15.11.1971
Neðri deild: 13. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2348 í B-deild Alþingistíðinda. (2510)

Launa og kaupgjaldsmál

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Út af þeirri fsp., sem hv. 3. þm. Sunnl. beindi til mín, get ég sagt, að kjarasamningarnir eru í gangi, þ. e. samningaviðræður. Sáttanefnd hefur nú verið skipuð, tveir sáttamenn hafa nú verið skipaðir til aðstoðar sáttasemjara ríkisins, og sú sáttanefnd hefur þegar haft fund með deiluaðilum og heldur áfram að halda fundi með þeim. En ég get að sjálfsögðu ekki gefið neinar yfirlýsingar um það hér á þessari stundu, hvernig þessi mál standa. Það hefur orðið nokkur dráttur á þessum samningum, en þó engan veginn meiri en oft áður. Og ég held, að það verði ekki sagt um þessa samninga, að þeir hafi tekið neinn óeðlilegan tíma til þessa. En hitt vil ég segja, að þetta eru ákaflega flóknir samningar, sem núna er verið að reyna að vinna að, flóknari en oft áður, vegna þess að nú er samið á einni hendi fyrir ákaflega marga aðila. Það er auðvitað svo, að þau félög, sem þarna standa að, geta haft talsvert mismunandi viðhorf í ýmsum efnum. Og þess vegna er ekkert óeðlilegt, að það geti tekið nokkurn tíma að samræma þessi sjónarmið. En mér er óhætt að segja það, að unnið er að þessum málum nú, og ég held, að ég megi segja: með fullum velvilja af aðilum reynt að komast að niðurstöðu. Og auðvitað óska allir eftir því, að það geti átt sér stað sem fyrst. En þá er líka mikils um vert, að ekki séu gerðar, ja, ég vil segja tilraunir, sem a. m. k. má leggja þannig út, að þær séu gerðar til þess að reyna að skapa tortryggni og koma illu til leiðar í þessu samningastarfi. En í sambandi við það, sem hv. þm. sagði frekar og vildi þar vitna til minna ummæla, þá vil ég aðeins taka fram, að það hefur verið gert nokkurt veður út af því, að eitthvað bæri á milli þess, sem ég hefði sagt, þegar ég talaði um 20% kaupmáttaraukningu, og svo hins vegar á milli þeirra krafna, sem launþegasamtökin gerðu, þar sem þeirra aðalkrafa væri 20% kauphækkun. En 20% kaupmáttaraukning er vel að merkja sett þannig fram í málefnasamningi ríkisstj., að hún eigi að eiga sér stað í áföngum á tveimur árum.

Út af þessu vil ég segja það, að ég hef um þessi mál ekkert sagt annað en það, sem stendur í málefnasamningi ríkisstj. Hann hefur verið birtur og hver og einn getur gengið úr skugga um, hvað í honum stendur. Hins vegar er það auðvitað svo, að málefnasamningur ríkisstj. og ákvæði í honum, sem varða þessi mál, bindur ekki aðila vinnumarkaðarins á neinn hátt og bindur ekki launþegasamtökin, þegar þau gera sínar kröfur. Þess vegna er auðvitað engin rökbundin nauðsyn til þess, að það sé fullt samræmi á milli þeirra krafna, sem verkalýðsfélögin gera, og þess, sem ríkisstj. hefur lýst yfir, að hún teldi, að stefna ætti að.

Þetta vildi ég aðeins taka fram. Þó að það kæmi ekki beint fram hjá hv. 3. þm. Sunnl., þá virtist mér hugsun hans beinast nokkuð að þessu. Þess vegna vildi ég taka þetta fram, til þess að það væri ljóst, að þarna er ekki um neitt óeðlilegt misræmi að ræða, því að það er ekkert, sem segir, að þessu skuli algerlega bera saman, heldur liggur í augum uppi, að það gerir það ekki.