19.10.1971
Sameinað þing: 4. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2446 í B-deild Alþingistíðinda. (2625)

Aðild Kína að Sameinuðu þjóðunum

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Í tilefni af því, að í þessari viku er tekin til umr. og afgreiðslu á vettvangi Sameinuðu þjóðanna till. varðandi aðild Kína að Sameinuðu þjóðunum, þá hef ég kvatt mér hljóðs hér utan dagskrár og óskað eftir því að fá að bera fram eftirfarandi fsp. til utanrrh.

Samkv. fréttatilkynningu ríkisstj. frá 14. sept. s. l. og með vísan til stefnuyfirlýsingar hennar frá 14. júlí s. l. mun íslenzka ríkisstj. hafa sett sér það markmið varðandi aðild Kína að Sameinuðu þjóðunum, að Kínverska alþýðulýðveldið taki sæti Kína hjá samtökunum með öllum réttindum og skyldum. Í nefndri fréttatilkynningu segir jafnframt, að íslenzka sendinefndin hjá Sameinuðu þjóðunum muni styðja hverja þá till., sem að þessu takmarki stuðlar, en, eins og segir orðrétt í yfirlýsingunni, meta stöðuna í ljósi staðreynda eins og þær verða, þegar til atkvgr. kemur með framangreint markmið að leiðarljósi. Í þessari viku mun tekin til afgreiðslu, eins og fyrr er sagt, till. Albaníu og reyndar Bandaríkjamanna líka um aðild Kínverska alþýðulýðveldisins að Sameinuðu þjóðunum, en till. Albaníu gerir jafnframt ráð fyrir brottrekstri Formósu úr samtökunum. Hefur verið skýrt svo frá, að íslenzka sendinefndin hjá Sameinuðu þjóðunum muni greiða till. þessari atkv.

Nú er óskað upplýsinga um afstöðu íslenzku ríkisstj. til þessa máls og óskað skýrslu utanrrh., hvort og þá hvernig staðan hafi verið metin og í ljósi hvaða staðreynda.

Af tilefni þessarar fsp., sem ég hef nú lýst, vildi ég leyfa mér að fara nokkrum orðum um þær ástæður, sem að baki hennar liggja. Ég vil í upphafi til að forðast allan misskilning taka skýrt fram, að með þessari fsp. er ekki verið að lýsa andúð á aðild Peking-stjórnarinnar. Þvert á móti verður að telja, að aðild Alþýðulýðveldisins, ef hana ber að með eðlilegum hætti, eigi að geta stuðlað að bættri sambúð þjóða á milli og aukið áhrif og möguleika Sameinuðu þjóðanna til að gegna hlutverki sínu í þágu friðar og sátta þjóða á milli. Menn hafa lengi verið þeirrar skoðunar, að finna þyrfti lausn á því óeðlilega ástandi, að fulltrúar fjölmennustu þjóðar heims stæðu utan við þau samtök, sem allar friðelskandi þjóðir og ekki sízt smáþjóðir binda mestar vonir sínar við. Það hefur margoft verið áréttað af íslenzkum stjórnvöldum og af fulltrúum íslenzkra stjórnmálaflokka og þarf ekki ítrekunar við, að smáþjóðir á borð við Ísland telja alþjóðasamtök og alþjóðasamvinnu helztu stoð og tryggingu sína í þá átt, að tillit sé tekið til réttar og tilveru þeirra. Á vettvangi Sameinuðu þjóðanna sitja við sama borð og með allan rétt fulltrúar allra aðildarþjóða, skiptast á skoðunum, leysa ágreining og taka ákvarðanir með einföldum atkvgr. Viðleitni til slíkra lýðræðislegra vinnubragða ber ekki tilætlaðan árangur, ef þjóðum voldugum og hervæddum á borð við Kínverja er haldið utan þessara sömu samtaka, ef slík ríki einangrast í heift og hatri gegn ímynduðum óvinum. Aðild Peking-stjórnarinnar er æskileg, þó að ekki væri nema af þessari ástæðu einni. Stefna núv. ríkisstj. er ekki ný að þessu leyti. Íslenzk stjórnvöld hafa haft þessa skoðun um alllangan tíma og þeirri afstöðu sinni lýsti fráfarandi ríkisstj. og fyrrv. utanrrh. margoft, m. a. í ræðu við almennar umr. á þingum Sameinuðu þjóðanna, svo og hér á Alþ. Af sömu ástæðu fylgdi Ísland till. Ítala frá árinu 1966, sem borin var fram tvö næstu árin þar á eftir einnig, þess efnis, að finna þyrfti viðunandi lausn á Kínamálinu með það fyrir augum, að Peking-stjórnin og Formósu-stjórnin ættu háðar aðild að Sameinuðu þjóðunum.

