11.12.1971
Sameinað þing: 22. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2419 í B-deild Alþingistíðinda. (2583)

Herstöðva- og varnarmál

Bjarni Guðnason:

Herra forseti. Fyrst nokkur orð, já, forspjall, eins og Eggert orðar það, Þorsteinsson. Ég kann afskaplega illa við það í siðum og venjum þingsins að flokka menn í hv. þm. og hæstv. ráðh. Mér skilst, að allir séu jafnir hér í þingsölum og ég legg því til að þetta verði afnumið.

Í öðru lagi minntist hér einn þm. á það, að honum væri óljós stefna Samtaka frjálslyndra og vinstri manna í varnarmálunum. Það stafar náttúrlega af því, að hann hefur ekki kynnt sér stefnuskrá samtakanna, og skal ég þá fara nokkrum orðum um það ágæta plagg.

Fyrst vil ég nefna það að þar er auðvitað skýrt ákvæði um, að herinn eigi að hverfa á brott, en þær röksemdir fyrir þeirri ákvörðun getur hv. þm. hvorki skilið né vill skilja. Og í öðru lagi er kveðið á varðandi NATO, að þjóðaratkv. eigi þar að skera úr um aðild þjóðarinnar að NATO. Og röksemdin fyrir því, þó að hv. þm. hvorki geti skilið það né vilji skilja, er einfaldlega sú, að Samtök frjálslyndra og vinstri manna telja, að þjóðin sjálf eigi einhvern tíma að skera úr málum, hreinlega. En þannig er, eins og allir vita, að hér var lætt inn varnarstöð og þrátt fyrir þrábeiðni stórs minni hluta þjóðarinnar um þjóðaratkvgr., þá var því synjað, af því að þeir menn, sem vildu fá varnarstöð, höfðu meiri hluta. Nú hrópa sömu menn á þjóðaratkvæði, og það vill svo til, að það eru lýðræðismenn, sem ráða hlutunum, og þess vegna erum við alltaf mjög fúsir að leita vilja þjóðarinnar í einstökum málum, en ekki knýja mikilvæg mál fram með — ég vil segja jafnvel valdbeitingu, einkum þegar um er að ræða landsréttindi. Ég vona, að þetta sé nokkuð skýrt. Og í öðru lagi vildi ég benda á það, að hv. fyrirspyrjandi hafði mikinn áhuga á því að vita, hver væri stefnan í sambandi við uppsögn varnarliðsins. Og það er ákaflega eðlilegt, að þessi hv. þm. vilji vita það, vegna þess að fyrrv. ríkisstj. hafði bara enga stefnu í varnarmálum eða bara yfirleitt utanríkismálum. Það var alger status quo. Það var alger status quo í utanríkismálum síðasta áratuginn. Þar gilti reglan „ástandið er gott, og engu þarf að breyta“. Það er status quo reglan. Og ég vil líka benda hv. þm. á það, að stefna ríkisstj. er skýrt mótuð í málefnasamningnum og svo er bara þörf fyrir hv. þm., eftir beztu vitund og ég vil segja jafnvel samvizku, ef hún er einhver, að lesa það, sem stendur skrifað. Það er allt og sumt. Og svo er annað. Ég mælist til þess við hv. þm. að hafa biðlund þar til af framkvæmdum verður, og þá kemur þetta í ljós.

Ég skal nú ekki fjölyrða um þetta mál en ég vænti þess og treysti, að menn forðist hræðslupólitík.