23.11.1971
Sameinað þing: 16. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2320 í B-deild Alþingistíðinda. (2497)

Skýrsla um utanríkismál

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Hér hafa í dag farið fram fróðlegar umr. um stefnu ríkisstj. í utanríkismálum. Þó hafa þær ekki haft inni að halda allan þann fróðleik, sem við hefði e. t. v. mátt búast. Við erum mörg, sem enn þá spyrjum, hver sé afstaðan til ýmissa viðkvæmustu þátta utanríkismála okkar. Það er margt óljóst í þessum málum og hefur ekki skýrzt í því, sem hér hefur verið rakið af hálfu ríkisstj. í dag. Þess vegna langar mig til þess að lesa hér dálítið, sem mér finnst varpa ljósi á afstöðu hæstv. ríkisstj. með því, með samþykki hæstv. forseta, að lesa upp úr Þjóðviljanum. Blaðið Þjóðviljinn í dag er einstaklega fróðlegt. Það flytur ýmis atriði úr stjórnmálayfirlýsingu landsfundar Alþb. og viss ummæli hæstv. sjútvrh., sem leiða hugann að því, að það er eitt öðru fremur, sem einkennir afstöðu fulltrúa Alþb. í utanríkismálum. Það er nefnilega nú sem fyrr, eins og fram kom í dag í tilvitnun í orð hv. þm. Þórarins Þórarinssonar, aðalatriðið í þeirra afstöðu að slíta sem mest þeir mega tengsl við okkur vinveittar vestrænar þjóðir. Þessu til stuðnings vil ég minna á, að fyrir nokkrum dögum fór hér fram á Alþ. umr. um landhelgismálið, og það var mjög greinilegt, að mikill munur var á því, hvað það var, sem hæstv. forsrh. taldi aðalatriðið í landhelgismálinu, og hvað það var, sem hæstv. sjútvrh. taldi aðalatriðið í landhelgismálinu. Hæstv. forsrh. sagði: Aðalatriðið er samstaðan um útfærslu landhelginnar. Þessu erum við í Sjálfstfl. hjartanlega sammála. Hæstv. sjútvrh. sagði: Aðalatriðið er uppsögn samninganna við Breta og Vestur-Þjóðverja. Þetta hefur hann aftur sagt í ræðu hér á Alþ. Annar ráðh. segir: Aðalatriðið er samstaða um útfærslu landhelginnar. Hinn ráðh. segir: Aðalatriðið er uppsögn samningsins við Breta og Vestur-Þjóðverja, — uppsögn samningsins, sem felur í sér ákvæði um það, að við höldum áfram að færa út okkar landhelgi. Það er aðalatriðið að segja þeim samningi upp, segir hæstv. sjútvrh. Þetta er um afstöðu hæstv. sjútvrh. til landhelgismálsins, um það, sem hann telur aðalatriði.

Í Þjóðviljanum gefur að líta, hvað það er, sem er aðalatriðið í augum þessa sama hæstv. ráðh. í varnarmálunum. Það er birt tilvitnun í orð hæstv. ráðh., sem raunar var vitnað til í dag, en í rauninni er þessi litla grein svo merkileg, að ég ætla, meðleyfi hæstv. forseta, að lesa hana ásamt fyrirsögn. Fyrirsögnin er þessi: „Herinn fer, ef við störfum vel. Við Alþb.-menn störfum vel“. Í greininni segir svo: „Ég get ekki fullyrt, að það sé rétt haft eftir utanrrh., að fyrst skuli fara fram rækileg athugun á aðstöðu hersins hér á landi og síðan eigi að taka ákvörðun um brottför hans eða áframhaldandi dvöl hans,“ sagði Lúðvík, „en hér er haldið fram algjörlega rangri túlkun málefnasáttmálans.“ Maður hefði nú saknað þess, ef eitthvað hefði um liðið án þess að kæmi fram kenning um túlkun á þessum sáttmála.

