13.12.1971
Sameinað þing: 23. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2421 í B-deild Alþingistíðinda. (2588)

Herstöðva- og varnarmál

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Ég hef kvatt mér hljóðs hér utan dagskrár vegna fréttaflutnings í útvarpi og sjónvarpi s. l. laugardagskvöld. Á fundi í Sþ. s. l. laugardag urðu töluverðar og mjög líflegar umr. utan dagskrár vegna fsp. frá hv. 7. þm. Reykv. vegna fréttar af ummælum hæstv. utanrrh. á fundi utanrrh. Atlantshafsbandalagsins. Í umr. þessum tóku þátt auk fyrirspyrjanda hæstv. forsrh., sem svaraði fsp., svo og nokkrir aðrir hv. alþm., sem af þessu gefna tilefni báru fram fsp. til hæstv. ráðh. Fyrri fsp., fsp. frá hv. 3. þm. Sunnl., var svarað, en fsp. frá hv. 5. þm. Norðurl. v. ekki svarað. Ég mun ekki rekja hér þessar umr., enda eru þær ekki tilefni þess, að ég hef kvatt mér hljóðs, heldur fréttaflutningur fjölmiðla af því, sem fram fór á þessum fundi.

Þeir, sem hlustuðu á fréttir sjónvarps og hljóðvarps síðastliðið laugardagskvöld, urðu vitni að því, hversu ónákvæmur fréttaflutningur getur komið út sem villandi og jafnvel sem hlutdrægur. Til þess að hv. alþm. geti gert sér betur grein fyrir máli þessu og sjálfir dæmt um fréttaflutning hljóðvarpsins og sjónvarpsins af umræddum fundi, hef ég fengið afrit af fréttunum og vil, með leyfi forseta, lesa þær upp:

Fréttir útvarpsins kl. 19. Þar segir: „Gylfi Þ. Gíslason bar fram fsp. utan dagskrár á Alþ. í tilefni af fréttum, sem hafðar voru eftir erlendum fréttamönnum í útvarpi og sjónvarpi í gærkvöld um ræðu Einars Ágústssonar utanrrh. á fundi ráðherranefndar Atlantshafsbandalagsins í Brüssel. Í fréttum þessum hafði verið lögð megináherzla á, að ráðh. hefði sagt, að Íslendingar hygðust standa við allar skuldbindingar sínar við bandalagið og Íslendingar yrðu áfram aðilar að NATO, þótt ágreiningur væri um það atriði innan ríkisstj. Herinn yrði ekki látinn fara úr landi á næstunni, þar sem það mál væri enn til athugunar í ríkisstj. Fsp. laut að því, hvort ríkisstj. sem heild hefði fjallað um texta ræðu utanrrh. í Brüssel og ef svo væri, hvort allir ráðh. hefðu samþykkt hana. Ef svo væri, væri spurt, hvort líta bæri á hana sem stefnuyfirlýsingu ríkisstj. allrar. Fyrirspyrjandi sagðist álíta nauðsynlegt, að upplýst væri, hver vinnubrögð ríkisstj. væru í þessum málum. Ólafur Jóhannesson forsrh. svaraði fsp. á þá leið, að ræða utanrrh. í Brüssel hefði túlkað fullkomlega stefnu ríkisstjórnarinnar. Öllum ráðh. hefði verið kunnugt um efni ræðunnar, en ekki væri venjan, að ráðh. læsu orðrétt fyrir ríkisstj. þær ræður, sem þeir flyttu. Bjarni Guðnason tók til máls og sagðist undrast, að Gylfi Þ. Gíslason, málsvari Alþfl., tæki þátt í hræðslupólitík Sjálfstfl. Gera yrði þær kröfur til Alþfl., að hann héldi sig við málefnalegan málflutning. Guðlaugur Gíslason tók til máls og krafðist svara um, hver væri raunveruleg stefna ríkisstj. í þessum málum og í hverju ágreiningurinn væri fólginn. Ólafur Jóhannesson forsrh. svaraði og sagði, að svör við þessum spurningum væru augljós. Ágreiningurinn væri ekkert launungarmál. Vitað væri, að Framsfl. væri fylgjandi aðild að NATO, en Alþb. andvígt. Stjórnin væri fylgjandi aðild að NATO að óbreyttum aðstæðum og mundi standa við skuldbindingar sínar við bandalagið. Menn skyldu kynna sér málefnasamninginn, lesa hann kvölds og morgna og læra í samhengi, kæmi þá skilningur með tímanum. Spyrjendur kváðu það ekki duga til. Halldór Blöndal tók til máls og lýsti undrun sinni á málflutningi Bjarna Guðnasonar og innti hann eftir skoðunum hans sjálfs á varnarmálunum. Gylfi Þ. Gíslason tók aftur til máls og sagði, að meginmáli skipti að fá upplýsingar um vinnubrögð ríkisstj. í þessum málum. Á fundinum í Brüssel hefði það gerzt, sem aldrei hefði gerzt áður, að ágreiningurinn innan ríkisstj. hefði verið kynntur utan landsteinanna. Erlendir fréttamenn hefðu með réttu eða röngu skilið ummæli utanrrh. sem stefnubreytingu íslenzku ríkisstj. Utanrrh. hefði margítrekað, að ákvörðun um brottför hersins yrði ekki tekin fyrr en að undangenginni nákvæmri athugun, en viðskrh hefði margoft fullyrt, að þegar væri ákveðið, að herinn færi. Gylfi Þ. Gíslason spurði, hvort það álit erlendra fréttamanna, að stefnubreyting hefði orðið, hefði við rök að styðjast. Eyjólfur K. Jónsson tók til máls og beindi þeirri fsp. til forsrh., hvor þeirra, utanrrh. eða viðskrh., túlkaði stefnu ríkisstj. Augljóst væri, að þeir túlkuðu málefnasamninginn á gjörólíkan hátt. Forsrh. svaraði ekki fyrirspurninni, og beindi þá fyrirspyrjandi orðum sínum til annarra viðstaddra ráðh., sem voru Magnús T. Ólafsson menntmrh., Lúðvík Jósepsson sjútvrh. og viðskrh. og Hannibal Valdimarsson félmrh., en þegar enginn þeirra bjóst til að svara, var fundi slitið.“

