15.11.1971
Neðri deild: 13. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2355 í B-deild Alþingistíðinda. (2520)

Launa og kaupgjaldsmál

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Það er aðeins örstutt aths. við þau ummæli forsrh., að hér hafi verið reynt að drepa þessum umr. á dreif og tala um efni, sem ekki hafi verið hér til umr. Hæstv. forsrh, talaði hér vítt og breitt um stjórnarsamninginn, um kjaramálin og um yfirstandandi samninga, og mér kemur það ókunnuglega fyrir sjónir, — ég er að vísu ekki þingvanur maður, — en mér kemur það ákaflega ókunnuglega fyrir sjónir, ef þm. mega þá ekki tjá sig um þau efni, sem um er rætt hér í ræðu þess, sem biður um orðið utan dagskrár. En það, sem mér finnst merkilegast, sem hefur komið fram í þessum umr., er það, að ríkisstj. hefur látið gera úttekt á stöðu atvinnuveganna og hún hefur lýst yfir ákveðnum stefnumálum sínum til þess að létta af atvinnuvegunum ýmsum útgjöldum, en samt sem áður fá aðilar vinnumarkaðarins ekkert um þetta mat að vita og ekkert um það að vita, hvað ríkisstj. hyggist gera í þessum efnum. Þetta er það veigamesta, sem hefur komið fram í þessum umr., og ég fagna því, að þær skyldu hafa átt sér stað.