12.05.1972
Sameinað þing: 68. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2208 í B-deild Alþingistíðinda. (2476)

Almennar stjórnmálaumræður

Bjarni Guðnason:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Á þeim fáu mínútum, sem ég hef hér til umráða, mun ég einkum víkja að SF, stöðu þeirra og framtíð, stjórnarstefnunni og þá einkum verðlagsmálum og utanríkismálum.

Alþingiskosningarnar á s. l. sumri ollu straumhvörfum í íslenzkum stjórnmálum. Sú stjórn, sem kenndi sig við víðreisn, féll við lítinn orðstír eftir langa valdasetu. Hið staðnaða flokkakerfi riðlaðist og fram á sjónarsviðið kom nýr flokkur, SF. Sigur þeirra í kosningunum var mikill og ótvíræður og hlýtur að eiga sér einhverjar eðlilegar skýringar, sem vert er að gefa gaum að. Að vísu er ljóst, að viðreisnarstjórninni varð ekki vikið frá völdum nema SF hlytu í alþingiskosningunum nokkurt brautargengi með þjóðinni. En ekki verður gert ráð fyrir, að þessi neikvæða ástæða ein hafi eflt SF til sigurs, enda reyndu andstæðingar þeirra að bregða hulu yfir þessa staðreynd eftir megni og villa um fyrir kjósendum. Aðrar ástæður fyrir kosningasigrinum hljóta að koma til og vega þyngra. Vel má vera, að landhelgismálið hafi ráðið nokkru um, þar sem SF höfðu einarðlega stefnu um útfærslu landhelginnar. En á það er að líta, að núv. stjórnarflokkar höfðu allir sömu stefnu í því máli.

Þegar öllu er á botninn hvolft, hygg ég, að tvö málefni hafi ráðið úrslitum, annars vegar sá ásetningur að sameina jafnaðarmenn og samvinnumenn í einum flokki og hins vegar að hreinsa til í íslenzkum stjórnmálum, ef svo mætti segja, taka fyrir bitlingapólitík, bægja frá þröngskorðuðum flokkssjónarmiðum, þegar annað horfði til heilla fyrir land og lýð, — í stuttu máli: taka upp ný vinnubrögð. SF voru ung og fersk, tilbreyting frá gömlu flokkunum, sem iðulega geta ekki hreyft legg né lið fyrir annarlegum hagsmunahópum og sjónarmiðum, sem standa samfélagsumbótum fyrir þrifum. Ég hygg, að framkvæmd tveggja ofangreindra atriða ráði úrslitum um það, hvort SF komi til að hafa til langframa þau heillavænlegu áhríf á gang og þróun íslenzkra þjóðmála, sem til var stofnað í upphafi. Sameining jafnaðarmanna er höfuðnauðsyn. Það er með öllu óeðlilegt, að vinstri flokkarnir skuli vera klofnir í andstæðar fylkingar og láta þannig Sjálfstfl. að mestu eftir að ráða ferðinni í íslenzkum stjórnmálum. Markmiðið er því ljóst, — en hvernig á að ná því? Þar er vandinn. En eitt er víst, að við samruna flokka verður að haga málum þannig, að almenningur finni, að hér sé á ferðinni hreyfing, sem hafi þrek og þor til að vera róttækt umbótaafl. Sameiningin verður að fela í sér endurnýjun, en hún má ekki gerast á þá lund, að hún verði einhvers konar trygging deyjandi flokka. Þá er betra, að hver deyi drottni sínum. Og spyrja má: Til hvers voru SF mynduð, ef fyrir þeim lægi að renna saman við annan flokk, gamlan, án þess að endurnýjun ætti sér stað? Það væri vissulega gæfa lands og lýðs, ef nýr öflugur jafnaðarmannaflokkur sæi dagsins ljós, áður en langt um líður.