Þetta var frétt útvarpsins af fundinum s. l. laugardag.

Næst ætla ég að leyfa mér að lesa fréttir sjónvarpsins, en þær eru svo:

Umr. spunnust um stefnu ríkisstj. í varnarmálum utan dagskrár á fundi Sþ. í dag. Gylfi Þ. Gíslason spurðist fyrir um það í tilefni ummæla erlendra fréttastofnana um ráðherrafund Atlantshafsbandalagsins, hvort ríkisstj. í heild hefði fjallað um ræðu utanrrh. og hvort allir ráðh. hefðu samþykkt hana og ef svo væri, hvort líta bæri á ummæli hans sem stefnuyfirlýsingu ríkisstj. Ólafur Jóhannesson forsrh. sagði utanrrh. hafa túlkað fullkomlega stefnu ríkisstj. og ráðherrum öllum verið kunnugt um efni ræðunnar. Þá spurði Guðlaugur Gíslason, hver væri raunverulega stefna ríkisstj. í þessum málum og í hverju ágreiningurinn væri fólginn. Forsrh. svaraði, að stjórnin væri fylgjandi aðild að NATO að óbreyttum kringumstæðum, en um afstöðu einstakra stjórnarflokka vissu menn mætavel. Sagði hann síðan, að menn skyldu kynna sér málefnasamning stjórnarflokkanna, lesa hann kvölds og morgna og læra í samhengi, þá kæmi skilningurinn með tímanum. Auk fyrrgreindra tóku til máls Bjarni Guðnason, Halldór Blöndal og Eyjólfur K. Jónsson“.

Eins og hv. alþm. hafa nú heyrt, er hér mikill munur á frétt hljóðvarps og sjónvarps. Í fréttum hljóðvarpsins mun skýrt með hlutlausum og réttum hætti frá því, hverjir tóku til máls, um hvað spurt var, um hvað umr. snerust, hverju var svarað og hverju var ekki svarað. Í fréttum sjónvarpsins er hins vegar getið fyrirspyrjandans, Gylfa Þ. Gíslasonar og hans fsp., svara forsrh., síðan fsp. Guðlaugs Gíslasonar og svara forsrh. til hans. Fsp. Halldórs Blöndal og Eyjólfs K. Jónssonar og ræðu Bjarna Guðnasonar er ekki getið og ekki heldur þess, að ráðh. svöruðu ekki þeim spurningum. Af fréttum sjónvarpsins verður ekki annað ráðið en að fréttamanni þessum þyki það ekki fréttnæmt, að hvorki forsrh. né heldur aðrir viðstaddir ráðh. treysta sér til þess að skýra þingheimi frá og svara þeirri fsp., sem til þeirra er beint af alþm., sem tók þátt í umr., hvor ráðherrann, utanrrh. eða sjútvrh., túlkaði rétt stjórnarsáttmálann varðandi öryggis- og varnarmálastefnu stjórnarinnar, en eins og kunnugt er, hafa þessir tveir ráðherrar túlkað stefnu ríkisstj. hvor á sinn veg og með þeim hætti, að ekki verður annað skilið en að þeir séu um þessi mál algjörlega ósammála. Aftur á móti þykja fréttamanni hljóðvarpsins þessar staðreyndir svo athyglisverðar og fréttnæmar, að hann skýrir hlustendum frá þeim. Hverjar eru svo niðurstöður þessa máls? Í fréttum kl. 19 er skýrt frá umræddum þingfundi, umræðum og ræðumönnum, eins og það fór fram. Í fréttum sjónvarpsins kl. 20, einni klukkustund síðar, er ekki sagt frá nema hluta þess, sem gerðist á umræddum fundi. Þar er ekki skýrt frá fsp. Eyjólfs K. Jónssonar né Halldórs Blöndal. né heldur því, að ráðherrar treystu sér ekki til þess að svara. Hvað hér hefur gerzt, veit ég ekki. Hvort fréttamenn þessara tveggja fjölmiðla hafa svo misjafnar skoðanir á því, hvað fréttnæmt er, eða mismunandi starfsreglur eftir að fara, eða hvort á þessari klukkustund, sem leið frá því fréttir hljóðvarps voru lesnar þar til fréttir sjónvarps voru lesnar, hafi einhverjir svokallaðir yfirnáttúrlegir hlutir gerzt og þess vegna hafi fréttin verið lesin í sjónvarpinu eins og hún var lesin.

