23.11.1971
Sameinað þing: 16. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2275 í B-deild Alþingistíðinda. (2490)

Skýrsla um utanríkismál

Bjarni Guðnason:

Herra forseti. Hér er nú til umræðu skýrsla hæstv. utanrrh. Sannast sagna var henni dreift í gær, en mér var ókunnugt um, að hún yrði tekin hér á dagskrá í dag, þannig að ég er ekki jafn vel undirbúinn til þess að fjalla um þetta mál og ég hefði kosið, en ég skal þó reyna að draga fram nokkur meginatriði þess, hvernig skýrslan og helztu utanríkismál blasa við SF.

Fyrst skal þess getið, að hæstv. utanrrh. á lof skilið fyrir skynsamlega greinargerð. Þar gætir víðsýni, og það er augljóst, að hér er á ferðinni ný umbótastefna í utanríkismálum, enda kemur það heim við þau orð í stefnuyfirlýsingu ríkisstj. um utanríkismál að stefna Íslands í alþjóðamálum verði sjálfstæðari og einbeittari en hún hefur verið um skeið. Þetta hefur strax borið árangur, m. a. í afstöðunni til aðildar Kína að Sameinuðu þjóðunum og einnig í ýmsum þeim málum hjá Sameinuðu þjóðunum, þar sem Íslendingum finnst þeir vera skyldugir til að taka afstöðu með undirokuðum þjóðum í ýmsum meginmálum. Ég vil því lýsa yfir algerri samstöðu minni við þá víðsýni, sem birtist í þessari skýrslu, ekki sízt vegna þess að þessi skýrsla mun marka nokkur tímamót í utanríkismálum Íslendinga að því leyti, að hún er ekki borin uppi af hugsjónum kalda stríðsins, heldur er af víðsýni reynt að fjalla um öryggismál þjóðarinnar á öðrum grundvelli — á þeim grundvelli, að hernaðarbandalög hljóta alltaf í sjálfu sér að vera óæskileg. Í þessari skýrslu er fjallað m. a. um Sameinuðu þjóðirnar, landhelgismálið, EFTA, Evrópuráðið og Norðurlönd og síðast en ekki sízt um varnarmálin. Þar sem umræður hér á þingi hafa nær eingöngu beinzt að varnarmálunum, tel ég rétt að hafa það líka svo.

Þá vil ég hefja mál mitt á því að vekja athygli á ræðu hv. 8. landsk. þm. um utanríkismál. Sannast sagna var ræða hans ákaflega skemmtileg, því að hann fjallaði mikið um þann vanda að móta utanríkisstefnu þjóðar. Stór og vanhugsuð orð í stefnuskrá stjórnarinnar áttu að bera vott um ábyrgðarleysi, og einhvers staðar hef ég úr þeirri átt heyrt áður talað um, að flokkur eigi að vera ábyrgur. Þá minntist hv. þm. á það, að það væri ekki nýtt, að utanríkisþjónustan væri gagnrýnd, kostnaður væri lítill við utanríkisþjónustuna og rétt væri að styðja við bakið á starfsmönnum í utanríkisþjónustunni. M. ö. o., það á helzt að vera alger „status quo“. Mér var engan veginn ljóst, hvað vakti eiginlega fyrir hv. þm. nema það eitt, að engrar breytingar væri þörf í utanríkismálum Íslendinga. Og þá náttúrlega blasir við ástæðan fyrir því, hvers vegna til eru tveir jafnaðarmannaflokkar á Íslandi.

Varðandi ræðu hv. 2. þm. Reykv., Geirs Hallgrímssonar, vil ég einnig segja nokkur orð. Fyrst vil ég segja það, að hv. þm. varð jafnvel klökkur, þegar hann fór að tala um þjóðerniskennd og lýðræðisríki. En sannleikurinn er sá, að þessi hv. þm. afneitar með öllu, að átt geti sér stað breytingar í alþjóðapólitík. Hann eyddi máli sínu ákaflega mikið í það að vitna í Tímann, og má segja, að það sé dálítil nýjung, þegar sá hv. þm. metur Tímann sem fullgilda heimild, og það verður að segjast, að þm. hafi heldur dvalizt við aukaatriðin.

Í umræðum um varnarmálin vil ég leyfa mér að reyna að bægja burt því moldviðri, sem einkum sjálfstæðismenn hafa þyrlað upp í sambandi við þessi mál. Ég vil benda á, að í grg. með l. um varnarsamninginn frá 1951 standa þessi orð, með leyfi hæstv. forseta:

„Vegna sérstöðu Íslendinga var það hins vegar viðurkennt, að Ísland hefði engan her og ætlaði ekki að stofna her og að ekki kæmi til mála að erlendur her eða herstöðvar yrðu á Íslandi á friðartímum.“ Ég endurtek:

„…. að ekki kæmi til mála að erlendur her eða herstöðvar yrðu á Íslandi á friðartímum.“

