23.11.1971
Sameinað þing: 16. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2269 í B-deild Alþingistíðinda. (2489)

Skýrsla um utanríkismál

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Eins og hæstv. utanrrh. gerði grein fyrir í ræðu sinni, er því heitið í málefnasamningi núv. hæstv. ríkisstj., að stefna Íslands í alþjóðamálum verði sjálfstæðari og einbeittari en hún hefur verið um skeið eins og í samningnum segir. Síðan eru í samningnum tilgreind nokkur atriði, sum næsta veigamikil, þar sem ákveðið er að breyta um stefnu frá því, sem tíðkaðist í tíð fyrrv. stjórnarvalda. Við Alþýðubandalagsmenn teljum fyrirheit málefnasamningsins um breytta stefnu í utanríkismálum einhver mikilvægustu atriði þessa samnings og framkvæmd þeirra skipta afar miklu máli. Á þetta vil ég leggja þunga áherslu — ekki vegna þess að hæstv. utanrrh. geri sér ekki mikilvægi stefnubreytingarinnar fyllilega ljóst, heldur af hinu, að í daglegu þrasi og þrefi okkar, sem fáumst við stjórnmál hér á Íslandi, um innanlandsmál hættir of mörgum til að láta ógert að mestu að fjalla um utanríkismálin sem skyldi. Við rökræðum þau allt of sjaldan. Við gefum okkur of sjaldan tóm til þess að skiptast á skoðunum um þennan afar mikilvæga málaflokk.

Sú var tíðin — a. m. k. nokkuð framan af í tíð fyrrv. hæstv. ríkisstj., þeirrar ríkisstj., sem gjarnan er kennd við viðreisn, að stjórnarvöld létu sér nánast ekki til hugar koma að gera að fyrra bragði grein fyrir utanríkismálum hér á háttv. Alþ. Þá voru slík mál aldrei rædd hér í þingsölunum, nema því aðeins að stjórnarandstæðingar og þá fyrst og fremst við Alþýðubandalagsmenn vektum máls á þeim eða einstökum þáttum þeirra. Vel man ég þá tíð — hún er ekki ýkja langt undan, þegar ekki tjóaði mikið að bera fram fyrirspurnir um utanríkismál og rökræður um þau við ráðherra máttu heita útilokaðar. Fyrirspurnum var yfirleitt ekki svarað nema þá út í hött og rökræður, ja, drottinn minn dýri, að dómi þeirra, sem þá fóru með húsbóndavaldið í stjórnarráðinu, kom íslenzk utanríkisstefna Alþingi Íslendinga ekki nokkurn skapaðan hlut við. Þannig var komið þessum málum og meðferð þeirra, að utanrmn. Alþ. hafði ekki aðeins verið gerð óvirk, heldur hreinlega lögð niður í reynd. Þetta er bláköld staðreynd, sem allir viðurkenna, og flestir, sem létu slíkt löglaust og siðlaust athæfi viðgangast, blygðast sín fyrir það nú. Þessir niðurlægingartímar yfirstjórnar íslenzkra utanríkismála eru liðnir, og aðrir slíkir koma vonandi aldrei aftur.

Um leið og ég læt þessi fáu orð nægja um langa en ljóta sögu — sögu, sem heyrir fortíðinni til, þá þykir mér skylt að geta þess, að fyrrv. utanrrh., Emil Jónsson, og fyrrv. form. utanrmn., Sigurður Bjarnason, áttu góðan hlut að því fyrir nokkrum árum, að þessu vansæmdarskeiði lauk. Þar var að vísu ekki um að ræða breytta og bætta utanríkisstefnu — því fór fjarri, en það voru tekin upp ný og að öllu leyti betri vinnubrögð í sambandi við meðferð utanríkismála og afstöðunni til Alþ. var breytt. Utanrmn. var lífguð við. Hún tók að nýju að fjalla um utanríkismál og fyrrv. utanrrh., Emil Jónsson, féllst á að taka upp þann góða sið, raunar þann sjálfsagða sið, að flytja Alþ. skýrslu um utanríkismál einu sinni á ári og efna þar með til nokkurrar umræðu um þessi mikilvægu mál.

