31.01.1972
Neðri deild: 36. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2368 í B-deild Alþingistíðinda. (2540)

Launa og kaupgjaldsmál

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Hér er um mjög viðkvæm mál að ræða, þar sem mönnum hættir til að láta meira stjórnast af tilfinningum en skynsemi. Ég held þess vegna, að út af fyrir sig sé það gott og geti verið gagnlegt, að menn ræði þessi mál hér rólega og af skynsemi.

Það, sem er fyrst deilt um í þessu sambandi og hefur fyrst verið um deilt, er lagalegt atriði. Nú segja menn kannske, að í slíkri deilu sem þessari skipti lagaatriði ekki öllu máli, en ég held samt, að það lagaatriði, sem hér er um að tefla, sé þannig vaxið, að ástæða sé til þess að fara um það nokkrum orðum, af því að ég tel, að í sambandi við það hafi gætt mikils misskilnings, misskilnings, sem hefur verið fallinn til þess að valda gremju og sárindum hjá opinberum starfsmönnum. Því er haldið fram af hálfu fyrirsvarsmanna opinberra starfsmanna, að ríkisstj. hafi framið lögbrot með því að taka ekki upp viðræður við opinbera starfsmenn, áður en málið fór til sáttasemjara. Og það er ósköp eðlilegt, að ef opinberir starfsmenn telja þannig brotinn á sér rétt, þá hlaupi þeim kapp í kinn. Ég held fyrir mitt leyti, að hér sé um algeran misskilning að ræða, misskilning, sem kannske er afsakanlegur, en þó alger misskilningur. Það er svo, að þegar um kjarasamninga er að ræða við opinbera starfsmenn, sem fram fara eftir uppsögn á kjarasamningi, þá er þar, eða getur verið, um þrjú stig að tefla. Í fyrsta lagi samningaviðræður á milli aðila, í öðru lagi sáttameðferð fyrir sáttasemjara og í þriðja lagi málsmeðferð fyrir Kjaradómi. Þetta á við, þegar kjarasamningi hefur verið sagt upp og þegar verið er að gera nýjan kjarasamning. En kjarasamningur milli opinberra starfsmanna og ríkisins hins vegar skal gerður til tveggja ára hið skemmsta, en getur verið gerður til lengri tíma og miðaður við áramót. Þetta er að sjálfsögðu nokkuð langur samningstími. Og þess vegna er sleginn nokkur varnagli í 7. gr. laganna, sem ég vildi leyfa mér að lesa hér, með leyfi forseta. Í 7. gr. segir:

„Kjarasamningur skal vera skriflegur, gerður til eigi skemmri tíma en tveggja ára í senn og gildistími hans miðast við áramót. — Nú verða almennar og verulegar kaupbreytingar á samningstímabili, og má þá krefjast endurskoðunar kjarasamnings án uppsagnar hans. Náist ekki samkomulag aðilja innan mánaðar frá kröfugerð, fer um meðferð máls samkv. III. og IV. kafla laga þessara að öðru en því, að samningur eða dómur Kjaradóms skal gilda frá þeim tíma, sem um semst eða Kjaradómur ákveður.“

Það er með öðrum orðum þarna vísað í þessari gr. til meðferðar eftir III. og IV. kafla laganna, en í III. kafla laganna er um að ræða meðferð fyrir sáttasemjara og í IV. kafla laganna er um að tefla meðferð fyrir Kjaradómi. Misskilningur fyrirsvarsmanna opinberra starfsmanna stafar hins vegar af því, að þeir hafa talið, að 10. gr. þessara laga ætti einnig við, þegar krafizt er endurskoðunar á samningi án uppsagnar. En í 10. gr., sem er í II. kafla laganna og þessum sama kafla, sem 7. gr. er í, segir svo, með leyfi forseta:

