12.05.1972
Sameinað þing: 68. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2170 í B-deild Alþingistíðinda. (2463)

Almennar stjórnmálaumræður

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Hlustendur hafa nú heyrt frá stjórnarandstæðingum, hvílík dýrðarafkoma var á samanlögðu þjóðarbúinu, þegar viðreisnarstjórnin skildi við í tvöföldum skilningi. Nú í kvöld, þegar þeir stjórnarandstæðingar lesa upp hjartnæmar minningargreinar um viðreisnina sálugu, kemur í ljós m. a., að allir sjóðir landsmanna hafa verið komnir á svo hroðalegt peningafyllirí, að til hreinna vandræða horfði. Samkv. þessu hafði tekizt með samstilltu átaki í 12 ára viðreisnarstjórn að koma ellilífeyrinum upp í 4900 kr. fyrir einstakling og upp í tæp 8 þús. fyrir hjón. Þess vegna blöskraði mér alveg, þegar Pétur Pétursson fór að guma af afrekum krata í þessum efnum í kvöld.

Verðjöfnunarsjóður stækkaði hröðum skrefum síðasta stjórnarárið, enda eitt farsælasta ár í aflabrögðum um langt skeið. En hins vegar hafði af einhverjum ástæðum gleymzt að skila sjómönnum aftur því, sem þeir höfðu verið rændir skömmu eftir sólhvörf á hinu magra ári, 1968. En það var bara fleira, sem hafði gleymzt. Það þurfti fjármuni til að standa við umsamda samninga við opinbera starfsmenn. Það þurfti meiri fjármuni til að bæta úr því ófremdarástandi, sem tryggingamálin voru komin í, og það þurfti að gera sér grein fyrir því, að óhjákvæmilegt var að hækka verulega kaup ýmissa launastétta, sem sumar hverjar höfðu dregizt langt aftur úr á verðstöðvunartímabilinu. En því var komið á samkv. gamalli hefð fyrir kosningar til þess eins að reyna að slá ryki í augu fólks, eins og heppnazt hafði þrisvar áður. Það var reynt að dylja almenning þeirrar staðreyndar, að verðbólgan heldur sínu striki, þótt sauðargæru verðstöðvunar sé brugðið yfir hana um stundarsakir. Almenningi var þetta ljóst af illri reynslu.

En það er verðugt verkefni fyrir Gylfa Þ. Gíslason að skýra þetta út fyrir fólki, þar sem þekking hans er nú fersk, og ekki sízt vegna blekkingar Jóhanns Hafstein um þetta efni hér í kvöld.

Einn af höfundum viðreisnarstefnunnar hafði varað við mögnuðum draug, sem reið húsum, og þeirri hrollvekju, sem við blasti, er stífla verðstöðvunarinnar brysti og draugurinn renndi sér niður af þekjunni. Gunnar Thoroddsen minntist áðan á þessa sömu hrollvekju, vafða í búning gamallar álfasögu, og var það vel til fundið, því að það voru einmitt álfar viðreisnarinnar, sem vöktu upp drauginn, og þess vegna eru þær verðhækkanir að undanförnu, hvernig svo sem Stefán Gunnlaugsson hamast í því máli. Einmitt þetta hefur jafnan skeð áður, þrátt fyrir digurmæli Jóhanns Hafstein hér í kvöld.

Þegar stjórnin nýja bætti nokkuð skammarlega lágar lífeyrisbætur og leiðrétti kjör fiskimanna, kölluðu pólitísku Síamstvíburarnir, Jóhann og Gylfi, að boðið væri til veizlu. Þeir höfðu vanizt að bjóða öðrum þegnum þjóðfélagsins til veizlu en þeim, sem verst voru settir.

