12.05.1972
Sameinað þing: 68. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2229 í B-deild Alþingistíðinda. (2483)

Almennar stjórnmálaumræður

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Samgrh. sagði áðan, að stjórnarandstaðan væri ekki beinskeytt eða hörð, að mikið ósamkomulag væri í Sjálfstfl. Við sjálfstæðismenn um land allt viljum segja: Trúið ekki þeim rógi, sem andstæðingar sjálfstæðismanna bera á borð um sundrung í Sjálfstfl., því að þar ríkir samheldni og eining. Við sjálfstæðismenn höfum viljað gefa ríkisstj. vinnufrið, en hún grefur undan sér sjálf og mun falla á eigin bragði.

Vegna ræðu hv. 5. þm. Austf. vil ég aðeins segja þetta: Áætlun um lokarafvæðingu sveitanna var ákveðin af fyrrv. ríkisstj. Afurðalán landbúnaðarins hafa örlítið verið hækkuð, aðeins örlítið, enda hafa þau verið í samræmi við útlán á afurðum sjávarútvegsins. Aukið fjármagn til Landnámsins er vegna laga, sem voru samþ. í aprílmánuði 1971. Frv. um framleiðsluráð landbúnaðarins hefur verið lagt fram, en verður ekki samþ. Vonandi verður það ekki lagt fram aftur í svipuðu formi.

Landbrh. hafði lítið að segja um landbúnaðarmálin. Hann ásakar mig fyrir að skrifa bréf. Hann miklast af því að hafa útvegað Stofnlánadeild landbúnaðarins fé. Stofnlánadeildin fékk alltaf nægilegt lánsfé til ráðstöfunar í tíð fyrrv. ríkisstj. Ég stærði mig aldrei af því að útvega það fjármagn. Bændaskólinn á Hvanneyri er kominn langt. Ég útvegaði 7.5 millj. kr. að láni til að hægt væri að vinna enn meira á árinu 1971 en veitt hafði verið fé til á fjárlögum. Er það ásökunarefni?

Um vegamálin vil ég segja þetta: Ríkissjóður greiddi árið 1971 101 millj. kr. í vexti og afborganir af vegalánum, en Vegasjóður aðeins 15 millj. Hækkun fjár Vegasjóðs er 16% á þessu ári, frá því sem var 1971. Er það sennilega minna en hækkun vegagerðarkostnaðar verður á þessu ári. En lán eru nú meiri en áður voru tekin. Hv. 4. landsk. þm. gerði flugbrautarframkvæmdir á Keflavíkurflugvelli að umtalsefni. Talaði um 500 millj., sem Ameríkumenn lána eða gefa í þá braut. Hvernig hefði farið með þessar framkvæmdir, ef þetta fjármagn hefði ekki komið? Hæstv. fjmrh. lýsti því, að til hins ýtrasta væri teygt á þanþolinu í sambandi við framkvæmdaáætlunina og ekki væri unnt að útvega meira fjármagn. Ef þetta fjármagn hefði ekki komið frá Ameríku, hefði ekki verið byrjað á þessari nauðsynlegu framkvæmd á Keflavíkurvelli. Hv. þm. talaði um gróða og gróðavon og Íslenzka aðalverktaka, en hvernig eru Íslenzkir aðalverktakar samsettir? Ríkið á 25%, SÍS 25% og iðnaðarmenn á Íslandi 50%. Fyrirtækið Íslenzkir aðalverktakar var stofnað undir handleiðslu framsóknarmanna, þegar þeir fóru með utanríkismálin.

