31.01.1972
Neðri deild: 36. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2380 í B-deild Alþingistíðinda. (2546)

Launa og kaupgjaldsmál

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. of mikið, en kveð mér hljóðs hér vegna þeirra ummæla hæstv. forsrh., að enginn þurfi að vera í nokkrum vafa um, að ríkisstj. hafi farið að lögum í þessu máli. Nú telst það kannski hugrekki af minni hálfu að eiga orðastað um lögskýringar við hæstv. forsrh., lærðan prófessor í lögum, en vildi þó leyfa mér að setja fram mínar efasemdir um hans skýringar á þessu atriði, sem snertir það, hvort hér hafi verið farið að lögum eða ekki.

Ákvæðið, sem hér um ræðir og talið er, að brotið sé, er 7. gr. laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna, nr. 55/ 1962. Þetta ákvæði hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Kjarasamningur skal vera skriflegur, gerður til eigi skemmri tíma en tveggja ára í senn og gildistími hans miðast við áramót. — Nú verða almennar og verulegar kaupbreytingar á samningstímabili, og má þá krefjast endurskoðunar kjarasamnings án uppsagnar hans. Náist ekki samkomulag aðila innan mánaðar frá kröfugerð, fer um meðferð máls samkv. III. og IV. kafla laga þessara að öðru en því, að samningur eða dómur Kjaradóms skal gilda frá þeim tíma, sem um semst eða Kjaradómur ákveður.“

Upphaf 2. mgr. — „Nú verða almennar og verulegar kaupbreytingar á samningstímabili“ o. s. frv. — er það, sem skiptir máli í þessu sambandi, og hæstv. forsrh. gaf sér þær skýringar eða þær forsendur, að ekki hefðu orðið almennar og a. m. k. ekki verulegar kaupbreytingar. Nú viðurkenndi hann öðrum þræði, að sennilega mætti fallast á, að hér hefðu orðið almennar kaupbreytingar á s. l. hausti, en taldi mjög vafasamt, að þær væru verulegar. Nú er það út af fyrir sig athyglisverð yfirlýsing af hálfu hæstv. forsrh., oddvita fulltrúa stjórnar hinna vinnandi stétta, að samningarnir hafi ekki verið verulegar kaupbreytingar. Og stangast það nú, að einhverju leyti a. m. k., á við þær yfirlýsingar, sem fram komu frá stuðningsmönnum stjórnarinnar, þegar samningarnir höfðu verið frágengnir, því að þá var talið, að þarna væri um mjög verulegar kaupbætur og kjarabætur að ræða fyrir launþegasamtökin. Ég er ekki frekar en kannske aðrir dómbær á það, hvaða merkingu á að leggja í orðin „verulegar kaupbreytingar“. En ég hygg þó, að málflutningur bandalags opinberra starfsmanna hafi verið á þá leið, að þeir gefa sér þá forsendu, að hér sé um almennar og verulegar kaupbreytingar að ræða. Þeir telja það ótvírætt, og ég leyfi mér að halda því fram, að hvorki forsrh. né heldur ríkisstj. sé þess umkomin að kveða upp einhvern algildan úrskurð um það, hvernig eigi að túlka þessi orð, „almennar og verulegar kaupbreytingar“. Þetta krefst útskýringar, og ef út í það er farið, úrskurðar dómstóla, hvernig eigi að túlka þessi lög. Það er ekki löggjafans að kveða upp algildan úrskurð um það í umr. hér eða með einhliða ákvörðunum, eins og ríkisstj. virðist hafa gert og forsrh. endurtekur hér í umr. á Alþ. Og ég leyfi mér að halda því fram, að ef þetta reynist rétt, að verulegar og almennar kaupbreytingar hafi átt sér stað, þá megi með nokkuð góðu móti halda því fram, að hér sé um lögbrot að ræða.

Í framhaldi af þessu og hafandi þessa staðreynd í huga þá segir í þessu ákvæði, að krefjast megi endurskoðunar kjarasamnings án uppsagnar hans. Þetta hefur bandalagið gert, og ég geri ráð fyrir því, að það sé ekki dregið í efa, að þeim sé það heimilt samkv. þessum lögum, enda nokkuð skýrt ákvæði. Í framhaldi af þessu segir síðan: „Náist ekki samkomulag aðilja innan mánaðar frá kröfugerð, fer um meðferð máls samkv. III. og IV. kafla“ o. s. frv. Með öðrum orðum: þegar búið er að krefjast þessarar endurskoðunar, þá hygg ég, að það sé ekki átt við í þessu ákvæði, hvernig sú endurskoðun eigi að fara fram, heldur meira hvort hún eigi að fara fram. Fyrir löggjafanum hefur tvímælalaust vakað, að setzt væri niður og skoðað niður í kjölinn, hvernig og hvort sú endurskoðun ætti að fara fram — þ. e. hvort endurskoðunin færi fram og ef hún færi fram, þá hvernig. En nú hefur ríkisstj. tekið þá ákvörðun að úrskurða sjálf, að ekki sé skilyrði fyrir breytingum eða endurskoðun og þar af leiðandi er hún ekki til viðræðu um neitt samkomulag eða vill yfirleitt eiga nokkrar viðræður við gagnaðilann. Mín skýring á þessu ákvæði er tvímælalaust sú, að þegar þessi forsenda er fyrir hendi, almennar og verulegar kaupbreytingar, þá megi krefjast endurskoðunar og þá skuli setzt niður og farið yfir það, hvort og hvernig sú endurskoðun eigi að fara fram, og ef aðilar eru ósammála um það, að ekki sé grundvöllur fyrir því, eins og t. d. ríkisstj. segir núna, er hún segir, að ekki séu skilyrði fyrir neinni endurskoðun, þá sé það niðurstaða þeirra viðræðna, en ekki fyrr. Þess vegna vil ég mótmæla þeim úrskurði, að hér sé ekki um lögbrot að ræða. Ég skal ekki leggja neinn dóm á, hvort sú yrði sama niðurstaðan hjá dómstólum, en engu að síður er þetta mjög umdeilanlegt atriði og þess eðlis, að ekki er hægt að halda því fram hér í umr. mótmælalaust, að hér sé ekki um lögbrot að ræða.

