23.11.1971
Sameinað þing: 16. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2301 í B-deild Alþingistíðinda. (2494)

Skýrsla um utanríkismál

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Ég verð að segja, að mér þótti nokkuð gaman að hlýða á mál háttv. 4. þm. Reykn. hér í dag. Ef til vill vegna þess að í ræðu hans voru stuttir kaflar, sem ég hafði ekki heyrt áður, en meginefnið kannaðist ég við, m. a. frá framboðsfundum okkar í Reykjaneskjördæmi í vor. Eitt af því, sem ég hafði ekki heyrt áður, voru hugleiðingar þm. um það, að sjálfstæðismenn hefðu nánast beðið eftir hentugu tækifæri til að falla í auðmýkt að fótum Alþb. í von um að komast með þeim í stjórn. Þetta er mikill misskilningur, svo að ekki sé meira sagt. Þetta tækifæri gafst reyndar aldrei, því að áður var Alþb. víst búið að koma Framsókn til við sig. Það reyndist víst auðvelt eins og stundum áður, og þeim Alþýðubandalagsmönnum verður ekkert óglatt í sænginni, að því er virðist, þrátt fyrir smávægilegan ágreining, sem stundum vill verða svona í byrjun. Það er hins vegar skiljanlegt, að hv. þm. verði óglatt af að sitja undir umræðum um varnarmál, og þarfnast það varla frekari skýringar. Um ræðu hv. 3. landsk. þm. er ekkert að segja, og tek ég þar undir með hv. 1. þm. Reykv. Við erum jafnnær um stefnu SF eftir sem áður. Þó mátti skilja, að það væri skoðun þeirra, að í tvö þúsund manna varnarliði væri ekkert skjól. Hins vegar væri athugandi, hvað út úr dæminu kæmi, ef fjölgað væri í liðinu í 100 þús. manns. Þetta vekur spurningu um það, hvort slíkar bollaleggingar séu á dagskrá hjá hinum stuðningsflokkum ríkisstj.

Þá vil ég þakka hæstv. utanrrh. skýrslu hans um utanríkismál sem hér er til umr. Mér þykir hún að ýmsu leyti athyglisverð, ekki sízt kaflinn um varnarmálin, sem ég er ekki í nokkrum vafa um, að hæstv. utanrrh. hefur samið án íhlutunar annarra ráðh. Ég vil fara hér nokkrum orðum um þennan kafla skýrslunnar, þó að það hafi þegar verið gert í umræðum í dag af nokkrum hv. þm. Hæstv. utanrrh. tók svo til orða, að sér virtist það ekki óeðlileg ósk lítillar vopnlausrar þjóðar, sem nýlega fékk fullveldi, að fá að lifa ein í landi sínu eftir nær óslitna dvöl erlends herliðs á Íslandi í um 30 ár. Auðvitað er það ósk allra Íslendinga, að þeir geti lifað í landi sínu einir, án verndar erlends herliðs og án ótta við það, að reynt kynni að verða með hervaldi að koma hér á þjóðskipulagi, sem er andstætt hugsun mikils meiri hl. íslenzku þjóðarinnar, án ótta við það, að við með því að afþakka dvöl varnarliðs í landi okkar veikjum varnarmátt hinna vestrænu þjóða, sem við höfum til þessa skipað okkur á bekk með. En það, að við höfum sætt okkur við dvöl erlends varnarliðs í landinu svo lengi, er ekkert einkamál okkar Íslendinga, eins og reyndar hæstv. utanrrh. viðurkennir, þegar hann segir í skýrslu sinni, að hann álíti það ekki endilega okkar skyldu að sanna það, að ástand heimsmála sé þannig, að hér þurfi ekki að vera varnarlið, það sé nú bandalagsþjóðanna að sannfæra okkur um það, að hér sé enn nauðsyn varnarliðs, á sama hátt og NATO-þjóðirnar sýndu okkur fram á árið 1951, að hér þyrfti að vera her vegna atburðanna í Kóreu og ástandsins í heiminum yfirleitt.

Hér var einnig vitnað í ræðu Bjarna heitins Benediktssonar frá 1968, þar sem hann sagði, að það færi alveg eftir mati okkar sjálfra á heimsástandi, þegar þar að kemur, hversu lengi bandarískt lið dvelur á Íslandi. Þessi umsögn er enn í fullu gildi. Spurningin er hins vegar, af hvaða ástæðum eða hvernig ákvörðun um áframhaldandi dvöl eða brottför varnarliðsins er tekin. Í málefnasamningi stjórnarflokkanna segir, að varnarsamningurinn við Bandaríkin skuli tekinn til endurskoðunar eða uppsagnar í því skyni, að varnarliðið hverfi frá Íslandi í áföngum. Skuli að því stefnt, að brottför liðsins eigi sér stað á kjörtímabilinu. Þetta ákvæði málefnasamningsins, sem stjórnarsinnar vitna orðið í eins og Kínverjar í Rauða kverið, hefur valdið áhyggjum lýðræðissinnaðra manna hér heima og á Vesturlöndum. Það hefur valdið áhyggjum vegna þess, að augljóst er, hverjir hafa haldið um pennann, þegar þessi orð voru skrifuð. Það sést m.a. af því, sem skrifað var í blað Alþb., 5. tölublað 1971, að loknum kosningum, en áður en núv. hæstv. ríkisstj. var mynduð. Þar segir, að það, sem vinstri stjórn þurfi m. a. að gera, sé að reka varnarliðið úr landi og Ísland segi sig úr NATO.

