12.05.1972
Sameinað þing: 68. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2163 í B-deild Alþingistíðinda. (2462)

Almennar stjórnmálaumræður

Björn Jónsson:

Herra forseti. Heiðruðu tilheyrendur. Stór orð hafa fallið í þessum eldhúsdagsumr. og á öðrum vettvangi um skeið af hálfu stjórnarandstöðunnar um illa meðferð ríkisstj. á málefnum verkalýðsstéttarinnar, og var hv. síðasti ræðumaður þar sízt orðvarari en aðrir. Ríkisstj. er m. a. sökuð um að kynda undir eldum óðaverðbólgu, sem lendi með mestum þunga á, láglaunastéttunum og valdi síhrakandi kaupmætti verkalauna. Hún er sótt til saka fyrir að standa fyrir fölsun kaupgjaldsvísitölunnar í kauplækkunarskyni að því ógleymdu, að launamenn séu skattpíndir meira en dæmi séu áður til og greipar látnar sópa um sparifé fólksins, og eru þá sízt oftalin árásarefnin. Þegar slíkur lestur er lesinn, mun mörgum koma í hug hið fornkveðna: Öðrum ferst, en ekki þér. A. m. k. mun svo flestum fara, sem ekki gleyma öllu jafnóðum, sem yfir þá dynur. Það er nefnilega staðreynd, sem enginn getur vefengt, að þeir, sem nú fjargviðrast af mestri hneykslan yfir verðhækkunum, settu hvert metið öðru meira á valdaferli sínum. Á síðustu 10 árunum, sem þeir voru við völdin, hækkaði vísitala vöru og þjónustu um hvorki meira né minna en 183 stig miðað við vísitöluna 100 1963, eða að meðaltali um 18–19 stig á ári. Og þegar lokin nálguðust, var skriðurinn enn svo þungur, að á síðustu valdamisserum fyrrv. stjórnar, þ. e. frá fyrsta ársfjórðungi 1970 til fyrsta ársfjórðungs 1971, hækkaði vöruverð og þjónusta um tæp 30 vísitölustig miðað við sama grunn og ég áður nefndi eða úr 230.9 stigum í 260.2 stig, þrátt fyrir það að síðla á þessu tímabili voru sett svokölluð verðstöðvunarlög, sem leyndu að miklu leyti þeirri raunverulegu þróun, sem þarna fór fram, en nú segir til sín opinberlega.

Já, er ekki von, að þeim blöskri, sem sjálfir báru stjórnarfarslega ábyrgð á slíkri þróun verðlagsmála, þegar nú er rætt um 5–10 stiga hækkun framfærsluvísitölunnar, hækkun, sem á að mjög verulegu leyti rætur að rekja til útgjaldaaukningar atvinnurekstrar og þjónustu, sem varð á verðstöðvunartímabilinu, en hefur ekki verið formlega staðfest og viðurkennd fyrr en nú. Og þá var víst öldin önnur, er Gaukur bjó á Stöng, hvað viðvék varðstöðu stjórnvalda um kaupmátt verkalauna og verðlagsbætur á laun. Þá var nú víst ekki verið að falsa vísitöluna eða skerða með ríkisstjórnaraðgerðum. Eða hvað? Fjórar gengisfellingar voru framkvæmdar á átta árum. Fylgdi þeim öllum ýmist algert afnám verðlagsbóta, eins og 1960 og 1961, eða stórfelld skerðing, eins og 1967 og 1968. Í fjögur ár samfellt voru verðlagsbætur á laun afnumdar með lögum, og samtök launafólks voru neydd til að heyja vinnudeilur allt að þrisvar sinnum á ári til að freista þess að halda í horfinu um launakjör sin, en tókst þó ekki oft og iðulega. Þannig hrakaði kaupmætti tímakaups verkamanna um nær 20 stig miðað við vísitölu 1963 sama sem 100 frá þriðja ársfjórðungi 1967 til þriðja ársfjórðungs 1969, og við fall viðreisnarinnar stóðu sakir þannig, að mjög skorti á þrátt fyrir öfluga sókn verkalýðssamtakanna í kjarasamningunum 1970, að náðst hefði fram sá kaupmáttur tímakaups, sem skárstur varð í tíð viðreisnarinnar, á árunum 1966 og 1967. Það varð ekki fyrr en með kjarasamningunum 4. des. s. l., sem því marki var náð, og þá raunar verulega meiru. Það er víst von, að þeim blöskri nú, viðreisnarmönnum, hversu stjórnin leiki grátt réttmætar verðlagsbætur á laun og kaupmátt verkalauna. En hvað er annars hæft í