19.10.1971
Sameinað þing: 4. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2455 í B-deild Alþingistíðinda. (2630)

Aðild Kína að Sameinuðu þjóðunum

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Mér finnst þetta afar fróðlegt upphaf á hversdagslegum störfum þessa Alþ. Hér kveður sér hljóðs utan dagskrár yngsti maðurinn í hópi þm., hv. þm. Ellert Schram. Hann og félagar hans hafa mikið um það talað, að það væri nauðsynlegt, að ungt fólk lífgaði svolítið upp stjórnmálastarfsemina á Íslandi og það væri ekki sizt vanþörf á slíku innan Sjálfstfl. Því hefði mátt vænta þess, að þessi hv. þm. hefði eitthvað nýstárlegt fram að færa, þegar hann kveður sér hljóðs hér utan dagskrár á Alþ. En sú varð sannarlega ekki raunin. Erindið er það eitt að vekja upp mjög gamalkunnan áróður kalda stríðsins, þann áróður, sem flestir hugsandi menn eru nú horfnir frá. Ástæðan til þess, að hann kemur hingað upp, er sú ein, að honum rennur það til rifja, að Bandaríkin eru að bíða ósigur í baráttumáli á alþjóðavettvangi, baráttumáli, sem Bandaríkin hafa unnið mjög mikið ógagn fyrir heimsfriðinn með s. l. tvo áratugi. Þessi bandaríska stefna er að biða ósigur, og það er af tilfinningasemi í garð Bandaríkjanna, sem þessi ungi þm. kemur hér og lætur eins og hann lætur, en ekki af neinum áhuga fyrir einhverju fólki á Taivan. En það er alveg furðulegt, að hér á þingi skuli ár eftir ár, því að þetta hefur verið rætt á hverju ári að undanförnu, vera flutt hliðstæð svokölluð rök, sem raunar eru gripin algerlega úr lausu lofti. Menn tala hér um, að Sameinuðu þjóðirnar séu að taka ákvörðun um aðild Kína að Sameinuðu þjóðunum. Kína er stofnaðili Sameinuðu þjóðanna. Kína er einn af stofnendum Sameinuðu þjóðanna. Og samkv. stofnskrá Sameinuðu þjóðanna þá á Kína aðild að Öryggisráði. Það er alls ekki um það að ræða að taka ákvörðun um aðild Kína að Sameinuðu þjóðunum. Það er um það að ræða, hverjir eiga að fara með þessa aðild. Í meira en 20 ár hafa Bandaríkjamenn ráðið því, að útlagastjórnin á Formósu hefur farið með aðild Kína að Sameinuðu þjóðunum. Og nú er verið að breyta því þannig og vonandi verður það gert núna, að þeir, sem raunverulega fara með völd í Kína, fari með þessa aðild, sem er það eina rökrétta. En ef það er ákveðið, að stjórnin í Peking fari með þessa aðild, þá getur stjórnin á Formósu ekki farið með hana. Það liggur í hlutarins eðli. Þá hlýtur hún að afsala sér þessari aðild alveg á sama hátt og hv. þm. Ellert Schram yrði að láta af þingmennsku, ef hann félli t. d. í næstu kosningum. Þarna er um að ræða, að það er aðeins einn aðili, sem fer með aðild Kína að Sameinuðu þjóðunum. Og að tala um, að það sé verið að reka smáþjóð og smáríki, eins og þeir hafa sagt hér báðir, hv. þm. Ellert Schram og hv. þm. Benedikt Gröndal, verið sé að reka smáríkið Formósu úr Sameinuðu þjóðunum, þetta er endileysa. Formósa hefur aldrei verið aðili að Sameinuðu þjóðunum og er það ekki enn þá. Það er Kína, sem er aðili að Sameinuðu þjóðunum. Og það er sameiginleg afstaða valdamanna á meginlandinu og á Formósu, að það sé aðeins eitt kínverskt ríki til. Chiang Kai-chek hefur aldrei léð máls á því, að líta beri á Formósu sem eitthvert sjálfstætt ríki. Chiang Kai-chek segir: „Ég er fulltrúi alls Kínaveldis.“ Og eigum við svo hér á Alþingi Íslendinga að fara að taka ákvörðun um það að skipta Kínaveldi í sundur gegn vilja þeirra manna, sem í landinu eru, hvort sem þeir eru á meginlandinu eða úti á Taivan? Á Alþingi Íslendinga að fara að skipta Kína? Hvers konar endileysa er þetta?

Málið er ákaflega einfalt. Það er svona einfalt: Kína er aðili að Sameinuðu þjóðunum og hver á að fara með aðildina? Bandaríkin hafa af pólitískum ástæðum staðið gegn því, að ráðamenn í Kína fengju aðild að Sameinuðu þjóðunum og þeir hafa notið í því aðstoðarmanna, sem ekki hafa haft manndóm til að standa uppi í hárinu á þeim, eins og fyrrv. ríkisstj. á Íslandi. Þetta er sem betur fer að breytast. Og ég er viss um, að það mun hafa mjög góð áhrif á þróun heimsmála. Meðal þeirra, sem hafa tekið þátt í að breyta þessu, eru mörg góð ríki, þ. á m. Norðurlönd og Bretland og fjölmörg önnur ríki, sem næst okkur standa, þannig að það er dálítið erfitt að hlusta á það, þegar þessi ungi þm. kemur hér og segir, að Íslendingar séu að gerast taglhnýtingar einræðisafla með því að skipa sér í sveit með Norðurlöndum. Mér finnst, að hv. þm. Benedikt Gröndal ætti að muna eftir því, hver hefur veríð afstaða sósíaldemókrata á undanförnum árum. Þeir hafa átt mjög góðan þátt í því, að aðild Peking-stjórnarinnar að Sameinuðu þjóðunum yrði leyst á skynsamlegan hátt. Það hafa einmitt verið ýmis ríki, sem sósíaldemókratar hafa veitt forustu, sem hafa fyrir löngu viðurkennt Peking-stjórnina og beitt sér fyrir því, að hún fengi aðild að Sameinuðu þjóðunum. Þeir menn, sem kalla sig sósíaldemókrata hér á Íslandi, — að vísu með hæpnum rétti, menn heyrðu það í gær, að Benedikt Gröndal talaði um, að það væri tímabært fyrir Alþfl. að fara að endurhæfa sig — þeir hafa verið miklu nær skilningi Bandaríkjanna heldur en skilningi flokksbræðra sinna í öðrum löndum. Ég held, að því sé almennt fagnað í landinu, að ríkisstj. Íslands hefur tekið einarða og skynsamlega afstöðu í þessu máli, og ég held, að ungir menn í Sjálfstfl. ættu að vara sig á því að gera að sínum ýmsar gaddfreðnustu hugmyndir kalda stríðsins og reyna að halda þeim til streitu við gerbreyttar aðstæður.