu ráðstafanir hennar jafngiltu því, að hún hefði efnt til veizlu til að kaupa sér vinsældir. Leitun mun á áróðursbragði, sem komið hefur höfundum sínum jafnrækilega í koll og þetta. Veizlubrigzlin báru því vott, að þeir, sem þar réðu ferðinni, höfðu ekki gert sér minnstu grein fyrir einni meginástæðunni fyrir falli svonefndrar viðreisnarstjórnar. Kjósendur höfnuðu henni ekki sízt fyrir þá sök, að með ýmsum ráðstöfunum á síðasta kafla valdaskeiðsins hafði hún brotið gróflega í bág við réttlætiskennd mikils hluta Íslendinga. Á sama tíma og viðreisnarstjórnin gerði ráðstafanir til að létta stórlega skatta á gróða og stóreignum einstaklinga og fyrirtækja skerti hún laun daglaunamanna og aflahlut sjómanna og skaut á frest hækkun tryggingabóta til gamalmenna og öryrkja. Þetta höfðu núverandi stjórnarflokkar fordæmt, þegar þeir voru í stjórnarandstöðu, og létu verða sitt fyrsta verk að hnekkja slíku misrétti, rétta hlut vinnu gagnvart fjármagni í þjóðfélaginu. Hnjóðsyrði um, að með því væri ástundað svall og sólund misstu gjörsamlega marks.

Enda var öðru nær en að núv. stjórnarflokkar lofuðu þjóðinni dansi á rósum í málflutningi sínum fyrir kosningar, þvert á móti. Það voru þáv. stjórnarflokkar, núv. stjórnarandstaða, sem héldu því fram í kosningabaráttunni, að í rauninni væri allt í stakasta lagi í þjóðarbúskapnum, ef þeir fengju bara að halda áfram ráðsmennsku sinni. Þeir bentu á verðstöðvun sína og sögðu hana flestra meina bót. Aftur á móti voru það núv. stjórnarflokkar, sem bentu mönnum á, að verðstöðvunin væri skammgóður vermir ein sér. Eftir kosningar hlyti að koma að skuldadögum, hverjir svo sem við völd væru.

Þetta skilur fólk, það veit, að núv. stjórn hefur hingað til átt við þann vanda helztan að glíma að jafna yfirdráttarskuldirnar, greiða víxlana á framtíðina, sem viðreisnarstjórnin lét eftir sig. Hver ímyndar sér til að mynda, að unnt sé að halda linnulaust áfram að hækka niðurgreiðslur af almannafé á verði ýmissa helztu neyzluvara? Hvernig á að standa við umsamdar launahækkanir til opinberra starfsmanna án þess að ætla til þess fé á fjárlögum? Stundum er helzt að heyra á talsmönnum stjórnarandstöðunnar, að hvort tveggja sé lafhægt.

Aðgerðir ríkisstj. fyrstu vikurnar, sem hún var við völd, bjuggu í haginn fyrir, að kjarasamningar tókust án stórátaka í vetur. Hefði allt verið með felldu um viðskilnað viðreisnarstjórnarinnar, ætti þjóðarskútan þar með að hafa komizt í lygnari sjó. En slíku er ekki að heilsa. Frá því um áramót og fram til þessa dags er verið að greiða bakreikningana frá síðustu valdamánuðum fráfarandi stjórnar. Þegar verðstöðvunin rann út, var óhjákvæmilegt að takast á við vandann, sem fyrri stjórn hafði slegið á frest. Framlag foringja stjórnarandstöðunnar er að gera ýtrustu hækkunarkröfur fyrir stofnanir og fyrirtæki, sem þeir veita forstöðu og áfellast svo ríkisstj. gagnvart almenningi fyrir, að hún beri ábyrgð á verðhækkunum, sem af hljótast, enda þótt hún skeri hækkanakröfur þessara sömu manna stórlega niður.

Meðferð borgarstjórnarmeirihlutans í Reykjavík á breytingum, sem gerðar voru á tekjustofnalögum sveitarfélaga, eru eitthvert ljósasta dæmið um henti stefnu foringja stjórnarandstöðunnar. Þegar till. um að gera fasteignagjald að öðrum aðaltekjustofni sveitarfélaga var rædd á þingi, viðurkenndu ýmsir talsmenn Sjálfstfl., að þeir hefðu fyrr hreyft svipuðum hugmyndum, en héldu því líka fram, að gjaldið væri ákveðið óhóflega hátt í frv. ríkisstj. Jafnframt var hafin áróðursherferð í Reykjavík til að telja Reykvíkingum trú um, að með hinum breyttu tekjustofnalögum væri framin aðför að Reykjavík, þar sem að hag borgarsjóðs væri þrengt stórlega. En svo þegar tekjustofnafrv. ríkisstj. var orðið að lögum, ákvað borgarstjórnarmeirihlutinn að láta ekki sitja við hina almennu reglu um fasteignagjald, heldur nota heimild til helmingshækkunar. Jafnframt var afgreidd framkvæmdaáætlun langt umfram það, sem áður hefur þekkzt í ýmsum þýðingarmestu greinum. Engum fær dulizt, hversu hér er ætlunin að leika tveim skjöldum. Álögur eru spenntar til hins ýtrasta í trausti þess, að unnt verði að skella skuldinni af því á ríkisstj. Jafnframt er gert ráð fyrir meiri framkvæmdum en nokkru sinni fyrr í því skyni, að borgarstjórnarmeirihlutinn hafi af sem mestu að státa, þegar gengið verður til borgarstjórnarkosninga. Svona brögð eiga ekkert skylt við stjórnmálastefnu. Annaðhvort telur Sjálfstfl., að fasteignaeigendum sé íþyngt jafnvel um of með hinu almenna gjaldi, sem lögin ákveða, og hegðar sér samkv. því, eða hann telur gjaldið svo hóflegt, eins og það var ákveðið að till. ríkisstj., að borginni sé óhætt að innheimta það með álagi. Vilji menn láta taka sig alvarlega, geta þeir ekki haldið hvoru tveggja fram.

