15.11.1971
Neðri deild: 13. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2354 í B-deild Alþingistíðinda. (2518)

Launa og kaupgjaldsmál

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Það er ánægjulegt, að Morgunblaðið skuli eiga sér valkyrju hér á hv. Alþ., sem er þess albúin að taka upp vörn fyrir það, ef henni þykir á það hallað. Nú sagði ég í þeim orðum, sem ég sagði í upphafi, að ég væri ekki að væna þann blaðamann, sem fregnina hefði skrifað, um það, að hann hefði sett þessa fyrirsögn, því að ég sagði einmitt og vitnaði til greinarinnar, að ef hún væri lesin í gegn, þá kæmi fram, hvað í raun og veru hefði gerzt þarna í verulegum atriðum, að vísu kannske með svolítið öðrum blæ heldur en ég sagði það, en við því er ekkert að segja. Slíkt gerist oft í blaðafrásögnum. Það, sem ég var að átelja, var það, að það er smíðuð fyrirsögn fyrir þessari grein, — feitletruð m. a. s. Hún segir allt annað en í meginmáli greinarinnar segir. Ég segi: Það er ekki stafur í meginmáli greinarinnar fyrir þessari fyrirsögn. Fyrirsögnin verður ekki skilin á annan veg en þann, að ég hafi talið nægja 5–7% kauphækkun á tveimur árum, heildarkauphækkun. Hún verður ekki skilin á annan veg. Þar við bætist svo það, að þessi fyrirsögn er notuð bæði af Morgunblaðinu og öðru stjórnarandstöðublaði til þess að leggja út af henni. Þeir leggja ekki út af því, sem segir í meginmáli greinarinnar og fréttaritarinn hefur réttilega skrifað. Nei, þeir leggja út af því, sem er heimabruggað af blaðinu sjálfu. Það er þetta, sem ég átel. Auðvitað er það smekksatriði, hvernig blaðamennska á að vera. Ég aðhyllist ekki svona blaðamennsku. Ég tel hana til mikils vanza. Ef hv. 12. þm. Reykv. aðhyllist hins vegar svona blaðamennsku, hefur smekk fyrir slíkt, þá get ég ekkert gert við því. Hún um það. Það er hennar smekkur.

Mér heyrðist á hv. 12. þm. Reykv., að hún væri eitthvað að hneykslast á því, að ég hefði ekki birt leiðréttingu við þetta eða gert aths. við þetta fyrr. Þetta kom á föstudag í Morgunblaðinu. Það hefur ekki verið þingfundur hér fyrr en nú. Ég nota fyrsta tækifæri til þess að koma þessari leiðréttingu hér á framfæri. Svo heyrðist mér á hv. þm., að hún væri svona að telja, að þetta hefði ekki gert mikið til. Morgunblaðið færi að vísu víða, en það hefði komið leiðrétting í Tímanum og það þyrfti ekki að vera að fárast meira út af þessu. En þetta er hugsunarháttur út af fyrir sig. Hún má hafa þennan hugsunarhátt. Ég hef hann ekki.

Út af því, sem hv. þm. Sverrir Hermannsson sagði hér, þá vil ég segja, að ég ætla nú ekki hér að fara að lengja þessar umr. með því að reyna að svara fyrir hv. þm. Eðvarð Sigurðsson. Hann er áreiðanlega fær um það, og ég efast ekki um, að hv. þm. Sverrir Hermannsson getur átt við hann orðastað um það, sem hann kann að hafa sagt í Þjóðviljanum. En Þjóðviljinn liggur nú ekki hérna frammi og ég hef hann ekki við höndina og get ekki gengið úr skugga um, hvað þar hefur verið sagt, og veit heldur ekki, hvað Eðvarð Sigurðsson mundi vilja telja rétt eftir sér haft þar eða hvaða túlkun hann mundi vilja gefa á þeim ummælum. Þess vegna mun ég ekki á neinn hátt blanda mér í það, hvað hann hefur sagt. Hann svarar fyrir það. Og ég sé heldur ekki, að það komi þessu máli í sjálfu sér neitt við, sem ég vakti hér máls á.

En það er ánægjulegt í sjálfu sér, að eina tilraunin, sem hér hefur verið gerð til þess að ganga heiðarlega fram á vissan hátt og taka upp vörn fyrir Morgunblaðið í stað þess að drepa umr. á dreif um önnur atriði, hún kom þó frá hv. 12. þm. Reykv. Og fyrir það á hún í sjálfu sér hrós skilið. En ég vil hins vegar mótmæla því, sem annar hv. þm. sagði, að það, sem stjórnin hefði gert til þessa, hefði — eða afskipti ríkisstj. af samningamálunum — hefði til þessa haft miður heppileg áhrif á samningamálin. Þetta er algerlega órökstuddur sleggjudómur, og ég mótmæli honum. Hv. þm. var að tala um dæmalausan stjórnarsamning. Það er alveg rétt. Ég er honum sammála um það, að þessi stjórnarsamningur, sem gerður var síðast, er fordæmalaus. Það hefur aldrei verið gerður slíkur stjórnarsamningur hér á landi áður.