Og nú er komið að hinu atriðinu, nýjum vinnubrögðum. Að mínu viti var það skylda SF eftir sigur vinstri flokkanna í alþingiskosningunum að taka þátt í myndun núv. ríkisstj. Annað hefði verið svik við kjósendur, sem vildu breytingu. En fyrirvaralaus þátttaka SF í ríkisstj., í rauninni áður en þau höfðu slitið barnsskónum, er tvíeggjuð. SF urðu að ganga til samstarfs við gamla flokka, ganga svo að segja inn í kerfið. Í þessu felst nokkur hætta fyrir þau að því leyti, að vera þeirra í ríkisstj. slævi þá kröfu, sem kjósendur SF gera um ný vinnubrögð og endurnýjun. Benda má t. d. á bankakerfið í þessu sambandi. Gömlu flokkarnir hafa lagt það undir sig, hlutað því á milli sín. Þar er engu hægt að hrófla. Þar ríkir í orðsins fyllstu merkingu samábyrgð gömlu flokkanna. Að vísu er talað um það í stjórnarsamningnum að endurskoða bankakerfið, en mér segir svo hugur um, að það sé dauður bókstafur. Og minna má á húsnæðismálastjórn, sem hefur verið mjög á dagskrá að undanförnu. Þar eru settir fulltrúar flokkanna í stjórn til að úthluta lánum handa almenningi, sem er að leitast við að koma sér þaki yfir höfuðið. Spurningin er: Til hvers eiga pólitískir fulltrúar flokkanna að koma þar nálægt?

Aðildin að samsteypustjórn leiðir vissulega af sér, að menn verða oft og iðulega að slaka á og sætta sig við málamiðlun. En SF mega aldrei, að mínu viti, missa sjónar á þessu veigamikla atriði. Félagsleg viðhorf eru undirstaðan í stefnu núv. ríkisstj. Birtist þetta víða í verkum hennar. Af þeim toga er sá skilningur, að landinu verði ekki farsællega stjórnað nema í samráði við fjöldahreyfingar launþega í landinu. Verkalýðshreyfingin bjó við þann harða kost á dögum viðreisnar að þurfa æ ofan í æ að heyja langa og stranga verkfallsbaráttu og horfa síðan upp á það, að umsamdar kjarabætur væru jafnóðum af henni teknar með ýmiss konar bolabrögðum, svo sem skerðingu kaupgreiðsluvísitölu eða gengisfellingu. Nú er af sú tíð. Ríkisstj. bar gæfu til að stuðla að því í vetur, að samningar tækjust með atvinnurekendum og verkalýðshreyfingunni um kaup og kjör til tveggja ára. Með því hefur fengizt vinnufriður í landinu. Árferði er gott til sjávar og sveita, atvinnuleysi hverfandi, raunar víða skortur á vinnuafli og markaðshorfur fyrir útflutningsafurðir góðar. Það er því von, að núv. stjórn sé stórhuga og bjartsýn.

Hún hefur þegar á þeim 10 mánuðum, sem hún hefur setið að völdum, hrundið í framkvæmd fjölmörgu, er horfir til farsældar fyrir þjóðina. Hæstv. forsrh., Ólafur Jóhannesson, taldi upp þessi atriði fyrir hlustendum s. l. föstudagskvöld, svo að óþarft er að gera hér úttekt á störfum stjórnarinnar og þylja upp verk hennar lið fyrir lið. Segja má, að á flestum sviðum þjóðfélagsins hafi átt sér stað umbætur eða séu í vændum, og ég vil taka undir þau orð hæstv. forsrh., að auðnist ríkisstj. að leysa á giftusamlegan hátt landhelgisdeiluna, mundi það eitt endast henni til lofsverðra eftirmæla, ekki sízt þegar haft er í huga stefnuleysi og dáðleysi fyrrv. stjórnarflokka í þessu lífsspursmáli íslenzku þjóðarinnar.

