12.05.1972
Sameinað þing: 68. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2190 í B-deild Alþingistíðinda. (2471)

Almennar stjórnmálaumræður

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Á þessum eldhúsdegi Alþingis Íslendinga vil ég, eins og oft áður hér á hv. Alþ., mæla varnaðarorð til þings og þjóðar um þá geigvænlegu hættu, sem felst í stefnu hæstv. ríkisstj. á sviði efnahags- og fjármála. Efnahagslegt jafnvægi og styrk fjármálastjórn eru hvorki meira né minna en forsenda félagslegrar sóknar, eins og einn hæstv. ráðh. komst að orði í fyrri hl. þessarar umr. Því skilur efnahagsstefna sérhverrar ríkisstj. milli feigs og ófeigs í alhliða framfarasókn þjóðarinnar. Verulegar verðhækkanir skella nú yfir daglega, sem allur almenningur finnur fyrir í vaxandi mæli. Þó eru þessar verðhækkanir einungis svipur hjá sjón að dómi sérfróðra manna, miðað við það, sem fram undan er. Frá því í des. s. l. og fram undir næsta vor eða einungis á 18 mánuðum er gert ráð fyrir, að launakostnaður atvinnuveganna og opinberra þjónustustofnana muni hækka hvorki meira né minna en um 40% að lágmarki. Menn geta gert sér í hugarlund, miðað við ríkjandi ástand, hvort ekki verði stórfelldar hækkanir á öllum nauðþurftum almennings og jafnframt, hvort sú spenna, sem einkennir efnahagsstefnu hæstv. ríkisstj., muni ekki m. a. valda risahækkun á verði fasteigna í viðbót við það, sem orðið er. Af þessum sökum er talið af kunnáttumönnum, að nú muni dynja yfir þjóðina meiri óðaverðbólga en um getur í Íslandssögunni, ef frá er talið árið 1942, en þá geisaði heimsstyrjöld, eins og kunnugt er. Engum heilskyggnum manni getur dulizt, hver skaðvaldur sú óðaverðbólga er öllu þjóðlífinu. Hætt er við stöðvun útflutningsatvinnuveganna, ef verðlag á framleiðslu þeirra fer ekki stórhækkandi á erlendum mörkuðum, sem því miður eru litlar horfur á. Þetta merkir verðlækkun krónunnar gagnvart öðrum gjaldeyri í einhverju formi í metgóðæri og stórkostlega eyðslu gjaldeyrisins. Jafnvel efnahagssérfræðingar ríkisstj. spá því, að gjaldeyrissjóður þjóðarinnar muni minnka um helming á yfirstandandi ári. Því má segja í stuttu máli, að fyrirsjáanleg óðaverðbólga orsaki upplausn efnahagslífs þjóðarinnar. Kunnur hv. þm., sem styður núv. hæstv. ríkisstj., lýsti fyrir nokkrum dögum áhrifum verðbólgunnar með svofelldum orðum, með leyfi hæstv. forseta: „Verðbólgan étur fljótt upp allar kjarabætur launþega, elur á gróðabralli, ruglar öllum lífsverðmætum. Takist þessari ríkisstj. ekki að ganga í skrokk á verðbólgunni og halda henni í skefjum, étur verðbólgan sjálfa ríkisstj.“ Þessum hv. þm. rataðist hér sannarlega satt á munn. Mikið virðist þó á skorta, að hann og stuðningsmenn hæstv. ríkisstj. hér á hinu háa Alþ. geri sér ljóst, að sú óðaverðbólga, sem nú er að dynja yfir, er afleiðing af stefnu ríkisstj. í efnahags- og fjármálum. Frá því að hún komst til valda hefur hún með ýmsum hætti magnað verðbólgudrauginn. Á sama tíma sem metgóðæri ríkti, full atvinna og veruleg hætta var á víxlhækkunum kaupgjalds og verðlags, hefur hún æ ofan í æ gert ráðstafanir, sem jafngilda því í raun og veru að prenta sem allra mest af seðlum og dreifa út í hagkerfið. Ekki þarf orðum að því að eyða, hvers konar