23.11.1971
Sameinað þing: 16. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2327 í B-deild Alþingistíðinda. (2499)

Skýrsla um utanríkismál

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Ég hafði nú ekki ætlað mér að taka mikinn þátt í þessum umr. Þær eru þegar orðnar alllangar, og mér fannst satt að segja ekki vera verulega mikil ástæða til þess, eins og þær höfðu farið hér fram. En nú í nokkrum síðustu ræðum, einkum af hálfu fulltrúa sjálfstæðismanna, hefur verið vikið sérstaklega að mér nokkrum atriðum og málið augljóslega rætt á nokkuð sérstökum grundvelli, svo að mér þykir ástæða til þess að segja um það nokkur orð. Skiljanlega hefur mestur hluti tímans í sambandi við þessar umr. farið í umr. um hin svonefndu herverndarmál, um hersetumálin öll og um það ákvæði í stjórnarsamningnum, að herverndarsamningurinn við Bandaríkin skuli tekinn til endurskoðunar eða uppsagnar með það fyrir augum, að herinn verði látinn fara úr landinu. Það þurfti í rauninni engum að koma það neitt á óvart, að það mundi verða þetta atriði, sem tæki hér einna mestan tíma, með hliðsjón af því, hvernig stjórnarandstaðan hefur brugðizt við þessu atriði í stjórnarsáttmálanum í blöðum sínum að undanförnu. Það getur auðvitað heldur ekki farið fram hjá neinum, sem hlýtt hefur á þessar umr., og í rauninni heldur ekki fram hjá neinum, sem lesið hefur það, sem Sjálfstfl. hefur sent frá sér í blöðum sínum um þetta mál að einn megintilgangur hans með því, sem hann segir og skrifar varðandi þetta mál, er sá að reyna með öllu hugsanlegu móti að leita eftir því, hvort ekki sé nú hægt að koma stjórnarflokkunum í hár saman út af afstöðunni til þessara mála, af því að þeir sjálfstæðismenn vita, að afstaða stjórnarflokkanna til þessara mála hefur á undanförnum árum ekki verið fullkomlega eins og er auðvitað ekki enn þá. Þá snýst leikurinn um það: Er nú ekki hægt að koma þeim saman út af þessu máli? Og svo koma hinar furðulegustu spurningar: Hvað meina þeir, hvað segir þessi, hver á að semja, hvernig á að fara að þessu? Og þeir halda, að þeir hafi slíka menn hér við að tala af hálfu ríkisstj., að þeir snúist í kringum þá vegna allra þessara fávíslegu spurninga. Ein aðferðin er sú að tala mikið um lýðræðisflokka. Auðvitað er þá jöfnum höndum hvíslað að Framsfl. og sagt með öllum mögulegum ráðum: Þú ert þó alltaf lýðræðisflokkur, en hinir ekki. Já, ég held, að maður þekki þessa aðferð, hún er ekkert ný. Það hefur svo sem ekki verið haft mikið á orði stundum eða tíðkaðist ekki fyrir stuttu síðan, að verið væri að eyða miklum tíma í að halda því fram við framsóknarmenn, að þeir væru miklir lýðræðissinnar og í einhverjum sérflokki, — þá voru þeir nú stundum verstir allra í stjórnarandstöðunni. En hvað um það, nú er sjálfsagt að reyna þetta. Það er jafnvel talað hér í þessum umr. um ólíka afstöðu ríkisstj.-flokkanna til landhelgismálsins. Og hér eru haldnar ræður um það, að aldeilis hafi verið munur að heyra, að forsrh. hafi sagt hér í umr. um landhelgismálið, að hann legði aðaláherzlu á samstöðu allra flokka í málinu, en sjútvrh., sem kom í ræðustól var nú aldeilis ekki á þeim buxunum. Hann vildi bara segja upp samningunum við Breta og Þjóðverja. Af svona málflutningi gætu menn dregið þá ályktun, að ég hafi tekið fram eitthvað allt annað en það, að ég legði áherzlu á, að samstaða gæti skapazt um málið, þó að ég marg-, margundirstrikaði það í mínu máli og það hefði komið hér fram hvað eftir annað í frásögnum af mínum ræðum í blöðum, að ég teldi, að það skipti meira máli en nokkuð annað varðandi það, hvort við næðum fullum sigri í málinu, að full samstaða tækist um afgreiðslu þessa máls á milli allra flokka á Alþ. En samt er þessu haldið fram. Og svo er sagt, að ég hins vegar hamri bara á því að segja upp samningunum við Breta og Þjóðverja og af því ættu menn að skilja, að Framsókn legði enga áherzlu á þetta. Þetta er bara afstaða Lúðvíks Jósepssonar og annarra þeirra, eins og hér er sagt, sem aðeins vilja slíta tengslin við vinaþjóðir okkar í Vestur-Evrópu.

