11.12.1971
Sameinað þing: 22. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2413 í B-deild Alþingistíðinda. (2576)

Herstöðva- og varnarmál

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Mig langar til þess að beina fsp. til hæstv. ríkisstj. Í kvöldfréttum hljóðvarps og sjónvarps í gærkvöld var skýrt frá erlendum fréttaskeytum um ræðu, sem Einar Ágústsson utanrrh. hafði haldið á ráðherrafundi Atlantshafsbandalagsins í Brüssel í fyrradag. Í skeytunum er lögð megináherzla á, að utanrrh. hafi sagt, að Íslendingar hyggist standa við allar skuldbindingar, sem fylgi aðild þeirra að Atlantshafsbandalaginu. Ríkisstj. hafi ákveðið, að Ísland verði áfram í Atlantshafsbandalaginu, þótt ágreiningur sé um það atriði innan hennar. Þess yrði ekki krafizt á næstunni, að bandaríski herinn færi frá Keflavík, þar sem það mál væri enn til athugunar í ríkisstj. Í skeyti segir, að þótt íslenzka ríkisstj. hafi sagt, er hún kom til valda fyrir hálfu ári, að herinn yrði að fara úr landi, hefði utanrrh. hennar nú sagt, að Íslendingar mundu standa við allar skuldbindingar sínar gagnvart bandalaginu og endurskoðunar samningsins um dvöl varnarliðsins hefði ekki verið óskað enn þá. Málið væri í athugun hjá ríkisstj.

Fsp. mín til hæstv. ríkisstj. lýtur að því, hvort ríkisstj. sem heild hafi fjallað um texta ræðu ráðh. Ef svo er, spyrst ég fyrir um, hvort allir ráðh. ríkisstj. hafi samþykkt textann eða sú undirnefnd, sem ríkisstj. hefur kjörið til þess að fjalla sérstaklega um endurskoðun varnarsamningsins við Bandaríkin. Hafi ríkisstj. sem heild ekki séð textann, spyrst ég fyrir um, hvort gera megi ráð fyrir því, að efni ræðunnar sé stefnulýsing gefin fyrir hönd allra ráðh. Ég tek skýrt fram, að ég er ekki að gagnrýna málflutning hæstv. utanrrh. Ég efast ekki um, að hann hafi haldið vel á íslenzkum málstað á þessum fundi. En ég tel nauðsynlegt, að upplýst verði, hver vinnubrögð hæstv. ríkisstj. eru í slíkum efnum. Það á eflaust eftir að reynast mikilvægt síðar meir. Auðvitað ræður ríkisstj. sjálf vinnubrögðum sínum. En þing og þjóð á rétt á að vita, hver þau eru.

Í þessu sérstaka tilviki er og mjög mikilvægt að fá upplýsingar um, hvort allir ráðh. ríkisstj. hafa samþykkt fyrir fram það, sem utanrrh. sagði. Ef svo er ekki, er nauðsynlegt að fá upplýst, hvort þeir samþykki það nú.