23.11.1971
Sameinað þing: 16. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2317 í B-deild Alþingistíðinda. (2496)

Skýrsla um utanríkismál

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Það var aðeins eitt atriði í ræðu hæstv. utanrrh., sem ég sá ástæðu til þess að ræða nokkuð. Að vísu kom fleira fram í ræðu hans síðar, sem ástæða væri til að ræða nánar, m. a. þau orð hans, að einhver orð hér í sölum Alþingis Íslendinga hefðu valdið því, að ásókn á Íslandsmið hefði minnkað. Ég veit ekki, hver þau orð eru. Vera má, að það séu orð hæstv. núv. ráðh., en ég efa það mjög. En þau orð hans, sem hann lét falla um landhelgismálið, — ég vil þó samt sem áður taka fram, að ég er ekki hingað kominn til þess að ræða það að þessu sinni, enda held ég, að bæði þeir sjálfstæðismenn, sem hér hafa talað í dag, og reyndar aðrir stjórnarandstæðingar, hafi forðazt það, vegna þess að það mál er enn til umr. undir öðrum dagskrárlið, — en það voru einmitt þau orð hæstv. ráðh., að hann gat þess, að til viðbótar þeim 30 þeirra ríkja, sem taka þátt í ráðstefnunni í Genf, sem honum er kunnugt um að muni styðja okkar mál þar, þá sé von í um það bil 40 Afríkuríkjum. Auk þess má reikna með Stóra-Kína, sem hæstv. utanrrh. hefur nú komið inn í Sameinuðu þjóðirnar, og mun líklega hafa í för með sér, að þó nokkuð margir fylgifiskar, eins og t. d. Albanía, muni styðja afstöðu Kína til okkar í sambandi við landhelgismálið og reyndar fleiri mál, eins og hann hefur orð Maos um að gert verði. Ég fæ þá ekki séð annað en það liggi á borðinu fyrir okkur á væntanlegri hafréttarráðstefnu, að við Íslendingar náum fram því, sem við höfum alltaf haldið fram, sem við sjálfstæðismenn og Alþfl.-menn héldum alltaf fram í tíð fyrrv. ríkisstj., að tíminn ynni þar með okkur, og á ég þá að sjálfsögðu ekki við dagblaðið Tímann, en þann tíma og þá þróun, sem er að verða í alþjóðamálum á þessu sviði. Sú þróun, sem hefur orðið vegna yfirtöku ákveðinna ríkja á hafsbotninum m. a. og þeirrar nýtingar, sem þegar er hafin á honum, og sú skoðun okkar, að lífið í sjónum fyrir ofan hafsbotninn sé þá þessara sömu ríkja og þá okkar ekki sízt, sem eigum allt okkar undir þeirri strönd, sem undan okkar landi er, þessi skoðun er að sigra. Því spyr ég, — enda virðist mér á þessum umr., sem farið hafa fram um landhelgismálið að undanförnu, að lítið hafi komið fram annað en gerræðislegar fullyrðingar, og jafnvel á margan hátt mætti hafa stærri orð um þær fullyrðingar, sem fram hafa komið frá núv. stjórnarliði um hinn brezk-vesturþýzka samning, sem gerður var 1961: Hvaða ástæða er þá til þess að segja þessum samningi upp? Ef við færum út, jafnvel á morgun, ef okkur finnst ástæða til eigum við verndunina vísa, við eigum vísan meiri hluta á væntanlegri hafréttarráðstefnu. Hæstv. utanrrh., hæstv. sjútvrh. og hinir ráðherrarnir eru búnir að tryggja okkur 40 svarta frá Afríku, þeir eru búnir að tryggja okkur Kína og fylgiríki, auk allra hinna, sem við áttum fyrir. Ég spyr: Af hverju þá ekki að fylgja þeirri eðlilegu þróun, sem á að vera í samskiptum ríkja, þegar milliríkjasamningar eru gerðir? Ég tek það fram aftur, að ekki var ætlan mín að ræða hér sérstaklega um landhelgismálið, þótt full ástæða væri til, vegna þess að á það er minnzt í umræddri skýrslu hæstv. utanrrh. og þá kannske sérstaklega vegna þeirra stórkostlegu blekkinga, sem annar þeirra ráðh., sem með þetta mál virðist fara, og oft og tíðum frekar en hæstv. utanrrh., hefur beitt, en þar á ég við hæstv. sjútvrh. Hann hefur leyft sér það, ekki aðeins hér í þingsölum, heldur og í fjölmiðlum, að tala um og benda á í einu orðinu nauðsyn samstöðu meðal þm. og þjóðarinnar, en svo reynir hann að spilla í öðru orðinu þessari sömu samstöðu með orðum, sem hann lætur falla í þá átt, að ákveðnar tillögur, sem löngu voru komnar hér fram á Alþ. og eru yfirlýst stefna bæði Alþfl. og Sjálfstfl. hér á Alþ., verði einmitt til þess að kljúfa landshluta. Auðvitað ber að mótmæla þessu harðlega, og auk þess þeim fullyrðingum hans og blekkingum, að þótt mörk fiskveiðilögsögu séu miðuð við jafndýpislínu, þá sé ekki hægt að verja þá línu. Þetta lýsir auðvitað alveg sérstakri fáfræði þessa ráðh. á þessum málum og vitandi vits segi ég það hér hiklaust, að hann er að reyna að blekkja þjóðina, og þetta eru kannske flestir sjómenn til vitnis um. En að sjálfsögðu skulum við allir viðurkenna það, að sama er, hvort um er að ræða 50 mílna eða 70 mílna línu eða jafndýpislínu, í dag höfum við Íslendingar engan möguleika á því að verja þá línu á þann hátt, sem við þurfum gagnvart lögum og dómstólum, ef við tökum skip í þeirri væntanlegri fiskveiðilandhelgi, einfaldlega vegna þess, að það vantar svo miklu meira til og á ég þar t. d. við staðsetningarkerfi.