Stjórnarflokkarnir fengu meiri hl. vegna margvíslegra loforða, sem þeir gáfu fyrir síðustu kosningar. Fjöldi kjósenda hafði gleymt vinstri stjórninni gömlu, sem sat að völdum 1956–1958, og þeim vanda, sem stjórnarfarið á þeim árum leiddi yfir þjóðina. Sýnilegt er, að núv. ríkisstj. heldur ekki betur á málum en gamla vinstri stjórnin gerði. Verðbólgan flæðir yfir með enn meiri hraða en 1957–1958. Talsmenn ríkisstj. reyna að telja þjóðinni trú um, að verðhækkanirnar séu að mestu leyti sök fyrrv. ríkisstj. Einnig er því haldið fram, að hækkun fjárlagaútgjalda ríkissjóðs sé afleiðing af fyrri stjórnarstefnu. Nauðsynlegt er, að þjóðin geri sér grein fyrir, hvað rétt er í þessu eins og öðru. Auðvitað má rekja nokkurn hluta af hækkun fjárlaga 1972 til lagasetningar fyrri ára og ákvarðana fyrri ríkisstj. Það dæmi var gert upp vel og heiðarlega á síðasta hausti, þegar 1. umr. um fjárlög ársins 1972 fór fram.

Fjmrh. lagði fjárlagafrv. fyrir árið 1972 fram greiðsluhallalaust, og var þá ekki gert ráð fyrir, að leggja þyrfti á nýja skatta vegna afgreiðslu fjárlaga. Fyrrv. fjmrh., Magnús Jónsson, benti réttilega á, að tekjur umfram fjárlög 1971 gerðu miklu meira en að standa undir þeim hækkunum útgjaldaársins, sem rekja mætti til fyrrv. ríkisstj. Á haustdögum fór vel á með Halldóri E. Sigurðssyni fjmrh., og fyrrv. fjmrh., Magnúsi Jónssyni, sem skilaði af sér með miklum sóma fjármálum landsins. Fjmrh. Halldór E. Sigurðsson tók glaður við góðu búi og gaf fyrirrennara sínum kvittun fyrir, sem alltaf verður í fullu gildi. Nú er eins og fjmrh. hafi gleymt þeim tölum, sem hann gaf upp s. l. haust og kvittaði fyrir.

Með fjárlagafrv., sem var lagt fram í upphafi þings og var rætt fáum dögum síðar, var allt tilgreint um ríkisfjármálin, sem viðkom fráfarandi ríkisstj. Það er fleira en kvittunin frá því í okt. s. l., sem staðfestir góða stöðu ríkissjóðs við stjórnarskiptin. Fáum kemur til hugar, að fjmrh. hefði gefið samþykki fyrir því að greiða utan fjárlaga um 700 millj. kr. á fimm mánuðum árið 1971, ef hann hefði ekki talið fjármálin vera í góðu lagi, þegar hann tók við forsjá þeirra. Þegar til staðreyndanna er vitnað, getur enginn efazt um, að hækkun fjárlaga á árinu 1972 skrifast að langmestum hluta á reikning núv. ríkisstj.

En hvað er um verðhækkanirnar og dýrtíðina, sem nú flæðir yfir landið, að segja? Er það rétt, sem stjórnarflokkarnir halda fram, að þær megi rekja að mestu til ríkisstj., sem fór frá völdum fyrir 10 mánuðum? Þær verðhækkanir, sem rekja má til fyrrv. stjórnar, komu fram strax s. l. haust, eftir að verðstöðvunarlögin féllu úr gildi. Var það lítill hluti af þeim hækkunum, sem orðið hafa. Að halda því fram, að verðhækkanirnar séu að mestu arfur frá fyrrv. stjórn, er fávíslegt og lítilmannlegt. Ríkisstj. má líkja við krakka, sem eru síklagandi og vilja kenna öðrum um allt, sem illa fer, þótt það sé þeirra eigin sök. Til stuðnings málflutningi sínum vitna talsmenn ríkisstj. í Ólaf Björnsson prófessor, sem þeir bera mikið traust til, en rangtúlka þó ummæli hans. Ólafur Björnsson talaði um hrollvekju, sem koma mundi, ef ekki yrði brugðizt rétt við, þegar gildistími verðstöðvunarlaganna rynni út. Það hefur komið á daginn, að Ólafur hafði rétt fyrir sér. Hrollvekjan er komin, vegna þess að ríkisstj. tók ekki til greina viðvörun hans og fleiri góðra manna. Ríkisstj. kyndir undir verðbólgunni með því að hækka fjárlög eins og raun ber vitni og með lántökum meiri en nokkur dæmi eru til um áður. Ríkisstj. lætur reka á reiðanum ráðvillt og stefnulaus. Þess vegna flæðir nú meiri verðbólga og dýrtíð yfir landið en dæmi eru til utan stríðstíma.

