11.12.1971
Sameinað þing: 22. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2420 í B-deild Alþingistíðinda. (2584)

Herstöðva- og varnarmál

Eyjólfur K. Jónsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr., en mér finnst ekki verða hjá því komizt að ítreka þá fsp., sem hv. 7. þm. Reykv. bar hér fram, sem mér finnst vera meginatriði málsins. Hún var á þann veg, hvor þeirra hefði rétt fyrir sér varðandi skýringu á málefnasamningnum, hæstv. sjútvrh. eða hæstv. utanrrh. Einar Ágústsson, sem margsinnis hefur haldið því fram, og ég vona réttilega, að engin ákvörðun hafi verið tekin um brottrekstur varnarliðsins, ekkert segi um það í málefnasamningnum, heldur beri að skoða varnarmálin fyrst og taka ákvörðunina á eftir.

Hæstv. sjútvrh. hefur hér í þessum ræðustól og víða annars staðar haldið fram alveg gagnstæðri skoðun. Hann hefur sagt, að það þyrfti ekki nema meðaldómgreind til að skilja það, að í málefnasamningnum væri tekin ákvörðun um brottrekstur varnarliðsins og ég skildi svo síðasta ræðumann, að hann teldi það einnig vera augljóst. Þarna skilur mjög greinilega á milli, og ég verð að segja það við hæstv. forsrh., að þó að hann haldi því fram, að skilningur komi með tímanum, þá er ég svo heimskur, að ég get ekki skilið, að þessir tveir menn, hæstv. utanrrh. og hæstv. sjútvrh., séu á sömu skoðun, þegar þeir halda fram hvor því máli, sem ég hér hef lýst. Þeir eru á öndverðri, gagnstæðri skoðun, og ég skora á hæstv. forsrh. að upplýsa nú á þessari stundu, hvor þeirra hafi rétt fyrir sér. Báðir geta ekki haft rétt fyrir sér. Hvor þeirra segir rétt, skýrir málefnasamninginn rétt, hvor skýrir hann rangt? Nú má svara með mjög einföldu já-i eða nei-i, en ekki já-já og nei-nei. Ég spyr: Er skýring utanrrh. rétt? Ég spyr hæstv. forsrh.: Er skýring utanrrh. rétt? Hann segir ekkert. Ég spyr hæstv. forsrh.: Er skýring sjútvrh. rétt? Hann segir heldur ekkert.

Ég vona, að með tímanum komi skilningur hjá hæstv. forsrh. á ýmsum málefnum, ekki bara utanríkismálum, heldur t. d. á efnahagsmálum. Það er ekki vanþörf á því, að íslenzka þjóðin fái í sæti forsrh. mann, sem hefur svolítinn skilning á málefnum þjóðarinnar, t. d. efnahagsmálum. Ég vona, að sá tími komi fyrr en síðar, að hæstv. forsrh. öðlist skilning á málefnum þjóðarinnar.