13.12.1971
Sameinað þing: 23. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2424 í B-deild Alþingistíðinda. (2589)

Herstöðva- og varnarmál

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Í sambandi við það mál sem hv. 1. þm. Reykn. gerði að umtalsefni, vil ég aðeins segja örfá orð. Ég vil fyrst skýra frá því, að sjónvarpsdeild Ríkisútvarpsins er enn þá ákaflega fáliðuð og þá alveg sérstaklega fréttastofa hennar. Sjónvarpsdeildin hefur til þessa ekki getað haft fréttaritara, sem situr á Alþ. og fylgist með öllum fundum til þess að segja héðan fréttir. Hins vegar hefur fréttastofa hljóðvarpsins hér mann, sem skrifar þær frásagnir, sem fluttar eru í hljóðvarpsfréttum. Ég hygg, að óhætt sé að segja, að hann hefur unnið þetta verk af hinni mestu samvizkusemi og tekizt furðanlega vel, miðað við það, hvert verkefni hans er.

Mér virðist, að það sé mjög algengt, að sjónvarpsdeildin fái handrit af fréttum hljóðvarpsfréttamannsins og vinni úr þeim. Þegar sjónvarpsdeild veit af stórviðburðum hér, umræðum, sem ákveðnar eru fyrir fram, og öðru slíku, þá sendir hún þó oft sína eigin menn og myndatökumenn hingað.

Mér virðist frásögn hljóðvarpsins af því, sem gerðist í þessum sal á laugardaginn, hafa verið mjög ítarleg. Ég bið menn að athuga, að fréttir í hljóðvarpi og sjónvarpi eru ákaflega stuttar. 20 mínútna fréttalestur er ekki nema 8–9 vélritaðar síður. Þegar á að segja allar fréttir dagsins, er það býsna stór sneið af fréttunum, sem þarna var varið til að segja frá þessum umr.

Fréttir sjónvarpsins eru að jafnaði styttri, það er töluvert minna lesmál í þeim. Í raun og veru geta sjónvarpsfréttir sjaldan verið mikið meira en fyrirsagnir, ef taka má samanburð úr blöðum, að því undanskildu, að stundum er hægt að skjóta inn viðtölum við menn, þar sem töluvert meira efni kemst að.

Ég hef enga vitneskju um, hvernig umrædd sjónvarpsfrétt var unnin á laugardaginn. Útvarpsráðsmenn fylgjast að sjálfsögðu ekki með því daglega. En mér virðist, að sjónvarpið hafi haft styttri tíma til ráðstöfunar og hafi talið sig neytt til þess að gera útdrátt úr því efni, sem þeir höfðu fengið. Þá er spurningin, hvort þessi útdráttur, þessi styttri útgáfa sjónvarpsins, er eðlilega unnin eða ekki.

Ég mundi sem blaðamaður segja, að frásögn sjónvarpsins hafi verið eðlileg. Það, sem gerðist, var að hér var vakið máls á utanríkismálum í tilefni af ræðu, sem utanrrh. hafði flutt. Þessi ræða var ný, þar voru ný atriði, sem spurt var um, og þeim var svarað. Þetta var að sjálfsögðu það fréttnæmasta, sem fram kom. Þess ber að geta, að þær spurningar, sem tveir þm. Sjálfstfl. vörpuðu fram og engin svör fengust við, hafa komið fram á Alþ. áður, ekki aðeins einu sinni, heldur oft undanfarnar vikur. Frá sjónarmiði fréttamannsins er endurtekinn viðburður, jafnvel veigamikil spurning, minni frétt en nýtt atriði í málinu.

Ég vona, að menn skilji, að ég hef sem útvarpsráðsmaður á síðustu dögunum í því embætti tilhneigingu til að reyna að skýra þetta á bezta veg, því ég er af nánum kynnum við starfsfólk sannfærður um, að það vinnur af samvizkusemi og eins vel og það getur. En aðstaða þess er oft erfið. Tíminn er oft stuttur. Ef sjónvarpið á að taka myndir hér í þingsölum, getur það ekki gerzt mikið eftir kl. 4 á daginn. Það, hvort ræðumaður fær að tala fyrir kl. 4 eða ekki fyrr en milli 5 og 6, getur ráðið því, hvort nokkur tæknilegur möguleiki er á, að þessi maður fái mál sitt flutt í sjónvarpi eða ekki. Þetta hefur þegar komið fyrir, svo það eru margar aðstæður, sem gæta verður að.

Um starfsemi útvarpsins almennt hvað snertir fréttir af stjórnmálum og ríkisstj., vil ég aðeins benda á það, sem raunar kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni, að stjórnarandstæðingar kvörtuðu í tíð fyrrv. ríkisstj., og enn kvarta stjórnarandstæðingar eftir að skipt hefur verið um stóla. Þegar báðir aðilar kvarta nokkurn veginn um það sama, eftir því úr hvaða stólum þeir tala, finnst mér það í sjálfu sér vera bærilegur vitnisburður um, að sennilega vinni útvarpið þetta mál eins vel og það getur. Í umr. um þessi mál hef ég sagt áður, að ég telji óhjákvæmilegt, að það sé meira sagt í fréttum frá því, sem ráðherrar þjóðarinnar segja og gera, af því að það, sem ráðherrar gera, verður að veruleika og er því í eðli sínu oftast nær fréttnæmt. Þetta er óhjákvæmilegt. Ég taldi í tíð fyrrv. ríkisstj. og ég tel það enn þá, að þessir fjölmiðlar hafi ekki fundið fullnægjandi leið til þess að koma á framfæri þeim boðskap, sem stjórnarandstaðan hefur. Fréttamennirnir kvarta undan því, að leiðtogar stjórnarandstöðunnar tali yfirleitt, þegar Alþ. er undanskilið, á flokksfundum. Flokksfundir eru oftast nær lokaðir og fréttamenn fjölmiðla fara ekki þar inn. Þetta er mál sem þarf að athuga. Ég tel, að það sé ekki hægt að komast hjá eðlilegum og ítarlegum fréttaflutningi af stjórnarstörfum, hvaða flokkar og hvaða menn sem í stjórn sitja, en það sé enn óleyst verkefni, hvernig hægt er að koma þeim málum fyrir, t. d. eins og er í Bretlandi, þar sem ráðherrar og leiðtogar andstöðunnar tala svo að segja um hverja helgi einhvers staðar, á einhverjum vettvangi og það má heyra í brezku útvarpi og sjá í sjónvarpi og lesa í blöðum frásagnir af ræðum beggja. Hér er þetta enn þá of einhliða, en vandinn er að finna eðlilegan vettvang, þar sem stjórnarandstöðuflokkar geta komið skoðunum sínum á stórmálum tiltölulega fljótt til skila, þegar þing situr ekki.