Vandi þessa máls er hins vegar sá, að á því eru fleiri hliðar, sem taka þarf ákvörðun um. Erfiðasta og viðkvæmasta vandamálið er tilvist Formósu-stjórnar hjá eða í Sameinuðu þjóðunum og sú stefna Pekingstjórnar og stuðningsríkja hennar, að aðild Alþýðulýðveldisins, þ. e. Peking-stjórnarinnar, sé háð brottrekstri Formósu-stjórnar úr samtökunum. Í till. þeirri, sem vísað er til í fsp. minni, sem Albanir hafa lagt fram undanfarin ár og nú mun verða gengið til atkv. um, er gert ráð fyrir brottrekstri Formósu-stjórnar, sem er viðurkennd stjórn a. m. k. 15 millj. manna, sem á Formósu búa.

Ísland hefur fylgt þeirri stefnu á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, sem nefnd er Universality-regla og felur í sér, að öllum viðurkenndum ríkjum ber að eiga fulltrúa í alþjóðasamtökum þá og þegar þess er óskað og skuldbindingu viðkomandi samtaka er fullnægt. Aðild eins ríkis eða fulltrúa ákveðinna þjóðstjórna má hins vegar ekki vera á kostnað annarra ríkja eða þjóða. Ísland hefur fylgt og á að fylgja í framtíðinni þeirri stefnu, sem stuðlar að því, að allar þjóðir geti átt fulltrúa hjá Sameinuðu þjóðunum án tillits til stjórnmálaskoðana, kynþátta eða mannfjölda. En Ísland hefur ekki og á ekki undir neinum kringumstæðum að styðja till., sem fela í sér brottrekstur ríkja úr Sameinuðu þjóðunum. Í samræmi við þessa grundvallarstefnu hefur afstaða Íslands til Kína-málsins mótazt og af þeim sökum hefur Ísland ekki treyst sér til að greiða till. Albaníu atkv., því að í henni er beinlínis gert ráð fyrir, að Formósa verði rekin úr samtökunum og öllum stofnunum þeirra. Ef Albaníu-tillagan verður samþ., mun Peking-stjórnin sjálfkrafa taka sæti í Öryggisráðinu og hindra þar með neitunarvaldi aðild Taívan að Sameinuðu þjóðunum. Margvísleg fleiri stjórnmálaleg vandkvæði mundu fylgja í kjölfarið.

