11.12.1971
Sameinað þing: 22. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2414 í B-deild Alþingistíðinda. (2579)

Herstöðva- og varnarmál

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Hæstv. forsrh. svaraði fsp. hv. 7. þm. Reykv. á þá leið, að yfirlýsing utanrrh. væri í fullu samræmi við margendurteknar yfirlýsingar ríkisstj. varðandi varnarmálin. Nú vitum við það allir þm., að það hafa verið gerðar mjög margar tilraunir hér á Alþ. til að fá það fram, hver væri hin raunverulega stefna ríkisstj. í varnarmálum, en þetta hefur, að ég hygg, að dómi flestra þm. ekki tekizt enn þá. Var því vart að búast við öðru svari frá hæstv. forsrh. Ég vil þá koma fram með aðra fsp. til hæstv. forsrh., en hún er á þá leið, hvernig beri að skilja eða hvernig hann skilgreini það atriði í málefnasamningi ríkisstj. um utanríkismál þar sem segir: „Ágreiningur er milli stjórnarflokkanna um afstöðuna til aðildar Íslands að Atlantshafsbandalaginu.“ Ég tel það alveg sjálfsagt, að ríkisstj. upplýsi það hér á þingi, í hverju þessi ágreiningur liggur. Það hefur ekki komið fram enn þá, ekki verið skilgreint enn þá, í hverju ágreiningurinn raunverulega liggur. Menn hafa forðazt það eins og heitan eldinn að gera grein fyrir, hverjir eru á móti og hverjir eru með. Það hafa komið loðnar yfirlýsingar, en ekki neitt jákvætt um það, hver ágreiningurinn raunverulega er. Hv. 3. landsk. þm. talaði hér um hræðslupólitík Sjálfstfl. í varnarmálum. (BGuðn: Já, ég stend við það.) Hann stendur við það, segir hann, en ég hygg nú samt, að þjóðin almennt telji ekki þetta á þann veg, að við séum með neina hræðslupólitík. Það er almennur ótti hjá þjóðinni — það vita það flestir þm. og jafnvel þessi hv. þm. veit það, að það er almennur ótti meðal þjóðarinnar um, hver endalok þessi mál fái hjá ríkisstj. Þessi mál hafa verið hér nokkuð ítarlega rædd og nokkuð upplýst, þó hvergi nálægt því eins og eðlilegt væri, að gert hefði verið og nauðsynlegt er, að gert verði, til þess að þjóðin viti raunverulega hvaða stefnu ríkisstj. hefur í þessu. Það liggur ekkert fyrir um það enn þá, hvað fram undan er í varnarmálum. Ég er ekkert hræddur, því að ég er sannfærður um það, að þó að ýmsir þeir, sem kallaðir eru nytsamir sakleysingjar, vilji fylgja kommúnistum í því að fá herinn héðan í burtu og gera landið varnarlaust, þá mun það ekki takast. Ég er alveg jafnsannfærður um það, að innan lýðræðisflokkanna eru svo margir menn, bæði hér á Alþ. og meðal þjóðarinnar, að þetta verður ekki gert. Kommúnistar munu ekki í þessu tilfelli, þótt þeir hafi gert málefnasamning og séu komnir í stjórnarsamstarf við lýðræðisflokk eða flokka, — þá mun þeim ekki takast að koma þessum áformum sínum fram, það er ég alveg sannfærður um. Þess vegna er enginn ótti í mér, en ég tel það skyldu hæstv. ríkisstj. að gera hreint fyrir sínum dyrum og gefa yfirlýsingu um það, hvað hún ætli sér í málinu. Það liggur alls ekki ljóst fyrir. (BGuðn: Þú ert lafhræddur.) Ég hygg nú, að hv. 3. landsk. þm. sé miklu hræddari en ég, a. m. k. virðist hann við þessar umræður um einfalda fsp. vera það taugaóstyrkur hér í þingsal að hann geti ekki setið á sér að vera með sífelld frammíköll. Þetta bendir ekki á taugastyrkleika.