„Aðili, er segir upp kjarasamningi, skal samtímis uppsögn senda gagnaðilja tillögur sínar í höfuðatriðum um nýjan samning, og skulu samningsviðræður þá þegar upp teknar.“

Skilningur fyrirsvarsmanna opinberra starfsmanna mundi verða réttur, ef í 7. gr. hefði staðið í staðinn fyrir þau orð, sem ég sérstaklega undirstrikaði, — að öðru leyti skal farið eftir ákvæðum laga þessara, eftir því sem við á. Þá væri skilningur þeirra réttur. En það er ekki gert í 7. gr., það er ekki vitnað til 10. gr. eða þess kafla, sem hún er í, heldur til III og IV. kafla. Og þessi greinarmunur er eðlilegur. Þessi endurskoðunarréttur er gagnkvæmur. Það getur hvor sem er, opinberir starfsmenn eða ríkið, krafizt endurskoðunar. En hjá hvorum aðilanum sem er getur svarið orðið það, að skilyrði séu ekki fyrir hendi til endurskoðunar. Og þegar það er að mati annars hvors aðilans svo, að skilyrði séu ekki fyrir hendi til endurskoðunar, þá eiga ekki neinar samningsviðræður á milli aðila að fara fram og geta ekki farið fram, af því að það væri beinlínis í andstöðu við þá skoðun og það álit, sem þá hefur verið sett fram af öðrum hvorum aðilanum, heldur er þá gert ráð fyrir því, að málið fái meðferð eftir III. og IV. kafla laganna.

Ég held þess vegna, að engum geti blandazt hugur um, að það er ofsagt hjá fyrirsvarsmönnum opinberra starfsmanna, þegar þeir hafa haldið því fram, að í sambandi við þetta mál hafi verið framið lögbrot af ríkisstj., þegar þeir hafa haldið því fram, að henni hafi verið skylt að taka upp viðræður við þá á þessu fyrsta stigi málsins.

En nú segja menn kannske: En hvað er um það að segja, eins og hefði ekki mátt tala við mennina, hvað sem öllum lagaákvæðum líður? Ja, hvers vegna var það ekki hægt? Vegna þess að ef slíkar viðræður hefðu verið upp teknar, þá hefði það verið óbein viðurkenning á því, að skilyrði væru fyrir hendi til endurskoðunar á þessum samningi. En svar stjórnarinnar var skýrt. Hún taldi, að skilyrði væru ekki fyrir hendi til endurskoðunar. Þess vegna tel ég, að með þessari málsmeðferð, sem höfð hefur verið, hafi enginn réttur verið brotinn á opinberum starfsmönnum, enda hefur það sannarlega ekki verið ætlun eða vilji ríkisstj. að gera það. Þetta hef ég talið nauðsynlegt að taka hér fram, vegna þess að ég held, að nauðsynlegt sé að eyða þessum misskilningi, og ég held, að ef slíkum misskilningi sem þessum, sem hlýtur, þegar honum er haldið fram, að valda gremju í röðum opinberra starfsmanna, er eytt, þá sé það til góðs, þá held ég, að að honum eyddum sé betri jarðvegur eftir en áður til þess að fást við þetta mál. Sem sagt, að menn átti sig á þeim réttu forsendum hér, en gefi sér ekki ástæður, sem þeim þykir henta.

Þetta taldi ég nauðsynlegt að taka fram, og mér fannst einmitt mér gefast tilefni til þess vegna fsp. frá hv. 7. þm. Reykv. Hins vegar hefur svo hæstv. fjmrh. gert grein fyrir því, hvernig málið stendur, og þarf ég þar engu við að bæta, get þó undirstrikað það, sem hann sagði, að alltaf hefur staðið til boða af ríkisstj. hálfu að gera lagfæringar á launum hinna lægst launuðu og lagfæringar til samræmis við þá samningagerð, sem fram fór í desember að því er varðar þá starfsmenn, sem eru sambærilegir við þá starfsmenn, þá lægst launuðu starfsmenn, sem þá var samið fyrir.