Forustumenn stjórnarandstöðunnar ættu að leitast við að læra af reynslu sinni í landhelgismálinu. Eitt af því, sem tvímælalaust stuðlaði að falli fráfarandi stjórnar í síðustu kosningum og myndun þeirrar, sem nú situr, var, að flokkarnir þrír, sem að henni standa, mótuðu fyrir kosningar sameiginlega stefnu um útfærslu fiskveiðilögsögunnar. Þegar leitað var eftir allsherjarsamstöðu, voru núv. stjórnarandstöðuflokkar ekki reiðubúnir að fallast á svo ákveðna stefnumörkun. Nú hafa þeir góðu heilli staðið að einróma samþykki Alþ. á markaðri stefnu, og taka í landhelgismálinu þátt í að leggja á ráðin um, hversu henni skuli framfylgt.

Í þessu máli guldu núv. stjórnarandstöðuflokkar þess í síðustu kosningum, að þeir þekktu ekki sinn vitjunartíma, þótt þeir hafi síðan séð að sér. En furðuleg fastheldni við úrelt sjónarmið kemur líka fram í smáatriðum. Til að mynda er óhætt að fullyrða, að það mundi vekja almennan fögnuð útvarpshlustenda, ef þessar eldhúsdagsumræður væru styttar og látið nægja til þeirra eitt kvöld. Í ráði var að breyta til í þetta skipti, en það strandaði á þingflokki sjálfstæðismanna. Svo að engum sé gert rangt til, skal tekið fram, að formaður þingflokksins, hv. 1. þm. Reykv., var breytingunni meðmæltur.

Hróplegasta dæmið um það, hversu illa forustumönnum stjórnarandstöðunnar gengur að átta sig á breyttum viðhorfum í íslenzkum stjórnmálum, var ofsafengin tilraun þeirra strax eftir stjórnarmyndun og í upphafi þings til að sprengja ríkisstj. þegar í stað á utanríkismálum, afstöðunni til NATO og brottfarar hersins. Þeir, sem þar lögðu á ráðin, hafa alls ekki áttað sig á, að sá málflutningur, sem tíðkaðist á báða bóga á verstu árum kalda stríðsins, á alls engan hljómgrunn lengur. Tími er fyrir löngu til þess kominn, að menn hætti að láta eins og þeir telji hver annan sitja á svikráðum við dýrmætustu þjóðarhagsmuni, ef á milli ber um utanríkisstefnu og öryggismál. Menn verða að geta rætt þau mál eins og önnur, án þess að eigna hver öðrum hinar verstu hvatir jafnskjótt og orðinu er hallað. Reynslan hefur kennt þorra manna hér eins og annars staðar, að því fer fjarri, að á vettvangi heimsmála eigist annars vegar við börn ljóssins og hins vegar herskarar myrkursins og verkefni Íslendinga og annarra smáþjóða sé ekki annað en að þekkja rétt merki og skipa sér undir það. Allt of lengi hefur það haft óeðlileg áhrif á íslenzk stjórnmál, að reynt hefur verið að deila þjóðinni í ósættanlegar fylkingar eftir afstöðu til utanríkismála einni saman. Núv. stjórnarsamstarf byggist einmitt á því, að þótt menn séu ekki á einu máli um aðildina að Atlantshafsbandalaginu, skuli óbreytt ástand ríkja í því efni, en tími sé til kominn, að erlendri hersetu linni. Umr. hér á þingi um þetta mál hafa a. m.k. leitt í ljós, að allir flokkar hafna erlendri hersetu um aldur og ævi. Úr því að svo er, ætti engum að vera ofætlun að gera sér grein fyrir, að það er matsatriði, hvenær hersetu skuli ljúka, og umr. um það efni hljóta að geta átt sér stað með rökum en ekki hrópyrðum og dylgjum.

Störf þings og stjórnar fara því betur úr hendi sem mönnum, sem hlotið hafa sess í þingsölunum, er ljósara eðli umboðsins, sem kjósendur hafa veitt. Hvorki stjórn né stjórnarandstaða hafa til langframa hag af skyndiupphlaupum og auglýsingaskrumi. Þingmenn eru kjörnir til að taka ákvarðanir í nafni þjóðarinnar. Oft geta þær orkað tvímælis á líðandi stund, en það, sem úrslitum ræður, er árangurinn þegar frá liður. Eftir honum fellir þjóðin sinn dóm, þegar þar að kemur. Ég þakka áheyrnina.