23.11.1971
Sameinað þing: 16. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2323 í B-deild Alþingistíðinda. (2498)

Skýrsla um utanríkismál

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Ég þarf að gera örfáar athugasemdir við atriði, sem til mín hefur verið beint og ég sé ástæðu til að ræða frekar en í fyrri ræðu minni í dag.

Hv. 5. þm. Vesturl., Jónas Árnason, beindi til mín mjög nýstárlegri og athyglisverðri spurningu. Hann skýrði okkur frá því, að nú lægi fyrir Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í New York tillaga, sem Ceylonbúar hefðu flutt, um að friðlýsa Indlandshaf allt. Hv. þm. spurði, hvort ég væri reiðubúinn til að standa að því, að flutt yrði tillaga af sama tagi um stór svæði af hafinu umhverfis Ísland, þ. e. verulegan hluta af Norður-Atlantshafi. Svar mitt er, að mér væri mikil ánægja að ræða þetta við hann. Þetta er nýstárleg hugmynd, sem ég hef ekki haft ástæðu til að hugleiða áður, og er fyllsta ástæða til að athuga hana og íhuga. Hins verður þó að geta, að mér virðist við fyrstu sýn sem hér á Norður-Atlantshafi mundu fylgja slíkri friðlýsingu ýmsir annmarkar, sem ekki eru fyrir hendi á Indlandshafi. Gerir þetta málið þar af leiðandi ólíklegra til að ná fram, þó það þýði ekki, að ekki megi hreyfa slíkri hugmynd.

Indlandshaf er stórt, en við það allt er ekki eitt einasta teljandi flotaveldi og lítið um flotastarfsemi þar, sérstaklega eftir að Bretar hafa dregið sig að verulegu leyti í hlé á þessu hafi. Á Atlantshafi er þessu allt öðruvísi farið. Þar er miklu meira um hernaðarlegar siglingar, og alveg sérstaklega er sá munurinn, að á Atlantshafi er aragrúi af kafbátum, bæði frá stórveldinu í austri og stórveldinu í vestri, sem flytja flugskeyti með kjarnorkuvopnum. Þetta gerir miklu ríkari ástæðuna fyrir því, að hreinsa þurfi hafið af þessum ófögnuði, en það mundi engu að síður gera málið erfiðara í framkvæmd. Nú vitum við það, að allar alvarlegar tillögur um afvopnun eru tilgangslitlar, nema þeim fylgi ráðstafanir til að fylgjast með því, hvernig þeim er framfylgt. Það er enginn vandi að fá gerðar samþykktir um að banna kjarnorkuvopn, en það er mikill vandi að fá stórveldin til að samþykkja ráðstafanir til að fylgjast með framkvæmd þess. Ætti að hafa eftirlit með því, að slíkri friðlýsingu á Norður-Atlantshafi væri vandlega framfylgt, yrðu Sameinuðu þjóðirnar væntanlega að halda uppi slíku eftirliti. Ef hafa ætti eftirlit með Noregshafi, Íslands- og Grænlandshafi og hafinu sunnan við Ísland, hvar ætti þá að staðsetja það eftirlit? Óhjákvæmilegt yrði að staðsetja það á Íslandi. Ef ætti að framkvæma slíka friðlýsingu af alvöru, þá er ég hræddur um, að hún mundi leiða til þess, að hér yrði miklu meira alþjóðlegt eftirlitslið, með allan þann flug- og herbúnað, sem til þess þarf, en það lið, sem hér er í dag. En ég vil ítreka, að mér þykir vænt um, að þessu var beint til mín, en ekki valdameiri aðila hér í deildinni. Mér væri mikil ánægja að ræða þetta nánar við hv. þm. og kanna, hvort grundvöllur er fyrir því að flytja þetta mál, því að orð eru til alls fyrst, þó að oft reynist langt frá fyrsta orði til framkvæmda á sviði utanríkismála.

Hér hefur mikið verið rætt um það, hvers vegna Danir og Norðmenn vilja ekki erlendan her. Því hefur verið kastað fram, að þeir hafi meira bein í nefinu en við, þeir trúi eins og við, að ekki sé gott og samrýmanlegt frelsi þjóðarinnar að hafa slíkan her til lengdar, og þeim hafi tekizt að framfylgja stefnunni en okkur ekki.

