19.10.1971
Sameinað þing: 4. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2452 í B-deild Alþingistíðinda. (2627)

Aðild Kína að Sameinuðu þjóðunum

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. svar hans við fsp. minni, en eins og mjög ljóslega kom fram í svari hans, þá hefur íslenzka ríkisstj. nú gefið íslenzku sendinefndinni hjá Sameinuðu þjóðunum fyrirmæli um að greiða till. Albaníu atkv., en leggjast gegn öðrum till., sem fram koma um þetta mál hjá Sameinuðu þjóðunum. Till. Albaníu er mjög ótvíræð. Hún felur í sér, að samþykkt sé, að Peking-stjórnin taki sæti Kína hjá Sameinuðu þjóðunum og hún felur jafnframt í sér beinlínis með pósitívu ákvæði, að stjórn Formósu sé rekin úr samtökum Sameinuðu þjóðanna og öllum þeim stofnunum, sem eru í tengslum við þau samtök. Á sama tíma sem utanrrh. lætur í ljós þá skoðun sína, að Sameinuðu þjóðirnar eigi að vera samtök alls mannkynsins, tekur það réttilega fram sem skoðun lýðræðissinnaðra friðelskandi manna, þá lýsir hann því yfir, að íslenzka ríkisstj. og hann fyrir hennar hönd hafi gefið fyrirmæli um það að reka heila þjóð úr þessum sömu samtökum. M. ö. o., Ísland mun greiða því atkv., að Formósu-stjórn verði rekin úr Sameinuðu þjóðunum, og Ísland mun beita atkvæðisrétti sínum til þess að vísa úr þessum alþjóðasamtökum stjórn, ríki, sem var einn af stofnaðilum Sameinuðu þjóðanna, leggjast gegn smáþjóð, sem um árabil hefur af þrautseigju barizt gegn einræðisstefnu kommúnismans, þeirri stefnu, sem íslenzkir stjórnmálaflokkar hafa í einu hljóði mótmælt, afneitað og lýst andúð sinni á.

Þetta verða þá eftir allt saman fyrstu spor núv. ríkisstj. á alþjóðavettvangi, þeirrar stjórnar, sem hefur gumað af sjálfstæðri utanríkismálastefnu og þótzt vilja standa vörð um rétt og hag smáþjóða. Ég leyfi mér að efast um, að mikil reisn sé yfir slíkri ákvörðun, að sómi Íslands vaxi af þessari afstöðu.

Ég tók fram áðan og tek fram á ný, að ég er fylgjandi aðild Alþýðulýðveldisins eða Peking-stjórnarinnar, ef hana ber að með eðlilegum hætti, ef aðildarbeiðnin er lögð fyrir á þann hátt, að réttur annarra þjóða sé ekki fyrir borð borinn. Peking-stjórnin hefur til skamms tíma a. m. k. ekki óskað eftir aðild að Sameinuðu þjóðunum. Hún hefur lítilsvirt þessi samtök, hún gerðist árásaraðili gegn herjum Sameinuðu þjóðanna í Kóreustyrjöldinni og hún hefur jafnvel gert tilraun til að stofna ný eða önnur alþjóðasamtök. Einangrun Peking-stjórnarinnar er óæskileg e. t. v. fyrst og fremst vegna þess, hversu alvarleg ógnun stefna hennar hefur verið gagnvart heimsfriðnum. Menn gera sér vonir um, að með þátttöku hennar í Sameinuðu þjóðunum séu meiri möguleikar á samstarfi og skilningi á margþættum vandamálum í samskiptum þjóða.

Bandaríkjastjórn hefur nýlega gert tilraun til að brúa hið mikla bil, sem verið hefur á milli Kína og vestrænna þjóða. Þess er að vænta, að sú tilraun beri einhvern árangur, þótt flestum sé ljóst, að enn er langt í land, ekki sízt vegna óbilgirni Kínverja og þeirrar heimsvaldastefnu, sem þeir reka. Aðild Peking-stjórnarinnar að Sameinuðu þjóðunum og till. þar að lútandi eru aðeins einn leikur í því valdatafli, sem fram fer milli austurs og vesturs. Mér kemur ekki á óvart, þótt menn, sem í langan tíma hafa verið á bandi hinna sósíalísku ríkja, styðji tillögur, sem hafna öllu tilliti til smárra þjóða, sem barizt hafa gegn yfirgangi kommúnismans. En mér þykir miður, mjög miður, að þeir menn, sem stutt hafa hina vestrænu lýðræðisstefnu, skuli taka svo skammsýna og óyfirvegaða ákvörðun eins og afstaða Íslands í þessu máli ber með sér. Við skulum vona, að till. Albaníu nái ekki samþykki fyrir tilstuðlan eða með atkv. Íslands. Og það eru léttvæg rök, þegar því er haldið fram, að Formósu-stjórn geti sótt um aðild sem sjálfstætt ríki. Allir vita, að Peking-stjórnin getur og mun beita neitunarvaldi í Öryggisráðinu gegn Formósu, og hún mun líta á stuðning við aðild sína að samtökunum sem samþykki viðkomandi landa við landvinningastefnu sína, þar á meðal yfir Formósu. Hún mun færa sig upp á skaftið og haga aðgerðum og pólitík sinni í samræmi við þennan skilning.

Herra forseti. Mér skilst, að þingsköp leyfi ekki frekari umr. af minni hálfu. (Forseti: Ekki einu sinni svona langa í raun og veru.) Þá segi ég að lokum: Ég hef ekki hreyft þessu máli til þess að lýsa yfir þeirri skoðun, að halda ætti Peking-stjórninni áfram utan Sameinuðu þjóðanna. Þetta vil ég taka skýrt fram, svo að ekki sé snúið út úr þessum orðum mínum. Ég vildi hins vegar vekja athygli á málinu til þess að draga fram þær afleiðingar, sem samþykkt till. Albaníu hefur í för með sér. Ég vildi vekja athygli þingheims og alþjóðar á þeirri staðreynd, að íslenzka ríkisstj. hefur tekið afstöðu gegn rétti smáþjóðar. Íslenzka ríkisstj. mun með ákvörðun sinni stuðla að brottrekstri þjóðar úr samtökum Sameinuðu þjóðanna. Ég leyfi mér að fordæma þessa afstöðu.