Á undanförnum mánuðum hafa dunið yfir þjóðina verðhækkanir á vörum og þjónustu, svo að þær spurningar hafa vaknað meðal almennings, hvort núv. ríkisstj. hafi með öllu misst tök á verðlagi og hvort sama víxlhækkun verðlags og kaupgjalds eigi sér stað eins og á tímum viðreisnarstjórnarinnar. Að auki fara nú stjórnarandstöðublöðin hamförum gegn ríkisstj., reyna að villa um fyrir almenningi og skella allri skuldinni á hana varðandi verðhækkanirnar, og sami málflutningur er viðhafður hjá ræðumönnum stjórnarandstöðunnar í þessum umr. Ég vil taka mönnum vara við að trúa þessum áróðri, því að þessar verðhækkanir eru að langmestu leyti arfur frá fyrri stjórn eða frá verðstöðvunarskeiðinu. Þetta er hrollvekjan alræmda í allri sinni dýrð. Ríkisstj. hefur ekki að öllum jafnaði veitt jafnmiklar verðhækkanir og farið hefur verið fram á. Gott dæmi um þetta eru einmitt þær hækkanir, sem Reykjavíkurborg sótti um að fá. Hún sóttist eftir 13.1% hækkun á hitaveitugjöldum í borginni, en fékk 5%. Hún vildi 16.6% hækkun fyrir Rafmagnsveitu Reykjavíkur, en fékk 10%, vildi fá 21% á strætisvagnafargjöldum í borginni, en fékk 12%. Þetta segir sína sögu. Borgarstjórnarmeirihlutinn í Reykjavík, sem er skipaður Sjálfstfl.-mönnum, heimtar meiri hækkanir, en síðan deilir Sjálfstfl. á ríkisstj. fyrir of miklar hækkanir. Almenningur á og verður að gera sér fulla grein fyrir þessum óheilindum í málflutningi stjórnarandstöðunnar. En hér á við orðasambandið „bylur hæst í tómri tunnu“. Fólki hefur naumast liðið úr minni, að megineinkenni efnahagsmála og þá verðlagsmála á viðreisnartímanum var óðaverðbólga og gengisfellingar. Hins vegar þýðir ekki fyrir núv. stjórn að skjóta sér hjá þeim vanda með tilvísun í axarsköft fyrri stjórnar að taka efnahagsmálin og í þessu sambandi verðlagsmálin föstum tökum. Hin mikla hækkun fjárlaga fyrir þetta ár og framkvæmdaáætlanir ríkisins ber með sér, að fjárfestingar hins opinbera aukast stórum á næstunni. Sú spurning vaknar, hvort hér sé ekki farið of geyst í sakirnar og hvort þessi mikla fjárfesting verði ekki til að kynda um of undir verðbólgunni, ekki sízt á tímum, þegar skortur er víða á vinnuafli. Það verður að hefja ósleitilega baráttu gegn verðbólgunni. Hún er sú meinvættur, sem grefur undan atvinnuvegunum, skerðir hlut launþega, skapar misrétti í þjóðfélaginu, gerir sparnað lítils virði og ráðdeildarsemi, elur á gróðabralli og hvers kyns fjármálaspillingu. Ríkisstj. má einskis láta ófreistað til þess að hamla gegn verðbólgunni, jafnvel þótt það kosti óvinsælar aðgerðir. Það er enginn vafi á því, að þjóðin vill færa nokkrar fórnir til að spornað sé gegn verðbólgunni.

Fari verðþenslan úr hófi fram, verður að draga úr fjárfestingunni og minnka innanlandsneyzluna, samtímis því sem leggja verður ofurkapp á að auka framleiðslu útflutningsatvinnuveganna, ella grefur verðbólgan smám saman undan atvinnugreinunum og leiðir að lokum til gengisfellingar og þá höfum við viðreisnina afturgengna. Hættulegasti andstæðingur stjórnarinnar er tvímælalaust verðbólgan, og takist stjórninni ekki að halda henni sæmilega í skefjum, leggur hún ríkisstj. seint og um síðir að velli. Ég fer ekkert leynt með það, að mig uggir, að ríkisstj. hafi ekki enn mótað sér nægilega samræmda og skipulega fjárfestingarpólitík. En það stendur án efa til bóta.