Svo haldið sé áfram: „Í málefnasamningnum er fjallað um endurskoðun herverndarsamningsins, en þar er átt við endurskoðun, sem miðar að því, að herinn eigi að fara úr landi í áföngum á kjörtímabilinu. Orðalagið í málefnasáttmálanum bendir enn fremur til þess, að leiði endurskoðunin ekki til brottflutnings hersins, skuli herverndarsamningnum sagt upp.“ Ég veit ekki, hvort hæstv. utanrrh. er sammála þessu. Hérna er þessu blákalt haldið fram, þetta hefur ekki komið fram hér í umræðum í dag og ég tel fulla ástæðu til að vekja athygli á þessum skilningi viss hluta af ríkisstj. á þessum þætti málefnasamningsins. Ef ég má halda áfram tilvitnunum í hæstv. ráðh., — það er kannske fullmikið lagt á hv. þm., þeir eiga nú svo oft kost á því að hlusta á langar ræður af vörum þessa hv. þm. sjálfs. En hann heldur áfram, segir blaðið: „Á því er enginn vafi, að ef við eigum að ná fullum sigri í þessu máli, sem er eitt erfiðasta málefni ríkisstj., verðum við að leggja af mörkum mikla vinnu, það verður að glæða þjóðernisskilning á mikilvægi málsins.“ Ég vil taka fram, að þessu er ég hjartanlega sammála. Það er mjög mikilvægt að glæða þjóðernisskilning Íslendinga á því að varðveita öryggi þessa lands, og mér finnst, að við öll, hvort sem við erum nú í Alþb. eða í öðrum flokkum, eigum að vinna að því að efla þjóðernisskilning á mikilvægi þessa máls, á mikilvægi þess að varðveita öryggi og sjálfstæði Íslands.

Svo enn sé vikið að þessari grein og ummælum hæstv. sjútvrh., þá segir hann: „Það sést á Morgunblaðinu og málflutningi íhaldsaflanna, að þau telja sig vera í sókn og telja, að með sama framferði verði undan látið í herstöðvarmálinu, og Morgunblaðinu gæti orðið að ósk sinni, ef ekki verður starfað sleitulaust til þess að vekja skilning á nauðsyn þess, að herinn hverfi úr landinu. Við skulum gera okkur grein fyrir því, að Framsfl. hefur gengið til móts við okkur í þessu máli.“ Ég vil mega skjóta hér inn í: Hvernig? og beina þeirri spurningu til hæstv. ráðh., sem með þessi mál fer eða á að fara. Greinin heldur áfram: „En til þess að framsóknarmenn, segir hæstv. ráðh., standi ákveðið við ákvæði málefnasáttmálans um brottför hersins, verða þeir, framsóknarmennirnir, að finna sterkan þjóðarvilja að baki kröfunni um brottvísun hersins. Lúðvík kvaðst telja, að Einar Ágústsson utanrrh. hefði einlægan vilja í þessu máli.“ Svo mörg voru þau orð, svona var þessi grein, með tilvitnunum í orð Lúðvíks Jósepssonar, hæstv. sjútvrh. Mér finnst hún varpa talsverðu ljósi á það, hvernig hluti ríkisstj., og að því er virðist allráðamikill hluti ríkisstj., lítur á þau mál, sem alltaf er verið að ræða um hér á Alþ. fram og aftur, hvernig skilja beri.

Í sambandi við þetta mál langaði mig til að minnast á eitt, sem hér hefur mjög komið til umræðu, till. okkar sjálfstæðismanna um nefnd til að fjalla um varnarsamninginn, um nefnd fulltrúa lýðræðisflokkanna, sem þingflokkar Alþ. skuli kjósa í því skyni. Með tilliti til ræðu hæstv. utanrrh. hér áðan verður ekki annað séð en að hann þarfnist þeirrar hjálpar, sem fram er boðin í þessari till. Ég vil vona það, að á þeim tíma, sem líður þangað til þessi till. kemur á dagskrá, hafi hann ráðrúm til þess að endurskoða afstöðu sína og átti sig á, hvað hér er um að ræða. Þetta er tilboð um hjálp honum til handa af heilum hug fram borið.

