19.10.1971
Sameinað þing: 4. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2460 í B-deild Alþingistíðinda. (2635)

Aðild Kína að Sameinuðu þjóðunum

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Ég baðst leyfis að gera hér stutta athugasemd. Ekki vegna þess að ég hefði ekki komið öllu því til skila, sem minn hugur stóð til í minni upphaflegu ræðu hér, en eftir að ég var búinn að ljúka mínum ræðutíma og samkvæmt þingsköpum hafði ekki heimild til að standa hér upp í þriðja skipti, þá stóðu hér upp tveir fulltrúar Alþb. og réðust, að ég vildi segja, allharkalega að mínum málstað og mínu máli á þann veg, að ég get ekki með góðu móti setið undir slíkum rökleysum sem fram komu í þeirra ræðum. Þess vegna vildi ég gera stuttar athugasemdir og segja frá því í upphafi, að mér sýndist undir ræðu hæstv. iðnrh., að ég ætti að biðjast afsökunar á því að standa hér upp og flytja mitt mál. En ég vil koma því til skila og senda það til föðurhúsanna, að ég mun a. m. k. ekki biðja afsökunar gagnvart ráðh., þegar ég kem hingað upp í pontuna, og mun koma hingað, þegar minn hugur stendur til þess hér í vetur og meðan ég er rétt kjörinn til Alþ. Það fór eins og mig grunaði, það var snúið út úr mínum orðum. Hér hafa þessir ágætu fulltrúar Alþb. staðið upp og haldið því fram, þó ég hafi tekið það fram a. m. k. fimm sinnum í minni ræðu, að ég væri ekki að leggjast gegn aðild Peking-stjórnarinnar og ég teldi það eðlilegt, að hún ætti aðild að Sameinuðu þjóðunum, þá standa þeir hér upp, leyfa sér að fullyrða, að ég sé að rifja upp kaldastríðsrök og sé að mæla gegn því, að Peking-stjórnin eigi aðild að Sameinuðu þjóðunum. Það sem ég var að draga fram í þessu máli og ég vil taka skýrt fram í þessari athugasemd minni, var það, að ég var að leggja áherzlu á að draga fram, að í till. Albaníu væri fólgið það tvímælalausa skilyrði, að jafnframt því að styðja eða fylgja aðild Peking-stjórnarinnar væri tekið fram, að Formósu-stjórnin yrði brottræk úr samtökunum. Ég hélt, að það væri ástæðulaust að þylja yfir jafnreyndum stjórnmálamönnum og sitja hér á Alþ., að Kína sé eitt og sama ríki og Formósa, að Formósa sé ekki sjálfstætt ríki. Allir vita það, sem fylgjast með stjórnmálum, að Formósu-stjórnin er „de facto“ sjálfstætt ríki, hefur verið skoðað sem slíkt um árabil og fram hjá þessari raunhæfu staðreynd verður ekki gengið. Þess vegna verða menn að horfast í augu við það, um leið og þeir samþykkja aðild Pekingstjórnarinnar að Sameinuðu þjóðunum, að það er til sjálfstætt ríki, sem heitir Formósa eða Taivan, og það verður að gera sér grein fyrir því, hvaða afstöðu á að taka til áframhaldandi tilvistar þessarar þjóðar hjá Sameinuðu þjóðunum. Það eru ekki kaldastríðsrök, þegar ég er að rifja þetta mál upp og dreg þetta fram. Ég er eingöngu að benda á og leggja áherzlu á, að það á að vera í samræmi við stefnu núverandi ríkisstj. að standa við bakið á smáþjóðum, styðja rétt þeirra í einu og öllu. Og það er mitt álit, að með því að styðja við till. Albaníu núna, þá sé ríkisstj. að bregðast þessari frumskyldu sinni á þessum vettvangi.