12.05.1972
Sameinað þing: 68. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2182 í B-deild Alþingistíðinda. (2468)

Almennar stjórnmálaumræður

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Góðir hlustendur. Þetta eru fyrstu útvarpsumr., sem fram fara eftir seinustu alþingiskosningar. Mér þykir því hlýða að þakka kjósendum um land allt hið mikla traust, sem SF var sýnt í kosningunum. Það reyndist rétt, sem við sögðum í kosningabardaganum, að stjórnarfarið í landinu yrði undir því komið, hver verða mundi hlutur SF á kjördegi. Við sigur SF þann dag féll stjórn Sjálfstfl. og Alþfl. og ný stjórn var mynduð. Hún hefur nú starfað í 10 mánuði, og er a. m. k. ekki á hana deilt fyrir aðgerðaleysi. Munu flestir viðurkenna, að kosningaúrslitin ollu þáttaskiptum, jafnvel tímamótum í íslenzkum stjórnmálum.

Það gladdi mig stórlega að heyra fulltrúa Alþfl., Pétur Pétursson, lýsa yfir því í umr. á föstudaginn, að jafnaðarstefnan hefði unnið mikinn sigur í seinustu kosningum. SF þakka þá viðurkenningu, því að óhugsandi er, að ræðumaður hafi átt við Alþfl. með þeim orðum sínum, en við skulum samt ekki metast á um það.

Hjartanlega var ég líka sammála honum, er hann sagði það öldungis fráleitt, að hér væru tveir jafnaðarmannaflokkar. Þeir ættu og yrðu að sameinast á næstu vikum eða mánuðum. Mæl þú manna heilastur, segi ég, en þá skulum við heldur ekki láta sitja við orðin tóm. Alþfl. bíður, sagði hann, og þar með gaf hann víst í skyn, að það kynni að standa á SF. En ég fullvissa þennan hv. Alþfl.-mann um, að eftir okkur þarf ekki að híða. Við erum reiðubúin þegar í stað. SF voru til þess stofnuð að rjúfa staðnað flokkakerfi og sameina alla jafnaðarmenn og samvinnumenn í einum flokki. Sameiningarmálið var okkar stærsta mál í kosningunum að landhelgismálinu einu undanskildu. Það var ekki sízt sameiningarvilji fólksins, sem færði okkur hinn glæsilega sigur heim. Könnum því sem fyrst meðal flokksfólksins og í forustuliði flokkanna, hvort sjónarmið eru ekki samrýmanleg í meginþáttum innanlandsmála og í utanríkismálum, og reynist það svo, sem ég er innilega sannfærður um, þá er ekki eftir neinu að biða, heldur ganga í það að gera orð og áform að veruleika.

Það var mikil þjóðarauðna, að allsherjarsamstaða skyldi nást í landhelgismálinu. Voldugum og harðsnúnum andstæðingum okkar er orðið það vel ljóst, að í því máli er einhuga þjóð að mæta. Héðan í frá skiptir öllu máli, að mér finnst, að eining flokkanna um málið geti haldizt. Því aðeins varðveitist þjóðareining um málið. Þjóðinni hefur tæpast verið gert það nægilega ljóst, að það er miklu meira en að segja það að leiða landhelgisdeiluna um 50 mílur fram til sigurs. Það er miklu meira en að segja það. Það er við stórveldi heims og allar þjóðir V.-Evrópu að kljást. Við höfum því óneitanlega færzt mikið í fang. Um það er ekki deilt, svo að ég viti, að viturlegt sé að leita bráðabirgðaúrlausnar um takmarkaðan tíma við Breta og Þjóðverja, ef með því mætti takast að forða beinum árekstrum og harðvítugum einangrunaraðgerðum á viðskiptasviði. Þar má þó í engu lengra fara en að allir flokkar geti fallizt á það og engum samningsböndum bindast lengur en þar til alþjóðlegu hafréttarráðstefnunni um réttarreglur á hafinu er lokið, ella kynnum við að binda okkur kvöðum, sem aðrar þjóðir yrðu ekki bundnar síðar á ráðstefnunni. En takist slíkt bráðabirgðasamkomulag ekki og án afarkosta, er ég þess fullviss, að þjóðin lætur aldrei bugast og berst einhuga til fulls og endanlegs sigurs. Með lausn landhelgismálsins er Ísland orðið stærra land og betra land og þó að málið sé nú lífshagsmunamál fyrir Ísland, sem það óneitanlega er, þá er það jafnframt í eðli sínu í enn ríkari mæli stórmál fyrir sveltandi þjóðir heims og einnig þær ágætu viðskiptaþjóðir okkar, sem nú berjast gegn okkur af fullu skilningsleysi á eðli þess.