Þetta mál er engan veginn einfalt. Auðvitað er meginmunurinn sá, að þeir hafa sín eigin varnarkerfi og verja til þeirra miklum fjármunum. En það er margt annað, sem þarna kemur til greina. Sú hugmynd, að sveitir, sem eru á Íslandi, geti gert jafnmikið gagn, ef þær væru í Noregi eða Danmörku, er hreinn misskilningur, því um allt önnur varnarverkefni er að ræða hér en þar.

Hv. 10. þm. Reykv. benti á það, sem kallað er norrænt jafnvægi og er orðið eitt elzta og kunnasta slagorð í utanríkispólitík á Norðurlöndum. Það byggist á því, að Norðurlöndin að vestanverðu, Noregur, Danmörk og Ísland, hafa á vissan hátt reynt að draga úr hernaðaraðgerðum á landsvæðum sínum, sem kynnu að ögra Sovétríkjunum eða hvetja þau til að leggja þyngri byrðar á Finna. Þetta er mikilvægt atriði, og Finnar sjálfir skilja manna bezt, hvaða þýðingu það hefur fyrir þá. Norðmenn fara svo nákvæmlega út í þetta, að þar er útlendum flugvélum, sem til Noregs koma, bannað að fljúga austur fyrir vissa lengdargráðu. Þegar Norðmenn halda heræfingar, sem þeir gera öðru hverju og bjóða oft til þeirra herjum bandamanna sinna, þá láta þeir slíkar æfingar aldrei fara fram í Finnmörku, vegna þess að það hérað liggur að Sovétríkjunum. Þetta er vísvitandi stefna, sem er skýrust í Noregi, enda er Noregur það landið, sem á landamæri að Sovétríkjunum. Þó eru í Noregi miklar birgðastöðvar Atlantshafsbandalagsins. Þar eru aðalstöðvar norðurvarna þess með fjöldanum öllum af erlendum herforingjum og brezkum yfirmanni í stöðvum norðan við Osló. Til viðbótar má benda á varðandi Dani, að þeir framfylgja þessari stefnu í Danmörku sjálfri, og samkvæmt lögum er Grænland hluti af Danmörku, en þessi stefna gildir ekki um Grænland. Ef hér væri eingöngu um að ræða viljastyrk til að verjast erlendu varnarliði, þá hlyti sama regla að gilda í Danmörku sjálfri og í Grænlandi, en því fer víðs fjarri. Hitt er annað mál, að Danir vilja sem allra minnst tala um Grænland í þessum efnum.

Hér hefur verið nokkuð rætt um, hvaða vörn sé raunverulega í varnarliðinu. Ég verð að segja, að ég undrast, að menn skuli tala um það í alvöru á Alþingi Íslendinga, að þetta 3000 manna lið eitt gæti varið Ísland fyrir árás. Þetta hélt ég, að engum manni hefði dottið í hug. Mér skilst, að þetta lið vinni aðallega að tvenns konar hlutverkum suður á Reykjanesi. Það var sagt hér áðan og lesið upp úr þýzku blaði, að hér væri 57. orrustuflugsveit Bandaríkjanna og radarkerfi. Hér mun nú aðeins vera hluti af þessari orrustusveit. Bandarískir blaðamenn, sem hér hafa verið, segja mér, að þessi sveit hafi til afnota orrustuflugvélar, sem eru svo úreltar, að þær eru ekki í notkun neins staðar í heiminum nema hér, og hafa ekki verið framleiddar síðan 1958. Af þessu sjá menn, að það er ekki vænzt hernaðarátaka, enda munu þessar flugvélar rétt geta náð í rússnesku könnunarflugvélarnar og tekið af þeim myndir. Það er allt og sumt, sem gerist. Þar að auki fer fram víðtækt eftirlitsflug frá Keflavíkurflugvelli og um hafið hér í kring og mig grunar, en gaman væri að fá um það umsagnir manna, sem betur vita, að það sé þetta eftirlit, sem talið er skipta langmestu máli í dag.

Hvernig á þetta varnarlið að verja Ísland? Það er einfaldlega með því, að Ísland er hlekkur í varnarkeðju Atlantshafsbandalagsins. Þessi varnarkeðja byggist ekki á því, að á hverjum fermetra þessara ríkja sé svo öflugur hervörður, að þangað komist enginn. Varnarmátturinn byggist á því, að árás á eitt af þessum ríkjum þýði árás á þau öll og að kerfið sem heild sé þannig, að ef einhver hygði á atlögu gegn því, mundi það fljótlega sjást. Varðandi okkur Íslendinga mundi ábyggilega gefast tími til að gera frekari ráðstafanir, ef til slíkra ótíðinda drægi. Menn mega því ekki líta á varnarmáttinn hvað varnarliðið eitt og einangrað snertir, heldur verður að líta á kerfið í heild.