Ríkisstj. hefur sagt og sett það fram sem sína skoðun, að það væri ekki grundvöllur til endurskoðunar. Þá miðar hún aðeins við þau 4%, sem komu til framkvæmda nú um áramót. Hún miðar þessa skoðun við þær aðstæður eða 4%, sem komu til framkvæmda samkv. þessum samningum, þegar samið var, miðar við þær aðstæður, að til framkvæmda hjá opinberum starfsmönnum komu áfangahækkanir um s. l. áramót.

Nú er það að sjálfsögðu svo, að það er mikið álitamál. hvað séu verulegar kauphækkanir. Ég geri ekki ráð fyrir því, að það verði vefengt, að átt hafi sér stað almennar kauphækkanir. Ég mun a. m. k. ekki véfengja, að þær hækkanir, sem um var samið í des., séu almennar. En hitt er spurning og verður alltaf álitamál, við hvað sé átt, þegar talað er um verulegar kauphækkanir. Það verður að meta eftir margvíslegum aðstæðum. Það er mat stjórnarinnar, sem hér liggur fyrir. En hún hefur ekki síðasta orðið í þessum efnum. Síðasta orðið í þessum efnum hefur Kjaradómur, sem metur það, hvort þessi 4% almenna kauphækkun, sem átti sér stað, sé verulegar kjarabætur eða kauphækkanir eða ekki. Og ég skal ekkert vera með neinar fullyrðingar um það, að hvaða niðurstöðu Kjaradómur kemst í því efni. Ég held, að sízt af öllu sé ástæða til þess að ætla, að hans mat verði nokkuð vilhallt. Ríkisstj. hefur ekki nema að takmörkuðu leyti áhrif á skipun Kjaradóms. Það er Hæstiréttur, sem tilnefnir þrjá af dómendum í Kjaradómi. Það eru þrír ágætismenn, sem þar sitja nú tilnefndir af Hæstarétti. Ég held, að hvað sem um þá verður sagt, verði ekki talið, að þeir hafi vegna sinnar aðstöðu í þjóðfélaginu fremur í huga sjónarmið atvinnurekenda eða sem sagt annarra en launþega. Það held ég ekki. Og síðan situr svo í þessum kjaradómi maður tilnefndur af fjmrh. Hann er ekki tilnefndur af núv. fjmrh. eða núv. ríkisstj., heldur fyrrv., og svo maður tilnefndur af fyrirsvarsmönnum opinberra starfsmanna, þannig að það á að vera tryggt, að sjónarmið þeirra komist til skila í þessum dómi. Og þessi dómur, starfar á grundvelli dómstóla að því er óhlutdrægni varðar, þannig að ég hygg, að menn almennt megi treysta niðurstöðu þessa dóms og ekki sé ástæða til þess að vefengja hana. Og það liggur í augum uppi, að ríkisstj. mun sætta sig við þá niðurstöðu, sem verður í þessum dómi, hvort sem hann fellst á þau sjónarmið, sem ríkisstj. hefur sett fram, eða ekki. Og ef hann féllist nú á sjónarmið ríkisstj., að ekki væru skilyrði til endurskoðunar, þá væri málið þar með búið að því leyti til. En ég vil undirstrika, að hér er aðeins um að ræða kauphækkun, sem orðin er. Um þær síðari áfangahækkanir, sem til greina koma, hlýtur að mínu viti að verða dæmt síðar, þegar þar að kemur. Og að mínum skilningi verða þær ekki hafðar til viðmiðunar hér.