Stórfurðulegt finnst mér allt tal sjálfstæðismanna í þessum umr. um það, hversu grátt aldrað fólk og öryrkjar og láglaunafólk yfirleitt sé leikið af núv. ríkisstj. Var yfirleitt dekrað við þess konar fólk af fyrrv. ríkisstj.? Ég held ekki. Þótti ekki 4900 kr. ellilífeyrir og örorkubætur nóg til lífsframfæris þessu fólki í þann tíð, og greiddi það ekki í nefskatta tugi þús., án tillits til tekna? Í sinni snjöllu og rökföstu ræðu á föstudaginn vísaði Björn Jónsson öllum þessum árásum íhaldsins heim til föðurhúsanna, svo að ekki verður betur gert. Sannast að segja bjóst ég við, að þegar samansafnaðar verðhækkanir verðstöðvunartímabilsins ásamt verðhækkunum vegna mikilla kauphækkana s. l. haust kæmu í einu út í verðlagið, yrðu fyrstu áhrif þau, að lítil kaupmáttaraukning yrði eftir fyrst í stað. En hins vegar mundi kaupmátturinn vinna á á seinna ári samningstímabilsins. En nú er það þó staðreyndin, að þegar verðlagsbætur á kaupið koma inn í það frá 1. maí og hin umsamda hækkun grunnkaups 4% frá 1. júní, þá kemur í ljós, að kaupmátturinn hefur þegar hækkað nokkuð yfir 20%. Takmarkið, sem ríkisstjórnin setti sér í launamálunum, var það að lyfta kaupmætti launa um 20% á tveggja ára tímabili. Þar sem miklu meiri árangurs mátti vænta í þessu efni á seinna ári samningstímans, geri ég mér nú þegar beztu vonir um, að þetta fyrirheit stjórnarsáttmálans verði sér ekki til skammar, heldur standist með prýði.

Mikið hefur að vonum verið rætt um verðhækkanir seinustu vikna og mánaða, og enginn neitar því, að þær hafa verið miklar. En er það nú alveg eins með þær og sagt var einu sinni um kreppuna, að enginn vissi, hvaðan hún kæmi? Nei, menn vita vel, að stærsti þáttur hækkaðs verðlags á einmitt rót sína að rekja til verðstöðvunartímabilsins. Það er hrollvekjan sjálf. Atvinnurekendur telja fram réttilega aukinn rekstrarkostnað allt frá 1. nóv. 1970 og biðja um miklar hækkanir, og sjaldan fá þeir meira en helming þess, sem um er beðið, og oft miklu minna. Hækkunum er haldið í algeru lágmarki, það fullyrði ég, og þá oftast miðað við, að atvinnurekstur stöðvist ekki.

Nú vil ég spyrja í þessu sambandi: Finnst mönnum líklegt, að fyrrv. ríkisstj. hefði staðið fastar gegn hækkuðu verðlagi? Ekki finnst mér það nú líklegt. Með heróp Jóhanns Hafstein frá því á föstudaginn í huga: gróði og aftur gróði, tel ég ólíklegt, að stjórn undir forsæti hans gæti beinlínis verið traustur brimbrjótur gegn dýrtíðarflóði. En um það getur þó hver haft sína skoðun. Um hitt, hvort fyrrv. stjórn hefði staðið trúrri vörð um kaupmátt launa, vil ég líka efast fastlega, þar sem kaupinu hefði óefað verið haldið niðri, en verðlaginu verið gefinn miklu lausari taumur. Og læt ég svo útrætt um það.

Uppgjörið í launamálum verkalýðshreyfingarinnar í des. s. l. og tveggja ára samninga, sem þá voru gerðir, tel ég vera einn merkasta stjórnmálaatburð síðari ára. Mikil almenn kauphækkun í áföngum fékkst, sérstök hækkun til láglaunafólks, margvíslegar lagfæringar samninga, lengt orlof og stytting vinnuviku, svo að það helzta sé nefnt, og allt þetta fékkst án vinnustöðvana, án fórna. E. t. v. er það þó þýðingarmest fyrir atvinnulífið í landinu og fyrir þjóðarbúið í heild, að samningarnir tryggja vinnufrið um tveggja ára skeið. En það hygg ég, að fólkið í verkalýðshreyfingunni muni skilja, að hér studdi að vinveitt ríkisvald, sem átti góðan hlut að því, að slíkur árangur náðist. Ég tel það mjög mikilsvert, að slíkt samstarf skyldi hafa komizt á milli verkalýðssamtaka og ríkisvalds. Slíkt samstarf er góður bakhjarl stjórnarstefnu, sem stefnir að jafnari aðstöðu þjóðfélagsþegnanna og stefnir að meira réttlæti.

Góðir hlustendur. Fleiri efnisatriðum kem ég ekki að í bili. Tími minn er búinn. — Góðar stundir.