14.02.1972
Neðri deild: 41. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2402 í B-deild Alþingistíðinda. (2563)

Launa og kaupgjaldsmál

Björn Pálsson:

Herra forseti. Ég skal verða við þeim óskum að stytta mál mitt. Ég ætla engan dóm að leggja á þessa deilu og sízt af öllu að fara að verja ríkisstj. Þeir eru færir um að svara fyrir sig sjálfir. Það væri að óhreinka nytina, ef ég væri að verja þá, ef nokkuð væri að verja. Ég efast ekkert um, að ríkisstj. hafi gert það eitt í þessu efni, er hún álítur löglegt og rétt. Hitt er svo annað mál hvort ekki hefði verið hyggilegra að spjalla við Kristján Thorlacius. Ef ég hefði verið forsrh., þá hefði ég fengið ávallt þann ráðh., sem minnst hafði að gera hvern daginn, til þess að ræða í klukkutíma við hann eftir vinnutíma og fá svo skrifstofustjóra til aðstoðar, ef enginn. ráðh. mátti vera að því. Þetta hefði orðið allt mildara, hefði verið rætt við hann svona í mánuð. Annars er hér um að ræða arf frá fyrrv. ríkisstj. Fyrrv. Ríkisstj. kom þessum blessuðum Kjaradómi á og samningsveseni öllu saman. Það hefur nú gefizt þannig, að þeir eru sprungnir á þessu. Ég veit ekki betur en háskólamenn séu búnir að rjúfa þennan hring. Þeim finnst ekki, að þeir fái nógu há laun miðað við þá, sem eru minna menntaðir. Og þegar þeir eru búnir að semja við ríkisstj. í hvert skipti, þá taka þeir til að deila innbyrðis. Síðan þessi Kjaradómur kom, er alltaf einhver ófriður og eitthvert rifrildi hjá opinberum starfsmönnum. Það er nefnilega þannig, að, ef einhver húsbóndi er ekki stjórnsamur, t. d. móðirin er ekki stjórnsöm við börnin og lætur allt eftir þeim, þá eru þau alltaf að jagast í henni og svo rífast þau innbyrðis líka um að fá þetta eða hitt. Þeir húsbændur, sem eru mest virtir, eru þeir, sem eru strangir og réttlátir. Vilhjálmur Prússakóngur var allra kónga strangastur, en hann gerði embættiskerfið þannig í Þýzkalandi, að þeir voru allra manna skylduræknastir og duglegastir og bjuggu að því í margar aldir. Hann lét raunar hengja einn fyrir að hann hefði eitthvað ruglað fáeinum krónum saman við sitt eigið fé. Hann lét hengja hann. En þetta var fordæmi, sem menn óttuðust í fleiri aldir og mundu eftir. Mér fannst satt að segja, að þetta væri harðleikni, en þetta var jákvætt fyrir embættiskerfið þýzka. Ég vil engan hengja hér á Íslandi, en þegar ég var drengur, unnu embættismennirnir vel. Þeir höfðu lítil sem engin sumarfrí og þeir höfðu lágt kaup, en þá hlutu þeir að vinna. Nú vilja menn ekki vinna nema 11 mánuði og ekki nema nokkrar klst. í viku, 37 á það víst að heita og 5 mínútur, ef þeir vinna þá þann tíma. Og aldrei fá þeir nóg kaup. Ég skal játa það, að embættismönnunum íslenzku hefur ekki verið of vel borgað, og ég held, að ráðið við þessu öllu saman sé það að borga mönnunum heiðarlega og vel, þannig að þeir geti lifað sómasamlegu lífi af því með sínar fjölskyldur, sem sagt, þurfi ekkert undan því að kvarta, en krefjast þess hins vegar, að þeir vinni sómasamlega.

Ef ég væri forsrh., sem ég er nú ekki og verð aldrei, þá mundi ég koma með þá tillögu á stjórnarfundi að afnema þennan Kjaradóm, afnema hann hreinlega, og ríkið ákvæði sjálft launin eins og það gerði áður, hefði þau sómasamleg og stjórnin hefði leyfi til þess að fækka starfsmönnum eða láta starfsmenn hætta, en væri ekki nauðbeygð til að hafa starfsmann, þótt hann væri fullur annan hvern dag ársins, láta ónytjungana hætta. Við höfum nóg með fólkið að gera. Það vantar menn á skipin. Það vantar stúlkur til að vinna við fiskinn. Það verður tæpast hægt að anna aflanum í vetur fyrir fólksleysi. (Gripið fram í: Hvað um verkfallsréttindin?) Verkfallsrétt? Ég mundi bara hafa það þannig að semja lögin og hafa engan verkfallsrétt. Það væri enginn verkfallsréttur hjá opinberum starfsmönnum. Svo réðu opinberir starfsmenn, hvort þeir gengju að því, — bjóða þeim sómasamleg kjör, ræða við þá, þegar þeir vildu kvarta yfir einhverju, og taka tillit til óska þeirra, en ekki veita þeim verkfallsrétt, en bara segja: Við borgum þetta kaup. Þið ráðið, hvort þið gangið að því, og ef þið viljið það ekki, þá þurfum við ekki á ykkar þjónustu að halda. Þá yrði bara komin röð og regla á þessu öllu saman. Þá þyrfti ekki neinn að vera að klaga yfir því, að ráðh. hefði ekki viljað tala við hann o. s. frv., og þá gætu þeir farið í aðra atvinnu, sem ekki vildu vinna hjá ríkinu, og ríkið yrði þá að keppa við einstaklingana á frjálsum markaði. Þetta er ósköp einfalt mál. Og ef ríkisstj. hefði kjark eða vitsmuni til þess að gera þetta, þá mundu opinberir starfsmenn sjálfir vera dauðfegnir, því að þeir eru innbyrðis ósáttir og dauðleiðir á þessu skrafi öllu saman, fjöldinn af þeim. Hitt er ekki nema mannlegt og eðlilegt, að stjórnarandstaðan reyni að fiska eitthvað á þessu. Hefðum við verið í stjórnarandstöðu, þá hefðu vafalaust þessir flokkar, sem nú eru við stjórn, eitthvað reynt að fiska á þessu. En ég held, að þeir fiski nú furðulítið á þessu satt að segja, því að þetta eru engir bjánar, opinberir starfsmenn, og þeir skilja, að það eru takmörk fyrir, hvað mögulegt er að borga. En ef fólkið ynni vel væri hægt að hafa færra starfsfólk, þá væri líka hægt að borga því betur. Það yrði þannig, ef stjórnin hefði kjark til að gera þetta, þá mundu opinberir starfsmenn segja við lok kjörtímabilsins, að þeir hefðu aldrei haft jafngóða stjórn, því að þá væru þeir fyrst farnir að virða stjórnina. En stjórn, sem ekki hefur kjark til að gera það, sem nauðsynlegt er að gera, og lætur alla vera að nota munn og jafnvel að svíkjast um, fyrir henni ber enginn maður virðingu og ekki heldur opinberir starfsmenn. Það á bara að taka fast og skynsamlega á hlutunum, þá er svona skraf búið og allt einskis vert.