Þar sem talsmenn ríkisstj. hafa vitnað í Ólaf Björnsson, ættu þeir að gera það áfram. Ólafur Björnsson flutti nýlega ræðu í hagfræðingafélaginu. Þar sagði hann m. a.: Afkoma okkar Íslendinga er mjög góð, og í rauninni væri hægt að gera ráðstafanir til þess að stöðva verðbólguþróunina, án þess að skerða hár á höfði nokkurs manns svo að heitið gæti.

Það, sem Ólafur á við með þessum orðum, er það, að þetta væri hagfræðilega mjög auðvelt, en bætir því við, að pólitískt eða stjórnmálalega sé það erfiðara. En ríkisstj. hefur ekki leitað ráða hjá Ólafi Björnssyni, með hvaða hætti mætti helzt hamla gegn verðbólgunni. Ólafur Björnsson var með í ráðum, er verðstöðvunarlögin voru sett 1970. Sjálfstæðismenn vilja hafa hann áfram með í ráðum, þótt hann sé ekki á þingi. Engum er ljósara en Ólafi Björnssyni, að gera varð ráðstafanir, þegar gildistími verðstöðvunarlaganna væri liðinn. Verðstöðvunarlögin voru til góðs fyrir almenning og þjóðarheildina, meðan þau voru í gildi, en þau gátu ekki staðið óbreytt til frambúðar.

Á tímabilinu 1. júní 1970 til 1. júní 1971 var almenn kaupmáttaraukning hjá launþegum 19%. Atvinnulífið gekk með eðlilegum hætti, og unnið var að því að koma upp nýjum atvinnugreinum. Verðbólgan truflaði ekki atvinnureksturinn, og arður þjóðarbúsins var meiri en áður. Á miðju s. l. ári var gjaldeyrisvarasjóðurinn 4 500 millj. kr. Greiðsluafgangur var hjá ríkissjóði í árslok 1970 500 millj. kr., og greiðslujöfnuður var hagstæður við útlönd. Í stað greiðsluhalla, sem varð hjá ríkissjóði 1971, hefði orðið áfram greiðsluafgangur það ár, ef ábyrg fjármálastefna hefði verið ráðandi. Nýir kjarasamningar voru gerðir fyrir síðustu áramót. Í þeim áttu að felast kjarabætur, en vegna verðbólgu og stjórnleysis er talið, að kjarabæturnar séu horfnar. Talsmenn stjórnarflokkanna vilja þó ekki viðurkenna það. Þeir segja, að kauphækkun komi um næstu mánaðamót vegna vísitöluhækkana og þá muni kjarabæturnar koma í ljós, en forseti Alþýðusambands Íslands var svo hreinskilinn að minna á, að verðhækkanirnar, sem orðið hafa síðustu vikurnar, koma launþegum ekki til góða í vísitölunni um næstu mánaðamót, og verður því áfram halli á kaupgjaldsreikningnum.

Það er ömurlegt til þess að vita, að þræðinum skyldi verða sleppt s. l. haust, þegar tíma verðstöðvunarlaganna lauk. Í stað þess að hafa hemil á verðbólgunni og tryggja með því heilbrigt efnahagsástand virðist stefnt að stórkostlegum hallarekstri, sem getur leitt til stöðvunar atvinnuveganna eða gengislækkunar. Það, sem hér hefur verið sagt, er ekki nöldur stjórnarandstöðunnar, heldur kaldar staðreyndir, og það, sem stuðningsmenn ríkisstj. segja þessa dagana. Í nýlegu fréttabréfi frá SÍS segir m. a.:

