15.11.1971
Neðri deild: 13. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2349 í B-deild Alþingistíðinda. (2511)

Launa og kaupgjaldsmál

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara að tefja þessar umr., þó að freistandi væri að fara hér nánar út í kjaramálin og vinnubrögð ríkisstj. í sambandi við þau. Hæstv. forsrh. sagði hér, að stjórnarsamningurinn, stjórnar hinna vinnandi stétta, eins og þessi hæstv. ríkisstj. hefur kallað sig, hann bindi ekki launþegasamtökin. Vera má, að það sé nokkuð rétt. En það er annað atriði, sem vafizt hefur fyrir mönnum og ég hef oft undrazt yfir, og það er það, að ríkisstj. skuli, áður en nokkuð er vitað um, hversu mikil kauphækkun geti orðið á tveimur árum og í tengslum við það stytting vinnutíma og orlofs, að hún skuli lýsa yfir því, sem hún gerir í stjórnarsamningnum. Í tilefni af þeim umr., sem hér hafa orðið um þessi mál, vil ég spyrja hæstv. forsrh.: Hvaða upplýsingar hafði ríkisstj. um stöðu atvinnuveganna, þegar hún tók þessa ákvörðun? Voru fyrir hendi ákveðnar upplýsingar um stöðu atvinnuveganna, greiðslugetu þeirra og hvað yrði í raun og veru hægt að semja um, þannig að það yrði um raunhæfar kjarabætur að ræða?