15.11.1971
Neðri deild: 13. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2350 í B-deild Alþingistíðinda. (2513)

Launa og kaupgjaldsmál

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Fyrst hæstv. forsrh. fór að ræða málefnasamning stjórnarinnar, að því er varðar viðhorfin til launamála, þá langar mig að bera hér upp eina fsp. til hans, sem ég hygg, að hljóti að liggja ljóst fyrir, að hann geti svarað. Hún er varðandi það atriði, hvað ríkisstj. hafi, þegar sáttmálinn var gerður, talið, að vinnutímastyttingin, stytting vinnuvikunnar úr 44 stundum í 40 stundir, verkaði mikið sem launauppbætur eða til að auka kaupmátt launa. Ég tel fullvíst, að ríkisstj. hafi verið búin að reikna þetta dæmi alveg út, þegar þetta ákvæði var sett inn í sáttmálann, og vænti þess, að hæstv. forsrh. geti svarað því hér.