19.10.1971
Sameinað þing: 4. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2458 í B-deild Alþingistíðinda. (2632)

Aðild Kína að Sameinuðu þjóðunum

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Ég vísa því til föðurhúsanna, sem hæstv. iðnrh. flutti. Túlkun hans á þessu máli, þátttöku Kína í Sameinuðu þjóðunum, var sannarlega gaddfreðin hugsun, því að þetta er sama platan, sem hann hefur leikið aftur og aftur, ár eftir ár, óbreytta. Það virðist ekki hafa komizt nálægt huga hans nein hreyfing í þessu máli, sem hefur þó orðið um allan heim, hreyfing í áttina til þess að finna raunhæfa lausn á þessu máli.

Það, sem við erum að tala um, er alls ekki, að Taivan-stjórnin hafi sæti Kína, það er útrætt mál af okkar hálfu, heldur hvort hún fær að sitja áfram í samtökunum eða ekki. Það er spurningin. Er þá aðeins eitt eftir, en það er, hvað verður ríkið á Taivan kallað? Það er slíkt formsatriði, að mér finnst, að við getum ekki látið það verða að aðalatriði, sem ákvarðar málið.

Hæstv. ráðh. segir, að Alþingi Íslendinga sé með þessu að samþykkja skiptingu Kína. Ég held, að samþykktir okkar um aðild að Sameinuðu þjóðunum hafi lítil áhrif á það, hvort þjóðum er skipt eða ekki. Ég veit ekki betur en við höfum samþykkt það, síðan við gengum í Sameinuðu þjóðirnar, að Sovétríkin hafi þrjú sæti þar, Rússland, Hvíta-Rússland, Úkraínu. Er Alþingi Íslendinga með þessu að samþykkja, að Sovétríkin séu þrískipt? Þetta er svo barnalegur málflutningur, að mér finnst það fyrir neðan virðingu hæstv. ráðh. að flytja hann. Þetta er eitthvað, sem hann hefur lært á unglingsárum við Þjóðviljann og hefur ekki haft fyrir að endurskoða, en ætti að taka til alvarlegrar athugunar.

Ég vil að lokum segja hæstv. ráðh. það, að sósíaldemókratar hafa haft mismunandi afstöðu í utanríkismálum í mismunandi ríkjum og hafa yfirleitt, eins og flestir aðrir flokkar, látið hagsmuni viðkomandi ríkis ráða mestu. Ég bið hæstv. iðnrh. að gera sér grein fyrir, að það var sósíaldemókrati sem utanrrh. Íslands, er breytti þeirri stefnu, sem allir flokkar höfðu staðið að áður, að neita Peking-Kína um sæti Kína hjá Sameinuðu þjóðunum. Það var sósíaldemókrati, sem gerði þá stefnubreytingu. Og í öðru lagi vil ég benda honum á, að það voru sósíaldemókratar, sem lögðu fyrstir fram till. hér á Íslandi um, að við tækjum upp eðlileg samskipti við Kína með stjórnmálasambandi. Þetta eru tvö mörk gegn engu í þessum leik.