Það hefur verið deilt á Ríkisútvarpið af fulltrúum beggja núv. stjórnarflokka, Framsfl. og Alþb., þegar þeir voru í stjórnarandstöðu. Beindust ádeilur þeirra sérstaklega að sjónvarpinu, og hélt hæstv. forsrh. því fram þá, sem formaður flokks síns í stjórnarandstöðu, að fulltrúar stjórnarandstöðunnar hefðu ekki tækifæri á móti fulltrúum þáv. stjórnarflokka til þess að koma fram í sjónvarpinu, ef hlutleysis ætti þar að gæta. Ég skal ekki gerast dómari þar um, en ég vil vekja athygli hæstv. forsrh. á því, að það er skoðun fjölmargra nú, að einstakir ráðherrar í hans ráðuneyti hafi misnotað aðstöðu sína í sjónvarpinu síðan þeir settust í valdastólana s. l. sumar. Hittir þá fyrri gagnrýni forsrh. hann sjálfan. Vonandi hefur hæstv. forsrh. veitt þessu athygli og sér svo um, að skoðanir hans á þessum málum verði a. m. k. í heiðri hafðar, á meðan hann fer með embætti forsrh.

Um fréttaflutning og fréttir héðan af Alþ. hefur minna verið deilt. Hefur fréttaflutningurinn almennt verið talinn hlutlaus. Þó kom það fyrir, að þm. kommúnista, síðar Sameiningarflokks alþýðu – Sósíalistaflokksins og nú Alþb. — sumir þm. náðu því að gegna þingmennsku eftir báðar þessar breytingar — gerðu tilraunir til þess að gagnrýna fréttaflutninginn hér á Alþ., en sú gagnrýni var aldrei á rökum reist, enda gátu þeir aldrei gert grein fyrir einstökum dæmum máli sínu til stuðnings. Það brá hins vegar svo við í sumar, eftir að núv. ríkisstj. var setzt að völdum, að menn gátu greint það í Ríkisútvarpinu, að fréttir voru sagðar með öðrum hætti undir vissum kringumstæðum en verið hafði. Vil ég þar sérstaklega nefna fréttir frá Genfarráðstefnunni, og því hefur verið haldið fram, að þar hafi fréttamenn sjónvarpsins legið undir þungri pressu, að sagt yrði með mismunandi hætti frá, hvort fréttin kæmi sér vel fyrir núv. ríkisstj. eða ekki. Á þetta var bent á opinberum vettvangi, og mun að sjálfsögðu fylgzt með því framvegis. Hvort sá fréttaflutningur, sem ég hef nú gert hér að umtalsefni, er áhrif frá núv. valdhöfum, skal ósagt látið. Færi betur, að svo reyndist ekki, heldur væri hér um að ræða ónákvæmni, sem þá væri hægt að lagfæra. Það er hins vegar ljóst, að alþm. geta ekki sætt sig við neina mismunun eða neina ónákvæmni í fréttaflutningi héðan frá Alþ. Eigi þeir að gegna störfum á löggjafarsamkomu frjálsrar þjóðar, þar sem frjáls skoðanamyndun er, verður Ríkisútvarpið að gæta fyllsta hlutleysis, eins og það hefur gert.

Ég hef kvatt mér hljóðs, ekki til að varpa fram fsp. til neinna ráðherra, heldur til þess að vekja athygli á þessu máli. Ég hef kvatt mér hljóðs til að vekja athygli þingheims á þessum hlutum, og ég vil að lokum skora á forseta Alþ., að þeir gæti þess, að alþm. verði ekki mismunað í fréttaflutningi héðan frá Alþ.