stjórnvizka slíkt er við þær aðstæður, sem nú ríkja. Peningar eru auðvitað ekkert annað en ávísanir á raunveruleg verðmæti. Séu gefnar út fleiri og hærri ávísanir, án þess að framleidd raunveruleg verðmæti aukist að sama skapi, orsakar slíkt einungis verðhrun gjaldmiðilsins og óðaverðbólgu, enda er það þekkt aðferð í styrjöldum að koma efnahagslífi óvinaríkis í upplausn með því að falsa peningaseðla þess og koma í umferð. Hæstv. ríkisstj. hóf feril sinn með því að greiða úr opinberum sjóðum um 1000 millj. kr., án þess að afla tekna í staðinn. Hún hækkaði fjárl. um 50% á einu ári, stórhækkaði lántökur m. a. erlendar til innlendra framkvæmda og þrýsti bankakerfinu til verulega aukinna útlána. Hún stofnaði til mestu yfirdráttarskulda ríkissjóðs við Seðlabankann, sem verið hafa á góðæristímum. Allar þessar aðgerðir hafa hver á sinn hátt meiri eða minni hliðstæð áhrif við núverandi aðstæður og ef prentað væri og dreift fölsuðum peningaseðlum. Þetta er afsakað með því, að sumt af þessu fjármagni hafi verið notað til hinna þörfustu hluta, sem er rétt. Á það er þó að líta, að slík verkefni hefur aldrei skort á Íslandi. Vandinn hefur verið sá að velja og hafna í ráðstöfun á takmörkuðu opinberu fé, sem fengið er á eðlilegan hátt, svo af hljótist ekki þau ósköp, sem óðaverðbólga hefur í för með sér. Hæstv. ráðh., flokksblöð þeirra og stuðningslið hér á hv. Alþ. hafa ekki komizt hjá því að viðurkenna, að verulegar verðhækkanir hafi orðið undanfarið og nokkur hætta á verðbólgu. Um leið er þó rækilega undirstrikað, að þetta sé allt fyrrv. ríkisstj. að kenna. Engu er líkara en það yfirklór eigi að vera til eilíflegrar afsökunar fyrir stefnuleysi þeirra í efnahags- og fjármálum. Svo rammt kvað að þessu í umr. á föstudagskvöld, að hæstv. ráðh. Magnús Torfi áttaði sig ekki á nýrri tilveru sinni sem æðsti maður menntamála á Íslandi. Hann minntist ekki á menntamál en því meir var ræða hans fólgin í að afsaka hæstv. ríkisstj. fyrir úrræðaleysi í verðlags- og efnahagsmálum. Hér á hv. Alþ. innti ég hæstv. forsrh. eftir því síðastliðið haust, hvort hæstv. ríkisstj. hefði kynnt sér gaumgæfilega efnahagslega stöðu þjóðarbúsins og atvinnuveganna áður en hún setti saman í málefnasamningi sínum stefnuna í efnahags- og kjaramálum. Hæstv. forsrh. svaraði mér því til efnislega, að svo hefði verið. Stefnan hefði verið mótuð eftir grandskoðun slíkra gagna og að vel yfirlögðu ráði. Það var því sannarlega ekki mat hæstv. ríkisstj., þegar hún tók við völdum, að þá hefði verið við að glíma innibyggðan efnahagsvanda, sem hefði óðaverðbólgu í för með sér. Ef svo hefði verið, má benda á, að við slíkar aðstæður hefði stefnuyfirlýsing málefnasamningsins í efnahagsmálum verið hreint gerræði við íslenzkt þjóðlíf. Það er því söguleg og óhrekjanleg staðreynd, að sú óðaverðbólga, sem nú er að skella yfir, er fyrst og fremst sjálfskaparviti núv. hæstv. ríkisstj. Efnahagsvandi okkar nú er heimatilbúinn gagnstætt því, sem gerðist í kjölfar áfallanna, sem dundu yfir eftir 1967. Þá brást síldveiði algjörlega, jafnframt því sem stórkostlegt verðhrun varð á sjávarafurðum okkar á erlendum mörkuðum. Þessi áföll, sem enginn mannlegur máttur gat fengið við ráðið, höfðu hvorki meira né minna