Ég fagna því, að hæstv. núv. utanrrh. hefur þegar efnt til slíkrar skýrslugerðar og umræðna um þennan stóra málaflokk. Auk þess hefur hæstv. ráðh. nú boðað aðra slíka skýrslu um framvindu utanríkismála, sem flutt verður á síðari hluta þessa þings. Þetta tel ég verulega framför og vil mega vænta þess, að slík skýrslugerð til Alþ. tvisvar á ári gæti orðið að reglu, enda gæfist þá jafnframt nokkurt tóm til að rökræða utanríkismálin í því sambandi og af því tilefni. Einnig fagna ég því, að hæstv. utanrrh. hefur látið í ljósi, bæði í ræðu sinni hér í dag og eins á fundi í utanrmn., að hann vilji hafa sem bezt samband við utanrmn. Alþ. Ég tel mjög mikilvægt. að sú n. sé jafnan virk og starfsöm, og það alveg án tillits til þess, hvaða flokkar fara með völd hverju sinni.

Hæstv. utanrrh. hefur þegar gert fyrir því ljósa grein. að hvaða leyti og á hvern hátt er tekið að vinna að framkvæmd ýmissa fyrirheita núv. ríkisstj. um breytta utanríkisstefnu og breytt vinnubrögð á alþjóðavettvangi. Stefnan í landhelgismálinu hefur verið kynnt við hvert tækifæri, sem til þess hefur gefizt, og málstaður okkar túlkaður skilmerkilega. Er þar vinnubrögðum öllum mjög á annan og betri veg háttað en í tíð fyrrv. ríkisstj., þegar á stjórnarherrunum lá herfjötur í þessu efni og stækkun landhelginnar var þeim árum saman algert feimnismál. Svo afdráttarlaust hefur þetta stórmál okkar nú verið vakið af Þyrnirósarsvefni, bæði í kosningunum síðustu og nú eftir kosningar og stjórnarmyndun, að það má heita orðið sameiginlegt viðhorf Íslendinga allra, að við verðum að færa fiskveiðilögsögu okkar út með einhliða ákvörðun þegar á næsta ári.

Og fyrrv. stjórnarflokkar báðir, Sjálfstfl. og Alþfl., þessir flokkar tveir, sem í vor þorðu ekkert að gera í málinu annað en kjósa nýja nefnd og bíða eftir hafréttarráðstefnu, eru nú góðu heilli komnir vel á veg með að hafa sig upp úr þessum vesaldómi og vilja nú láta slag standa og ákveða einhliða stækkun fiskveiðilögsögunnar alveg eins og við hinir. Það er svo ósköp mannlegt, þótt hv. stjórnarandstæðingar eigi dálítið erfitt með að fallast á okkar sjónarmið alveg krókalaust. Ég heyri það á ýmsum, að þeim þyki það dálítið hláleg breyting, sem orðið hefur á stefnu þessara tveggja flokka, Sjálfstfl. og Alþfl., í fiskveiðilögsögumálinu frá því í vor, og það eru sumir, sem liggja þeim á hálsi fyrir yfirboð. En ég tel miklu fremur ástæðu til að fagna þeirri breytingu, sem þarna hefur á orðið. Þeim mönnum, sem í vor sáu hvarvetna torfærur og hættur í sambandi við einhliða útfærslu, finnst, að nú sé fátt auðveldara en stækka landhelgina, stjórnarsinnarnir núv. séu þar bara helzt til smátækir. Ég segi ekki annað en það, að batnandi mönnum er bezt að lifa, og enda þótt eitthvað kunni að vera hæft í því, að hvorug afstaðan, hvorki hin fyrri né jafnvel hin síðari, beri vott um sérlega mikla skarpskyggni, hvorki sú afstaða að telja í vor flestar eða allar bjargir bannaðar að sinni né hin að láta nú eins og ekkert sé auðveldara en færa út landhelgina að vild, þá tel ég síðari afstöðuna ólíkt mannborlegri og geðfelldari en hina fyrri.