Veðurlag í utanríkismálum hafði verið með eindæmum gott allt viðreisnartímabilið, logn og ládautt. Viðreisnin fylgdi dyggilega sínum húsbónda á hverju sem gekk, og ekki heyrðist einu sinni bofs, þegar vestrænir vinir vorir viðruðu sína pólitísku seppa á alþjóðavettvangi, hvort sem þeir voru af grísku, portúgölsku eða íslenzku kyni. Þegar leið að kosningum, komst landhelgismálið með svo skyndilegum hætti á lokastig, að minnti helzt á sögu úr ævintýrum Grimms-bræðra. Ákveðið var að skipa nefnd í málið. Nú þurfti að fara að ræða við útlendinga. En fólkið í landinu var alls ekki á sama máli um vinnubrögðin. Því var orðið ljóst, að til róttækra ráðstafana þurfti að grípa í þessu stærsta hagsmunamáli þjóðarinnar, og til þess treysti það ekki viðreisninni. Það vissi, að framkvæmdar væri löngu þörf í þessu efni og einnig, að ekkert hafði verið gert allan viðreisnartímann, ekki einu sinni talað við útlendinga. Því var ljóst af gamalli reynslu, að ef eitthvað átti að verða af útfærslu, ef eitthvað átti að hreyfa við sjálfstæðismálum þjóðarinnar, ef eitthvað átti að gera til þess að endurnýja framleiðslutæki þjóðarinnar, svo að hún yrði betur í stakkinn búin en áður að mæta mögru ári, þá þurfti hún að fá vinstri stjórn. Það kemur sem sagt í ljós, að til þess að setja markið hátt í málum, sem varða samskipti okkar við útlendinga, eins og í landhelgismálinu, þarf vinstri stjórn. Til þess að barizt sé öðru fremur fyrir kjörum þeirra, sem minna mega sin, þarf fólk að kjósa sér stjórn, sem hefur það að markmiði. Sú stjórn er vinstri stjórn. Og fólkið fékk hana.

Stjórnin hefur verið á milli tannanna á fólki. Það hefur verið fylgzt með gerðum hennar betur en gert var nokkru sinni með fyrrv. stjórn. Það er vafalaust ekki vegna þess, að fólk vantreysti stjórninni, þaðan af síður, að samanburður við hina fyrri sé þeirri síðari í óhag. Það er vegna þess, að menn gera alltaf meiri kröfur til vinstri stjórnar og það leggur henni þar af leiðandi meiri skyldur á herðar, en veitir henni jafnframt meiri og betri siðferðilegan stuðning.

Frá því að úrslit kosninganna voru kunn og ekki síður eftir að stjórnin var mynduð, hefur stjórnarandstaðan og þá fyrst og fremst Morgunblaðsmenn ráðizt að henni af móðursýkislegri heift. Það bendir til þess, að stjórnin sé á réttri leið. En á hvað hefur verið ráðizt fyrst og fremst? Í fyrsta lagi hin svokölluðu varnarmál og sjálfstæðari og mannlegri stefnu í utanríkismálum. Maður átti varla von á að heyra sömu orðin og maður las hér í dagblöðum frá valdatímum nazista, þau, að við værum að hætta viðskiptasamningum með óhæfilegu brölti í utanríkismálum, en þetta leyfði Ólafur G. Einarsson sér að segja hér áðan. Þessi mannborlegri stefna í utanríkismálum varð upphaf síbylju, sem byrjaði á því, að á Íslandi yrði ævinlega að vera erlendur her. Síðan var mikil hneykslun fólgin í því, að sendinefnd okkar hjá Sameinuðu þjóðunum vildi ekki greiða atkv. í Kínamálinu, eins og Portúgal og Grikkland gerðu ein Evrópulanda. Og loks enduðu ósköpin á hneykslanlegri tillögu sjálfstæðismanna, þar sem þeir vildu afleggja þingræðisleg og lýðræðisleg vinnubrögð Alþ., þegar um utanríkismál var að ræða. Af öllu þessu brölti höfðu þeir ekkert nema skömm og sýndu endanlega fram á það, að nafn flokksins er orðið að hreinu öfugmæli.