En ef Kjaradómur kæmist nú að þeirri niðurstöðu, að ríkisstj. hefði lagt rangt mat á þetta, og hann teldi skilyrði vera til endurskoðunar, þá tæki hann vitaskuld málið til meðferðar. En þá er nú ekki þar með sagt, að hann tæki til greina þær kröfur, sem opinberir starfsmenn hafa gert, vegna þess að það eru settar fram ákveðnar reglur um það í 20. gr. kjarasamningalaganna, við hvaða atriði Kjaradómur á að miða. Þar segir:

„Kjaradómur skal við úrlausnir sínar m. a. hafa hliðsjón af: 1. Kjörum launþega, er vinna við sambærileg störf hjá öðrum en ríkinu. — 2. Kröfum, sem gerðar eru til menntunar, ábyrgðar og sérhæfni starfsmanna. — 3. Afkomuhorfum þjóðarbúsins.“

Mér finnst, að ég hafi nú orðið var við það dálítið hér á hv. Alþ. upp á síðkastið, að nokkrir þeirra, sem hér sitja, væru heldur uggandi um afkomuhorfur þjóðarbúsins. Og mér hefur skilizt á stjórnarandstæðingum, að þeir teldu, að teflt væri í tvísýnu um afkomu ríkissjóðs, um afkomu atvinnuvega, að það væri að skella á og fram undan væri hin ógurlegasta verðbólgualda. Ef kröfur opinberra starfsmanna eru réttmætar og þær fá viðurkenningu hjá Kjaradómi, verðum við auðvitað að taka því og taka afleiðingunum af því. En hitt held ég, að öllum hljóti að vera ljóst, að það mundi þá kalla á nýja tekjuöflun fyrir ríkissjóð. Og hvaðan yrðu þær tekjur teknar? Af skattþegnum? Af atvinnurekstrinum? Það er rétt, að menn geri sér grein fyrir þessu líka í sambandi við þetta mál, og opinberir starfsmenn engu síður en aðrir, því að hingað til hefur mér nú virzt það hljóð hjá þeim, að þeir væru ekki meðal þeirra, sem græddu á verðbólgu og aukinni dýrtíð. En auðséð er, að ef kröfur opinberra starfsmanna, þær sem þeir hafa sett fram, næðu allar fram að ganga, þá er auðvitað óhjákvæmilegt, að það mundi hafa í för með sér allverulega verðbólgu- og dýrtíðaraukningu. Og það er engum blöðum um það að fletta, hverjar þær kröfur eru, sem opinberir starfsmenn hafa sett fram eða fyrirsvarsmenn opinberra starfsmanna hafa sett fram fyrir þeirra hönd. Ég hef þar fyrir mér þeirra eigin orð, sem er rit þeirra, Ásgarður, sem gefið er út í des. s. l. Þar eru á 2. bls. birtar þær kröfur, sem opinberir starfsmenn gera, og þar segir í yfirskriftinni: „Krafizt 14% launahækkunar.“ Og svo er það í till. útfært í þeim áfangahækkunum, sem þar er um að tefla, sem sagt 4,4 og 6%. Auk þessa, sem eru almennu kröfurnar, eru svo gerðar kröfur um hækkun á launum þeirra lægst launuðu, og þessar kröfur eru ekki takmarkaðar neitt, þannig að þær ná til allra opinberra starfsmanna, hvort sem þeir hafa há laun eða lág. Hitt mun svo rétt, að það hefur komið fram síðar í meðferð málsins fyrir sáttasemjara, að opinberir starfsmenn mundu vilja fallast á að takmarka eða binda þessa launakröfuhækkun við ákveðna flokka. Ef ég man rétt allt upp í 22. launaflokk eða kannske 24.