Engum kom í sjálfu sér á óvart, að orð sem þessi kæmu úr þessari átt. Það, sem kom á óvart, var það, hve Framsfl. hefur látið teyma sig til þess eins, að því er virðist, að komast í stjórn. Það hefur m. a. s. verið upplýst, að í ráðherranefndina frægu, sem fara á með viðræðurnar af okkar hálfu við Bandaríkjamenn og NATO-þjóðirnar, var skipað, áður en gengið hafði verið frá skipan í ráðherraembættin, eflaust að kröfu Alþýðubandalagsmanna, sem hafa gert sér ljóst, að utanríkisráðherraembættið mundi ekki falla í þeirra hlut. Það út af fyrir sig gerir þó hlut hv. utanrrh. sýnu betri, að hann skyldi ekki sjálfur hafa skipað þessa nefnd. Mismunandi túlkun stjórnarliða á þessu atriði málefnasamningsins hefur ekki farið fram hjá neinum. Allir vita, hvað Alþýðubandalagsmenn vilja í þessu máli. Hv. 4. þm. Reykn. hefði viljað dálítið annað orðalag, eins og hann komst að orði í dag. Það er einnig ljóst, hvað einstakir hópar innan hinna stjórnarflokkanna vilja, og þar er sýnilega hart deilt um stefnuna. Þetta ákvæði málefnasamningsins er enn eitt dæmið um hin fljótfærnislegu vinnubrögð hæstv. ríkisstj. Fyrst er ákvörðun tekin um, hvað gera skuli, síðan er farið að kanna, hvort unnt sé að koma málinu fram. Í þessu tilfelli er ákvörðun tekin af mönnum, sem lýsa því svo yfir á eftir, að þeir hafi nánast ekkert vit á utanríkismálum, öllu því viðvíkjandi hafi verið haldið leyndu fyrir þeim í stjórnartíð fyrri ríkisstj. Samt telja þeir sig þess umkomna að gefa yfirlýsingar eins og þessa, og það að óathuguðu máli.

Ræða hæstv. utanrrh. hér í dag vekur hins vegar vonir um það, að hér verði ekki rasað um ráð fram., eins og fyrri yfirlýsingar, bæði hans og annarra, hafa gefið tilefni til að halda. Hann sagði í skýrslu sinni, að fullt tillit yrði fyrst og fremst tekið til okkar eigin öryggis, en einnig öryggis þeirra þjóða, sem við viljum hafa samstöðu með. Þá yrði einnig kannað, hvaða efnahagsleg áhrif mundi leiða af brottför varnarliðsins. Ef þessi vinnubrögð verða við höfð og ákvarðanir síðan teknar í samræmi við niðurstöður athugana, þá nýtur hæstv. utanrrh. stuðnings sjálfstæðismanna. Sjálfstæðismenn hafa líka með þáltill. þeirri, sem lögð hefur verið fram á þskj. nr. 47, boðið fram stuðning í fyrirhuguðum viðræðum um öryggismál Íslands. Sú till. er ekki vantraust á hæstv. utanrrh., eins og hann hefur látið orð falla um.

Annars er það athyglisvert, hve hæstv. ráðh. eru fjarska viðkvæmir fyrir því, sem við sjálfstæðismenn segjum hér í þinginu og fyrir þeim till., sem við flytjum. Þeir telja, að annaðhvort sé þar um að ræða vantraust á þá eða viðkomandi mála sé getið í málefnasamningnum og því verði þeim komið í framkvæmd af ríkisstj. Þessi till. okkar sjálfstæðismanna er þvert á móti stuðningur við hæstv. utanrrh., og okkur sýnist þar ekki af veita, þar sem hann hefur sér við hlið menn, sem eru með fyrir fram mótaðar skoðanir á þessum málum, eindregnir andstæðingar þess, að við fylkjum okkur með vestrænum lýðræðisþjóðum, eindregnir andstæðingar þess, að þetta mál sé nokkuð kannað, og þá eru þeir um leið á öndverðum meiði við hæstv. utanrrh. Við lítum svo á, að Framsfl. og Alþfl. og ef til vill SF vilji skipa sér í raðir lýðræðissinna.

Að lokum vil ég segja það, að ef hæstv. utanrrh. vinnur að þessu máli í samræmi við það, sem hann hefur sagt hér í dag, þá er von til þess, að skynsamlega verði á málum haldið.