ásökunum stjórnarandstæðinga um þau efni? Er það rétt, sem þeir halda fram, að vísitala kaupgjalds hafi verið fölsuð, er hún var útreiknuð og ákveðin af kauplagsnefnd fyrir tímabilið 1. marz s. l. til 1. júní n. k., eða til standi að skerða hana með óeðlilegum hætti nú næstu daga, þegar verðlagsbætur verða ákveðnar fyrir næsta tímabil, sem samkv. kjarasamningum hefst 1. næsta mánaðar? Er það rétt fullyrðing, að kjarabæturnar, sem um var samið í des. s. l., séu foknar veg allrar veraldar af þessum ástæðum og vegna verðhækkana, sem orðið hafa að undanförnu? Þessar ásakanir er auðvitað skylt að kanna raunsætt, því að ekki er það a. m. k. mitt álit, að sú sorameðferð, sem þessi mál sættu á viðreisnartíðinni, sé nein afsökun fyrir meintu misferli núverandi stjórnar eða stjórnarflokka, þótt ekki hafi verið hjá því komizt að rifja þá meðferð að örlitlu leyti upp. Varðandi meðferð vísitölunnar er það fyrst að segja, að núv. ríkisstj. hefur engin afskipti haft af útreikningi hennar eða ákvörðunum um hana önnur en þau, að hún lét það verða eitt sinna fyrstu verka að skila launafólki aftur þeim þrem vísitölustigum, sem af þeim var rænt með verðstöðvunarlögunum í nóv. 1970. Að öðru leyti hefur þar í einu og öllu verið farið að gildandi lögum og gildandi kjarasamningum, sem í engu hefur verið breytt frá fyrri skipan þeirra mála um þessi efni. Hitt er líka rétt, að við útreikning vísitölunnar fyrir það tímabil, sem nú er að renna út, reis vanda- og vafamál vegna gerbreytts kerfis í skattamálum, er persónuiðgjöld til almanna- og sjúkratrygginga, sem að lögum ber að mæla við vísitöluútreikning, féllu niður með þar tilsvarandi lækkun kaupgreiðsluvísitölu, en fjár til trygginga var aflað með skattheimtu, sem að bókstaf laganna mældist ekki í vísitölureikningi. Enn jók það á þann vanda, hversu hér skyldi með fara, að ákvörðun kauplagsnefndar varð að taka, meðan svo stóð á, að niðurfelling persónuiðgjalda hafði öðlazt lagagildi, en frv. um skattamálin að öðru leyti voru þá enn í meðförum Alþ. og því ekki fullvíst með öllu um endanlegar niðurstöður um þau. Þegar hér var komið, gerði miðstjórn Alþýðusambands Íslands ályktun um málið, þar sem þess var krafizt, að ekki yrði um meiri lækkun kaupgreiðsluvísitölu að ræða en svaraði til þeirrar raunverulegu lækkunar, sem verða kynni á útgjöldum fjölskyldna með lágar eða miðlungstekjur vegna breytingarinnar á skattkerfinu. Með úrskurði kauplagsnefndar varðandi verðlagsbætur frá 1. marz s. l. og með yfirlýsingum hennar um meðferð málsins við næsta vísitöluútreikning var í verki á þetta sjónarmið verkalýðssamtakanna fallizt með því að halda eftir inni í útreikningnum ákveðinni upphæð persónuiðgjalda, þrátt fyrir afnám þeirra, upphæð, sem nam þeirri meðaltalsupphæð, sem líklegt þótti, að innheimt yrði eftir sem áður eftir öðrum leiðum skattkerfisins af lágtekju- og miðlungstekjufólki, sem vísitöluútreikningar eru byggðir á. Að óreyndu dreg ég ekki í efa, að kauplagsnefnd fylgi í einu og öllu við útreikning fyrir næsta vísitölutímabil þeirri stefnu, sem hún hefur þegar markað í þessu vandamáli, og verkalýðssamtökin muni geta unað þeim málalyktum, sem þar verða, eftir atvikum sæmilega. Komi hins vegar í ljós, að kauplagsnefnd telji sig skorta lagaheimild til að leysa hér vandamál eftir eðli þess og rökum, tel ég, að ríkisstj. beri siðferðisskylda til að veita henni slíka heimild og tryggja þannig sanngjörn málalok. En meðan ekki reynir á slíkt er með öllu ástæðulaust og ósæmilegt að hafa uppi getsakir og ásakanir, sem við engin rök styðjast.