Mér er annað en hlátur í hug og meira að segja get ég ekki varizt þeirri hugsun, að ræða hæstv. utanrrh. hér áðan hafi verið beinlínis hryggileg. Hér minnist hæstv. utanrrh. á það hvað eftir annað, að með till. sjálfstæðismanna sé verið að leggja til að fara inn á algjörlega nýja braut í störfum Alþ., að því er varðar varnarmálin. Það er ekki nýtt í sölum Alþ., að lýðræðisflokkarnir fjalli um þessi mál, varnarmálin, um varnarsamninginn, um afstöðuna til NATO, sem við erum aðilar að, til þess að vernda lýðræðið í landinu. Það, sem er nýtt í þessu máli, er það, að til skuli kvaddir til að fjalla um þessi mál boðberar þeirra afla, sem varnarsamningurinn og aðildin að NATO er til þess að verjast. Sú fullyrðing hv. þm. Jónasar Árnasonar hér í dag, að þessi till. væri ólýðræðisleg, hljómaði mjög undarlega í mínum eyrum. Menn sjá stundum dálítið einkennilega fleti á lýðræðinu og má segja, að svo hafi verið um hv. þm. í þetta sinn. Hér er um að ræða samning um það, að þjóðir þessa hluta heims, sem við byggjum, sameinist til varnar gegn þeim öflum, sem ógnuðu lýðræði og öryggi í heiminum, þegar þessi samningur var gerður, — og hvernig í ósköpunum má það vera, að nú sé ástæða til þess að ráðgast um það við boðbera heimskommúnismans hvernig eigi að verjast yfirgangi þess afls? Mér finnst þetta undarlegt lýðræði. Það liggur alveg ljóst fyrir, að þessir menn vilja hvorki hafa neitt með Atlantshafsbandalag né varnarsamning að gera. Um hvað ætla þeir þá að ræða í sambandi við varnarmálin? Þessi afstaða liggur fyrir. Einhvern veginn sýnist mér, að þessi notkun á reglum lýðræðis mundi fremur verða til þess að grafa undan því en styrkja það.

Árið 1951, þegar varnarsamningurinn var gerður, lá fyrir um það samþykki allra þm. lýðræðisflokkanna, 43 að tölu, að rétt væri að hafa ekki samband um þessi mál við fulltrúa Sameiningarflokks alþýðu — Sósíalistaflokksins. Þá voru þessir sömu lýðræðisflokkar sammála um það, að varnarleysi Íslands stefndi, eins og þá var ástatt í alþjóðamálum, bæði landinu sjálfu og friðsömum nágrönnum þess í óbærilega hættu. Allir þm. lýðræðisflokkanna voru sammála um gerð varnarsamningsins, en ríkisstj. lýsti því yfir, að hún hefði ekki talið rétt að hafa samráð við þm. Sameiningarflokks alþýðu — Sósíalistaflokksins um öryggismál Íslands. Núna hafa vissir af þessum sömu lýðræðisflokkum allt aðra skoðun á þessu máli, núna finnst þeim rétt að kveðja fulltrúa kommúnistanna í heiminum til ráðuneytis um það, hvernig eigi að verjast hugsanlegum ágangi heimskommúnismans. Ég held, að við verðum að gera okkur grein fyrir því, að aðalatriði þessa máls er það, hvorum megin við viljum standa í afstöðunni til valdabaráttunnar í heiminum. Viljum við standa áfram eins og við höfum gert með þeim vestrænu lýðræðisþjóðum, sem búa við svipaða menningu og svipaðar lífsskoðanir og við gerum, eða viljum við opna okkar land og skapa möguleika á því, að e. t. v. renni af stað sú skriða, sem þó tókst að stöðva, þegar Atlantshafsbandalagið var stofnað? Þetta finnst mér vera aðalatriði málsins og afstaðan til varnarmálanna og Atlantshafsbandalagsins snúast um þetta.