Eins og ég hef þegar tekið fram, ætlaði ég ekki að ræða um þetta, en það var að gefnu tilefni í ræðu hæstv. utanrrh., sem ég vil skýrt taka fram, eins og ég hef áður tekið fram opinberlega, að ég tel bæði góðan og gegnan dreng, og ég tel það enn, þótt hann hafi lent í tröllafélagsskap upp á síðkastið. Auðvitað er hægt að æra alla góða drengi, ef þeir lenda í þannig félagsskap, og mér sýnist á öllu, að á nokkurn hátt hafi hann ærður verið, vegna þeirra fáránlegu spurninga, sem hæstv. utanrrh. leyfir sér að leggja hér fyrir einn af ræðumönnum Sjálfstfl., sem hér talaði í dag, og þar á ég við þessa spurningu: Af hverju vilja Norðmenn og Danir ekki hafa erlent herlið í sínu landi? Og fleira var það, sem hann lagði út af. Hann vitnaði að vísu í þýdda grein í Morgunblaðinu í dag, ákveðið atriði í henni. Vissulega hefði hann átt að lesa þá grein alla í ræðu sinni og benda á það, sem þar kemur fram, m. a. um þann stóraukna flota- og herstyrk, sérstaklega flotastyrkinn á Norður-Atlantshafinu, sem Rússar hafa komið upp á síðustu árum, og þann geysilega vígbúnað, sem þeir hafa haft á þeim landsvæðum, sem þeir ráða yfir í norðvesturhluta Rússlands, á Kólaskaganum, á landamærum Finnlands, við landamæri Noregs og fyrir norðan landamæri Svíþjóðar. Þetta eru staðreyndir, sem ekki verður gengið fram hjá og allir vita um, og þeir hafa sjálfir hælzt um, sérstaklega af flotastyrk sínum. Ef hæstv. utanrrh. hefur engar viðræður átt við fulltrúa Danmerkur eða Noregs um þessi varnarmál okkar, sem eru auðvitað ekkert annað en hlekkur í varnarkeðju Norður-Atlantshafsbandalagsríkjanna, og hann hefur ekki enn þá ákveðið neinar slíkar viðræður, eins og kom fram í ræðu hans, þá get ég leyft mér að skýra honum frá því, að ég hef átt viðræður við ýmsa hina ágætustu menn, sérstaklega frá Noregi, sem hafa ekki aðeins þungar áhyggjur út af þeirri ákvörðun, sem þegar hefur verið tekin af hæstv. ríkisstj. og í málefnasamningi hennar, — og menn hreinlega krossa sig í bak og fyrir, þegar þeir lesa hann, — heldur benda þeir m. a. á það, og það er sameiginlegt álit þeirra, sem hlut eiga að máli, — og þar á ég við okkar vinaþjóðir og samstarfsþjóðir í Atlantshafsbandalaginu í Evrópu, Vestur-Evrópuþjóðirnar, — þeir benda á það réttilega, að þessum síaukna og stórvaxandi flotastyrk Rússa og þeim æfingum, sem sá floti hefur hér á Norður-Atlantshafi og suður um Atlantshaf, er bent m. a. gegn flutningaleiðum til Vestur-Evrópu, en þær leiðir liggja nú fram með suðurströnd Afríku. Þar hef ég t. d. í huga yfir 50% af öllum olíuflutningi til Vestur-Evrópu, sem þýðir það, ef stöðvaður yrði, að alla framleiðslu, alla þessa getu væri hægt að stöðva á örfáum klukkustundum með þeim flotastyrk, sem Rússar hafa yfir að ráða. Sama gildir auðvitað um flutningaleiðina til Bandaríkjanna. Þessar þjóðir leggja ekki að meginefni til upp úr því, að hér á Íslandi sé sú varnarstöð, sem sumir eru að tala um, eða að hér sé herstyrkur til þess að berjast við eitthvert óvinalið, sem réðist inn í landið, heldur það eftirlit, sem hægt er að hafa með þessum flota, sem enn þá er talinn vera í höndum þeirra manna, sem mundu nota hann gagnvart þeim þjóðum, sem mynduðu þetta bandalag á sínum tíma til þess að forðast það, að upp á okkur og aðrar þjóðir yrði þröngvað þjóðskipulagi og skoðunum, sem við ekki vildum.