Þessum skoðunum mínum vildi ég koma á framfæri og vil nú ekki frekar orðlengja þetta mál að öðru leyti en því, að ég tel eins og hér hefur komið fram fyrr í umr., að þetta mái snúist ekki um það, hvort opinberir starfsmenn eigi að fá kauphækkanir nú eða ekki, heldur hitt, hvort staðan sé þannig í þjóðfélaginu og í kjaramálum yfirleitt, að þeir eigi rétt á því að fá að endurskoða sína samninga eða ekki. Og þá er ég hiklaust á þeirri skoðun, að þannig sé ástatt í kjaramálum opinberra starfsmanna og með tilliti til þeirra sjálfvirku tengsla, sem á þessum málum eru, sé ekkert vafamál, að þeir eigi fulla heimtingu á því, að við þá sé talað og það með öðrum hætti heldur en þeim að vísa málunum þegar í stað til dómstóla. Það kemur manni satt að segja á óvart, að stjórn vinnandi stétta skuli telja það eðlileg og sjálfsögð vinnubrögð að vísa málum þegar í stað til dómstóla, og hingað til hafa það nú ekki verið taldar réttar aðferðir í kjarasamningum hér á landi. En ríkisstj. sjálf hefur viðurkennt þessi sjálfvirku tengsl, sem ég er að tala um, þegar skoðaður er málefnasamningur ríkisstj., og þar segir m. a., með leyfi hæstv. forseta, þegar talað er um opinbera starfsmenn:

Ríkisstj. vill, að opinberir starfsmenn fái fullan samningsrétt um kjör sín, enda hverfi þá öll sjálfvirk tengsl á milli launasamninga þeirra og annars launafólks.“

Það fer ekki á milli mála, að hún telur ótvíræð tengsl á milli hinna almennu kjarasamninga, sem fara fram við launþegasamtökin, og svo hins vegar hvað snertir kjör opinberra starfsmanna. Og það er það, sem opinberir starfsmenn eru að fara fram á núna, að þessi sjálfvirku tengsl séu viðurkennd og þeirra mál séu skoðuð í því ljósi.

Ég tel mjög óeðlilegt, hvernig farið hefur verið með kjaramál opinberra starfsmanna. Þeir hafa verið dregnir á asnaeyrunum, kannske svo mánuðum og árum skiptir, án þess að um nokkra endurskoðun hafi verið að ræða á þeirra málum, og á þetta við um nokkuð langan tíma. Þar hafa átt sér stað stökkbreytingar, — mig minnir fyrst 1962 og svo aftur nú á s. l. ári, — stökkbreytingar, sem mjög raska öllu ástandi og eru óeðlilegar í sjálfu sér, bæði fyrir þá, sem þurfa að greiða þeim fé, þ. e. ríkiskassann, og svo hins vegar fyrir það fólk, sem starfar hjá hinu opinbera. Mér finnst eðlilegt, að yfir þennan stóra hóp launþega gangi það sama og aðra launþega, að þeir fái og hafi möguleika til þess að ræða við sinn atvinnurekanda og hafi fulla möguleika á því að skýra sín sjónarmið og koma því á framfæri, sem þeim þykir miður fara. Hæstv. forsrh. vakti athygli á því, að stjórnarandstæðingar væru öðrum þræði að vekja ótta við verðbólgu og halda því fram, að þessar aðgerðir ýmsar stuðluðu að aukinni verðbólgu og á hinn bóginn séu þeir að hvetja til launahækkana. Ég lít svo á, að þessar umr. fari ekki fram á þeirri forsendu, að stjórnarandstæðingar séu einhliða að setja fram þá kröfu, að opinberir starfsmenn eigi að hækka í launum, heldur skuli þeir sitja við sama borð hvað samningsréttinn snertir, hvort sem hann er fullur eða ekki. En forsrh. viðurkennir enn fremur í þessum umr., að teflt hafi verið á tæpasta vað, bæði hvað snertir atvinnureksturinn og ríkisreksturinn, þannig að þar stangast mjög á við yfirlýsingar ríkisstj., sem kemur enn fremur fram í málefnasamningi, sem var settur fram strax í sumar, þar sem talað var um, að auka skyldi kaupmátt launa verkafólks og annarra launþega um 20% á næstu tveimur árum. Enda þótt ekki hafi verið samið um 20% aukningu kaupmáttar nú í síðustu samningum, þá er það ekki rétt, þegar talað er um, að samningarnir hafi tekið til um 4% kauphækkunar. Sú kauphækkun var meiri og hún nær til tveggja ára. Það er ótvírætt, að um almennar og verulegar kaupbreytingar er að ræða á þessum vettvangi, og því held ég, að það sé ekki nema siðferðisleg réttlætiskrafa af hálfu bandalags opinberra starfsmanna og, sem ég leyfi mér líka að halda fram, jafnframt lagalegur réttur þeirra að taka upp samninga og fá eðlilegar kjarabætur eins og aðrir launþegar í þessu landi.