14.02.1972
Neðri deild: 41. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2404 í B-deild Alþingistíðinda. (2566)

Launa og kaupgjaldsmál

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Það var einkum vegna þess, sem kom fram í máli hæstv. forsrh., sem ég vildi aðeins gera hér að umtalsefni samninga borgarstarfsmanna við Reykjavíkurborg. Hæstv. forsrh. virðist ekki vita, að þar hafa farið fram samningaumleitanir. Borgaryfirvöld hafa rætt við sína starfsmenn og ekki neitað þeim um slíkar viðræður. Það hafa farið fram nokkrir fundir þessara aðila, en með samþykki beggja samninganefndanna var málinu vísað til Kjaradóms. Grundvallaratriðið í þessu efni er það, að auðvitað væri komið í ónýtt efni fyrir okkur, ef upp kæmi launastríð, eins konar launastríð á milli ríkisvalds og borgarinnar, sem hefur á að skipa mönnum, sem vinna ákaflega hliðstæð störf. Ef þarna gæti ekki verið samræmi á milli, þá hljóta allir að sjá, að þar er komið í óefni, sem ég held, að sjálfur forsrh. ætti ekki að óska eftir, að kæmi yfir hann, en svo mátti raunar skilja hans orð áðan, öðrum þræði a. m. k., að hann væri að eggja Reykjavíkurborg á að ganga á undan með hækkanir hjá sínum starfsmönnum og þannig að knýja fram e. t. v. hækkanir hjá öðrum opinberum starfsmönnum eða hjá ríkisstarfsmönnum. Ég spyr hæstv. forsrh.: Er þetta virkilega ósk hans, að svo verði gert?

Það hefur mikið verið um það rætt hér, hvort ríkisstj. hafi í raun og veru neitað opinberum starfsmönnum um að ræða við þá eða hvort hún hafi ekki gert það. Eins og fram kom hér hjá síðasta ræðumanni, þá var ég á þessum fræga Háskólabíósfundi, sem um þetta mál fjallaði, og hlýddi þar á ummæli hæstv. viðskrh. Hann sagði þar, að það hefði komið yfir sig eins og köld vatnsgusa, ef ég man rétt, þegar hann hefði heyrt í fjölmiðlum, að ríkisstj. hefði neitað að tala við opinbera starfsmenn og semja við þá. Þetta sagði hæstv. ráðh. eftir að sjálfur forsrh. hafði sagt hér á Alþ. — ég skrifaði þetta niður hjá mér og fer orðrétt með það — með leyfi hæstv. forseta:

„Hefði það verið nokkuð heiðarlegri framkoma eða skynsamlegri að setja fram þetta sjónarmið, sem við settum fram, að grundvöllur væri ekki til endurskoðunar, en fara svo að snakka við þá, halda þeim uppi á snakki?“

Hvað þýðir þetta? Forsrh. segir, að það hefði ekki verið skynsamlegt vegna gefinna forsendna, það hefði ekki verið skynsamlegt að tala við ríkisstarfsmenn, að „halda þeim uppi á snakki“. Þetta sagði sjálfur forsrh. Svo koma menn hér og deila um það, hvort ríkisstj. hafi í raun og veru neitað að ræða við opinbera starfsmenn! Ég fæ ekki séð, að um þetta þurfi að ræða. Það þarf eingöngu að fletta upp á þessum ummælum hæstv. forsrh. og skoða þau og þá er það alveg skýrt.

Ég ætla svo ekki að fjölyrða um þetta lengur. Hæstv. forseti er búinn að óska eftir því, að þessar umr. verði ekki lengdar. En ég vil aðeins undirstrika það í lokin, að hér er ekki verið að ræða um, hversu mikið eigi að hækka kaup opinberra starfsmanna. Hér er verið að ræða um málsmeðferð, málsmeðferð ríkisvaldsins gagnvart sínum launþegum, ekki hversu mikið kaup þeim beri, heldur hvernig ríkisstj. stendur að því að ræða við sína launþega.