Já, það er ekkert nýtt, að þessu sé haldið fram af forustumönnum Sjálfstfl. Það er ekki aðeins í þessari lotu landhelgismálsins. Það var líka gert á árinu 1958, þá var reynt að telja ekki aðeins landsmönnum heldur einnig útlendingum trú um það, að afstaða mín í landhelgismálinu miðaðist eingöngu við það að sýna Bretum óvináttu, af því að þeir væru NATO-þjóð. Svona lágt lögðust menn þá og leggjast enn, að þeir halda því fram, að sú afstaða, sem ég hef í landhelgismálinu, miðist eingöngu við þetta. Aðrir og þeir sjálfstæðismenn hafa auðvitað hreina samvizku í þessu máli, þó að afstaða þeirra hafi verið sú, að þeir vissu ekkert hvað þeir vildu í málinu allt fram yfir kosningar og þorðu enga fasta tillögu að gera í landhelgismálinu, ekkert annað en setja málið í nefnd. En sem sagt, öllu skal tjaldað að sjálfsögðu, þegar um það er að ræða, að Sjálfstfl. berst um í örvæntingu utan ríkisstj. og verður að gera allt til þess að reyna að komast þangað inn aftur. Og þá er vitanlega ósköp eðlilegt, að Sjálfstfl. vilji í þessari baráttu sinni tala mikið um afstöðu ríkisstj.flokkanna til þess stóra máls að láta herinn víkja úr landinu, af því að hann veit, að núv. stjórnarflokkar hafa ekki haft fullkomlega sams konar afstöðu til þess máls á undanförnum árum. Og hið sama er svo auðvitað um að ræða í sambandi við afstöðuna til NATO. Þeir vita mætavel, og það kemur skýrt fram í stjórnarsáttmálanum sjálfum, að stjórnarflokkarnir hafa ekki sömu afstöðu til þess máls. Þeir vita, að við Alþb.mennirnir erum t. d. algerlega andvígir því, að Ísland sé í hernaðarbandalaginu NATO, og við munum halda áfram að reyna að opna augu landsmanna fyrir því, að það væri heilladrýgst að okkar dómi, að Ísland, herlaust land, stæði utan allra hernaðarbandalaga. En hitt liggur líka jafnljóst fyrir, að Framsfl. er á þeirri skoðun, að við eigum að vera áfram, a. m. k. miðað við óbreyttar aðstæður, í NATO og við vitum, að samningslega erum við þar bundnir og við höfum sætt okkur við það að taka þátt í ríkisstj. miðað við þessar aðstæður. En það er í rauninni algerlega óþarft fyrir þá sjálfstæðismenn að eyða hér löngum tíma í að ræða það, hvað vakir fyrir ríkisstj. í sambandi við hinn svonefnda varnarsamning við Bandaríkin. Þar þurfa sjálfstæðismennirnir ekkert annað að gera en fara í stjórnarsáttmálann og lesa hann. Og svo verða þeir auðvitað að sýna miðlungsdómgreind og skilja mælt mál. Í þessum samningi á milli stjórnarflokkanna segir:

„Varnarsamningurinn við Bandaríkin skal tekinn til endurskoðunar eða uppsagnar í því skyni, að varnarliðið hverfi frá Íslandi í áföngum.“