Þetta vildi ég taka hér fram, af því að ég held, að það sé rétt, að hv. þm. hafi í huga þær staðreyndir, sem fyrir liggja í þessu máli, og kynni sér þær, og þá gæti ég trúað, að þeim yrði skiljanlegri afstaða ríkisstj. í þessu máli. Það er sannarlega ekki af því, að ríkisstj. vilji sitja á hlut opinberra starfsmanna, að hún hefur sett fram þetta sjónarmið í málinu, sem ég hef hér lýst og kunnugt er, heldur af hinu, að það verður að hafa allar kringumstæður í þjóðfélaginu í huga og það er vitaskuld ríkisstj. skylt. Ég hygg, að því neiti enginn, að með síðustu kjarasamningum fengu opinberir starfsmenn mjög verulegar kjarabætur, svo verulegar, að ég held, að fáum hafi getað blandazt hugur um það, að þær mundu verða tilefni þess, að aðrar stéttir kæmu á eftir og gerðu sínar kröfur og hefðu þá þær kjarabætur, sem opinberir starfsmenn fengu, til samanburðar og miðuðu sínar kröfur við það. Það kom líka á daginn, að í þeim kjarasamningum, sem fram fóru hér á s. l. hausti, var miðað að ýmsu leyti við þær kjarabætur, sem fengizt höfðu í síðustu samningum opinberra starfsmanna. Ég nefni t. d. vinnutímann. Það var auðvitað ekki stætt á því, eftir að búið var að semja um þann vinnutíma, sem þar var um að ræða við opinbera starfsmenn, að fara að neita öðrum um samsvarandi vinnutíma. Og ég nefni það einnig, að stéttir eins og t. d. verzlunar- og skrifstofumenn mótuðu sínar kröfur mjög með hliðsjón af þeim kjarabótum, sem náðst höfðu í samningunum við opinbera starfsmenn fyrir næst síðastliðin áramót. Ég býst þess vegna við, að ef ríkisstj. hefði nú brotalaust samþykkt þær kröfur, sem opinberir starfsmenn settu fram, þá hefði það ekki haft gerð áhrif á þá, sem stóðu í samningunum, gerðu samningana 4. des., og ég held, að það sé ákaflega varhugavert fyrir þjóðfélagið að láta þannig sífelldar víxlhækkanir og viðmiðanir eiga sér stað. Ég sé ekki, hvaða enda slíkt tekur. Og ég fyrir mitt leyti verð að segja, að ég sé enga sanngirni í því, að þær stéttir, sem búið hafa kannske við hvað lakastan kost í þessu þjóðfélagi og hafa oft orðið að sækja sínar kjarabætur með strangri baráttu og stundum með verkföllum, verði þannig að ryðja brautina fyrir kauphækkanir hjá öðrum, sem þó eru þjóðfélagslega betur settir, þannig að þeir geti bara komið í kjölfarið og fengið svona fyrirhafnarlítið samsvarandi kjarabætur. Ég felli mig ekki við það. Ég held þess vegna, að nauðsynlegt sé að rjúfa þessi sjálfvirku tengsl, sem eru allt of víða í okkar þjóðfélagi, og það er einmitt eitt af stefnumálum núv. ríkisstj. Hún hefur heitið því að láta endurskoða löggjöfina um kjarasamninga og veita opinberum starfsmönnum fullan samningsrétt. Þá liggur í augum uppi, að hin lögboðna viðmiðun hlýtur að hverfa. Ég held, að þetta sé eðlilegast, að hver og ein stétt verði að hafa fyrir sínu.