Um breytta afstöðu Íslands til aðildar Kína að Sameinuðu þjóðunum tel ég þarflaust að fara mörgum orðum, svo sjálfsagt mál sem þar var á ferðinni að allra ofstækislausra manna dómi. Í því máli kom það ljóslega fram og á það er vert að benda, að breytt stefna í utanríkismálum forðaði okkur Íslendingum frá því að verða að líkindum eina Evrópulandið, sem beinlínis auglýsti sig sem sérstakt og algert leppríki Bandaríkjanna í þessu máli. Þess í stað urðum við í hópi þeirra ríkja, sem loksins tryggðu það, að Kína fengi sæti sitt hjá Sameinuðu þjóðunum. Þegar núv. hv. stjórnarandstæðingar sáu, hver tíðindi voru að gerast í Kínamálinu, gripu þeir og þá sérstaklega sjálfstæðismenn í það hálmstrá að segja: Kína á ekki að fá aðild að Sameinuðu þjóðunum á kostnað Formósu. Við skulum stuðla að því, sögðu þessir ágætu menn, að tvö kínversk ríki geti átt aðild að Sameinuðu þjóðunum.

Ég held, að það sé varla réttmætt að bera leiðtogum stjórnarandstöðunnar þann þekkingarskort á brýn, að þeir hafi trúað þessari sögu sinni um kínversku ríkin tvö. Þeir hljóta að vita, eins og allir sæmilega upplýstir menn, að það eina, sem stjórnendur Formósu og stjórnendur Kínverska alþýðulýðveldisins hafa verið hjartanlega sammála um núna einmitt í 20–30 ár, er þetta, að það er aðeins til eitt kínverskt ríki og Formósa er hluti þess. Einhvers staðar hef ég m. a. s. lesið, að meðal þjóðernissinnanna á Formósu — þeirra, sem þar ráða ríkjum, flokkist það undir landráð að halda einhverri annarri skoðun fram um þetta efni. Það hefðu því allir mátt sjá, sem vildu, að það væri ekki á færi okkar Íslendinga að skipta Kínaveldi í tvennt. Það lá við, að mér yrði dálítið óglatt af að hlýða á málflutning hv. sjálfstæðismanna, þegar þeir fóru um það býsna mörgum orðum hér um daginn, hversu ljótt það væri af núv. stjórnarvöldum að láta dvergríkið Ísland standa að því að reka smáríkið Formósu úr Sameinuðu þjóðunum. Þeir, sem vilja vita hið rétta, geta víða fengið upplýsingar um Formósustjórn, uppruna hennar og eðli. Ég vitna hér mjög stuttlega til einkar fróðlegrar greinar í New York Times, sem þar birtist ekki alls fyrir löngu. Þar segir:

„Stjórnendur Formósu eru ekki úr röðum þeirrar þjóðar, sem þar býr og hefur búið og er um 13 millj. manna. Stjórnendurnir eru innrásarher frá Kína, rúmlega 2 millj. að tölu. Þessi her flúði til Formósu, þegar hann hafði beðið lokaósigur í borgarastyrjöldinni kínversku, og hefur síðan drottnað yfir Formósubúum eða Taiwanbúum með tilstyrk Bandaríkjamanna. Hér er um algera einræðisstjórn að ræða. Ekkert bendir til þess, að Taiwanbúar yndu kínversku þjóðernissinnastjórninni stundinni lengur, ef þeir hefðu bolmagn til að reka hana af höndum sér.“

Þetta segir hið virta blað, New York Times, og ég hygg, að það fari hér með rétt mál. Læt ég svo útrætt um þetta.

Þá vil ég víkja nokkuð að því ákvæði málefnasamnings ríkisstj., sem valdið hefur hvað mestu fjaðrafoki í röðum stjórnarandstæðinga og framkallað sérstaklega í málgögnum sjálfstæðismanna kynstur af ósköp lágkúrulegum málflutningi, svo lágkúrulegum, að annað eins hefur varla sézt á prenti, síðan kalda stríðið var í algleymingi. Hér á ég að sjálfsögðu við þau skrif og að nokkru leyti þau ræðuhöld, sem farið hafa fram af hálfu sjálfstæðismanna um ákvæðið um endurskoðun varnarsamningsins svonefnda við Bandaríki Norður-Ameríku með það fyrir augum eins og í málefnasamningi ríkisstj. segir, að herliðið hverfi héðan á brott í áföngum á kjörtímabilinu.