Herra forseti. Hér er ég kominn að kjarna málsins og ástæðunni fyrir því, að ég ber fram fsp. þessa. Ef Ísland nú greiðir till. Albaníu atkv., er ekki eingöngu tekin afstaða til aðildar Peking-stjórnarinnar. Þá er sömuleiðis tekin upp ný afstaða, mótuð ný stefna, sem hafnar Universal-reglunni. Þá er afleiðingin sú, að stjórn smárrar þjóðar er vísað úr samtökunum og aðild þess hindruð um ófyrirsjáanlega framtíð. Það verður að teljast eðlilegt og raunar skylt, að þessi örlagaríka ákvörðun sé tekin til umr. hér á hinu háa Alþingi og þjóðinni og kjósendum sé gert fullkomlega ljóst, hvers eðlis mál þetta er. Við Íslendingar höfum mjög haldið á lofti rétti smáþjóða og þeir stjórnmálaflokkar, sem nú standa að ríkisstj., hafa boðað þá kenningu, að Íslendingar þyrftu að reka sjálfstæða utanríkismálastefnu. Ég vísa reyndar á bug þeim áróðri, að fyrrv. ríkisstj. hafi ekki verið sjálfstæð í sinni utanríkisstefnu, og afstaða Íslands varðandi aðild Kína að Sameinuðu þjóðunum ber þess raunar órækan vott. Í því máli hefur Ísland farið eigin leiðir og sú afstaða hefur verið andstæð stefnu m. a. Norðurlandaþjóðanna og ekki síður stefnu Bandaríkjanna. Í því felst að vísu enginn dómur á sjálfstætt mat okkar, hvort aðrar þjóðir eru sama sinnis eða ekki. En ég tek þetta fram vegna margendurtekinna staðhæfinga um, að Ísland hafi verið taglhnýtingur Bandaríkjamanna í þessu máli. Mun sú rökleysa ekki rædd frekar hér af mér, nema ástæða gefist til. En því minnist ég á sjálfstæða utanríkismálapólitík, að því verður ekki trúað að óreyndu, að yfirlýsingar ríkisstj. hafi verið hræsnin ein. Ég vil ekki efast um það fyrir fram, að ríkisstjórnarflokkarnir hafi meint það í raun og veru, að sjálfstæðispólitík þeirra í utanríkismálum hefði það að leiðarljósi að standa vörð um rétt smáríkja og berjast gegn þeirri ofríkistilhneigingu, sem kemur fram í því að reka heilar þjóðir úr alþjóðasamtökum af tillitssemi við aðrar stærri og voldugri þjóðir. Það er ekki stórmannlegt, hvað þá heldur skynsamlegt af okkur Íslendingum, sem nú berjumst fyrir skilningi þjóða heims í mikilvægasta sjálfstæðismáli okkar og höfðum í því sambandi til alþjóðasamvinnu og gagnkvæms skilnings, — það er ekki stórmannlegt né heldur skynsamlegt að styðja till., sem byggjast á óbilgirni og lítilsvirðingu á rétti lítilla ríkja. Eða hvar er þá stolt okkar og sjálfstæði og hvar er nú umhyggja okkar fyrir rétti hins smáa?

Ég mun ekki rifja upp röksemdir kalda stríðsins né heldur draga inn í þessar umr., hvernig til er orðin sú staða, sem veldur því, að tvær stjórnir gera tilkall til löglegra yfirráða Kínaveldis. Það þykir ekki tiltakanlega viðeigandi á Íslandi lengur að minnast á boðskap kommúnismans og sennilega öðlast ég fordæmingu endurhæfingarmanna, ef ég held því fram, að sú stefna vinni markvisst að heimsyfirráðum, sem aldeilis er þó ekki í anda sáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Það þykir e. t. v. óviðeigandi sömuleiðis, ef minnt er á, að Peking-stjórnin hefur stöðugt lýst því yfir, að hún geti ekki undirritað sáttmála Sameinuðu þjóðanna, vegna þess að hann sé í andstöðu við stefnu kommúnismans. Ég tel ómaksins vert, að þetta komi fram, ekki sízt þar sem við búum við það nýstárlega ástand, að allir þeir stjórnmálaflokkar, sem nú eiga sæti hér á Alþ., hafa fordæmt framkvæmd byltingar- og einræðisstefnu kommúnismans og sú fordæming hefur verið háværust frá þeim flokkum, sem þó standa næst þessari hugmyndafræði.

Herra forseti. Ég vil spyrja að lokum: Stendur það næst svo lýðræðissinnuðum og friðelskandi þjóðum og friðelskandi mönnum um leið að styðja svo ákveðið aukin ítök einræðisstjórnar, að til þess sé fórnandi rétti og áhrifum ríkja, sem minna mega sín? Er það í samræmi við sjálfstæða utanríkisstefnu ríkisstj. að gerast nú taglhnýtingur einræðisríkja, apa upp óbilgjarna stefnu annarra þjóða? Eða felst skilgreiningin á sjálfstæðri utanríkispólitík í því að vera á móti öllu því, sem að einhverju leyti er í samræmi við skoðanir Bandaríkjanna? Er það raunverulega mat íslenzku ríkisstj., að vandamál Kínaaðildarinnar leysist með þeim hætti að fylgja till. Albaníu á þingi Sameinuðu þjóðanna?

Ef utanrrh. getur svarað þessum spurningum og upplýst hv. Alþ. og þjóðina alla um skoðanir ríkisstj. í þessum grundvallaratriðum, þá verður betur unnt að átta sig á, í ljósi hvaða staðreynda sé tekin sú ákvörðun að styðja nú till. Albaníu, og þær afleiðingar, sem hún hefur í för með sér.