Eins og ég áður gat um, er nú látið að því liggja, jafnvel fullyrt, að með þeim verðhækkunum, sem orðið hafa að undanförnu, hafi kjarabæturnar frá 4. des. s. l. og síðar allar verið hrifsaðar til baka af launþegum. Þetta fær auðvitað engan veginn staðizt. Að sönnu ákveða lög og samningar um verðlagsbætur á laun, að þær skuli reiknaðar á þriggja mánaða fresti og getur því, þegar um snöggar verðbreytingar er að ræða og miklar, mjög hallað á launafólk í lok kaupgreiðslutímabils, eins og þess, sem lýkur með þessum mánuði, og víst er svo nú. Á hitt er þá að líta líka, að 1. næsta mánaðar koma fullar umsamdar og lögfestar verðlagsbætur á kaup miðað við verðlag í byrjun maímánaðar, og réttist þá aftur hlutur launamanna nema að því leyti, sem verðlag hækkar í þessum mánuði, og að því leyti, sem verðlag landbúnaðarvara samkv. mjög gamalli og umsaminni reglu er ekki að fullu bætt í kaupgreiðsluvísitölu. En hvorugt þessara atriða er í neinu frábrugðið því, sem gilt hefur óumdeilt í fjölda ára. Enn er þess að geta, að 1. næsta mánaðar kemur einnig til framkvæmda annar áfangi umsaminna grunnlaunahækkana, 4%, þannig að allt kaupgjald hækkar með samanlagðri kaupgreiðsluvísitölu og grunnkaupshækkun um a. m. k. 9–10% og er þá fullvíst, að kaupmáttur tímakaups verður stórfellt hærri en hann var, þegar upp var staðið frá samningunum 4. des. s. l., og varla minna en sem nemur um 20% hærri en fyrir þá samninga. Er það ein mesta kaupmáttaraukning, ef ekki hin mesta, sem orðið hefur á jafnskömmum tíma. En sem dæmi um þær firrur, sem stjórnarandstæðingar leyfa sér að bera fram um þessi efni, nefni ég, að á öðrum ársfjórðungi 1971 var kaupmáttur tímakaups í almennri vinnu 111.9 stig miðað við framfærsluvísitölu og kaupmátt 100 í árslok 1970. Á öðrum ársfjórðungi þessa árs var þessi kaupmáttur orðinn 139.5 stig að meðaltali yfir þrjá síðustu mánuði eða 27 stigum hærri en hann var 1971, á síðasta valdamisseri viðreisnarstjórnarinnar, og kaupmáttur vikukaups, svo að við sleppum alveg vinnutímastyttingunni sem nokkurri kjarabót, hefur hækkað á sama tíma úr 112.9 stigum í 126.8 stig eða um 13.9 stig eða um meira en 12%. Pétur Pétursson hneykslaðist hér áðan niður í tær yfir því, að ég og Hannibal Valdimarsson stæðum fyrir þessari þróun mála. En ég játa fúslega, að ég er ekki sómakærari maður en svo, að ég skammast mín ekki fyrir hana, heldur fagna því að hafa átt hlut að því að bæta svo mjög hag hinna lægst launuðu sem hér er raun á. Engu að síður segi ég það, að verðlagsþróun undanfarinna mánaða er auðvitað hið mesta alvörumál og áhyggjuefni öllum hugsandi mönnum, vandamál. sem verður að snúast við með öllum tiltækilegum ráðum, sem ekki skerða kjör almennra launþega. Játa verður, að það viðnám, sem ríkisstj. og launþegasamtökin hafa veitt í þessum efnum, m. a. gegnum vald sitt í verðlagsnefnd, hefur ekki hindrað mjög tilfinnanlegar verðlagshækkanir. En frá upphafi var slíkt raunar augljóst. Á verðstöðvunartímabilinu safnaðist upp urmull verðhækkanatilefna, sem nú verður ekki lengur hjá komizt að viðurkenna, þar sem slíkt hefði leitt til stöðvana, bæði í ýmsum atvinnurekstri og þjónustu. Stór hluti hækkananna er því neikvæður arfur frá stjórnartíð viðreisnarherranna, sem nú senda þeim tóninn, sem eru að reyna að leysa þann vanda, sem þeir fyrrnefndu áttu mestan hlut að að skapa.