Ég vil leggja á það áherzlu, að ákvæði málefnasamningsins um herinn er að mínu áliti og okkar Alþýðubandalagsmanna eitt af mikilvægustu atriðum samningsins. Þar er að vísu ekki alls kostar um það orðalag að ræða, sem við hefðum kosið, en þó náðist með stjórnarflokkunum samkomulag um algerlega nýja og stefnumarkandi ákvörðun í þessum efnum. Ég vænti þess fastlega, að vel takist til um framkvæmd þessa stórmáls, því að ég tel fullvíst, að stjórnarflokkarnir láti ekki fáryrði og brigzl stjórnarandstæðinga á sig fá, og ég hygg, að ofstækisskrif bæði Morgunblaðsins og Vísis hafi þau áhrif fyrst og fremst að þjappa stjórnarflokkunum þéttar saman, sameina þá og að baki þeim alla þá Íslendinga, hvaða flokk, sem þeir fylla, sem ekki vilja una þrásetu erlends hers í landi sínu um langa framtíð.

Þess eru nú ýmis merki, að andstæðingar varanlegrar hersetu á Íslandi eru að fylkja liði. Þeir eru að vinna að því og munu vinna að því í sameiningu, hvar sem þeir að öðru leyti standa í stjórnmálaflokkum, að herða á kröfunni um brottför hersins. Það er ljóst, að meðal hinnar ungu kynslóðar í landinu er sú skoðun mjög útbreidd, að herinn eigi að víkja. Þessa viðhorfs gætir í sívaxandi mæli meðal æskufólks í núverandi stjórnarandstöðuflokk.um báðum. Og þetta er raunar ríkjandi skoðun í röðum ungra Alþýðuflokksmanna, sem á þingi sínu fyrir nokkrum dögum gerðu afdráttarlausa samþykkt í þessu máli. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„25. þing SUJ ítrekar þá fyrri afstöðu SUJ, að bandaríska herliðið eigi að hverfa af landi brott.“ Og síðar í þessari ályktun segir, að fundurinn, þ. e. þingfundur sambandsins, skori jafnframt á ríkisstj. „að hvika ekki frá þeirri stefnu, sem hún boðaði í málefnasamningi sínum“ — þ. e. stefnunni í sambandi við herstöðvarnar.

Þetta var úr samþykktum 25. þings Sambands ungra jafnaðarmanna, sem var haldið í Hafnarfirði fyrir nokkrum dögum. Varaformaður Alþfl., hv. 8. landsk. þm., hefur vafalaust lesið ályktanir þessa þings og kynnt sér þessa skeleggu ályktun.

Annað glöggt dæmi vil ég nefna. Eftir nokkra daga minnast háskólastúdentar að vanda fullveldis Íslands. Þeir hafa í ár helgað 1. des. herstöðvamálinu og krefjast brottfarar hersins. Stúdentar, sem aðhyllast stefnu Sjálfstfl., hafa löngum verið áhrifaríkir innan háskólans og stundum borið sigurorð af sameiginlegum lista allra hinna, sem tilheyra öllum hinum flokkunum. Í haust vildu þeir ungu sjálfstæðismenn eða Vökumenn, sem svo nefna sig í háskólanum, sem tryggastir eru Sjálfstfl. og stefnu hans í herstöðvamálinu, fyrir hvern mun koma í veg fyrir, að 1. des. yrði baráttudagur fyrir brottför hersins. Þeir vildu fá landskunnan gáfumann til að tala 1. des., og umræðuefnið átti að vera framtíðarlandið. En stúdentar höfnuðu þessu svo rækilega, að listi hinna ungu sjálfstæðismanna fékk innan við þriðjung atkvæða, sem greidd voru í sambandi við þetta mál. Verulegur meiri hluti stúdenta tók undir með þeim, sem sögðu: Ísland, framtíðarlandið, á ekki að vera hernumið, og þess vegna helga stúdentar 1. des. kröfunni um brottför hersins. Þetta eru aðeins tvö dæmi þess, hvernig unga kynslóðin lítur á herstöðvamálið nú. Meiri hluti hennar, ég held, að mér sé óhætt að segja yfirgnæfandi meiri hluti, hefur hafnað áróðri Morgunblaðsins og annarra þeirra nátttrölla, sem enn lifa í andrúmslofti kalda stríðsins.

