11.12.1971
Sameinað þing: 22. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2414 í B-deild Alþingistíðinda. (2578)

Herstöðva- og varnarmál

Bjarni Guðnason:

Herra forseti. Út af þessari fsp. hv. 7. þm. Reykv. langar mig að segja örfá orð, og þau verða á þá lund, að ég hefði vænzt þess, að Alþfl. tæki ekki þátt í þeim darraðardansi hræðslupólitíkurinnar, sem Sjálfstfl. stundar í varnarmálum. Alþfl. hefur þegar komið fram með mjög skynsamlega till. til þál. að mínu viti, þar sem lögð er áherzla á það að kanna aðstæður í sambandi við aðild Íslendinga að NATO og ég tel það mjög lofsvert. Ég veit það, að þm. Alþfl. flestir eru mjög fylgjandi NATO og veru varnarliðsins hér, og ég tel það mjög skynsamlegt að halda sér bara á raungrundvelli þannig, að kanna þær aðstæður, sem fyrir eru hverju sinni, og ég tei. að Alþfl. sé á réttri leið. Þeir eru á þeirri leið að kanna málefnið eins og það liggur fyrir. Hins vegar tel ég, að með þessari fsp. hv. 7. þm. Reykv. sé hann að taka þátt í þeim undarlega skollaleik, sem Sjálfstfl. stundar hér í þingsölum, að reyna að magna einhverja ótta- og hræðslupólitík í sambandi við varnarmálin. Og ég ætlast til stærri og meiri hluta af Alþfl. en Sjálfstfl. Og ég tel það mjög miður farið, þegar verið er að stunda svona pólitíska iðju eins og hér er gert.

Ellert Schram byrjaði að kveðja sér hljóðs í þingsölum um Formósu, og Gylfi Þ. Gíslason hleypur til strax, þegar hann kemur á þing, að tala um varnarmálin og ég held, að hann hljóti að elta Jóhann Hafstein eða Geir Hallgrímsson. Og einkanlega af því að ég er svona jafnaðarmannlega vaxinn, þá heimta ég það af Alþfl., að hann vinni málefnalega. Ég heimta af honum, að hann standi sig málefnalega og taki ekki þátt í þessari aumingjapólitík Sjálfstfl.