Markmiðið er alveg augljóst. Um það þarf ekki að vera neinn misskilningur. Og síðan er bætt við: „Skal að því stefnt, að brottför liðsins eigi sér stað á kjörtímabilinu.“ Allar vangaveltur fram og til baka og allur orðhengilsháttur um það, að þessi hafi sagt þetta eða látið skína í þetta á þessum eða hinum staðnum breytir hér engu um. (Gripið fram í: Hvað á þá að athuga?) Veit ekki þessi hv. þm., að það er gert ráð fyrir því í þessum samningi, að farið geti fram endurskoðun á samningnum með það fyrir augum m. a., að honum verði sagt upp eða hann gangi úr gildi, og síðan er gert ráð fyrir í þessum samningi, að takist ekki samkomulag, geti hvor aðili sem er sagt samningnum upp einhliða. Hvað á svo að athuga, þegar það stendur skýrum stöfum, að fara skuli fram endurskoðun með alveg ákveðið takmark í huga? En í sambandi við þær umr., sem hér hafa farið fram um þessi mál. hafa menn eins og stundum áður verið með allmiklar vangaveltur um það, hvort yfirleitt væri rétt, að erlendur her væri staðsettur á Íslandi eða ekki. Þetta er svo sem ekki nýtt umræðuefni hér á Alþ. Um það hafa farið fram umr. margsinnis áður. Þó að þetta lið hafi heitið varnarlið, þá er nú svo komið eftir allt það, sem á undan er gengið, að sumir af helztu talsmönnum þess að hafa þetta lið hér, eru komnir að þeirri niðurstöðu, að þetta sé í rauninni ekkert varnarlið, og það eru komnar hér upplýsingar fram um það, að ekki séu meira en 120 byssufærir menn þarna suðurfrá, eitthvað um það. Menn segja, að í rauninni sé barnaskapur að tala um það, að þetta lið eigi að verja nokkuð hér, af því að það geti það ekki. Öðruvísi voru nú röksemdir þessara manna varðandi þetta lið fyrir nokkrum árum síðan. En nú er því hins vegar haldið fram, að það sé lífsnauðsyn, ekki aðeins fyrir okkur, heldur fyrir öll NATO-ríkin, að þarna suður á Keflavíkurflugvelli sé sérstakt eftirlitslið, þar fari fram sérstakt eftirlitsflug aðallega til þess að fylgjast með Rússum, til þess að fylgjast, eins og sagt er, með kafbátum þeirra og flugvélum. Endilega þarf að hafa þetta lið þarna, og menn telja það algera fjarstæðu, að þetta eftirlitslið gæti t. d. alveg eins vel verið í Noregi, öðru Atlantshafsbandalagsríki, og skyldi maður þó halda, að það væri alveg eins gott að passa Rússa svona með almennu eftirliti frá Noregi eins og héðan frá Íslandi væri. Nei, það er talin hin mesta goðgá að hugsa sem svo, að þetta afskaplega þýðingarmikla eftirlitslið mætti t. d. staðsetja í Noregi. Norðmenn kveinka sér við því, ef þeir ættu að fara að taka við erlendu herliði, og þeir segja, að ef Íslendingar geri veruleika úr því að láta þetta herlið fara héðan, þá mundi líklega verða leitað á þá, og það væri mjög óþægilegt fyrir þá að fá slíka beiðni. Þetta höfum við lesið um í norskum blöðum, og hér eru auðvitað að sjálfsögðu einnig forsvarsmenn hins ameríska hers og talsmenn þeirra, jafnvel á Alþ., þeir eru einnig á þeirri skoðun, að þetta yrði afskaplega óþægilegt fyrir Norðmenn og alls ekki rétt af okkur að gera Norðmönnum þann grikk, að beiðninni yrði beint til þeirra, og af því sé sjálfsagt, að við sitjum uppi með þennan ófögnuð. En það er auðvitað alveg augljóst, að þegar menn velta þessu máli fyrir sér á þessa lund, hljóta allir að sjá, að þeir, sem mæla því bót að hafa þetta lið áfram í landi okkar, hafa engin rök fram að færa fyrir því, að nauðsynlegt sé að hafa það hér. Þeir hafa engin rök. Því að auðvitað eru rök af þessu tagi fyrir neðan allar hellur, að halda því fram, að nauðsynlegt sé að hafa þetta flugeftirlitslið endilega staðsett á Keflavíkurflugvelli og það geti ekki t. d. alveg eins verið í öðrum NATO-ríkjum. Nei, sannleikur málsins er auðvitað sá, eins og oft hefur verið bent á, bæði í þessum umr. og áður, að Norðmenn halda fast við það, að þeir vilji ekki taka til sín inn í sitt land erlendan her, Danir ekki heldur, en Íslendingum hefur verið þvælt til þess að taka við þessu liði og búa við það.