Í annan stað hlaut 10% hækkun tímakaups vegna vinnutímastyttingar og a. m. k. 4–8% eða jafnvel meiri grunnlaunahækkun að leiða til nokkurra verðbreytinga. Slíkt gat engum á óvart komið. Eins og nú er ástatt, er þó aðalatriðið, að ekki verði slakað á því viðnámi, sem veitt hefur verið fram til þessa gegn gegndarlausri og skammsýnni ásókn atvinnurekenda, svo sem í ýmissi þjónustustarfsemi og verzlun, í að koma fram verðhækkunum umfram brýnustu nauðsyn, ásókn, sem er sérstaklega studd leynt og ljóst af Sjálfstfl. Og einnig, að spornað verði með viðeigandi aðgerðum í fjármálum ríkisins, peningamálum og framkvæmdastarfsemi við allri frekari þenslu í hagkerfinu, þenslu, sem kynni að geta leitt til samdráttar í atvinnulífinu og þá sérstaklega í útflutningsframleiðslunni, sem er hvort tveggja í senn okkar lífakkeri efnalega og jafnframt í mestri hættu vegna verðbólgunnar ásamt með launastéttunum. Takist ríkisstj. að stemma hér á að ósi, eins og ég hygg, að vel sé mögulegt, má með hóflegri bjartsýni ætla, að við séum nú komnir yfir erfiðasta hjallann í sambandi við verðlagshækkanirnar og að mjög dragi úr þeim á síðari hluta þessa árs eða jafnvel miði mjög verulega að stöðvun þeirra. Eitt hið alvarlegasta við það þensluástand, sem nú ríkir, er sá fyrirsjáanlegi halli, sem verður á utanríkisviðskiptum þjóðarinnar á þessu ári. Sá halli verður þó trúlega ekki meiri, nema miklu síður sé, en varð á síðasta ári, en þá voru metin jöfnuð með stórfelldum fjármagnsflutningi til landsins, með lántökum erlendis. Slíkur búskapur fær ekki staðizt til lengdar, og jafnvægi verður að komast á, ef ekki á til stóráfalla að leiða. Þessi vandi verður aðeins leystur með tvennum hætti. Annars vegar með þeim jákvæða hætti að auka gjaldeyrisöflunina með eflingu útflutningsatvinnuveganna og hins vegar með því að stemma stigu við meiri eftirspurn á innflutningi og eyðslu gjaldeyris en öflun hans fær undir risið.

Núv. ríkisstj. og flokkar hennar hafa á skömmum tíma lyft Grettistaki því, sem að því lýtur að leysa þetta mál eftir jákvæðu leiðinni. En fæstar þær aðgerðir munu skila árangri þegar í stað. Sú geysilega mikla endurnýjun og aukning, sem nú er hafin á fiskiskipaflotanum, fer ekki að segja til sín, svo að úrslitum geti valdið, fyrr en á árunum 1973 og 1974 og að nokkru enn síðar. Aðrar hafa þegar í stað áhrif til örvunar útflutningsframleiðslunnar. Má þar til nefna þær miklu og réttmætu kjarabætur, sem sjómönnum hafa verið veittar, m. a. með breytingu á lögum þeim, sem fyrrv. ríkisstj. setti 1968 samhliða gengisfellingunni þá og skertu mjög samningsbundin laun þeirra. Sjómenn munu vissulega kunna að meta þessar miklu kjarabætur og þær að öðru jöfnu auka möguleika útvegsins til þess að ná sínum nauðsynlega hlut hins takmarkaða mannafla, sem atvinnugreinarnar nú togast á um. Enn má hér til nefna vaxtalækkun stofnlána útvegsins, lengingu lánstíma, lækkaða stofnlánavexti. Allt eykur þetta bjartsýni um áframhaldandi velgengni útvegsins og er að verulegu leyti undirstaða þess áhuga og áræðis, sem nú sér glöggan stað í ákafri eftirspurn eftir nýjum og fullkomnum skipakosti, sem á komandi árum mun mala þjóðinni ómælt gull útflutningsverðmæta. Enn vil ég hér til nefna sérstakar ráðstafanir, sem gerðar eru og gerðar munu verða til þess að efla fullvinnslu sjávarafurða, m. a. með löggjöf um sérstaka sölustofnun niðursuðuiðnaðarins með verulegum fjárstuðningi af opinberri hálfu. Takist þeirri stofnun að ná þeim markmiðum, sem henni eru ætluð, er næsta líklegt, að þar sé um að ræða þáttaskil í þróun þessa mikilsverða iðnaðar til stórfelldra hagsbóta bæði í gjaldeyrisöflun og ekki síður fyrir byggðarlögin í sjávarbyggðunum víðs vegar um landið.