Ég ætla ekki að hafa ýkja mörg orð um málflutning þeirra hv. sjálfstæðismanna í tilefni af ákvæðum stjórnarsamningsins um herstöðvarnar. En óhemjuskapur þeirra, málflutningur allur og svikabrigzl í tilefni af viðræðunefnd þriggja ráðh. um þennan ákveðna þátt stjórnarsamningsins er á þann veg, að ekki verður um þagað í rökræðum um þessi mál hér á Alþ. Það er alkunna, að málgögn Sjálfstfl., Morgunblaðið og Vísir, hafa ekki linnt látum við að brigzla framsóknarmönnum og þá alveg sérstaklega hæstv. utanrrh. um svik við málstað lýðræðisins, um tilræði við sjálfstæði þjóðarinnar með því að fela kommúnistum öryggismálin eins og það er gjarnan orðað í þessum hv. málgögnum. Og þá er það gjarnan svo, að heitið kommúnisti á jafnt við a. m. k. stundum um fulltrúa SF eins og um okkur Alþýðubandalagsmenn. Þessi móðursýkiskenndu hróp hafa svo bergmálað nokkuð hér inni í þingsölunum, þótt ögn lágværari hafi að vísu verið. Við heyrðum dálítið bergmál hér hjá hv. 2. þm. Reykv. í dag. Og það er komin fram hér á Alþ. þáltill. tíu hv. sjálfstæðisþingmanna, hið dæmalausasta plagg, þar sem þeir bjóðast til þess að aðstoða hæstv. utanrrh. í viðræðum og samningagerð við Bandaríkin um herliðið, en að vísu gegn því — aðeins gegn því, að svo sem tveimur af þremur stjórnarflokkanna verði algerlega vikið til hliðar og þeir skuli vera útilokaðir frá allri meðferð þessara mikilvægu mála, ekki aðeins í ríkisstj., heldur einnig innan utanrmn. Alþ.

Eins og ég sagði, þá talaði hér áðan af töluverðum þunga hv. 2. þm. Reykv., Geir Hallgrímsson, varaformaður Sjálfstfl. og 1. flm. þessarar dæmalausu þáltill., sem ég nefndi og er á þskj. 47. Hún er að vísu ekki beinlínis hér til umræðu, og ég mun því ekki fara um hana mikið fleiri orðum. Hv. 2. þm. Reykv. mun vera einhver stærsti hluthafinn í hlutafélagi því, sem Árvakur heitir og er eigandi þess fróma dagblaðs, Morgunblaðsins. Það sá á ræðu hv. þm., að hann kann að nota blaðið sitt, því að kjarni ræðunnar var útdráttur úr eða þverskurður af málflutningi blaðsins um þessi mál málflutningi þess um herstöðvamálið og önnur utanríkismál heldur lágkúrulegum málflutningi. Hið sögulega yfirlit hv. 2. þm. Reykv. um herstöðvamálið og lofgerð hans um Atlantshafsbandalagið var hvort tveggja dálítið brokkgengt, svo að ég hafi ekki um það sterkari orð. Það var a. m. k. ekki vitnisburður um það, að hv. þm. hefði tileinkað sér þann þáttinn í sagnfræðihæfileikum Ara fróða, sem lýsti sér í þeim orðum, sem eftir Ara eru höfð, að hafa heldur það, sem sannara reynist.

