28.10.1971
Neðri deild: 7. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2440 í B-deild Alþingistíðinda. (2614)

Ástandið í Bangla Desh

Sigurður E. Guðmundsson:

Herra forseti. Tilefni þess, að ég kveð mér hljóðs utan dagskrár, er hið mikla hörmungarástand, er nú ríkir í málum Austur-Pakistana, jafnt þeirra, er flúið hafa landið til Indlands, sem hinna, er heima sitja og búa þar við hinar mestu hörmungar. Ég leyfi mér að óska eftir því, að hæstv. utanrrh., sem nú gegnir einnig embætti forsrh., greini Alþ. frá því, hvort ríkisstj. hafi rætt þetta alvörumál á fundum sínum og til hverra ráðstafana hún hyggst grípa af Íslands hálfu.

Ég geri ráð fyrir því, að það þyki nokkur nýlunda hér á hv. Alþ., að beðið sé um orðið utan dagskrár til að fjalla um neyðarástand milljóna manna í öðrum löndum, og það m. a. s. svo fjarri sem Indland er. Skýring þessa er sú, að hér er um að ræða svo mikla neyð svo mikils fjölda manna, að í manna minnum er vart önnur meiri. Opinberar tölur indverskra stjórnvalda herma, að austur-pakistanskir flóttamenn í Indlandi séu nú orðnir rúmlega 9 millj. talsins. í þeim hópi eru u. þ. b. 2 milljónir barna og verðandi mæðra. Eru þar af um 600 þús. börn 5 ára og yngri, en börn á aldrinum 5–8 ára gömul eru u. þ. b. 1200 þús. talsins. Um miðjan septembermánuð s. l. var fyrirsjáanlegt, að þessi börn mundi m. a. skorta um 4000 tonn af mjólkurdufti og 16000 tonn af sykri til að komast af á næstu 6 mánuðum. Þá var aðeins vitað um 1550 tonn af þessum fæðutegundum, sem gefin höfðu verið. Er því ljóst, að hér biður mikið óleyst vandamál þeirra, er vel vilja.

Ég hef aðeins rætt hér um austur-pakistönsku flóttamennina, er dvelja í Indlandi. Vandi þeirra er mikill, eins og ég hef nú lýst, en raunar er hann ekki aðeins þeirra, heldur er sýnilegt, að Indlandsstjórn telur, að mikinn vanda hafi einnig henni borið að höndum. Til þess benda ferðir þær, er utanríkisráðherra landsins tókst á hendur fyrr á þessu ári um Evrópulönd, og forsrh., frú Indira Gandhi, er nú á meðal hinna efnuðu þjóða í Vestur-Evrópu. Erindi beggja þessara ráðherra hefur verið að leita liðsinnis Vestur-Evrópuþjóðanna í þessu mikla vandamáli. En þetta er ekki aðeins vandi þessara tveggja þjóða, sem hann kemur þyngst og harðast niður á, heldur allra þeirra, sem sjá og skilja, að hann getur stofnað friðnum á þessu heimssvæði í hættu, auk þess sem þeim ber að sjálfsögðu siðferðileg skylda til þess að líkna í nauð. En þótt ástandið meðal austur-pakistönsku flóttamannanna í Indlandi sé ólýsanlega slæmt, er það vafalaust einnig afleitt meðal mikils fjölda manna í Austur-Pakistan. Um það vita menn þó miklu minna, því að landið hefur verið lokað af styrjaldarástæðum, og það var ekki fyrr en rétt nýlega, sem Alþjóða Rauða krossinum var leyft að hefja þar líknarstarf. Þó er ljóst, að ástandið þar er hörmulegt. Svíinn Henrik Beer, framkvæmdastjóri Alþjóða Rauða krossins, sagði eftirfarandi um það í viðtali við íslenzkt dagblað hinn 14. sept. s. l., með leyfi forseta:

„Um þörfina vitum við lítið. Þó er ljóst, að þarna eru viss verkefni, sem þarf að byrja á, eins og t. d. að ná til gamalmenna, ekkna með börn og þess háttar hópa, sem eru varnarlausastir. Þarna getur orðið geysileg hungursneyð innan fárra mánaða. Uppskeran verður líklega engin. Nú er lifað á fæðu, sem búið var að sá til, áður en ósköpin dundu yfir. En ekki hefur verið sáð að nýju. Haustið er líka hvirfilvindatíminn og þá koma flóðin.“

Herra forseti. Með vísan til þess, sem hér hefur komið fram, vænti ég þess, að menn verði mér sammála um það, að hér sé um að ræða mikla neyð, er nái til fleiri manna en nokkru sinni fyrr — nema á styrjaldartímum. En það er ekki aðeins, að neyðin sem slík sé mikil, heldur er einnig sýnilegt, að friðurinn á þessu svæði er í mikilli hættu. Stjórnendur Indlands og Pakistans hafa haft uppi stór orð hver í annars garð, og fyrir skömmu var birt tilkynning Indlandsstjórnar um að varalið hersins skyldi við öllu búið. Í hönd fer nú erfiður árstími fyrir íbúa þeirra landssvæða, er her eiga hlut að máli. Henrik Ber, framkvæmdastjóri Rauða krossins, segir, að innan fárra mánaða geti komið til geysilegrar hungursneyðar á þessu svæði. Þetta er Íslendingum ljóst. Án skipulegra aðgerða hafa sjálfkrafa safnazt um 6 millj. kr. í landinu undanfarna mánuði. Þar af hefur Rauði krossinn safnað um 4.5 millj. kr., en Þjóðkirkjan hefur safnað 2–2.5 millj. kr. Framlögin hafa verið bæði stór og smá. Einstæð móðir gaf 20 þús. kr., verkamaður gaf 100 þús. kr., stórkaupmaður 250 þús., aldraður verkamaður 150 þús. kr., starfsfólk á vinnustöðum hefur skotið saman álitlegum fjárhæðum, menn hafa sleppt sunnudagsmáltíðum, þannig mætti lengi telja. Ótrúlegur fjöldi hefur lagt fram fé, hver og einn eftir getu sinni og sumir þó meira en getan hefur leyft, eins og dæmin sanna. Mér hefur verið tjáð, að fyrrv. ríkisstj. hafi lagt úr ríkissjóði 500 þús. kr. fyrr á þessu átt vegna þessa máls. Stuðningur við hinn mikla mannfjölda í neyð austur þar á sér sýnilega djúpan og mikinn hljómgrunn meðal hinnar íslenzku þjóðar, sem býr nú almennt við betri kjör en nokkru sinni fyrr í sögu hennar. Því mundi ríkulegur Stuðningur úr ríkissjóði áreiðanlega verða vel séður hér á landi. Ég tel víst, að hæstv. ríkisstj. hafi rætt þetta mál á fundum sínum og hafi e. t. v. þegar tekið ákvörðun um stórmannlegan stuðning af okkar hálfu. Ég vænti þess, að hæstv. utanrrh. sjái sér fært að gefa Alþ. upplýsingar um það mál.