Mér hefur heyrzt á tali hæstv. utanrrh., að hann vilji á einhvern hátt viðhalda því aðvörunarhlutverki, sem hér er gegnt. Ef það er hægt, þannig að hlekkurinn verði óbrotinn og keðjan ekki talin veikari en hún var fyrir, geri ég ráð fyrir, að það teljist umræðugrundvöllur um lausn þessa máls.

Það er langt síðan allir varnarliðsmenn, sem beinlínis voru hér til þess að hleypa úr byssum sínum á hugsanlega innrásarmenn, voru sendir heim. Allt slíkt lið fór héðan 1960–1961, þegar stórbreyting var gerð á varnarliðinu. Í þessu sambandi vil ég benda á atriði, sem sjaldan hefur komið fram opinberlega. Síðasta ríkisstj. dró úr fjölda varnarliðsmanna og dró úr starfseminni á Keflavíkurflugvelli til stórra muna, þannig að fjöldi varnarliðsmanna mun hafa minnkað um allt að því helming á þessu tímabili. Þetta er ekki alveg þýðingarlaust fyrir þá, sem fyrst og fremst líta á varnarmálin út frá þjóðernislegum tilfinningum og óttast þau áhrif, sem dvöl varnarliðsins getur haft á íslenzkt líf og íslenzka menningu.

Hæstv. utanrrh. kvartaði undan því, að ég hefði talað um hin stóru orð í stefnuyfirlýsingu stjórnarinnar í utanríkismálum, en sagt, að framkvæmdir væru litlar. Ég held, að ég hafi hagað orðum mínum þannig, að ríkisstj. hafi reynzt illa undir það búin að efna stóru orðin. Það hefur komið í ljós í varnarliðsmálunum og í mörgum fleiri málum, sem heyra undir utanríkismál, að ríkisstj. hefur litlar tiltækar hugmyndir um það, hvað hún ætlar að gera. Það var ekki ætlun mín að kveða upp yfir henni endanlegan dóm eftir fjóra mánuði, heldur skal ég fallast á, að það sé ástæða til þess að bíða, þangað til stjórnin er öll, áður en slíkur dómur verður upp kveðinn.

Hæstv. ráðh. gerði nokkuð úr því, að ég hefði viðurkennt, að of mikil leynd hefði verið yfir varnarmálunum um langt skeið. Ég vissi það fyrir, þegar ég sagði þessi orð, að þessi svör mundu koma, að við hefðum séð það seint, að þarna hefði ekki verið rétt á málum haldið. Í þessu sambandi vil ég minna á, að sú leynd, sem hefur verið yfir varnarliðinu og starfsemi þess, er ekki ný. Hún er miklu eldri en síðasta ríkisstj. Ég vil jafnframt benda á það, að skortur á samstarfi utanrrh. við Alþ. og utanrmn. er heldur ekki nýlegt fyrirbrigði, heldur má rekja það allar götur aftur til þess, þegar varnarliðið kom hingað 1951. Á þeim árum, fyrst eftir að varnarliðið kom, sat hér ríkisstj., sem í voru Framsfl. og Sjálfstfl., en Alþfl. var þá í hópi lýðræðisflokkanna. Mig minnir, að þá hafi fyrirrennarar Alþb., a. m. k. á einhverju skeiði, fengið menn í utanrmn. Þá þótti vera svo mikil hætta á ferðum, ef þeir kæmust í þessi mál, að ákveðið var í samráði við Framsfl. að láta utanrmn. kjósa þriggja manna undirnefnd til þess að sneiða fram hjá hættunni. Þessi undirnefnd starfaði mörg ár þannig, að í henni voru sjálfstæðismaður, framsóknarmaður og Alþýðuflokksmaður. Þarna byrjaði þetta, þegar Sjálfstfl. fór með utanríkismál. Þessu kerfi var síðan haldið dyggilega áfram, þegar breyting varð í utanrrn. og Framsfl. tók við stjórn þess. Það varð engin breyting á.