en þriðjungs tekjuskerðingu þjóðarbúsins í för með sér á örskömmum tíma. Ég verð því að segja, að það var beinlínis ömurlegt að heyra einn hæstv. ráðh. halda því fram hér í umr. á föstudagskvöld, að það atvinnuleysi og þrengingar, sem óumflýjanlega urðu um skeið afleiðing þessara efnahagsáfalla, hefði verið verk óþjóðhollra manna í fyrrv. ríkisstj. Hvað mætti þá segja um menn, sem með algjöru stjórn- og stefnuleysi leiða yfir þjóðina slíka heimatilbúna óðaverðbólgu í mesta góðæri, sem um getur í sögu þjóðarinnar, að Íslandsmet er að sögn kunnáttumanna. Sannleikurinn er sá, að það verður að teljast einstætt afrek, hvernig tókst í samvinnu launþega og fyrrv. ríkisstj. að reisa við allt efnahagslíf þjóðarinnar eftir hin geigvænlegu efnahagsáföll á árunum 1967 og 1968. Tekjur alls almennings í raunverulegum verðmætum hækkuðu á örskömmum tíma um meira en 20%. Stórátak var gert í eflingu fiskiðnaðar, stóriðja hóf göngu sína og þegar var ákveðið um kaup á fjölda togara, atvinnuleysi var víðast hvar útrýmt, gildir sjóðir mynduðust, þ. á m. gjaldeyrissjóður að upphæð rúml. 4 þús. millj. kr. Af þessari uppbyggingu njótum við ávaxta í dag, en þeir verða ekki lengi að hverfa sem dögg fyrir sólu, ef óðaverðbólga nær að éta þá upp, jafnvel þó hún éti þá ríkisstj. upp um leið, eins og sá hv. þm. sagði, sem ég vitnaði til hér að framan.

Herra forseti. Ræðutími minn styttist nú óðum, en ég vil að lokum segja þetta. Við sjálfstæðismenn gerum okkur ljóst, að félagslegar og menningarlegar framfarir eru því aðeins mögulegar, að vel sé haldið á fjármálum og efnahagsmálum þjóðarinnar. Því viljum við gjörbreyta um stefnu þá, sem nú ríkir á því sviði. Við viljum hvetja einstaklinga og félagasamtök til athafna, m. a. með því að fella niður með öllu tekjuskatta af lágtekjum og miðlungstekjum, en skattleggja eyðsluna. Við viljum gæta aðhalds í opinberum rekstri og miða framkvæmdir við, að þær taki ekki um of vinnuafl frá framleiðsluatvinnuvegunum né auki á verðbólguhættu. Við viljum hvetja til þátttöku almennings í atvinnurekstri, auka sparnað og reyna nýjar leiðir í því að sætta vinnuveitendur og launþega. Við höfnum algjörlega þeirri stefnu hæstv. ríkisstj. að auka á kommissaravald embættismannakerfisins í Reykjavík. Það er stefna okkar að dreifa valdinu til fólksins, auka áhrif sveitar- og bæjarstjórna og samtaka þeirra í hinum ýmsu landshlutum. Við höfnum þeim áformum að refsa duglegustu bændum með skattlagningu, eins og stefnt er að með frv. ríkisstj. um framleiðsluráð landbúnaðarins. Við viljum byggja landið allt og bendum á, að undir forustu sjálfstæðismanna var hafin byggðaáætlunargerð á Íslandi. Stefna sjálfstæðismanna er því bæði ljós í stjórn og stjórnarandstöðu. Hún felst í því að virkja það frumafl, sem býr í hverjum þjóðfélagsþegni, og beina því með hvatningu, ekki boðum og bönnum inn á þær brautir, sem þjóðfélagið þarfnast hverju sinni. Með því skapast grundvöllur að aukinni framleiðslu raunverulegra verðmæta, en hann verður að vera til staðar, þannig að unnt sé að gera áframhaldandi átök í félagsmálum, m. a. á sviði almannatrygginga, heilbrigðis- og menningarmála, eða í stuttu máli: svo að alhliða framfarir geti áfram orðið á Íslandi. — Góða nótt.