24.11.1971
Neðri deild: 17. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2364 í B-deild Alþingistíðinda. (2531)

Launa og kaupgjaldsmál

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Eins og alkunnugt er, hafa farið fram nú lengi undanfarið samningaumleitanir milli launþega og atvinnurekenda, og eins og að líkum lætur, hafa þar að sjálfsögðu verið lögð fram gögn frá opinberum stofnunum og aðrar upplýsingar frá báðum aðilum um stöðu atvinnuveganna og annað, er máli skiptir í sambandi við samningaumleitanir og lausn á þeirri deilu, sem yfirstandandi er. Nú hefur ríkisstj. lagt hér fram á Alþ. tvö frv., sem beint og óbeint varða þessi mál en það er frv. til laga um 40 stunda vinnuviku og frv. til laga um orlof, sem er nú til 1. umr. í Ed. Nú kemur að því, að alþm. eiga að taka afstöðu til þessara frv., en ég sakna þess, að alþm. hefur ekki verið sýndur sá trúnaður að senda þeim þau gögn, sem fyrir liggja, a. m. k. frá opinberum aðilum, til þess að þeir geti kynnt sér þau gögn og séð, hvernig staða atvinnuveganna er, og þá væri líka mjög mikils virði, að upplýsingar lægju fyrir um, hvaða áhrif þessi frv. hafa á útgjöld ríkissjóðs og ríkisstofnana sem og á atvinnuvegina í heild. Þessi mál eru mjög viðkvæm og alvarleg og engin ástæða til þess að vekja um þau deilur hér á Alþ. að óþörfu, en ég vænti þess, að hæstv. forsrh. vilji verða við þeirri ósk minni, að þessi gögn verði send öllum alþm., en ekki einhverjum hluta þeirra, því að atkv. okkar er jafngilt, hvar sem við erum í flokki eða hvaða stöðu sem við höfum í flokki. Ég vil aðeins með þessum orðum koma þessu áleiðis og vænti þess að fá svar við þessari. beiðni frá hæstv. forsrh.