„Sjávarútvegurinn. Svart útlit, þrátt fyrir góðar ytri aðstæður.“ Enn fremur segir í sama bréfi: „Ljóst er, að brátt kreppir enn meira að, ef þeirri verðbólgu, sem nú gengur yfir, linnir ekki.“ Þannig horfir í sjávarútveginum, þrátt fyrir hærra afurðaverð en nokkru sinni áður og sæmileg aflabrögð, þegar á heildina er litið. Í sama bréfi er fullyrt, að frystiiðnaðurinn sé kominn inn í hallareksturstímabil og sennilega megi segja það sama um annan útflutningsiðnað. Margir gerðu sér fulla grein fyrir því, að ríkisstj. mundi verða þjóðinni dýr, en fáir munu hafa trúað því, að í mesta góðæri færi flest úr skorðum á jafnskömmum tíma og raun ber vitni. Ef sjálfstæðismenn hefðu verið við völd, þegar verðstöðvunarlögin féllu úr gildi, hefðu heilbrigðar efnahagsráðstafanir þegar verið gerðar. Það var mögulegt að koma í veg fyrir, að hrollvekjan gerði innrás í íslenzkt efnahagslíf, eins og Ólafur Björnsson hefur nýlega minnzt á. Nauðsynlegt hefði verið að gera nokkrar leiðréttingar á kaupgjaldi og verðlagi í samráði við aðila vinnumarkaðsins. Í framhaldi af því var óhjákvæmilegt að gera með lögum ráðstafanir til frambúðar í samráði við atvinnustéttirnar til þess að hamla gegn dýrtíð og verðbólgu. Með þeim hætti var að því stefnt að tryggja aukinn kaupmátt launa í meðalárferði vegna aukinnar framleiðni atvinnuveganna. Þannig væri líklegasta leiðin farin til þess að efla atvinnulífið og skapa atvinnuöryggi til frambúðar. Þannig mætti vinna að fullum sáttum milli vinnuafls og fjármagns, en það er mikilvægt til þess að tryggja vinnufrið í landinu. Ef hemill er hafður á verðbólgunni, geta launþegar fengið aukinn kaupmátt launa, en ef dýrtíðin vex hömlulaust, eins og hún gerir nú, hverfur kauphækkunin fljótt vegna verðhækkana. Þetta skilja launþegasamtökin og munu því vera fús að vinna heils hugar að lausn verðbólguvandans. Ríkisstj. hefur ekki gert neitt í þeim málum. Hún hefur látið sér nægja að veifa fölskum loforðum framan í launþega og landsmenn alla. Þetta er sú raunasaga, sem þjóðin öll verður að gjalda fyrir. Fyrrverandi ríkisstj. vann að eflingu atvinnuveganna. Hún vann að því að koma upp nýjum atvinnugreinum til þess að tryggja atvinnu í landinu og auka þjóðartekjur. Þess vegna var atvinnuleysið horfið og atvinna nægileg fyrir alla löngu áður en stjórnarskiptin urðu á s. l. ári. Þeir, sem höfðu farið til útlanda í atvinnuleit á erfiðleikaárunum, komu margir til baka aftur á árunum 1970 og ´71. Þannig var allt á réttri leið í efnahags- og atvinnumálum landsins, þegar stjórnarskiptin urðu. Í lýðræðisþjóðfélagi má eðlilegt teljast, að stjórnarskipti verði og að þingmeirihluti breytist. Við því er ekkert að segja. Það er reginmisskilningur, þegar því er haldið fram, að við sjálfstæðismenn sættum okkur ekki við það út af fyrir sig að vera utan ríkisstj. Það, sem við hörmum og er sorglegt, er, að stjórnarfarið undanfarna mánuði hefur grafið undan heilbrigðu efnahagslífi og eðlilegum starfsháttum í þjóðfélaginu. Það mun koma enn betur í ljós síðar, áður en langt líður, að þetta er ekki byggt á svartsýni, heldur er um staðreyndir að ræða. Það verður erfitt verk, en mikilvægt, sem kemur til með að liggja fyrir næstu ríkisstjórn. Ég trúi því, að sú hamingja og heill fylgi Íslandi, að ekki bregðist lengi, að þjóðin megi fá ríkisstjórn, sem tekur málin réttum tökum og tryggir farsæla stjórnarhætti, góð lífskjör og áframhaldandi framfarir í landinu. — Góða nótt.