Það er svo líka athyglisvert í þessum umr. að mínum dómi, að heldur lítið er rætt um það af hálfu þessara manna, sem tala hér einkum um nauðsyn þess að hafa þetta herlið áfram í landinu, það er heldur lítið rætt um það, hver vandkvæði það eru fyrir litla þjóð eins og okkur að hafa erlendan her í sínu landi. Menn hljóta þó að hafa veitt því athygli að undanförnu, að í öllum þessum hræðsluköstum, sem gripið hafa þá sjálfstæðismenn í sambandi við þá tilhugsun, að herinn yrði látinn fara, eru þeir farnir að tala mikið um, að það yrði mikið áfall fyrir marga efnahagslega, að herinn færi. Það er alveg rétt, að það er ein hættan, sem vofir yfir lítilli þjóð, sem býr við erlenda hersetu, að þjóðin verði háð hinu erlenda herliði á marga vegu. Það eru m. a. ýmsir drjúgir peningamenn, sem verða til þess að koma auga á það, að hægt væri að græða á hernum, og þeir verða síðan áróðursmenn fyrir því að halda hersetunni áfram. Þetta hefur gerzt í mörgum löndum, og á þessu hefur borið hjá okkur líka. Og ekki aðeins það. Ýmsir menn, sem eru orðnir vanir því að vinna hjá hernum, hafa kannske komizt upp á ýmsa góða hluti þar og vilja halda því áfram, en verða fyrir vikið háðir hinum erlendu aðilum. Þetta er vitanlega hættulegt fyrir efnahagslegt sjálfstæði einnar þjóðar. Og ef herinn gerist allumsvifamikill, eins og hann hefur gerzt stundum hjá okkur á síðustu tímum, þá geta þessi áhrif orðið stórkostlega hættuleg fyrir raunverulegt sjálfstæði þjóðarinnar.

Nei, að mínum dómi er athyglisvert í þessu máli, að Sjálfstfl. skuli hafa tekið þessu stefnuskrármáli ríkisstj. á þá lund, sem hann hefur gert. Hann óskapast út í það, að fram skuli eiga að fara endurskoðun á þessum samningi með það fyrir augum, að herinn fari úr landi á næstu fjórum árum. Og þegar talsmenn Sjálfstfl. fara svo að ræða um hætturnar af því, að herinn verði látinn fara, viðurkenna þeir þessa gömlu yfirlýsingu sína, að hún hafi verið gefin á sínum tíma, — það væri ekki ætlunin, að hér væri her á friðartímum. Og auðvitað verða þeir í orði að játa það, að á friðartímum ætlist þeir ekki til þess, að hér sé erlendur her, af því að þeir vilja ekki verða sannir að því, að sú sé orðin skoðun þeirra, að á Íslandi eigi um alla framtíð að vera erlendur her. En hver er svo sönnun þeirra fyrir því, að það ástand sé ríkjandi í heiminum nú, að þörf sé á því að hafa þetta herlið hér? Þá eru dregin fram dæmi eins og það, að verið sé að berjast austur í Pakistan og það sé stríð í Víetnam og átök séu hér og þar í heiminum. Getur nú nokkur maður tekið dæmi eins og þessi nema sá, sem raunverulega heldur því þá fram, að hér þurfi að vera erlendur her um alla framtíð? Því miður má búast við því, að það verði svo langt fram sem við sjáum, held ég, hætta á því, að einhvers staðar verði skærur eða óeirðir, eins og þarna hafa verið nefndar, en vitanlega geta þær ekki haft nein sérstök áhrif á það, að við þurfum að hafa þetta lið suður á Keflavíkurflugvelli.

Í þessum umr. hefur óneitanlega komið fram ein mjög athyglisverð till. að mínum dómi, og það er sú till., sem kom fram hjá hv. þm. Jónasi Árnasyni um það, að við ættum að beita okkur fyrir því, m. a. á þingi Sameinuðu þjóðanna, að fá þá miklu samkomu til þess að samþykkja það að friðlýsa stórt hafsvæði hér í Norður-Atlantshafi í kringum Ísland, friðlýsa það svæði, banna þar allar hernaðarlegar æfingar stórveldanna, jafnt Sovétríkjanna sem NATO og annarra aðila. Það væri ekki lítils virði fyrir okkur Íslendinga að fá slíka alþjóðlega viðurkenningu og samþykkt, sem okkur snertir. Og má maður ekki vona, að þeir, sem eru mestu stuðningsmenn NATO, sem þeir kalla friðarbandalag, geti verið með því að beita sér fyrir slíkri friðlýsingu? Eða eru þeir kannske hræddir um, að hernaðarsérfræðingarnir í NATO yrðu á móti því, þeir vildu hafa frjálsan völl fyrir sig hérna í kring? Ég held, að þessa till. eigum við virkilega að skoða og það væri sannarlega þess virði, að við flyttum hana á þingi Sameinuðu þjóðanna og reyndum á þann hátt að losa okkur við það hernaðarbauk, sem hér kann að fara fram í æfingaformi enn í kringum okkur.