Hvað með herstöðvar NATO í Noregi og í Danmörku í stað þess að hafa þær hér á Íslandi? Ég geri ráð fyrir því, ég veit það, þótt hæstv. utanrrh. hafi þá verið í skóla, þá veit ég líka, að á þeim tíma hafði hann ákveðnar pólitískar skoðanir og að hann hefur að sjálfsögðu myndað sér skoðanir á málefnum Finnlands á þeim tíma, þegar Rússar réðust inn í það. Gerir hann sér grein fyrir því í dag, hvað mundi gerast, ef önnur NATO-ríki, — nú er Noregur eitt af NATO-ríkjunum, — ef önnur ríki en Noregur settu upp slíkar stöðvar eða kæmu her inn í Noreg? Þegar eru komnar að landamærum Finnlands beinar brautir, þeir vegir, sem kvartað er yfir í dag, að séu ekki á Íslandi, þegar á að verja það land, en hefði kannske komið, ef ríkisstj. hefði ekki gripið til sinna ráðstafana 1956. Það er tiltölulega auðvelt að halda þeirri vegarlagningu áfram. Sá er ótti Norðmanna, Dana og Svía, að ef til slíks kæmi, að NATO setti upp sérstakar herstöðvar á vegum annarra en þeirra, sem í landinu búa, þá mundu Rússar þegar taka Finnland og setja sínar herstöðvar niður við landamæri Finnlands að austanverðu, sem þýddi það, að aðeins yrðu nokkrar mílur á milli þessara stöðva, sem enn frekar mundi auka á þá spennu, sem er í heiminum í dag. Hvernig sem við lítum á dvöl varnarliðsins hér á Íslandi, og að sjálfsögðu viljum við allir vera lausir við að það sé hér, skulum við ekki gleyma því, að við erum líka skuldbundnir í okkar samningum, við erum skuldbundnir öðrum þjóðum. Sérstaklega á ég þá við skoðanir vinaþjóða okkar á Norðurlöndum í þessu efni, og ég vil taka fullt tillit til þeirra skoðana, sem þar koma fram. Það, sem ég hef hér sagt, er auðvitað aðeins byggt á mínum eigin viðtölum við menn af Norðurlöndum og reyndar frá NATO líka, en eins og ég tók fram áðan, hefur hæstv. utanrrh. ekki enn þá séð ástæðu til þess að ræða við þá um þessi mál eða hyggst enn gera það.

Ég vildi aðeins undirstrika þetta atriði og vil aftur undirstrika, að það er mikill ótti um það í þessum ríkjum, að ef til þess þyrfti að grípa, að NATO setti upp fleiri stöðvar, t. d. í Norður-Noregi, en þeir hafa og reknar eru af Norðmönnum, þá grípi Sovétmenn til þessara gagnaðgerða. Það var aðeins þetta atriði, sem ég vildi sérstaklega draga fram og láta koma fram í þessum umræðum.

Ég vil þar utan þakka hæstv. ráðh. fyrir hans greinargóðu skýrslu og fyrir sumt af því, sem þar hefur verið drepið á sérstaklega og reyndar hefur verið gert í ræðum manna hér í kvöld, eins og t. d. hv. þm. Benedikt Gröndal gerði, er hann drap á starfsaðstöðu okkar manna í utanríkisþjónustunni. Þjóðin hefur stundum gert grín að því og reyndar alþm. líka, að utanríkisþjónustan væri nokkurs konar dvalarheimili fyrir aldraða stjórnmálamenn. Það má á margan hátt taka undir þetta, en hins vegar skulum við ekki gleyma því, að margir þeirra, sem á þann veg hafa verið sendir til starfa á vegum utanríkisþjónustunnar, hafa verið sendir af sérstökum ástæðum og vegna sérstakra mála og hafa unnið þar mikið og gott gagn í sínu starfi. Hinu skal ég ekki leyna, að mér er þetta frekar ógeðfellt, þótt þar eigi í hlut margir mínir ágætu vinir, sem hafa staðið sig með afbrigðum vel í þessari þjónustu. En því meir ber því að fagna, að nú upp á síðkastið hafa valizt til starfa í þessari þjónustu hinir ágætustu menn ungir að árum, og okkur ber að styðja að slíkri þróun og ég mundi styðja það heils hugar, ef hæstv. utanrrh. og reyndar ríkisstj. í heild tækist að búa betur að þeim og stuðla að slíkri þróun í framtíðinni. Ég álít, að það mundi verða íslenzkri þjóð til heilla.