Nú kunna menn að furða sig á þessu, þegar ég rifja það upp, og fordæma það. En ég vil biðja menn að vera ekki of stranga í dómum, heldur íhuga, hvernig almennt ástand og viðhorf voru á þeim árum, þegar kalda stríðið geisaði. Þetta var einn angi af því. Tortryggnin var svona mikil. Það tók okkur eins og aðra langan tíma að losna úr þessum viðjum. En ég vil biðja menn að minnast þess líka, að það var Alþfl.-maður, Emil Jónsson, sem endanlega hætti þessu kerfi, er hann var utanrrh., tók upp samstarf við utanrmn. Varð það fljótlega jafngott og það er í dag. Emil byrjaði á því, sem hæstv. utanrrh. heldur áfram með ágætum í dag, að flytja Alþ. ítarlega skýrslu um utanríkismál og láta fram fara umræður á eftir.

Hér er um að ræða arf frá liðinni tíð, og ég sé enga ástæðu til þess að draga dul á, hvernig þessi mál voru. Það eru ekki sinnaskipti hjá Alþfl.-mönnum í þessu máli frekar en öðrum. Við erum jafnfegnir því og allir aðrir, að þessi mál skuli hafa breytzt svo til hins betra, að menn úr öllum flokkum geti um þessi mál rætt og að utanrmn. geti starfað eðlilega í samvinnu við utanrrh.

Við höfum flutt till. okkar um, að Alþ. og nefndir taki upp sérstaka rannsókn á varnarmálum að gefnu tilefni. Meðferð varnarmálanna er komin í þvílíkan hnút, að við teljum slíka athugun fyllilega réttlætanlega og gerum okkur vonir um, að hún gæti orðið til að greiða fyrir málinu og sérstaklega til að gefa alþýðu manna í landinu betri kost á því en hingað til að kynna sér ýmislegt varðandi varnarmálin.

Ég sé ástæðu til þess að þakka hæstv. utanrrh. fyrir það, hversu vel hann tók undir þá till., sem Alþfl. hefur flutt um þetta. Mér skildist, að hann væri ekki á móti efni till. Ef Alþ. vildi, gæti það samþykkt till. Hann sagði ekki um þessa till. eins og aðra till., að hún fengi ekki hans atkvæði, svo að ég geri mér von um, að hæstv. ráðh. gæti hugsað sér að greiða okkar till. atkvæði. Ég vil aðeins segja við hann, að það mundi hjálpa til, ef slíkur áhrifamaður léti í ljós við flokksmenn sína og raunar aðra stjórnarflokka, að hann væri fylgjandi því, að þessi till. næði fram að ganga.

Hér hefur aðeins verið lítillega fjallað um landhelgismálið, vegna þess að það hefur verið rætt við önnur tækifæri, og ég skal ekki halda þeim umr. áfram. En ég vil aðeins að lokum nefna örlítið atvik. Þegar sendiherra Kínverska alþýðulýðveldisins gekk á fund Sigurðar Bjarnasonar ambassadors í Kaupmannahöfn og þakkaði fyrir hjálpina í New York, þá tilkynnti hann, að Kínverjar mundu styðja okkur í landhelgismálinu. Samkv. frásögninni tilkynntu Kínverjar, að þeir vildu styðja okkur í útfærslu í 50–70 mílur. Nú eru Kínverjar greindir menn og sjálfsagt úrvalslið, sem þeir hafa í utanrrn., svo að ég efast ekki um, að þeir hafi kynnt sér málflutning Íslendinga, áður en þeir sögðu þetta. En þeir hafa þá, jafnklókir og þeir eru, skilið málflutning okkar, sem fram hefur farið undir forystu núv. ríkisstj., á þann hátt, að það væru 50–70 mílur, sem fyrir okkur vekti. Ég vil aðeins benda á, að það er ekki einskis virði að fá vitneskju um, að þeir hafi skilið kynningu landhelgismálsins á þennan hátt. Ég vil að lokum benda á, að þetta gefur í skyn, að kynning málsins erlendis ætti ekki að þurfa að standa í vegi fyrir því, að hæstv. ríkisstj. skapaði þjóðareiningu með því að sýna samkomulagsvilja gagnvart till. stjórnarandstöðunnar í þessu eina atriði, ekki sízt þegar a. m. k. við í Alþfl. höfum lýst yfir, að við erum reiðubúnir til að leggja öll önnur deiluatriði í landhelgismálinu á hilluna, ef þetta fengist fram.