Ég sé nú ekki ástæðu til þess að fara að ræða hér sérstaklega um landhelgismálið, þó að nokkurt tilefni hafi verið gefið til þess. Allítarlegar umr. um það mál hafa farið fram á Alþ. og þeim er ekki lokið. Þær eiga eftir að fara hér fram næstu daga undir þeim dagskrárlið, en ég vil aðeins segja í sambandi við það, sem hér hefur komið fram varðandi málið, að auðvitað er enginn vafi á því, að eitt það þýðingarmesta, sem við Íslendingar þurfum að gera í þeirri stöðu, sem við höfum nú í landhelgismálinu, er að segja samningunum við Breta og Vestur-Þjóðverja upp, því að þeir eru núna þeirra aðalhaldreipi. Það þýðir ekkert að reyna að loka augunum fyrir þessu. Þeir draga enga dul á þetta sjálfir, að það sé þessi samningur, sem helzt geti orðið þeim til varnar. Og að mínum dómi er það aðeins dæmi um það, hvað hættuleg áhrif geta orðið af öllu þessu hernaðarbauki okkar, þessu samstarfi okkar, vopnlausra manna, í hernaðarbandalaginu NATO. Þeir, sem annars eru einlægir fylgjendur þess, að við Íslendingar getum náð rétti okkar á fiskimiðunum og getum stækkað okkar fiskveiðilandhelgi, geta varla tekið þá afstöðu í málinu, sem þeir vita, að er þó nauðsynlegt að taka landhelgismálsins vegna, af því að þeir eru farnir að ruglast svo í ríminu út af hernaðarbandalagsþátttöku sinni. Auðvitað vitum við, að Bretar og Vestur-Þjóðverjar eru núna hörðustu andstæðingar okkar í landhelgismálinu. Af ýmsum eðlilegum ástæðum eru þeir það. Þó að við Íslendingar séum með Bretum í NATO, megum við vitanlega ekki láta það verða til þess að draga úr okkur kjarkinn í sambandi við landhelgismálið. Það má ekki trufla dómgreind okkar í því máli. Og ég trúi því nú ekki, að það verði heldur þannig í reynd, að það verði nema örfáir áróðursmenn Sjálfstfl., sem halda því fram, að afstaða mín t. d. í landhelgismálinu sé sú sem hún er aðeins vegna fjandskapar míns við NATO. Ég er á móti hernaðarbandalaginu NATO, það er alveg rétt. Ég er á þeirri skoðun, að bezt væri fyrir Evrópu, að bæði þessi stóru hernaðarbandalög, Varsjárbandalagið og Atlantshafsbandalagið, yrðu lögð niður. Ég álít, að við Íslendingar eigum að skipa okkur í hina fjölmennu sveit þjóða, sem telja sig óháðar, sem ekki vilja skipa sér í aðra hvora blokkina, í blokk Bandaríkjanna eða blokk Sovétríkjanna. Og satt að segja fannst mér það heldur nöturlegt að hlusta á það, að hv. 12. þm. Reykv. skyldi segja það hér í ræðu á Alþ., að afstaðan til NATO snerist í rauninni aðeins um það, með hvorum aðilanum í valdabaráttunni í heiminum við værum, hvort við værum með Bandaríkjunum í valdabaráttu þeirra eða með Rússum í valdabaráttu þeirra, sem sagt, það virtist ekki vera neinn vafi á því, að hv. 12. þm. Reykv. ætlaði að skipa sér í aðra þessa sveit, sem sagt í valdabaráttublokk Bandaríkjanna. Ég álít, að þetta sé hin versta afstaða. Við Íslendingar eigum einmitt að taka þá afstöðu í heimsmálunum að skipa okkur í hóp hinna óháðu ríkja, ekki ánetjast valdablokkum stórveldanna. Og það er enginn vafi á því, að sá tími er nú að koma, að þessar stóru valdablokkir stórveldanna setja ofan á alþjóðavettvangi og valdaaðstaða einmitt hinna óháðu ríkja verður meiri, mun hafa meiri áhrif á stjórnmálin í heiminum. Og það verður m. a. þannig í okkar stóra landhelgismáli, að það verður einmitt fyrir áhrif þessa stóra hóps, hins óháða hóps, sem mest mun styðja okkar málstað, en ekki áhrif frá valdablokkum stórveldanna, að þetta mál verður leitt til lykta.

Ég þarf svo ekki að eyða hér lengri tíma til að ræða þessi mál. Ég tel, að sú stefna, sem hér hefur verið túlkuð af hálfu ríkisstj. almennt séð í utanríkismálum, sé skýr og ákveðin og enginn þurfi neitt að efast um, að hverju þar er unnið. Og ég álít, að allar tilraunir sjálfstæðismanna til þess að valda óeiningu um þessi mál í liði ríkisstj. séu dæmdar til að mistakast.