13.12.1971
Sameinað þing: 23. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2432 í B-deild Alþingistíðinda. (2596)

Herstöðva- og varnarmál

Eysteinn Jónsson:

Ég vil aðeins í sambandi við það, sem beint hefur verið til forseta í þessum umr., taka fram eftirfarandi:

Fréttir frá Alþ. í Ríkisútvarpinu, bæði hljóðvarpi og sjónvarpi, eru algjörlega á ábyrgð Ríkisútvarpsins og að engu leyti á ábyrgð Alþ. Ekki forseta þess né neinna annarra í þessari stofnun, og hefur svo verið frá fyrstu tíð, ef ég man rétt.

Þannig mun það og verða, þangað til ákvarðanir yrðu teknar á þinglegan hátt um annað. Ég mun hins vegar beita mér fyrir því, að hingað í stofnunina komi daglega afrit af þeim fréttum, sem fluttar eru í Ríkisútvarpinu, bæði í hljóðvarpi og sjónvarpi, til þess að þm. geti haft aðgang að þeim á heppilegum stað og skoðað, hvernig þeim líkar fréttaflutningurinn. Að sjálfsögðu verður svo Ríkisútvarpið að vera reiðubúið, þar sem það ber þessa ábyrgð, að taka alla þá gagnrýni, sem fram kann að koma, til íhugunar og draga sínar ályktanir af henni. Það er þeirra skylda, en hefur ekki verið fram að þessu í verkahring forseta Alþ. og verður ekki, nema hv. Alþ. taki þá sjálft ákvarðanir um að taka að sér fréttaflutninginn, sem auðvitað er þá stórt skref. Ég mun sem sagt beita mér fyrir þessari endurbót, að menn geti átt hér aðgang að fréttunum, eins og þær voru fluttar og að slíkar skýrslur komi daglega frá hljóðvarpi og sjónvarpi. Að öðru leyti mun ég ræða á forsetafundi, þar sem varaforsetar verða þá einnig, um þessi mál, samband hljóðvarps og sjónvarps við Alþ. yfir höfuð. Það hafa forsetar þegar gert og við munum halda áfram að gera það, en eins og nú standa sakir, er málum fyrir komið eins og ég hef nú greint. Það er auðvitað síður en svo nokkuð við það að athuga, að menn ræði fram og aftur hér á Alþingi, hvernig til tekst um fréttaflutning Ríkisútvarpsins. Ég geri ráð fyrir því, að forráðamenn Ríkisútvarpsins og þeir, sem hér eiga hlut að máli, kynni sér nákvæmlega, hvað hv. þm. hafa um þetta að segja. En til að gefa hv. þm. betur kost á því en áður að fylgjast vel með mun ég beita mér fyrir því, að hingað komi daglega skýrslur um þessi efni handa þeim að skoða.