Um stefnu núv. ríkisstj. í utanríkismálum sagði hv. 2. þm. Reykv.: „Íslendingar hafa sett ofan, sjálfsvirðingu þeirra er misboðið . . .“ Ja, mikil ósköp eru að heyra. Þetta segir talsmaður aðalflokks fyrrv. ríkisstj., að því er virðist án þess að roðna — flokks, sem hefur þá fortíð í sambandi við meðferð utanríkismála, sem hinn svonefndi Sjálfstfl. hefur. Og hver var svo ástæðan fyrir því að dómi hv. 2. þm. Reykv., að sjálfsvirðingu Íslendinga hafi verið misboðið? Jú, hún var vitanlega sú, að kommúnistum hefur verið hleypt til valda eins og það er gjarnan orðað á síðum Morgunblaðsins. Hvað er það af hálfu málsvara og talsmanna Sjálfstfl., sem verið er að segja og verið er að dylgja um með þessum dæmalausa málflutningi? Það er verið að drótta því að fulltrúum tveggja ríkisstjórnarflokkanna, að því er virðist, að þeir sitji á svikráðum við land sitt og séu þess albúnir að ofurselja það erlendu valdi. Um það er dylgjað, að við Alþýðubandalagsmenn a. m. k. og spilltir menn í röðum SF séum að undirbúa komu Rússa, við róum að því öllum árum, þessir vondu menn, að losna við bandaríska herinn til þess, að Rússar geti komið og lagt landið okkar undir sig.

Því miður hefur þessi áróður, þessi ofstækisáróður einhver áhrif á hrekklausar sálir — sálir, sem enn trúa Morgunblaðinu sínu, sem enn trúa þm. sínum í Sjálfstfl. En þessar landráðadylgjur eru ljótur leikur, og þær eru ekki samboðnar ýmsum þeim mönnum, sem iðka þennan leik. Leikurinn er sérstaklega ljótur, vegna þess að það er talað og skrifað um þessi mál algerlega gegn betri vitund. Tilgangurinn er látinn helga meðalið, sá tilgangur að reyna að ala á tortryggni milli stjórnarflokkanna og spilla stjórnarsamstarfinu. Ég staðhæfi, að forustumenn Sjálfstfl. og alþm. hans yfirleitt trúa því ekki sjálfir, að við Alþýðubandalagsmenn sitjum á svikráðum við þjóð okkar og gegnum því hlutverki að opna hér allar lokur fyrir Rússum. Sjálfir trúa þeir því ekki. Þeir ætla bara öðrum að trúa því. Forustumenn sjálfstæðismanna trúa því áreiðanlega ekki sjálfir, að hæstv. núv. menntmrh. sé handbendi Rússa, en þeir dylgja um það sumir hverjir í málgögnum sínum a. m. k. og vilja, að hrekklausar sálir trúi því og óttist þennan voðamann. Nei, þessi málatilbúnaður og þessi málflutningur þeirra hv. sjálfstæðismanna er vissulega neðan þeirra marka, sem þeir ættu sjálfra sín vegna að telja við hæfi.

Ég skal rökstyðja lítið eitt þá staðhæfingu mína, að þeir hv. sjálfstæðismenn trúi ekki meira en svo eigin sögum um illar og óþjóðlegar hvatir manna í a. m. k. tveimur af stjórnarflokkunum. Það mætti vissulega ætla, að hinar frelsiselskandi lýðræðishetjur í Sjálfstfl. gætu sízt af öllu hugsað sér að samneyta svo bersyndugum mönnum sem þessir eru að þeirra dómi, að ekki sé nú talað um þau ósköp að vinna með slíkum mönnum í ríkisstj. Það væri ótrúlegt, að þeir gætu hugsað til slíks, ef þeir tryðu sjálfir einu orði af því, sem þeir ætla öðrum að trúa. En skyldi þeim nú hafa getað komið það til hugar að samneyta bersyndugum? Man nokkur eftir því, hvernig Morgunblaðið og ágætir Morgunblaðsmenn biðu dag eftir dag að loknum kosningum í sumar með öndina í hálsinum og veltu yfir því vöngum með margvíslegu móti, hvort ekki væri nú nokkur leið að fá SF til að blása nýjum lífsanda í viðreisnarstjórnina. Og ég held, að ég ljóstri í sjálfu sér ekki upp neinu leyndarmáli, þótt ég segi, að það kunni að hafa flogið í hug einum og öðrum málsmetandi sjálfstæðismanni, hvort ekki kæmi nú e. t. v. sá flötur upp, að þeir gætu myndað ríkisstj. með Alþb. Grunur minn er sá, að hvorki Alþb. né SF hefðu í sumar eftir kosningar þurft að veifa nema svo sem litla fingri til þess, að sjálfstæðiskempurnar kæmu hlaupandi og það jafnvel með bænarorð sálmsins góðkunna í huga, ef ekki á vörum: „Ég fell í auðmýkt flatur niður . . .“ Og hefði farið á þennan veg, þá held ég, að það væri ekki nein hætta á því og ekki neinar líkur til þess, að okkur í Alþb. og í SF hefði verið brigzlað um sérlega óþjóðholla starfsemi — öðrum eins ágætismönnum.