Hvað hinum þættinum, sem snýr að lausn gjaldeyrisbúskaparins, viðkemur, þeim, sem kallazt gæti hinn neikvæði, — þ. e. aðgerðir, sem leiða til minnkaðrar eftirspurnar, a. m. k. í bili, — má sjálfsagt um deila, hvort ríkisstj. hefur staðið þar nægilega í ístaðinu. Hún er t. d. mjög gagnrýnd fyrir það að hafa með framlagðri framkvæmdaáætlun sinni fyrir yfirstandandi ár allt að því þrefaldað framkvæmdamagnið miðað við áætlun fyrrv. ríkisstj. og ekki minnst fyrir að hyggjast bjóða út 500–600 millj. kr. spariskírteinalán í fjáröflunarskyni, sem muni leiða að áliti stjórnarandstæðinga til minnkaðra möguleika viðskiptabankanna til að sinna þörfum atvinnuveganna. Þá er því og haldið fram, að þessar opinberu framkvæmdir muni í stórum stíl draga vinnuafl frá framleiðslunni, sérstaklega til byggingariðnaðarins, og þannig auka hinn efnahagslega vanda. Ákærur af þessu tagi ber þó að mínu viti að taka af mikilli varúð og kraftur þeirra lamast óneitanlega strax og þess er gætt, að samtímis er ríkisstj. líka gagnrýnd fyrir það, að hún hyggist ekki afla nægilega mikils fjármagns til fjölmargra framkvæmda, svo sem til Byggingarsjóðs ríkisins og til samgöngumála. Og frá stjórnarandstöðunni hefur enn ekki heyrzt nein till. um samdrátt framkvæmda. Meðan svo er, verða ásakanirnar tæpast teknar allt of alvarlega og ekki heldur, þó að þær komi frá Jóhanni Hafstein, sem sagði hér í kvöld, að framkvæmdirnar allar væru í sjálfu sér góðra gjalda verðar.

Um útgáfu spariskírteina er það að segja, að með þeim ráðstöfunum er í raun aðeins viðurkennd sú staðreynd, að sama fjármagn verður ekki notað nema einu sinni. Það er aðeins um að ræða það, að þessi tiltekni hluti sparifjármyndunarinnar í landinu verði nýttur til samfélagslegra verkefna, í stað þess að hann verði notaður til aukinnar einkaneyzlu eða einkaframkvæmda. Jafnframt felur sú ráðstöfun í sér bættan hag sparifjáreigenda og þar með auknar líkur fyrir vaxandi sparnaði og eðlilegum rekstri sparifjár. En slíkt er grundvallarnauðsyn, eins og nú er ástatt. Er því mjög fjarri lagi, að þessi aðgerð sé eða verði verðbólguaukandi, heldur er miklu líklegra eða jafnvel öruggt, að hún ein fyrir sig dragi mjög verulega úr þeirri umframeftirspurn, sem nú er eitt stóru vandamálanna í efnahagslífinu.

