28.02.1972
Sameinað þing: 42. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2436 í B-deild Alþingistíðinda. (2603)

Fiskveiðilandhelgismál

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Ja, það komst upp um strákinn Tuma. En út af því, sem hæstv. sjútvrh. sagði, þá vil ég algerlega mótmæla því, að í mínum orðum hafi falizt nokkrar aðdróttanir í garð Jónasar Árnasonar. Ég spurðist fyrir um það, hvort það væri búið að taka upp nýjar vinnuaðferðir á vegum utanrrn. og utanríkisþjónustunnar og óskaði svars við því, en lét hitt liggja á milli hluta, hvort Jónas Árnason væri hæfur eða ekki hæfur til þeirra ferða, og ég kvartaði undan því í öðru lagi, að það væri gengið fram hjá því að hafa samráð við stjórnarandstöðuna, eins og mælt er fyrir í stjórnarsamningnum og nefnd var sett á laggirnar til þess að vinna að, þegar um er að ræða kynningu landhelgismálsins.