12.05.1972
Sameinað þing: 68. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2215 í B-deild Alþingistíðinda. (2478)

Almennar stjórnmálaumræður

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Gott kvöld, góðir hlustendur. Eitt göfugasta einkenni lýðræðis er, að menn viðurkenni rétt til frjálsra skoðanaskipta án ofbeldis. Pólitískur andstæðingur getur haft góðan tilgang, þótt við teljum, að framkvæmd á skoðun hans leiði til ófarnaðar. Þetta þarf að hafa hugfast, þegar umr. sem þessar fara fram. Ég mun í mínum fáu orðum nefna nokkur höfuðeinkenni þessa þinghalds, eins og það hefur komið mér fyrir sjónir.

Hæstv. ráðherrar höfðu það mjög á orði s. l. föstudag, að stjórnarandstöðunni hefði gengið báglega að átta sig á vistaskiptum sínum. Þeir eru með öðrum orðum undrandi á því, að unnt skuli vera að halda uppi stjórnarandstöðu án þeirra aðferða, sem þeir sjálfir eða flokkar þeirra beittu í þeirra aðstöðu, og eru að vonum gneypir yfir. Svo er að sjá, að öðrum hafi illa gengið að átta sig á vistaskiptum. Tími yfirboða og ógrundaðra útgjaldatillagna frá stjórnarandstöðu var liðinn, er núv. stjórn tók við völdum. En stjórnað var samt eftir hinu fræga mottói hæstv. fjmrh., Halldórs E. Sigurðssonar, sem hann setti fram við fjárlagaafgreiðslu nú í vetur. „Fyrst er að ákveða útgjöldin, svo finnum við tekjuöflunarleiðir á eftir.“ Hrædd er ég um, að þetta þætti ekki gott í húshaldi, hvað þá í stærri búskap.

Þótt mikið hafi legið á að leiða þjóðina inn í vinstri sæluna, hefði verið betra, ef hæstv. ríkisstj. hefði gefið sér tíma til að finna grundvöll til að standa á og átta sig á því, hvernig standa átti undir útgjöldum. En hin veizluglaða vinstri stjórn sá enga ástæðu til þess. Málefnasamningurinn frægi, Ólafskver, var nógu traustur grundvöllur fyrir hana. Ákvarðanir fyrst, athuganir svo, gæti staðið sem mottó fyrir því kveri.

Hlutverkum stjórnar og stjórnarandstöðu hefur í ár verið snúið við frá því, sem áður var. Það hefur nú æ ofan í æ fallið í hlut stjórnarandstöðu að spyrna gegn eyðslu og óráðsíu.

Annað áberandi einkenni á þessu þinghaldi varðar sjálfan málatilbúnað ríkisstj. Nokkur stórmál, sem lögð voru fyrir þingið og átti að afgreiða með hraði, voru sjaldgæflega illa undirbúin. Var það að vonum, þar sem flokksleg þægð var tekin fram yfir faglega þekkingu við undirbúning mála oft og tíðum eða þá að málin voru tekin hálfunnin úr höndum undirbúningsnefnda. Stjórninni var raunar vorkunn, enda þáði hún oft fegins hendi aðstoð stjórnarandstöðu við að koma málum í skaplegra horf.