Þegar núv. stjórnarflokkar mynduðu ríkisstj. sína fyrir um 10 mánuðum síðan, settu þeir sér mörg og mikil markmið, sem þeir hétu að keppa að að ná á kjörtímabilinu. Þótti ýmsum, jafnvel þeim, sem studdu stjórnarmyndunina, að ýmis þeirra markmiða hefðu þeir sett sér af fullmikilli dirfsku, og andstæðingunum hló hugur í brjósti, vegna þess að með stefnuyfirlýsingunni 14. júlí hefðu stjórnarflokkarnir reist sér hurðarás um öxl og ákveðið þá mælistiku á gerðir sínar og stjórnarháttu, sem mundi reynast andstöðunni harla hagstæð, þegar reynslan færi að segja til sín. Nú má öllum vera auðsætt, að 10 mánuðir eru allt of skammur tími til þess, að nokkur fullnaðardómur verði lagður á árangur stjórnarsamstarfsins, og kemur þar margt til, svo sem viðskilnaður fyrri stjórnar, sem á fjölmörgum sviðum hefur hindrað og torveldað snöggar umbætur. Af því tagi nefni ég sérstaklega þrot flestra eða allra fjárfestingarsjóða og fyrirframeyðslu þeirra af hugsanlegum tekjum yfirstandandi árs eða jafnvel næstu ára. Fyrirframeyðsla og fjárvöntun hefur örugglega mælzt í mun hærri upphæð en allri framkvæmdaáætlun ríkisins nemur á þessu ári. Það var blómlega búið, sem Jóhann Hafstein var að lýsa hér áðan. Ég nefni hér t. d. Fiskveiðasjóð, Byggingarsjóð ríkisins, Byggðasjóð, Stofnlánadeild landbúnaðarins og svo Vegasjóð. Fjárskortur þessara sjóða, jafnvel hvers um sig, nemur hundruðum og aftur hundruðum millj. kr. Áður hef ég nefnt þann arf, sem við var að taka í verðlagsmálunum og mestu hefur valdið um verðhækkanir að undanförnu, og síðast en ekki sízt þær óuppgerðu sakir, sem ríkisstj. átti við verkalýðssamtökin og gerði stórfelldar kauphækkanir og kjarabætur óumflýjanlegar þegar í upphafi stjórnarsamstarfsins. Við þetta má svo bæta formlegum skuldbindingum fyrrv. stjórnar, svo sem kjarasamningi hennar við BSRB, sem kostar ríkissjóð a. m. k. einn milljarð í auknum útgjöldum á þessu ári, það er samningurinn, sem var að innleiða hina nýju auðstétt, sem Stefán Gunnlaugsson talaði hér um áðan, og enn fremur ýmiss konar löggjöf, sem sett var af kosningaótta viðreisnarflokkanna á síðasta þingi, en sem núv. stjórnarflokkar hlutu allan vanda af að standa við og afla fjár til. Þegar réttmætt tillit er til alls þessa tekið, er það a. m. k. mitt álit, að ekki verði með neinni sanngirni sagt annað en ótrúlega miklum áföngum hafi verið náð á skömmum tíma. Í þeim efnum er mér ofarlega í huga sú breyting, sem orðið hefur í afstöðu stjórnvalda gagnvart verkalýðssamtökunum og þeim málefnum, sem henni eru tengdust og hagsmunum umbjóðenda þeirra. Þar nefni ég fyrst til þá byltingu, sem framkvæmd hefur verið í almannatryggingalöggjöfinni og sem m. a. áskilur elli- og örorkulífeyrisþegum tekjutryggingu, sem ríflega svarar lágmarksdagvinnukaupi verkamanna, ef um hjón er að ræða, ásamt mörgum fleiri gagngerðum umbótum. Ég spyr ykkur, góðir tilheyrendur: Er líklegt, að viðreisnarstjórnin hefði gert þessa byltingu? Ég minni á kjarasamningana 4. des., er ríkisstj. í fyrsta skipti í meira en áratug beitti áhrifavaldi sínu og þingstyrk til aðstoðar verkalýðshreyfingunni í umfangsmestu kjaradeilu síðustu áratuga með setningu löggjafar um 40 stunda vinnuviku og lengingu orlofs í 4 vikur. Ég spyr ykkur enn: Hefði fyrrv. ríkisstj. tekið slíka afstöðu með verkalýðssamtökunum og tryggt þeim þannig fullkomnari löggjöf í þessu efni en dæmi eru til, a. m. k. í V.-Evrópu og jafnvel þótt víðar væri leitað? Ég minni á ráðstafanir ríkisstj. til þess, að upp verði tekin skipuleg uppbygging atvinnuveganna með áætlunargerð fram í tímann í samræmi við stefnu verkalýðshreyfingarinnar. Ég nefni fyrirhugaðar breytingar á lögum um húsnæðismálastjórn, sem m. a. losar húsbyggjendur undan okuráhrifum vísitölubindingar húsnæðislána að frumkvæði verkalýðssamtakanna. Hefði viðreisnin, sem átti frumkvæðið að þessu lánaokri, gert slíkt hið sama?