Hæstv. fjmrh. svaraði þessum spurningum, sem hv. 7. þm. Reykv. bar hér fram. Ég vil þó aðeins bæta örlitlu við í sambandi við fyrsta atriðið, þann samanburð, sem hv. 7. þm. Reykv. var með. Ég veit ekki, hvaðan sá samanburður er fenginn eða hvernig sá samanburður er fenginn, sem hann var með. En hitt vil ég taka skýrt fram, að fyrir mig hefur verið lagður samanburður eða tölur, sem ég veit ekki betur en hafi verið gerður af þeim saman, fulltrúum frá fjmrn. og fulltrúum frá BSRB, sem sýnir, að það er mjög óverulegt ósamræmi, ef svo má segja, þarna á milli, þegar frá er skilið, að það tekur lengri tíma hjá opinberum starfsmönnum að komast í sín hámarkslaun. Það tekur 12 ár í staðinn fyrir tvö ár hjá þeim samanburðarstéttum, sem þarna var um að tefla. Það skal tekið fram, að ég fyrir mitt leyti tel þennan 12 ára tíma algera fjarstæðu, en nota bene; það hefur verið samið um hann af aðilum. Og það stendur til boða af ríkisstj. hálfu að leiðrétta þetta þegar í stað. Það er engin ástæða til þess, að þeir menn, sem vinna við þessi störf, þurfi lengri tíma en tvö ár til þess að komast á hámarkskaup. Þau eru ekki þess háttar. Og það er sjálfsagt að gera þá leiðréttingu hvenær sem er. Það stendur ekki á því. Ég skal fúslega játa, að ég hef ekki persónulega haft aðstöðu til þess að reikna þetta eða gera þanni g úttekt á þessu. Ég byggi á því, sem fyrir mig hefur verið lagt í þessu efni. Ef það verður með réttu sýnt fram á það, annaðhvort með samkomulagi þessara aðila, sem eru saman um að gera slíka grg., eða með grg. óhlutdrægs aðila, að þarna sé einhver verulegur mismunur á, ósamræmi, þá skal ekki standa á mér að ganga í það að gera leiðréttingar þar á. En á meðan ég verð að miða við þær upplýsingar, sem fyrir mig hafa verið lagðar og sem sýna þetta, þá get ég ekki séð, að það sé ástæða þarna til breytingar nema út frá því sé gengið, að þeir, sem vinna hjá ríkinu við þessi sambærilegu störf eigi að fá þessar kauphækkanir, sem samið var um við hina, hvað sem öllum samanburði líður. Það liggur í hlutarins eðli, að meðan málið er hjá sáttasemjara er kostur á því að leysa málið. Þá er kostur þess fyrir aðila að mæta hjá sáttasemjara og ræða um það og leita eftir lausn á því, og ég tel sjálfsagt að nota þann tíma. Ef niðurstaða fæst ekki, þá er það beinlínis skylt samkv. lögum, að málið fer til Kjaradóms, og þá spurði hv. 7. þm. Reykv., hver mundi verða málflutningur ríkisvaldsins fyrir Kjaradómi. Ríkisvaldið mun nú hafa þar málflutningsmann, sem mun halda að sjálfsögðu vel á máli ríkissjóðs. Ég geri ráð fyrir því, að sá málflutningur verði á því byggður, sem ríkisstj. hefur þegar sagt, að hún telji ekki skilyrði til endurskoðunar. En til vara geri ég ráð fyrir því, að það sjónarmið verði sett fram í fyrsta lagi náttúrlega, að miðað við þær upplýsingar, sem hafa verið fyrir mig lagðar, þá sé ekki ósamræmi á milli, þá sé samræmi á milli þeirra launa manna, sem hér hafa verið borin saman, og í öðru lagi, að afkomuhorfur þjóðarbúsins séu þannig, að það sé ekki almennt fært að hækka kaup. Og ég geri ráð fyrir því, að stjórnarandstæðingar verði manna síðastir til þess að segja, að afkomuhorfur þjóðarbúsins séu svo góðar, að það geti tekið á sig kauphækkanir. Ég hef ekkert farið dult með það, að mín skoðun er sú, að teflt sé á tæpt vað á þessu ári, bæði að því er varðar atvinnureksturinn í landinu og afkomu ríkissjóðs. Ég hika ekkert við að viðurkenna það. En ég álít, að ef skynsamlega er á málum haldið og ytri aðstæður verða okkur hagstæðar, geti þetta allt samt bjargazt, en með fullri aðgát. Og þess vegna er það, að ég hef talið það skyldu ríkisstj. að bregðast þannig við þessu máli, eins og hún hefur gert.