Í málefnasamningi hæstv. núv. ríkisstj. er því hreinskilnislega lýst yfir, að ágreiningur sé milli stjórnarflokkanna um afstöðuna til aðildar Íslands að Atlantshafsbandalaginu og skuli núgildandi skipan haldast að óbreyttum aðstæðum. Skoðun okkar Alþýðubandalagsmanna á aðild Íslands að NATO er að sjálfsögðu óbreytt frá því, sem hún hefur verið. Ég hef stundum áður við umræður um utanríkismál hér á hv. Alþ. lýst þeirri skoðun minni, að hernaðarbandalögin tvö í Evrópu séu tæki stórveldanna, tæki Rússa og Bandaríkjamanna, til að festa í sessi og tryggja sem mest áhrifasvæði þessara tveggja sterku ríkja, en baráttan um skiptingu heimsins í áhrifasvæði hefur verið uppistaða og undirrót flestra átaka í alþjóðamálum um meira en tveggja áratuga skeið. Ég er þessarar skoðunar, enda þótt hv. 8. landsk. þm. reyndi að skýra þessi mál á töluvert annan veg.

Við Alþýðubandalagsmenn teljum eins og áður, að það sé algerlega órökrétt og raunar fáránlegt, að vopnlaus friðarþjóð eins og við Íslendingar séum í hernaðarbandalagi, og við munum halda áfram að vinna þeirri skoðun fylgi, að rétt sé og sjálfsagt að hverfa úr slíkum samtökum. Hins vegar munum við að sjálfsögðu virða það ákvæði stjórnarsamningsins eins og önnur ákvæði hans, sem okkur eru meira að skapi, að Íslendingar verði í Atlantshafsbandalaginu enn um sinn og uppfylli þær samningsbundnar skyldur sínar, sem beinlínis leiða af þessu. Hins vegar hefur því verið margsinnis lýst yfir og var m. a. skilmerkilega yfir lýst við inngöngu okkar í Atlantshafsbandalagið og það ítrekað margoft síðan, eins og m. a. hefur komið fram hér í dag í ræðu hæstv. utanrrh., að aðild að Atlantshafsbandalagi þyrfti ekki að leiða til hersetu, enda var sagt á sínum tíma, að ekki kæmi til mála, að útlendur her fengi að hafa aðsetur á Íslandi á friðartímum.

Að síðustu vil ég segja þetta. Hæstv. utanrrh. hefur nú flutt Alþ. fyrstu skýrslu sína um utanríkismál, eftir að hann hefur gegnt þessu virðulega og vandasama embætti um rúmlega fjögurra mánaða skeið. Ég hygg það flestra sanngjarnra manna mál, að hæstv. ráðh. hafi þegar unnið gott og verðmætt starf í þágu þjóðar sinnar og sé verður fyllsta trausts. Við Íslendingar höfum þegar góðu heilli að ýmsu leyti tekið upp sjálfstæðari og einbeittari utanríkisstefnu en áður, eins og í stjórnarsamningnum er heitið. Ég óska hæstv. utanrrh. farsældar og góðs árangurs í þýðingarmiklum störfum hans, og ég er þess fullviss, að hann mun kosta kapps um góða samvinnu við Alþ. og við utanrmn. þess.