Ég minni á þá stórfelldu nýsköpun, sem nú er hafin á sviði útgerðar og fiskvinnslu og sem skapa mun kjörum og atvinnumöguleikum fólks um allar sjávarbyggðir landsins nýjan og traustari grundvöll en áður hefur verið fyrir hendi. Er líklegt, að þeim, sem skipulögðu eyðingu togaraflotans á valdatíma sínum, hefði svo mikið sem dottið í hug að standa fyrir slíkri nýsköpun? Ég nefni þær miklu endurbætur, sem gerðar hafa verið í skattamálum, og alveg sérstaklega þá, að öll persónuiðgjöld til trygginga hafa verið afnumin, en sú skattheimta kom að sjálfsögðu harðast niður á þeim, sem tekjulægstir voru, jafnvel svo, að gjöldin gátu verið jafnhá eða hærri en allar tekjur viðkomanda. Einnig hitt, að skattbyrðunum að öðru leyti er nú dreift réttlátlegar en áður, svo að mikill meiri hluti gjaldenda fær stórlækkaða skatta, en hinir, sem betur mega, bera að tiltölu þyngri byrðarnar. Ekkert moldviðri fær hnekkt þeirri staðreynd, að meðaltalsskattar á almennar launatekjur þeirra, sem hafa 200–600 þús. kr. árslaun, lækka um a. m. k. 10–15 þús. kr. á framteljanda að meðaltali, miðað við eldra skattkerfið. Hitt er rétt, að hinar miklu félagslegu umbætur, sem ríkisstj. hefur staðið fyrir, hafa m. a. útilokað, að heildarskattbyrðin léttist að marki frá því, sem orðið hefði eftir viðreisnarkerfinu. En fyrir hina tekjulægri er vinningurinn vissulega mikill og alveg óumdeilanlegur. Ég fullyrði, að fyrrv. ríkisstj. hefði ekki leyst fjáröflunarvandamál hins opinbera með slíku tilliti til þeirra, sem miður mega, þótt ég á hinn bóginn játi, að núverandi skipan skattamála þurfi enn mikilla endurbóta við, en að þeim endurbótum er nú unnið kappsamlega. Svo mætti miklu lengur telja, þótt tími minn leyfi það ekki, enda er máli mínu senn lokið.

Að endingu vil ég því einu við bæta, að svo mörgum og góðum málum, sem núv. stjórnarflokkar hafa þegar staðið að, rís þó eitt yfir öll önnur, en það er sú forusta fyrir þjóðareiningu í stærsta og mesta lífshagsmunamáli þjóðarinnar í nútíð og framtíð, landhelgismálinu, sem stjórnarflokkarnir hafa veitt og munu halda áfram að veita, þar til fullur sigur er unninn. Bjargfastur vilji og einhugur í því máli, svo og öðrum þeim stóru málum, sem ég hef hér í örstuttu máli minnt á, eru slík úrslitaatriði, að allur minni háttar ágreiningur, sem vissulega hlýtur alltaf að vera fyrir hendi í samstarfi stjórnar margra flokka, mun ekki valda friðslitum, eins og stjórnarandstæðingar óska og þrá framar öllu öðru. Allar tilraunir þeirra til þess að blása að glóðum innri andstæðna milli stjórnarflokkanna eru því ekki aðeins dæmdar til að mistakast, heldur munu þær verða ríkur hvati þess að styrkja samstöðu þeirra um þau málin, sem mestu varða. Meðan sú samstaða er fyrir hendi og alþýða manna stendur að baki henni, er full ástæða til bjartsýni um framtíðina. — Góða nótt.