Íslenzka þjóðin heyr látlausa baráttu fyrir tilveru sinni og frelsi. Útfærsla landhelginnar og landgræðslan eru vissulega mikilsverðir þættir í sjálfstæðisbaráttunni. En það má aldrei gleyma því, að Ísland er hersetið land. Í stjórnarsamningnum er boðuð sjálfstæðari og einbeittari utanríkisstefna en á dögum viðreisnarinnar, en hana einkenndi ætíð fádæma undanlátssemi og aftaníossaháttur í utanríkismálum. Hin nýja stjórn hefur þegar sýnt, að hún lætur ekki sitja við orðin tóm. Hún studdi aðild Kína að Sameinuðu þjóðunum, viðurkenndi fljótt Bangla Desh og tók þátt í því á vettvangi Sameinuðu þjóðanna að fordæma nýlendukúgun Portúgala í Afríku. Í samræmi við þessa nýju stefnu í utanríkismálum hefur stjórnin sett sér það mark, að varnarsamningurinn við Bandaríkin verði tekinn til endurskoðunar eða uppsagnar í því skyni, að varnarliðið hverfi frá Íslandi í áföngum, og skuli að því stefnt, að brottför liðsins eigi sér stað á kjörtímabilinu. Þegar þetta stefnuskráratriði varð heyrum kunnugt, ráku stjórnarandstæðingar upp reiðiöskur mikið og létu eins og þetta væru þjóðarsvik, og röksemdir kalda stríðsins létu ekki á sér standa. Rússneski flotinn væri við landsteinana, rússneskir soldátar reiðubúnir að stíga á land um leið og Bandaríkjamenn færu á brott, kommúnistar væru að búa sig undir að taka völdin í sínar hendur o. s. frv. Fyrir þá, sem þekkja til sögu hersetumálsins, eru þetta ómerkileg rök í meira lagi, — eða muna menn ekki eftir, að áköfustu hersetublöðin beittu því óþverralega áróðursbragði á árunum kringum 1950 að kalla marga ágætustu menn þjóðarinnar kommúnista, laumukomma, hálfkomma eða nytsama sakleysingja, af því að þeir létu ekki sannfærast um það, að herseta væri nauðsynleg í þessu landi?

Og nú á aftur að leika sama leikinn, ala á ótta og skelfingu með þjóðinni. Öllum má vera ljóst, að stórveldin tvö, Sovétríkin og Bandaríkin, hafa skipt heiminum að mestu á milli sín og vilja viðhalda hernaðarbandalögum til að tryggja völd sín. Bæði reka þau útþenslustefnu. Allir muna eftir hinni blóðugu innrás Sovétmanna í Ungverjaland og Tékkóslóvakíu, og hinir hörmulegu atburðir í Víetnam ættu að færa mönnum heim sanninn um, að Bandaríkjamenn eru litlu betri. Stórveldin, hvort sem þau búa við kapítalisma eða kommúnisma, beita smáríkin yfirgangi, ofríki eða valdníðslu, ef þeim býður svo við að horfa. Eða eru menn svo skyni skroppnir, að þeir vilji gera mun á því, hvort hægri menn eða vinstri gripi til valdbeitingar?

Ísland hefur verið hersetið nær látlaust í heilan mannsaldur, og yngsta kynslóðin man ekki annað og hefur ekki kynnzt öðru. Hið óeðlilega ástand, að hafa her í landi, er orðið eðlilegt ástand, og því lengur sem herinn situr, þeim mun erfiðara reynist að koma honum á brott. Vaninn slævir heilbrigðan þjóðarmetnað. Íslendingar hljóta að gera það upp við sig, hvort þeir vilji hafa hér her í landi um aldur og ævi, og hann verður hér um aldur og ævi, ef það á að bíða eftir því, að kommúnisminn liði undir lok í heiminum.

Að endingu vil ég segja þetta: Þegar landhelgismálið verður leyst, kemur væntanlega röðin að hernum, og þá hefst mikil barátta við öflugan fjandaflokk hersetumanna, sem ráða yfir miklu fjármagni, útbreiddum áróðursgögnum og eiga volduga málsvara, eins og t. d. borgarstjórann í Reykjavík, sem talaði hér áðan. Þá ríður á, að allir þeir, sem vilja herinn brott, snúi bökum saman, hvar í flokki sem þeir standa. Brottför hersins er ekki val á milli kommúnisma eða kapítalisma, heldur aðeins spurningin um það, hvort íslenzk sjónarmið eigi að ráða, hvort Íslendingar hafi metnað til þess og vilja að lifa einir og frjálsir í sínu landi. — Góða nótt.