15.11.1971
Neðri deild: 13. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2348 í B-deild Alþingistíðinda. (2509)

Launa og kaupgjaldsmál

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Þar sem hæstv. forsrh. hefur séð ástæðu til að kveðja sér hljóðs hér utan dagskrár til að leiðrétta frásögn í einu dagblaði, þar sem eftir honum eru höfð ákveðin ummæli um kjaramálin, og telur að þetta sé nauðsynlegt að gera vegna alþjóðar, þá vildi ég mega beina þeirri spurningu til hans, hvort hann geti ekki á þessum sama stað, hér í þessum ræðustól á Alþ., gefið einhverjar upplýsingar um, hvað kjaramálunum almennt líður. Ég er sannfærður um, að þjóðin öll bíður með nokkrum ugg eftir því að fá vitneskju um, hverja framvindu þessi mál hafa. Ef þau eru komin á eitthvert það stig, að hæstv. forsrh. geti gefið upplýsingar, sem mættu verða almenningi til leiðbeiningar um það, hver framvinda mála er, þá er ég sannfærður um, að það yrði ekki síður talið mikils virði af þjóðinni allri en sú leiðrétting, sem hann hér var að gera, því að hann viðurkenndi þó og benti á, að einnig kæmi fram í grein Morgunblaðsins, að ummæli þau, sem blaðið hafði eftir honum, hefðu fallið í umræðu á þessum fundi hjá ungum framsóknarmönnum. Hann hefði sagt þar, að að öllu tilteknu, þeim prósentum, sem þar voru nefndar, ásamt öðru því, sem til greina kemur til uppbóta á launum, þá væri ræðumaður farinn að nálgast það, sem stæði í málefnasamningi ríkisstj.

En sem sagt, erindi mitt hingað í ræðustól var að spyrjast fyrir um það hjá hæstv. forsrh., hvort hann gæti gefið þinginu, í tilefni af ræðu hans hér, einhverjar upplýsingar um, hvernig kjaramálin stæðu og hvernig framvinda þeirra væri nú á þessari stundu.