09.05.1972
Sameinað þing: 65. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2439 í B-deild Alþingistíðinda. (2609)

Fiskveiðilandhelgismál

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð. Í þeim orðum hv. 4. þm. Norðurl. v., sem þm. heyrðu hér áðan, gekk hann algerlega fram hjá því, að búið var að leiðrétta ummæli hins brezka blaðs, þegar blað hans, þessa hv. þm., telur ástæðu til þess að byggja árás og ásökun svo alvarlega sem raun ber vitni á þeim leiðréttu ummælum. Það er fyrst og fremst þetta, sem ég er að finna að. Þeir þm., sem ekki hafa séð ástæðu til þess að leiðrétta missagnir sem slíkar, verða auðvitað að hlíta því, að á erlendum blaðafregnum sé byggt, sem óleiðréttar eru, en ég geri þá kröfu til íslenzkra blaða, að þau taki mark á því, þegar leiðrétting hefur birzt og hið sanna er komið fram í málinu, en láti ekki eins og engin leiðrétting sé komin fram.