Nú þurfa menn að gera sér ljóst, hvenær eru friðartímar og hvenær eru ekki friðartímar. Nú er ljóst, að allir flokkar, allir þm., vilja auðvitað tryggja öryggi þjóðarinnar. Spurningin er sú, á hvern hátt öryggi Íslands er bezt borgið. Sjálfstfl. og Alþfl. telja, að því sé bezt borgið með því að hafa varnarlið hér, en stjórnarflokkarnir telja, að það sé eðlilegast að líta á það sem svo, að nú séu friðartímar og það sé ástæðulaust að hafa her lengur í landinu. Þetta er skoðanamunur. Þetta er skoðanaágreiningur. En þess verður að krefjast af öllum flokkum, að menn reyni að ræða málin á nokkurn veginn málefnalegan hátt. Því fer víðs fjarri, að Sjálfstfl. hafi gert það. Sjálfstfl. stundar móðursýkiskenndan áróður í sambandi við þessi mál. Í fyrsta lagi hefur formaður Sjálfstfl. skrifað grein í Moggatetrið, sem heitir: Gæti þetta gerzt hér á landi?, og rakið svo sögur frá Ungverjalandi og Tékkóslóvakíu. Enn fremur eru myndaseríur — reyndar stórkostlegar — um rússneska flota og skip hér í Norður-Atlantshafi og á allan hátt reynt að reka einhvers konar hræðslupólitík. Og ef ég man rétt, þá minnir mig, að Morgunblaðið hafi nýverið einmitt verið að rekja þessi mál og bent á skip, sem væru hér á hafi úti, en hefði þó fengið þær upplýsingar hjá bandaríska sendiráðinu, að þetta væru líklega ensk skip, en þá bætti Mogginn við: Víst voru þau rauð.

Ég vil bara mælast til þess í sambandi við umræður um þessi viðkvæmu mál að það sé rætt um þetta á málefnalegum grundvelli. Og í sambandi við hinar miklu flotahreyfingar Rússa hér í Norður-Atlantshafi, eins og bent hefur verið á, vaknar sú spurning, hvort þessar siglingar Rússa stafi ekki einmitt af því, að hér er einhvers konar varnarstöð. Og ég vil benda á annað. Það er vafamál, hvort öryggi Íslands sé borgið með því að hafa 2 þús. manns á Keflavíkurflugvelli, hvort nokkurt skjól sé af slíku liði, ef til átaka stórvelda kemur. Ég er þeirrar skoðunar, að það sé vitanlega ekkert öryggi fólgið í því. Ef eitthvert öryggi á að vera, þyrfti að hafa hér minnst 100 þús. manns, og það hygg ég að muni nú ekki vaka fyrir stjórnarandstöðunni.

Þegar varnarsamningurinn var gerður, voru að sjálfsögðu vissar aðstæður fyrir hendi í veröldinni. En þessar aðstæður hafa breytzt ekki sízt varðandi vopnabúnað allan og stríðsrekstur. Það segir sig sjálft, að ef til átaka kæmi milli stórveldanna, þá eru vopn og sprengjur orðnar svo geigvænlegar, að það er hreint aðhlátursefni að hafa hér 1, 2 eða 3 þús. manns á Keflavíkurflugvelli til varnar. Ég hygg, að öryggi Íslands verði ekki tryggt með örfáum mönnum á Keflavíkurflugvelli og þess vegna væri kannske ráð, ef sjálfstæðismenn vildu fjölga þeim upp í 100 þús. eða 200 þús., þá gætum við farið að ræða um það, hvort öryggi væri fólgið í því. Það er dálítið ánægjulegt, að hér skuli enn vera á Íslandi menn, sem tala í anda Dulles gamla. Hann var tákn fyrir stefnu kalda stríðsins, og þegar hann talaði um kommúnista, þá varð hann málóða og tók engum skynsamlegum rökum.

Það er eitt í þessu, sem ég vil benda sérstaklega á, og það er það, að hér er ekki verið að veitast að bandarísku þjóðinni á nokkurn hátt. Bandaríkjamenn eru miklir vinir Íslendinga, og við höfum ekki reynt annað en gott af Bandaríkjamönnum. Það er reginmisskilningur, að í þessu felist á nokkurn hátt, að það sé verið að búa svo um hnútana að hrekja Bandaríkjamenn á brott til þess, að Rússar síðar ættu auðveldara með að setjast hér að. Þetta er reginmisskilningur. Og ég vil taka það fram og endurtek það, að þetta er ekki óvináttubragð við Bandaríkjamenn, vegna þess að ég tel, að fáar þjóðir hafi reynzt Íslendingum jafn vel og einmitt Bandaríkjamenn.

Vinnubrögð Sjálfstfl. í sambandi við þessi mál koma sérstaklega fram í sambandi við till. þá til þál., sem Geir Hallgrímsson minntist hér á. Það eru tíu þm. Sjálfstfl. — hvorki meira né minna — er bera þessa till. til þál. fram, og lestarstrákurinn er Geir Hallgrímsson og taglhnýtingurinn er formaður Sjálfstfl., Jóhann Hafstein, og má þá segja, að fylkingin sé frið. Þar er beinlínis gert ráð fyrir því að ganga fram hjá utanrmn., en samt tala menn um það meginatriði, að það eigi að vera náin tengsl milli utanrmn. og utanrrh. og Alþ. Hér á samkvæmt þessari till. að hverfa aftur til þess skeiðs, þegar, að mér skilst, utanríkismál voru einkamál ríkisstj. og lítið leitað til utanrmn., og ég tel, að það væri brot á öllum lýðræðisreglum, ef svona meginmál eins og varnarmálin væru rekin þannig, að utanrmn. væri þar sett utangarðs. Það væri náttúrlega fráleitt, en þetta er gömul hugsun og vinnubrögð, sem hafa tíðkazt hér, að mér skilst, á hinu glæsiþrungna viðreisnarskeiði Sjálfstfl. og Alþfl.

Ég vil ekki tefja tímann lengur, því að ég þykist vita, að nú muni sjálfstæðismenn óðfúsir í pontuna, en að öðru leyti vil ég bara lýsa yfir því, að SF óska utanrrh. farsældar í þessu erfiða starfi og vænta þess, að framhaldið verði á sama hátt og hann hefur þegar starfað.