Til að undirbúa málefnahlið stjfrv. gat varla gefizt góður tími frá annríki við að bræða saman hin ólíku pólitísku sjónarmið stjórnarflokkanna. Hæstv. ráðherrum, og þá ekki sízt hæstv. utanrrh., hefur orðið skrafdrjúgt um það í þinginu í vetur, að sambræðslan hafi gengið vel og samkomulag í ríkisstj. sé hið bezta. Vel má á það minna í þessu sambandi, að lítill vandi er að halda heimilisfriðinn, ef jafnan er látið undan þeim, sem lengst vill ganga, og það er margur í þessu landi uggandi vegna þess, hver öfl virðast hafa raunverulegt húsbóndavald í þessari ríkisstj. Tilhneiging til vaxandi ríkisafskipta gengur eins og rauður þráður gegnum mörg mál ríkisstj. Það á sér eðlilega skýringu í samsetningu hennar. Í fyrsta sinn í 15 ár hafa kommúnistar verið leiddir í valdastóla á Íslandi. Lausnarorð þeirra í flestum mannlegum vanda felst í sem mestri forsjá ríkisins og valdhafa þess. En valdhafar eru ekki fullkomnari en annað fólk. Sjálfstfl. telur, að einstaklingnum sjálfum sé bezt trúandi til að ráða málum sínum, og annað samrýmist ekki íslenzkri þjóðarskapgerð. Útlenzkar, ofstækiskenndar efnahagsmálakenningar, kenndar við Marx eða jafnvel Maó, eru upprunnar við okkur alls óskyldar aðstæður í fjarlægu landi fyrir og eftir aldamótin og eiga ekkert erindi við okkar litlu íslenzku þjóð í dag.

Hér á landi hafa menn rétt til hvers konar gagnrýni og mótmæla, séu þau uppi höfð án siðleysis og ofbeldis. En það skilyrði er því miður stundum ekki virt sem skyldi af þeim, sem standa fyrir aðgerðum í útlendum stil hérlendis, eins og t. d. nú nýlega á lóð Háskólans. Þennan rétt okkar til gagnrýni og tjáningar skulum við varðveita, þennan rétt hafa menn ekki í ríkjum kommúnismans, þaðan berast okkur enn fregnir af handtökum manna, vegna þess að þeir létu í ljós skoðanir sínar. Við höfum skipað okkur í raðir með lýðræðisþjóðum, sem vilja vernda tjáningarfrelsið. Ég leyfi mér að beina því sérstaklega til ungs fólks, að fyllilega er það tímabært, að hinn þögli meiri hluti slái upp skjaldborg um það, sem alíslenzkt er, lög okkar og íslenzkan rétt, gegn ofbeldi og verndi Ísland gegn útlendum alþjóðlegum kenningakerfum, sem sagan sýnir okkur að leiða til kúgunar.

Góðir hlustendur. Í mörgum málum þings er sem betur fer unnið í bróðerni að málefnalegri lausn án grundvallarágreinings. Þess má geta, sem vel er gert, þó að hér sé lítið tóm til að víkja að einstökum málum. Stjfrv. um stofnun og slit hjúskapar er á lokastigi þessa dagana. Það hlaut vandaðan sérfræðilegan undirbúning í tíð fyrrv. stjórnar, var lagt fram í dómsmálaráðherratíð Auðar Auðuns og svo aftur nú. Margar konur hafa látið sig afdrif þessa máls varða. Það felur í sér ýmis merk og mannúðleg nýmæli, — í stuttu máli: virðingu fyrir samheldni fjölskyldunnar sem grundvallarstofnunar í þjóðfélaginu. Ekki hafa þó öll mál, sem mjög snerta fjölskyldu og heimili, hlotið jafngóðan framgang á þingi, t. d. var felld till. sjálfstæðismanna um að 50% af vinnutekjum giftrar konu mætti vera undanþægt frá útsvari, og í Nd. var nýlega felld till. sjálfstæðismanna um að sá, sem missir maka sinn, verði undanþeginn erfðafjárskatti af arfi eftir hann, af eign, sem hann sjálfur hefur tekið þátt í að skapa. Þeir, sem skulda eitthvað í íbúðinni sinni, fá nú ekki lengur vextina frádregna við skattaálagningu. Þessi fáu dæmi eru tekin af handahófi. Ég vil leyfa mér að ljúka máli mínu með því að segja, að við lausn mála vill Sjálfstfl. leggja höfuðáherzlu á vernd og styrk einstaklings, fjölskyldu og heimilis.

Ég þakka áheyrnina. — Góða nótt.