13.12.1971
Sameinað þing: 23. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2426 í B-deild Alþingistíðinda. (2590)

Herstöðva- og varnarmál

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Fréttaflutningur í hljóðvarpi og sjónvarpi af stjórnmálaumræðum og atburðum er viðkvæmt mál. Ég vil segja það, að ég er alveg sömu skoðunar í þessu efni og ég hef verið áður, að ég álít, að það eigi að ríkja fullt jafnræði á milli stjórnar og stjórnarandstöðu að þessu leyti til. En af því að það var verið að skora hér á forseta áðan, þá ætla ég líka að leyfa mér að koma á framfæri till. til hæstv. forseta. Það er svo, að það er mjög vandmeðfarið að segja frá því, sem gerist á fundum, eins og t. d. þeim, sem hér átti sér stað s. l. laugardag, þannig að blærinn komi rétt fram. Ég gæti t. d. kvartað yfir því, að það hefur ekki alveg komið fullkomlega blærinn á minni ræðu. Ég efast samt ekki um það, að fréttamaðurinn hefur gert það eftir beztu samvizku, en hann sagði t. d. aðeins, að ég hefði sagt, að ræða utanrrh. hefði túlkað fullkomlega stefnu stjórnarinnar, en það, sem ég sagði, var það, að ræða utanrrh. hefði túlkað nákvæmlega margyfirlýsta stefnu stjórnarinnar. Það er munur á þessu og þar með taldi ég raunar, að ég hefði nú svarað þessum innskotum, sem komu síðar í þessar umr. En það sem mest um vert er, er að hið rétta komi í ljós. Þess vegna vil ég beina þeirri áskorun til hæstv. forseta, úr því að farið var að beina áskorunum til hans á annað borð, að hann hlutist til um það við útvarp og sjónvarp, að það verði flutt alveg nákvæmlega orðrétt allt, sem sagt var hér á þessum fundi s. l. laugardag um þetta efni. Þá þarf enginn að kvarta.