Við afgreiðslu fjárl. réðst stjórnarandstaðan heiftarlega að ríkisstj. fyrir mikla hækkun á fjárl. og óráðsíu í fjármálum. Hins vegar voru brtt. þeirra til hækkunar margar, um mörg hundruð prósent. En mér er þó einkum minnisstætt plagg nokkurt með brtt. frá Gylfa Þ. Gíslasyni, þar sem hann gerir till. frá sér einum til viðbótar við fjárl., sem samtals námu yfir 400 millj. kr. Ef allir þm. hefðu farið eins að, hefðu fjárl. getað hækkað um langtum meira en helming. Ef þetta er ábyrg stjórnarandstaða, þá eru merkingar orðanna farnar að ruglast heldur óþyrmilega. Ég legg til, að þessi þm. fái enn á ný námsstyrk frá ríkinu til aukins framhaldsnáms í hagfræði. Mér sýnist ekki veita af, auk þess sem þingflokkur Alþfl. er allur annar og betri, meðan formaðurinn stúderar.

Skattamálin hafa verið talsvert til umræðu og ætla ég ekki að leggja þar mörg orð í belg. Ég vil aðeins minna á þá staðreynd, að þeir skattar, sem greiddir voru eftir efnum og ástæðum annars vegar, og þeir, sem greiddir voru á hvern mann án tillits til efna hins vegar, hefðu með gamla kerfinu orðið svipaðir að stærð á þessu ári, og sjá allir, hversu óskaplegt ranglæti það hefði verið. En þetta réttlætismál lét Jóhann Hafstein sér sæma að ráðast á með argasta útúrsnúningi hér fyrst í kvöld. Auk þess mætti benda á, að hlutur einstaklinga í beinum sköttum hefur breytzt á áratugnum frá 1960–1970, þannig að einstaklingar greiddu 59% 1960, en 82% 1970. Með nýju skattalögunum frá því í fyrra hefði þetta hlutfall orðið enn óhagstæðara almenningi. Þessi lög sömdu þeir menn, sem nú þykjast bera hag hins almenna skattgreiðanda svo mjög fyrir brjóstinu og hafa ausið krókódílstárum sínum yfir slúðurdálka Moggans, svo að ekki er að kynja, þó að almenningur ruglist nokkuð í ríminu hvað skattamálin snertir og reyndar þjóðmál yfirleitt. Það er nauðsynlegra nú en nokkru sinni fyrr, að fólk lesi auk Moggans a. m. k. annað stjórnarblaðanna. Svona mætti lengur telja um frammistöðu stjórnarandstöðunnar. En tíminn er naumt skammtaður, svo að ég vildi að lokum aðeins segja þetta. Stjórnarandstaðan með Jóhann Hafstein og Gylfa Þ. Gíslason í fararbroddi hefur enn ekki áttað sig á umskiptunum við kosningarnar, eins og menntmrh. minntist svo skemmtilega á í ræðu sinni hér í kvöld.

Þeim félögum svíður, að nú er stefnt að lausn hinna stærstu mála eins og landhelgismálsins, meðan yfirboðstillögur krata og sjálfstæðismanna í því máli voru kattarþvotturinn einber. Nú er stefnt að endurnýjun togaraflotans, sem drabbazt hafði niður úr 44 stórum síðutogurum í tæplega 20 skip, sem flest hver ganga óðum úr sér. Ekkert hefur verið gert til endurbóta í frystihúsum á liðnum árum, en sá stóri baggi skilinn núv. stjórn eftir til úrlausnar.

Stjórnarandstaðan hamast ekki svo heiftarlega vegna þess, hve illa er unnið, heldur vegna þess að hún er hrædd við, að fólk sjái nú almennt, svo að ekki verði um villzt, að til hinna háu markmiða og til þess að tekizt sé á við stórmálin þarf vinstri stjórn. Og þá fer vel.

Ég þakka þeim, sem hlýddu. — Góða nótt.